Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12050180

Ár 2013, 20. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi 

ú r s k u r ð u r 

í stjórnsýslumáli nr. IRR12050180

Víkurdrangar ehf.

gegn

Mýrdalshreppi

 

I.       Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 18. maí 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Halldórs Gunnarssonar f.h. Víkurdranga ehf. (hér eftir nefnt V) dags. 30. apríl 2012, vegna synjunar sveitarstjórnar Mýrdalshrepps, dags. 26. apríl 2012, um að leiðrétta áður álögð gatnagerðargjöld á fasteign V að  Víkurbraut 26 í Vík.

Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd álagning gatnagerðargjalds sé ólögmæt.

Kæran er fram borin á grundvelli 11. gr. laga nr. 153/2006.

II.          Málsatvik og  málsmeðferð

Árið 2007 keypti V fasteignina að Víkurbraut 26 í Vík, sem þá hafði verið breytt úr skrifstofu- og verslunarhúsnæði í hótelbyggingu á tveimur hæðum. Áföst hótelinu var bygging um 158 m², sem af fyrri eigendum hafði verið notuð sem geymsla og smíðaverkstæði. Breytti V hinni áföstu byggingu til hótelrekstrar. Var þak rifið en útveggir að hluta og grunnur byggingarinnar nýttur og önnur hæð byggð þar ofan á, auk stigagangs á milli hæða.

Með bréfi sveitarstjóra Mýrdalshrepps, dags. 18. maí 2011, var V krafið um greiðslu svokallað fyrri hluta gatnagerðargjalds vegna Víkurbrautar 26 í Vík. Var V ósátt við fjárhæð kröfunnar, taldi álagninguna ekki rétta og krafðist þess að sveitarfélagið leiðrétti áður álagt gatnagerðargjald vegna fasteignarinnar. Á fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps, dags. 26. apríl 2012, var erindi V um leiðréttingu á álagningu gatnagerðargjalds vegna fasteignarinnar að Víkurbraut 26 í Vík tekið fyrir. Í bókun sveitarstjórnar um erindið segir: ,,Varðandi álagningu gatnagerðargjalda lítur sveitarstjórn Mýrdalshrepps svo á að gjöldin séu lögð á umrædda framkvæmd í samræmi við samþykkt um gatnagerðargjöld í Mýrdalshreppi og sem birt var í B- deild stjórnartíðinda 18. janúar 2008.“

Verður ekki litið öðruvísi á en að í framangreindri bókun felist synjun sveitarfélagsins á því að endurskoða álagningu gatnagerðargjaldsins og telur ráðuneytið það hina kærðu ákvörðun.

Stjórnsýslukæra V barst ráðuneytinu þann 18. maí 2012.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. maí 2012, var Mýrdalshreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 31. maí 2012.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. júní 2012, var V gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 25. júní 2012.

Með bréfum ráðuneytisins, dags. 20. desember 2012 til V og Mýrdalshrepps var óskað eftir frekari upplýsingum vegna málsins. Barst svar V til ráðuneytisins þann 18. desember 2012 en svar sveitarfélagsins þann 4. janúar 2013.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök V

Í kæru V er álögðu gatnagerðargjaldi mótmælt á þeirri forsendu að álagningin sé röng. Telur V að álagningin miðast við að um nýbyggingu eða viðbyggingu sé að ræða en hún eigi að taka mið af því að um stækkun eða endurbætur á eldra húsnæði sé að ræða. Telur V að það lágmarksgjald sem kemur fram í 1. mgr. 4. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Mýrdalshreppi nr. 1347/2007 (hér eftir nefnd samþykktin) eigi eingöngu við nýbyggingar og vísar því til stuðnings til 3. gr. samþykktarinnar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að gatnagerðargjaldið sé tvíþætt. Annars vegar vegna nýrra bygginga og hins vegar vegna stækkunar á eldra húsnæði. Telur V augljóst að þær breytingar sem gerðar voru á fasteigninni Víkurbraut 26, leiði til þess að álagningin eigi að fara fram eins og um stækkun á eldra húsnæði sé að ræða. Þá telur V að sveitarfélagið geti ekki byggt útreikning gatnagerðargjaldsins á 4. gr. samþykktarinnar, þar sem það ákvæði taki eingöngu til nýbygginga frá grunni. Þá vísar V ennfremur og sérstaklega til 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006.

V telur alveg ljóst að gjaldstofn gatnagerðargjaldsins verði ekki ákvarðaður í samræmi við a. lið 2. mgr. 3. gr. samþykktarinnar, enda hafi ekki við úthlutun byggingarleyfis vegna stækkunar hótelsins að Víkurbraut 26 verið um að ræða úthlutun eða sölu sveitarfélagsins á lóð eða byggingarrétt á lóð. Þar af leiðandi beri að ákvarða gjaldstofninn í samræmi við b. lið 2. mgr. 3. gr. samþykktarinnar með þeim hætti að ákvarða gatnagerðargjaldið í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfið tekur til. 

Bendir V á að fyrir breytingu hafi hótelið verið 681 m² en eftir breytingar og viðbyggingu hafi stærð þess numið 888 m². Stækkun húsnæðisins sé því 207 m² og sé það sú tala sem álagningin eigi að taka mið af. V bendir á að þann fermetrafjölda beri að skoða í ljósi 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar, þar sem segir að þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun húsnæðis þannig að hún færist í hærri gjaldflokk, sbr. 1. mgr., skuli greiða gatnagerðargjald sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Augljóst sé að í þessu tilviki sé um að sé ræða breytingu á húsnæði og því eigi ákvæðið við. Að öðrum kosti væri ákvæðið markleysa og þá hægt að ákveða gatnagerðargjald eingöngu með hliðsjón af því lágmarksgjaldi sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar í öllum tilvikum þegar gefin eru út byggingarleyfi, a.m.k. virðist skilningur Mýrdalshrepps hníga í þá átt. Telur V að þegar um er ræða byggingar sem gerðar hafa verið breytingar á, eins og í máli  þessu, þurfi að skýra umrædda 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar með hliðsjón af 3. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 en þar segir að gatnagerðargjald skuli innheimt vegna stækkunar byggingar sem nemur fermetrafjölda stækkunar.

V bendir á að í 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar sé vísað til ,,gjaldflokka“, en í ákvæðinu segir að bygging geti færst milli gjaldflokka. Í þeirri töflu sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar er hvergi að finna sérstaka ,,gjaldflokka“, en þar er hins vegar gerður greinarmunur á ólíkum tegundum húsnæðis og tiltekin eru lágmarksgjöld og hámarksgjöld einstakra tegunda húsnæðis. Telur V ljóst að hugtakið ,,gjaldflokkur" geti ekki átti við dálkinn ,,húsagerð“ enda segi í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar: ,,Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun húsnæðis þannig að hún færist í hærri gjaldflokk, sbr. 1. mgr. skal greiða gatnagerðargjald sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins.“ Telur V að af hinum undirstrikuðu orðum megi ráða að ,,gjaldflokkar“ geti breyst og hækkað þegar veitt er byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húnsæðis, þ.e. þegar um breytingar í dálknum ,,húsagerð“, er að ræða eða þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingu húsnæðis.

Með hliðsjón af framangreindu telur V að skýra beri hugtakið ,,gjaldflokkur“ og 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar með þeim hætti að ef breytingar á húsnæði leiða til þess að gatnagerðargjald skv. 1. mgr. 4. gr. hækkar, þá beri gjaldendum gatnagerðargjaldsins einungis að greiða gjald sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Ef gerðar eru breytingar á húsnæði með þeim hætti að fermetrafjöldi húsnæðis eykst hefur það áhrif á gjaldflokk húsnæðis. Í þeim tilvikum ber gjaldendum einungis að greiða fyrir þær breytingar sem verða á gjaldflokki húsnæðis til hækkunar með hliðsjón af fermetrafjölda stækkunar. Af 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar megi svo ráða að lóðarhafi eða byggingarleyfishafi eigi aldrei rétt á endurgreiðslu ef gjaldflokkar gatnagerðargjaldsins lækka vegna breytinga á húsnæði, þ.e. ef fermetrafjöldi húsnæðis minnkar í kjölfar breytinga sem gerðar eru.

Telur V að við útreikning gatnagerðargjaldsins beri að margfalda 3,5% af framreiknuðum byggingarkostnaði á hvern fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis með stærð húsnæðisins eins og það var þegar byggingarleyfið var gefið út, þ.e. 681 m². Niðurstaðan úr þeim útreikningi sýnir að gjaldflokkur Víkurbrautar 26 fyrir breytingu á húsnæðinu hafi verið 3.837.574 krónur. Eftir breytinguna falli húsnæðið áfram undir ,,verslunar- þjónustu og annað húsnæði“ í dálknum húsagerð í 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar og því beri áfram að ákvarða hundraðshluta byggingarkostnaðar 3,5%. Telur V að margfalda beri 3,5% af framreiknuðum byggingarkostnaði á hvern fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis með stærð húsnæðisins eins og það var eftir breytingu þ.e. 888 m². Niðurstaðan úr þeim útreikningi sýnir að gjaldflokkur Víkurbrautar 26 eftir breytingu á húsnæðinu hafi verið 5.004.064 krónur. Með vísan til mismunar á hærri og lægri gjaldflokks, sbr. 3. mgr. 4.gr. samþykktarinnar beri að V að greiða mismuninn, þ.e. 1.166.490 krónur, sem er mismunurinn á gjaldflokkum húsnæðisins fyrir og eftir breytinguna.

 IV.      Málsástæður og rök Mýrdalshrepps

Mýrdalshreppur vísar í umsögn sinni til samþykktar sveitarfélagsins um gatnagerðargjald nr. 1347/2007 og bendir á að gjaldið sé lagt á skv. 4. gr. samþykktarinnar.

Í umsögn Mýrdalshrepps kemur fram að skv. 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar skuli við útreikning gatnagerðargjalds miða við ákveðinn hundraðshluta byggingakostnaðar á fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands en hundraðshlutinn er breytilegur eftir tegund húsnæðis. Þá kemur jafnframt fram í ákvæðinu að lágmarksgatnagerðargjald sé kr. 2.000.000 og hámarksgjald kr. 6.000.000 fyrir hverja byggingu í þessum flokki miðað við byggingarvísitölu 370,2 stig frá júní 2007.

Hótelbyggingin V er flokkuð sem ,,verslunar- þjónustu og annað húsnæði“ sem þýðir að álagningin miðast við 3,5% af framreiknuðum byggingarkostnaði á hvern fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis. Við álagningu gjaldsins nam þessi byggingarkostnaður framreiknaður kr. 160.983. Álagning sveitarfélagsins miðar við 208,1 m², þ.e. það er aukning fermetrafjöldans, og samkvæmt því nemur álagt gatnagerðargjald kr. 1.172.520.

Framreiknað nemur lágmarksgjaldið kr. 2.788.222 en lágmarksgjaldið má aldrei vera hærra en sem nemur 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni skv. útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. 2. mgr. 4. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt því má lágmarksgjaldið ekki vera hærra en sem nemur kr. 5.025.084.  

Bendir Mýrdalshreppur á að hið álagða gatnagerðargjald sé undir framreiknuðu lágmarksgjaldi skv. 1. mgr. 4.gr. samþykktarinnar og því beri að miða við lágmarksgjaldið framreiknað, þ.e. kr. 2.788.222, og er það hið álagða gatnagerðargjald sem til innheimtu er.

Mýrdalshreppur mótmælir þeirri túlkun V að ákvæði 4. gr. samþykktarinnar um lágmarks- og hámarksgjald eigi ekki við þegar um viðbyggingu eða breytingu á eldra húsnæði sé að ræða og bendir á að í samþykktinni sé hvergi að finna ákvæði sem styðji þá túlkun. Bendir Mýrdalshreppur á að slík túlkun myndi leiða til mikils misræmis og nefnir sem dæmi að yrði byggð frístandandi geymsla á næstu lóð við hótelið þá yrði lágmarks gatnagerðargjald lagt á hana en gatnagerðargjald vegna nýrrar hótelbyggingar sem reist væri fast upp við eldri byggingu yrði hins vegar mun lægra en gjaldið vegna geymslunnar. Telur sveitarfélagið að slíkt fái ekki staðist og sé ekki í samræmi við góða stjórnsýslu.

Í umsögn Mýrdalshrepps er bent á að í samþykkt um gatnagerðargjald sé kveðið á um að fyrri hluta gjaldsins skuli greiða við útgáfu byggingarleyfis en gatnagerðargjaldið skuli greiða að fullu við útgáfu fokheldisvottorðs. Engu að síður hefur sveitarfélagið, til þess að liðka fyrir framkvæmdum, haft þann hátt á að innheimta fyrri helming gjaldsins þegar bygging er fokheld og síðari helminginn þegar húsið er fullbyggt eða tekið í notkun. Viðbyggingin að Víkurbraut 26, hefur verið tekin í notkun og því er komið að því að senda reikning til V fyrir síðari hluta gjaldsins.

Loks bendir Mýrdalshreppur á að sú bygging sem um ræðir hafi í raun verið gömul steinsteypt geymsla. Aðeins hafi útveggir byggingarinnar, u.þ.b. tveggja metra háir, verið uppistandandi en inn í það rými hafi nú verið byggð fjögur hótelherbergi og setustofa. Þá hafi önnur hæð, um 180 m² að stærð, verið byggð þar ofan á, auk stigagangs milli hæða, rúmlega 60 m² að stærð. Bendir Mýrdalshreppur einnig á að aldrei hafi verið greidd gatnagerðargjöld af þeirri byggingu sem var rifin, enda hafi hún verið byggð löngu áður en farið var að leggja slík gjöld á í sveitarfélaginu.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um álagningu gatnagerðargjalds. Ekki er deilt um að gatnagerðargjald beri að greiða heldur einungis um útreikning þess, þ.e. hvernig sú fjárhæð sem lögð er á er fundin.

Um gatnagerðargjald er fjallað í lögum nr. 153/2006, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 543/1996. Í 3. gr. laganna segir að sveitarstjórnir skuli innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli og í 12. gr. er kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið, þar sem eftir atvikum er kveðið er á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því, afslætti o.fl. Þann 20. desember 2007 samþykkti Mýrdalshreppur samþykkt um gatnagerðargjald í Mýrdalshreppi, nr. 1347/2007 er birt var í Stjórnartíðindum þann 18. janúar 2008.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald er stofn til álagningar gatnagerðargjalds fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð og í ákvæðinu segir að sveitarstjórn geti ákveðið hann á eftirfarandi hátt í samþykkt sinni:

a.      Þegar sveitarstjórn úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð skal leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

b.      Verði ekki lagt á gatnagerðargjald skv. a-lið, eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, skal við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna skal innheimta gatnagerðargjald vegna stækkunar byggingar sem nemur fermetrafjölda stækkunar, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna, en þar er kveðið á um heimild sveitarstjórnar til að ákveða í samþykkt lækkun eða niðurfellingu gjaldsins.

Þá segir í 4. mgr. 3. gr. laganna að gatnagerðargjald skuli innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemur. Gildir þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi er gefið fyrir niðurrifi byggingar. Að öðrum kosti skal greiða fullt gatnagerðargjald. Ef hin nýja bygging er annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gilda ákvæði 5. mgr. greinarinnar.

Í 5. mgr. 3. gr. laganna segir að þegar veitt sé  byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr., skuli greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi eða byggingarleyfishafi þar sem það á við á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

Loks er í 6. mgr. 3. gr. laganna kveðið á um að þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr., skal greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi eða byggingarleyfishafi þar sem það á við á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

Þá er sveitarstjórn heimilt, skv. 1. mgr. 5. gr. laganna, að ákveða í samþykkt sinni að mishátt gatnagerðargjald skuli greiða eftir tegund húsnæðis.

Eins og fram er komið hefur Mýrdalshreppur sett samþykkt um gatnagerðargjald. Um gjaldstofn gatnagerðargjalds er fjallað í 3. gr. samþykktarinnar en ákvæðið hljóðar svo:

Gatnagerðargjald er tvíþætt. Annars vegar er það vegna nýrra bygginga og hins vegar vegna stækkunar á eldra húsnæði.

Stofn til álagningar gatnagerðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð. Gjaldstofninn er ákveðinn á eftirfarandi hátt:

a. Þegar sveitarfélagið úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð er gatnagerðargjald lagt á í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

b. Þegar gatnagerðargjald verður ekki lagt á skv. a-lið, eða ef byggingarleyfi er veitt fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, er við útgáfu byggingarleyfis lagt á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.

Við álagningu skv. b-lið 2. mgr. skal miða við stærð húss samkvæmt samþykktum uppdráttum og ÍST 50.

Kveðið er á um útreikning gatnagerðargjalds í 4. gr. samþykktarinnar en hún er svohljóðandi:

Af hverjum fermetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar pr. Fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis, eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987. Hundraðshluti byggingarkostnaðar ákvarðast eftir hústegund svo sem hér segir:

 Húsgerð Hlutfall Lágmarksgjald Hámarksgjald
Einbýlishús með eða án bílgeymslu 7,0% Kr. 1.000.000 Kr. 3.500.000
Parhús með/án bílgeymslu 6,0% Kr. 1.000.000 Kr. 3.000.000
Raðhús með/án bílgeymslu 5,5% Kr. 1.000.000 Kr. 3.000.000
Fjölbýlishús með/án bílgeymslu 4,0% Kr. 1.200.000 Kr. 3.000.000
Verslunar-, þjónustu- og annað húsnæði 3,5% Kr. 2.000.000 Kr. 6.000.000
Iðnaðarhúsnæði 3,0% Kr. 2.000.000 Kr. 6.000.000
Hesthús 2,0% Kr. 300.000 Kr. 2.500.000
 

Lágmarksgjald skv. 1. mgr. skal aldrei vera hærra en sem nemur 15% af byggingar-kostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni skv. útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar.

Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun hús-næðis þannig að hún færist í hærri gjaldflokk sbr. 1. mgr. skal greiða gatnagerðargjald sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

Fjárhæðir taka breytingum 1. dag hvers mánaðar í samræmi við breytingu á byggingarkostnaði vísitöluhússins (115.490 kr./m², byggingarvísitala 370,2 stig f. júní 2007).

Við álagningu gatnagerðargjalds þarf sveitarfélag fyrst að kanna hvort gjaldskylda sé fyrir hendi. Sé svo, þarf að ákveða gjaldstofn viðkomandi eignar og síðan útreikning gjaldsins. Mýrdalshreppur hefur ákveðið í 2. mgr. 3. gr. samþykktar sinnar hvernig finna skuli gjaldstofn gatnagerðargjalds og er það í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald. En stofn til álagningar gatnageðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð, sbr. 2. mgr. 3. gr. samþykktarinnar og 2. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald. Óumdeilt er í málinu að sveitarfélagið hefur ekki úthlutað eða selt V lóð eða byggingarrétt og því ekki um það að ræða að gjaldstofninn ákvarðist skv. a. lið 2. mgr. 3. gr. samþykktarinnar heldur skal við ákvörðun gjaldstofnsins miða við b. lið ákvæðisins. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að sveitarfélagið og V séu sammála um það að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi þeirrar byggingar sem byggð var á lóðinni Víkurbraut 26 og byggingarleyfi fékkst fyrir. Samkvæmt framangreindu er ljóst að stofn til álagningar gatnagerðargjalds í máli þessu er sá fermetrafjöldi sem stækkun húsnæðisins nam. Rétt er að geta þess að svo virðist sem sveitarfélagið telji að stækkunin hafi numið 208,1 m² en V 207 m². Ráðuneytið telur þennan mismun ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins en bendir á 3. mgr. 3. gr. samþykktarinnar þar sem segir að við álagningu skv. b. lið 2. mgr. skuli miða við stærð húss samkvæmt samþykktum uppdráttum ÍST 50.

Við útreikning gjaldsins skal miðað við 4. gr. samþykktarinnar og skiptir þá ekki máli hvort um nýjar byggingar er að ræða eða stækkun á eldra húsnæði. Telur ráðuneytið að sá skilningur V að 4. gr. samþykktarinnar taki einungis til nýbygginga frá grunni eigi ekki við rök að styðjast. Í 3. gr. samþykktarinnar er því lýst hvernig gjaldstofninn er fundinn og í 4. gr. samþykktarinnar er kveðið á um hvernig útreikningi gjaldsins skuli háttað. Engin takmörk eru á því hvorki í ákvæðinu sjálfu né í öðrum ákvæðum samþykktarinnar þess efnis að 4. gr. eigi ekki við um stækkun á eldra húsnæði, enda er ákvæðið eins og áður er fram komið almennt ákvæði um hvernig útreikningi gatnagerðargjalds skuli háttað.

Ráðuneytið hefur farið yfir aðferð Mýrdalshrepps við útreikning gjaldsins og telur hann í samræmi við 4. gr. samþykktarinnar. Stofn gjaldsins er fermetrafjöldi stækkunar fasteignarinnar V að Víkurbraut 26. Húsnæðið flokkast sem verslunar-, þjónustu og annað húsnæði, skv. 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar og því skal af hverjum fermetra stækkunarinnar greiða 3,5% af framreiknuðum byggingarkostnaðar á fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis, sbr. 1. og 4. mgr. 4. gr. samþykktarinnar. Niðurstaða þess útreiknings er undir því lágmarksgjaldi sem Mýrdalshreppur hefur tiltekið í 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar. Álagning sveitarfélagsins er því réttilega lágmarksgjald, sbr. 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar, sem framreiknað er eins og kveðið er á um í 4. mgr. sama ákvæðis.

Varðandi skilning V á hugtakinu gjaldflokkur í 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar telur ráðuneytið rétt að taka fram að 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar er í stórum dráttum samhljóða 5. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald en þar segir að ef byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að byggingin færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagins skuli greiða gatnagerðargjald að því marki sem það er ekki innifalið í því gatnagerðargjaldi sem þegar hafi verið greitt.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006 segir að í 5. mgr. 3. gr. sé fjallað um gjaldtöku vegna breytinga á notkun húsnæðis og í því sambandi sé t.d. átt við breytingu húsnæðis úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, þannig byggist flokkunin á mismunandi tegundum húsnæðis. Er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir breytingu á notkun húsnæðis, sem leiðir til þess að húsnæðið færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélags, stofnist krafa um greiðslu gatnagerðargjalds. Ráðuneytið telur því engan vafa leika á því að með orðinu gjaldflokkar í 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar og 5. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald sé verið að vísa til mismunandi gjaldflokka húsnæðis í 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar og 5. gr. laganna.

Að framangreindu virtu telur ráðuneytið að ákvörðun Mýrdalshrepps um álagningu gjaldsins hafi verið lögmæt og verður þar af leiðandi ekki fallist á kröfu V um að synjun sveitarfélagsins á að endurákvarða gatnagerðargjald vegna fasteignarinnar að Víkurbraut 26 hafi verið ólögmæt.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.


Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu Víkurdranga ehf. um að synjun Mýrdalshrepps á beiðni félagsins um að endurákvarða gatnagerðargjald vegna fasteignarinnar að Víkurbraut 26 hafi verið ólögmæt.

 

 

Bryndís Helgadóttir                                                                        Þorvaldur Heiðar Þorvaldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta