Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit: Ákvörðun um ráðningu slökkviliðsstjóra. Mál nr. 26/2010
Ár 2011, 17. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. 26/2010 (IRR 10121698)
Þorlákur Snær Helgason
gegn
Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit
I. Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 3. mars 2010 kærði Þorlákur Snær Helgason (hér eftir nefndur ÞSH), kt. 250873-5719, afgreiðslu og ákvörðun sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar við ráðningu í stöðu slökkviliðsstjóra. ÞSH gerir þær kröfur að ráðuneytið úrskurði um hvort málsmeðferð við ráðningu í stöðu slökkviliðsstjóra hafi verið andstæð ákvæðum laga um brunamál nr. 75/2000 og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi því verið ólögmæt.
Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Í ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Þá segir í 3. mgr. 27. gr. sömu laga að þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum. ÞSH kvartaði við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vegna ráðningarinnar og þar sem engar formkröfur eru gerðar til beiðni um rökstuðning skv. 21. gr. nægir því munnleg beiðni. ÞSH barst með tölvupósti rökstuðningur fyrir ráðningunni þann 19. nóvember 2009. Með bréfi dags. 8. desember 2009 óskaði lögmaður ÞSH eftir upplýsingum frá Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit um þann sem ráðinn var í starfið. Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar veitti þær upplýsingar með bréfi dags. 27. janúar 2010. Það er mat ráðuneytisins að upphaf kærufrests í máli þessu beri að miða við 19. nóvember 2009, þ.e. þegar rökstuðningur var tilkynntur ÞSH með tölvupósti. Samkvæmt ákvæði 3. mgr. sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga var því kærufresturinn útrunninn þann 19. febrúar 2010.
Réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti eru þau að henni skal vísað frá. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eru greindar tvær undantekningar frá þessari reglu. Í fyrsta lagi er undantekning gerð þegar afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar, enda þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti, mæli veigamiklar ástæður með því, sbr. 2. tölul. Hafi stjórnvald vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. getur það haft þau áhrif afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. Í tilkynningu til ÞSH, dags. 9. nóvember 2009, um að ráðið hefði verið í stöðuna voru hvorki veittar leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda né um kæruheimild, kærufresti og hvert skyldi beina kæru, sbr. 2. mgr. 20. gr. Ekki er hægt að búast við því að aðilum sé kunnugt um kæruheimildir, hvert beina skuli kæru, kærufresti, svo og kærugjöld. Þykir því rétt og skylt að veita leiðbeiningar um þessi atriði þegar ákvörðun er birt sé kæruheimild til staðar. Af þessum sökum telur ráðuneytið að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt og er því kæran tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún hafi borist ráðuneytinu að liðnum kærufresti.
Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit krefjast þess að kröfum ÞSH verði hafnað.
Kæruheimild er í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Ekki er ágreiningur um aðild.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Haustið 2009 ákváðu sveitarstjórnir Þingeyjarsveitar og Skútustaðarhrepps að ráða eldvarnaeftirlitsmann í 50% stöðu til að sinna eldvarnareftirliti í báðum sveitarfélögum. Á þeim tíma voru starfandi slökkviliðsstjórar í 10% starfi í Skútustaðahreppi og 20% starfi í Þingeyjarsveit. Til frekari hagræðingar var ákveðið að sameina þau tvö störf 50% starfi eldvarnareftirlitsmanns þannig að til yrði ein 80% staða. Samkomulag náðist um það að starfsmaðurinn sem ráðinn yrði skyldi hýstur hjá Þingeyjarsveit og að sveitarfélagið bæri ábyrgð á ráðningarferlinu. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps veitti sveitarstjóra umboð til að ganga frá ráðningunni í samstarfi við sveitarstjórn og sveitarstjóra Þingeyjarsveitar.
Þann 14. október 2009 var auglýst laus til umsóknar staða slökkviliðsstjóra sem jafnframt skyldi sinna eldvarnaeftirliti í báðum sveitarfélögum. Fram kom í auglýsingu að æskilegt væri að viðkomandi hefði reynslu af slökkvistörfum og/eða skyldum störfum og jafnframt stjórnunarmenntun og/eða stjórnunarreynslu. Þá væri mikilvægt að viðkomandi hefði góða staðarþekkingu í báðum sveitarfélögunum. Miðað var við að ráðningin gilti frá næstu áramótum og umsóknarfrestur gefinn til 23. október 2009.
ÞSH sótti um stöðuna með bréfi dags. 20. október 2009. Bréfinu var komið til sveitarstjóra Skútustaðahrepps sama dag en fyrir mistök var umsóknin flokkuð með reikningum sveitarfélagsins. Á 35. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 29. október 2009 voru lagðar fram þrjár umsóknir um starf slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmanns. Mælt var með því að einn þeirra umsækjenda, Bjarni Höskuldsson (hér eftir nefndur BH), yrði ráðinn og sveitarstjóra falið að ganga frá málinu. Umsókn ÞSH var ekki á meðal þeirra umsókna sem lagðar voru fram á fundinum. Á 36. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 12. nóvember 2009 var eftirfarandi bókað í fundargerð:
,,Sveitarstjóri skýrði frá því að ein umsókn, Þorláks S. Helgasonar, um starf Slökkviliðstjóra og eldvarnaeftirlitsmanns hafði vantað við afgreiðslu málsins á síðasta fundi. Sveitarstjórar Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps ræddu við umsækjanda í kjölfar þess að mistökin komu í ljós. Þeirra niðurstaða var að ekki væri ástæða til að taka upp fyrri samþykkt um málið. Umsóknin sem upp á vantaði á síðasta fundi var kynnt sveitarstjórn Þingeyjarsveitar. Í kjölfar þess gáfu allir sveitarstjórnarfulltrúar utan einn sveitastjóra heimild til að ljúka málinu á grundvelli fyrri ákvörðunar. Hlynur fór fram á að afgreiðsla málsins færi fram á fundi sveitarstjórnar.”
Með bréfi dags. 9. nóvember 2009 var ÞSH tilkynnt um ráðningu í starfið. ÞSH barst rökstuðningur fyrir ráðningunni með óundirrituðum tölvupósti dags. 19. nóvember 2009.
Þann 8. desember 2009 sendi lögmaður ÞSH bréf til Þingeyjarsveitar þar sem óskað var upplýsinga um þann sem ráðinn var og bárust þær með bréfi dags. 27. janúar 2010.
ÞSH kærði afgreiðslu og ákvörðun Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar við ráðningu í stöðu slökkviliðsstjóra með bréfi dags. 3. mars 2010 og barst kæran ráðuneytinu þann 8. mars 2010.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. mars var Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Óskað var eftir því að sameiginleg umsögn sveitarfélaganna væri send ráðuneytinu vegna málsins. Bárust þau sjónarmið þann 11. maí 2010 með bréfi dags. 7. maí 2010.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. maí 2010 var ÞSH gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Bárust þau andmæli þann 9. júní 2010 með bréfi dags. 7. júní 2010.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 14. júní 2010 var ÞSH ásamt Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með bréfum til aðila dags. 30. september 2010 var tilkynnt að uppkvaðning úrskurðar myndi dragast.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök ÞSH
ÞSH byggir málatilbúnað sinn á því að málsmeðferð sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar við ráðningu í stöðu slökkviliðsstjóra hafi verið andstæð ákvæðum laga um brunamál nr. 75/2000 og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi því verið ólögmæt.
ÞSH heldur því fram að þann 20. október 2009, þegar hann sótti um stöðuna, hafi verið búið að ganga frá ráðningu þrátt fyrir að umsóknarfrestur rynni ekki út fyrr en 23. október. ÞSH bendir á að fundargerð frá 35. fundi sveitarstjórnarinnar sem haldinn var 29. október 2009 hafi birst daginn eftir á heimasíðu Þingeyjarsveitar. Þar hafi ekki verið minnst á umsókn ÞSH og fram hafi komið að sveitarstjórn mælti með þeim sem ÞSH hafði heyrt að fengi starfið.
ÞSH telur að sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafi freklega brotið á sér rétt við ráðningu í stöðu slökkviliðsstjóra. ÞSH vísar til óundirritaðs rökstuðnings sem barst honum í tölvupósti 19. nóvember 2009. Þar hafi sveitarstjóri Þingeyjarsveitar fullyrt að enginn af þeim sem sótti um starfið hafi uppfyllt skilyrði til þess að geta gegnt starfi eldvarnareftirlitsmanns en það starf væri hluti af starfi slökkviliðsstjóra. Sá sem ráðinn hafi verið hafi uppfyllt þær kröfur en ekki kröfur sem gerðar væru til slökkviliðsstjóra. Samkvæmt upplýsingum sem lögmaður ÞSH aflaði hjá Brunamálastofnun hafi sá sem ráðinn var í starfið einungis lokið einu námskeiði af þremur í eldvarnaeftirlitsfræðum. Því er það mat ÞSH að skýringar sveitarstjórnar standist ekki.
ÞSH bendir á að verið var að ráða slökkviliðsstjóra til starfsins. ÞSH hafi öll tilskilin réttindi og uppfylli þannig skilyrði 15. og 17. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. ÞSH telur að ekki sé hægt að segja það sama um þann sem ráðinn var. ÞSH bendir jafnframt á að ekki hafi verið óskað eftir undanþágu frá Brunamálastofnun fyrir ráðningunni samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir.
ÞSH heldur því fram að við ráðningu í starfið hafi sveitarstjórn ekki gætt að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. ÞSH hafi ekki setið við sama borð og aðrir þegar ráðið var í stöðuna þar sem sveitarstjórn hafi mælt með ráðningu þess sem fékk stöðuna án þess að hafa fjallað um umsókn ÞSH. Heldur ÞSH því einnig fram að sú endurupptaka sem minnst sé á í fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hafi ekki uppfyllt ákvæði stjórnsýslulaga um endurupptöku máls. Þar hafi verið bókað að sveitarstjórar hafi ekki séð ástæðu til endurupptöku fyrri ákvörðunar án þess að fyrir hafi legið formleg afstaða ÞSH til málsins. ÞSH heldur því fram að sveitarstjórninni hafi borið að afturkalla fyrri ákvörðun sína þar sem hún hafi verið ógildanleg sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.
Rökstuðningur fyrir ákvörðun um ráðningu hafi verið sendur ÞSH með tölvupósti þann 19. nóvember 2009. ÞSH bendir á að hann hafi fyrst séð tölvupóstinn um miðjan desembermánuð 2009. Því er haldið fram af hálfu ÞSH að rökstuðningurinn uppfylli ekki ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem bréfið hafi ekki verið undirritað. ÞSH heldur því fram að tölvupóstbréfið uppfylli ekki skilyrði 38. gr. stjórnsýslulaga. Þá gerir ÞSH athugasemd við að sveitarstjórn hafi ekki veitt honum afrit af þeim gögnum sem lágu að baki ákvörðun um ráðningu þrátt fyrir beiðni þar um, dags. 8. desember 2009.
Í andmælum sínum bendir ÞSH á að rétt sé að hafa í huga að auglýst var starf slökkviliðsstjóra sem jafnframt skyldi gegna starfi við eldvarnaeftirlit. Undir auglýsingunni þannig orðaðri hafi verið nöfn beggja sveitarstjóra. ÞSH mótmælir enn að sá sem ráðinn hafi verið í starfið hafi á þeim tíma uppfyllt skilyrði til að starfa sem eldvarnareftirlitsmaður. Í umsókn hans komi fram að hann hafi sótt eitt námskeið í október 2009 hjá Brunavörnum ríkisins. ÞSH vekur athygli á því að samkvæmt tölvupósti frá Brunamálastofnun til lögmanns ÞSH hafi BH sótt námskeiðið Eldvarnareftirlitsmenn II á sama tíma og hann sótti um starfið en það námskeið hafi eingöngu átt við um pappírsvinnu. Á þeim tíma hafi hann ekki enn sótt námskeiðið Eldvarnareftirlitsmenn I sem hefði heimilað honum almennt eldvarnareftirlit. ÞSH bendir jafnframt á að námskeið í eldvarnareftirliti séu þrjú talsins samkvæmt kröfum Brunamálastofnunar. Sá sem starfið fékk hafi því hvorki uppfyllt skilyrði til að starfa sem eldvarnaeftirlitsmaður né slökkviliðsstjóri. Þá bendir ÞSH á að langt sé síðan hann uppfyllti öll skilyrði til þess að gegna starfi slökkviliðsstjóra.
ÞSH telur að bókun sveitarstjórna um málið á 36. fundi hinn 12. nóvember 2009 beri það ekki með sér að málið hafi verið endurupptekið eða fyrri ákvörðun felld niður í skilningi 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat ÞSH að sveitarstjórn hafi borið að leggja allar umsóknir að nýju til skoðunar og vega þær og meta eftir viðtöl við hvern og einn. ÞSH vísar í fundargerð frá 12. nóvember 2009 þar sem segi um niðurstöðu sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps: ,,Þeirra niðurstaða var að ekki væri ástæða til að taka upp fyrri samþykkt um málið.” ÞSH telur að þetta eitt sýni að ákvörðun hafi ekki verið endurupptekin líkt og sveitarstjórn bar lögum samkvæmt að gera.
IV. Málsástæður og rök Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar
Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit (hér eftir nefnd SÞ) benda á að umsókn ÞSH hafi borist á skrifstofu Skútustaðahrepps í ómerktu umslagi og án þess að upplýst væri að um umsókn um starfið væri að ræða. Sveitarstjóri Skútustaðahrepps hafi talið að um reikninga hafi verið að ræða þar sem sá sem kom umslaginu til skila hafi verið vanur að koma með reikninga á skrifstofuna og ekki tilgreint að í þetta skiptið hefði erindið verið annað.
SÞ benda á að strax hafi verið brugðist við og fyrri ákvörðun í málinu endurupptekin á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat SÞ að endurupptaka ákvörðunarinnar hafi verið heimil þar sem sú ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Henni til grundvallar hafi einungis legið þrjár umsóknir af fjórum sem borist höfðu innan umsóknarfrests. Þá hafi þeim sem ráðinn var í starfið ekki verið tilkynnt ákvörðunin og ekki hafði verið gengið frá ráðningu hans. SÞ halda því fram að við endurupptöku málsins hafi verið gætt fyllsta jafnræðis í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga. Farið hafi verið yfir allar umsóknir að nýju og hæfni umsóknaraðila til að gegna starfinu borin saman á málefnalegan hátt. Þá hafi ÞSH verið boðaður til viðtals við sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Eftir að hafa lagt mat á allar framkomnar umsóknir og tekið viðtöl við ÞSH og BH hafi það verið niðurstaða SÞ að BH væri hæfastur til að gegna starfinu. Ákvörðun um ráðningu hafi síðan verið staðfest á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 12. nóvember 2009.
SÞ vísa til auglýsingar um starfið þar sem lögð hafi verið áhersla á að umsækjendur hefðu reynslu af slökkviliðsstörfum eða skyldum störfum auk þess sem mikil áhersla hafi verið lögð á að umsækjendur hefðu stjórnunarmenntun og reynslu. SÞ benda á að enginn af þeim fjórum sem sóttu um starfið hafi uppfyllt öll hæfis- og lagaskilyrði þess. ÞSH uppfylli lagaskilyrði til að gegna starfi slökkviliðsstjóra en ekki til að sinna eldvarnareftirliti. Þá hafi ÞSH litla sem enga reynslu af stjórnunarstörfum og sé ekki menntaður á því sviði. Um BH, sem ráðinn var í starfið, segja SÞ að hann uppfylli lagaskilyrði til að sinna eldvarnareftirliti þar sem hann hafi lokið námskeiðinu Eldvarnareftirlit I. Hann uppfylli hins vegar ekki lagaskilyrði til að gegna starfi slökkviliðsstjóra. BH hafi útskrifast úr Lögregluskóla ríkisins árið 1991 og starfað sem lögreglumaður síðan. Hann hafi einnig lokið stjórnunarnámi fyrir stjórnendur í lögreglu í samvinnu Lögregluskóla ríkisins og Endurmenntunar Háskóla Íslands. Þá hafi BH víðtæka og langa stjórnunarreynslu úr starfi sínu sem varðstjóri við embætti Lögreglustjórans á Húsavík frá 1995 og sem hreppstjóri Aðaldælahrepps frá 1996-2007. Því til viðbótar hafi hann setið fjölmörg námskeið sem muni nýtast honum vel í starfinu, m.a. á sviði almannavarna, eldvarnar- og lögreglumála.
Varðandi mat á hæfi umsækjenda til að gegna starfinu vekja SÞ athygli á því að tekið hafi verið tillit til margra þátta. Þar sem eldvarnaeftirlitshluti starfsins sé veigameiri hafi sveitarstjórn talið BH það til tekna að hafa heimild til að gegna þeim hluta starfsins. Þar að auki hafi það vegið þungt að reynsla BH af stjórnunarstörfum og menntun hans á því sviði hafi verið mun meiri en ÞSH. Að lokum hafi BH haft gríðarlega reynslu af lögreglustörfum á svæðinu. Þá var talið að persónulegir eiginleikar hans myndu nýtast honum vel í starfinu og þeim aðstæðum sem gætu skapast í tengslum við það.
SÞ vísa í meginreglu stjórnsýsluréttar um að stjórnvald sem að ráðningu stendur ákveður sjálft á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2701/1999. Ennfremur verði að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2630/1998. Þá sé með vísan til dómaframkvæmdar almennt viðurkennt í dag að atvinnurekendur hafi nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, svo og við mat á öðrum þáttum sem talið sé skipta máli og málefnalegt að líta til í viðkomandi tilviki. Með hliðsjón af þessu halda SÞ því fram að heimilt hafi verið að byggja á þeim málefnalegu sjónarmiðum við ráðningu í starfið sem fram hafi komið.
Öllum fullyrðingum ÞSH um að búið hafi verið að ráða í stöðuna áður en umsóknarfrestur rann út er mótmælt sem röngum, enda hafi ÞSH ekkert gert til að færa sönnur á þær fullyrðingar og virðist þær úr lausu lofti gripnar. Þá er því einnig mótmælt að í orðalagi fundargerðar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sé það fólgið að engin endurupptaka á málinu hafi farið fram. Með bókuninni hafi augljóslega verið átt við að þrátt fyrir endurupptöku málsins og mat á öllum fjórum umsækjendum hafi BH þótt hæfastur til að gegna starfinu.
Það er mat SÞ að ákvörðun um að ráða ÞSH ekki í starfið hafi verið tekin að vel athuguðu máli eftir að hann hafi komið í viðtal og umsókn hans borin saman við umsóknir annarra sem um starfið sóttu.
SÞ vísa til þess að hvorki ÞSH né lögmaður hans hafi farið fram á afhendingu gagna sem lágu að baki ákvörðun um ráðningu í starfið. Öllum spurningum ÞSH hafi verið svarað með rökstuðningi þann 19. nóvember 2009 og með bréfi til lögmanns ÞSH þann 27. janúar 2010.
SÞ benda að lokum á að ákvörðun um að ráða ÞSH ekki í starfið hafi verið tekin á þeim forsendum að annar væri hæfari til að gegna starfinu. Hvorki ÞSH, né sá sem ráðinn var, hafi uppfyllt öll lagaskilyrði til að gegna starfinu og hafi SÞ þá byggt á öðrum atriðum við mat á hæfni þeirra, þ.á.m. menntun, starfs- og stjórnunarreynslu og persónulegum eiginleikum. Þau sjónarmið hafi að mati SÞ verið málefnaleg.
V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Mál þetta snýst um það hvort SÞ hafi við ráðningu þá sem um er deilt gætt ákvæða laga um brunavarnir nr. 75/2000 og hvort gætt hafi verið þar til greindra ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 ræður sveitarstjórn m.a. slökkviliðsstjóra. Er hann yfirmaður slökkviliðs samkvæmt ákvæðinu. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að semji sveitarfélög um sameiginlegt slökkvilið, sbr. 14. gr., skuli viðkomandi sveitarfélög ráða slökkviliðsstjóra sem er yfirmaður slökkviliðs á svæðinu. Á ákvæði 3. mgr. 15. gr. við í máli því sem hér um ræðir.
Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/2000 segir að slökkviliðsstjóri skuli hafa hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 17. gr., og starfað að lágmarki eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður eða hafa háskólamenntun með sérmenntun í brunamálum. Þá segir í ákvæðinu að fáist ekki slökkviliðsstjóri til starfa sem uppfyllir framangreind hæfisskilyrði sé sveitarstjórn heimilt að höfðu samráði við Brunamálastofnun að ráða slökkviliðsstjóra tímabundið til starfa, þó ekki lengur en til tveggja ára í senn.
Samkvæmt auglýsingu frá SÞ var auglýst eftir slökkviliðsstjóra sem jafnframt skyldi sinna eldvarnareftirliti í báðum sveitarfélögunum. Í auglýsingunni voru tilteknar þær hæfiskröfur sem æskilegt væri að umsækjendur uppfylltu. Að mati ráðuneytisins bendir orðalag auglýsingarinnar eindregið til þess að SÞ hafi verið að auglýsa eftir slökkviliðsstjóra og skyldi eldvarnaeftirlit vera hluti af starfi hans.
Í 2. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir eru tilgreind þau lögmæltu skilyrði sem slökkviliðsstjórar þurfa að uppfylla. Í lögum um brunavarnir er ekki til að dreifa sambærilegum ákvæðum varðandi þá sem sinna eldvarnareftirliti. Í 12. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna nr. 729/2001 er fjallað um slökkviliðsmenn sem sinna eldvarnaeftirliti. Segir þar að þeir skuli hafa lokið námi sem eldvarnaeftirlitsmaður I eða lokið sambærilegu námi. Þá segir í ákvæðinu að menntun starfsmanna eldvarnaeftirlits skuli vera í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skuli veita samkvæmt brunavarnaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Í 10. gr. reglugerðarinnar er fjallað um nám fyrir slökkviliðsmenn að aðalstarfi og skiptist það í þrjá hluta. Er þar í 3. tl. fjallað um nám fyrir stjórnendur. Í lokamálslið þess ákvæðis er tekið fram að nám fyrir slökkviliðsstjóra skuli auk þess sem talið er upp í ákvæðinu fela í sér að lokið hafi verið við nám sem eldvarnaeftirlitsmaður I og II. Af því sem að framan er rakið telur ráðuneytið ljóst að slökkviliðsstjórar þurfa að uppfylla mun strangari hæfiskröfur en þeir sem sinna eldvarnaeftirliti og þurfa m.a. að hafa stundað nám sem eldvarnaeftirlitsmenn I og II. Þá þurfa slökkviliðsstjórar að uppfylla hin lögmæltu hæfisskilyrði sem tilgreind eru í 2. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir, sbr. 17. gr. laganna.
Fyrir liggur að ÞSH var einn umsækjenda um starf slökkviliðsstjóra hjá SÞ. Eins og greint var frá hér að framan misfórst umsókn hans í öndverðu. Greina SÞ frá því að þegar í ljós kom að umsókn ÞSH hafði misfarist hafi fyrri ákvörðun um ráðningu verið endurupptekin og hafi það verið gert áður en sú ákvörðun var tilkynnt þeim sem var ráðinn. Hafi ÞSH þá verið boðaður í viðtal en niðurstaða SÞ hafi verið að ráða BH og hafi sú ákvörðun byggst á málefnalegum sjónarmiðum sem rakin eru í málatilbúnaði SÞ. Það er mat ráðuneytisins að með því að gefa ÞSH færi á að koma umsókn sinni á framfæri og taka hana til meðferðar hafi SÞ gætt að fyrirmælum 11. gr. stjórnsýslulaga.
Umsækjendur um starf slökkviliðsstjóra hjá SÞ voru fjórir og var ÞSH einn þeirra. Fyrir liggur og óumdeilt er að ÞSH uppfyllti öll lagaskilyrði til að gegna starfi slökkviliðsstjóra. Þá liggur einnig fyrir og er óumdeilt að BH uppfyllti ekki lagaskilyrði til að gegna starfinu. Liggur þannig fyrir að ÞSH uppfyllti lögbundin hæfisskilyrði til að gegna starfi slökkviliðsstjóra samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir, sbr. 17. gr. laganna. Það gerði BH hins vegar ekki.
Í 2. ml. 2. mgr. 15. gr. segir að fáist ekki slökkviliðsstjóri til starfa sem uppfyllir hæfisskilyrði samkvæmt ákvæðinu sé sveitarstjórn heimilt að höfðu samráði við Brunamálastofnun að ráða slökkviliðsstjóra tímabundið til starfa, þó ekki lengur en til tveggja ára í senn. Að mati ráðuneytisins er ekki hægt að skilja ákvæði þetta öðru vísi en svo að uppfylli einhver umsækjenda þau hæfisskilyrði sem sett eru samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að ráða í starfið aðila sem uppfyllir ekki skilyrðin. Er þannig um lögmælt hæfisskilyrði að ræða sem skylt er að byggja á við ráðningu í starf slökkviliðsstjóra. Þar sem óumdeilt er að ÞSH uppfyllti lagaskilyrði til að gegna starfi slökkviliðsstjóra en BH ekki er það niðurstaða ráðuneytisins að ráðning BH í starfið hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 15. gr. laga um brunavarnir. Ber því þegar af þessari ástæðu að úrskurða hina kærðu ákvörðun ólögmæta líkt og í úrskurðarorði greinir. Verður ákvörðunin ekki úrskurðuð ógild vegna hagsmuna þess sem fékk starfið.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist lengur en ráðgert var og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Fallist er á kröfu Þorláks Snæs Helgasonar um að ráðning í starf slökkviliðsstjóra Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar sé ólögmæt.
Bryndís Helgadóttir
Brynjólfur Hjartarson