Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Reykjavíkurborg: Ágreiningur um endurráðningu. Mál nr. IRR11040180

 

Ár 2011, þann 2. maí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11040180

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

I.       Kröfur, aðild og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 15. apríl 2011, kærði B, f.h. A, þá ákvörðun íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar (hér eftir nefnt ÍTR) að enduráða A ekki í starf frístundaráðgjafa frá 1. janúar 2010. Verður ráðið af gögnum málsins að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði lýst ólögmæt.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru kemur fram að A hafi árin 2008 og 2009 starfað sem frístundaráðgjafi í þrjú misseri á frístundaheimili í Reykjavík. Um haustið 2009 mun henni hafa verið tilkynnt um að hún yrði ekki endurráðin þegar samningurinn hennar rynni út þann 31. desember 2009. Málsðila greinir hins vegar á um hvenær A var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Af gögnum málsins verður þannig ráðið að Reykjavíkurborg telji það hafa verið þann 23. október 2009 en að A telji það ekki hafa verið fyrr en í lok nóvember sama ár, sbr. t.a.m. bréf B til starfsmannastjóra ÍTR, dags. 28. janúar 2011, er fylgdi með kærunni.  

Munu hafa verið þó nokkur samskipti á milli A og Reykjavíkurborgar allt árið 2010 og það sem af er árinu 2011. Þannig funduðu þau A og B t.a.m. með trúnaðarmanni Starfsmannafélags Reykjavíkur skömmu eftir áramótin 2009-2010, og með starfsmannastjóra ÍTR 10. febrúar og 4. mars 2010. Þann 19. apríl 2010 óskaði B, með bréfi til framkvæmdastjóra Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og starfsmannastjóra ÍTR, eftir rökstuðningi ÍTR á því að fjöldi annarra starfsmanna aðrir en A hafi verið endurráðnir á árinu 2010. Með tölvupósti sama dag var svo óskað afrits af öllum gögnum málsins og þá sérstaklega gögnum frá starfsmannaviðtali við A sem fram fór í maí 2009.

Þann 3. maí var því bréfi svarað af hálfu Reykjavíkurborgar og afrit af gögnum málsins afhent. Af hálfu A er hins vegar talið að rökstuðningur bréfsins sé ekki fullnægjandi auk þess sem engin gögn hafi borist varðandi umrætt starfsmannaviðtal í maí 2009. Þann 22. nóvember 2010 var aftur óskað eftir afriti af umræddum gögnum. Mun því erindi hafa verið svarað með tölvupósti af hálfu starfsmannastjóra ÍTR þann 6. desember 2010 þar sem fram kom að þann 3. maí 2010 hefðu öll gögn sem til væru varðandi mál A verið send í ábyrgðarpósti til B.

Munu samskipti málsaðila svo sem fyrr segir hafa haldið áfram árið 2010 og fyrri hluta ársins 2011, en að mati ráðuneytisins er ekki ástæða til að rekja þau frekar hér.

III.    Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi verið tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þann 23. október 2009, eða í síðasta lagi í lok nóvember 2009. Var ákvörðunin svo kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 15. apríl 2011. Við hvort tímamarkið sem miðað er við, 23. október 2009 eða lok nóvember 2009, er ljóst að liðið er mun meira en ár síðan tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun en skv. 2. mgr. 28. gr. skal ekki sinna kærum sem berast svo seint. Ekki er gert ráð fyrir að afsakanlegar ástæður geti réttlætt frávik frá ákvæði 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga (sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 26. október 2000 í máli nr. 2770/1999). Rétt er að taka fram í því sambandi að í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar aðili fer fram á rökstuðning fyrir ákvörðun skv. 21. gr. laganna hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga skal bera fram beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun og verður að telja að það sé frumskilyrði þess að kærufrestur hefjist ekki fyrr en að rökstuðningi fengnum, að slík beiðni berist innan tilskilina tímamarka. Það að stjórnvald vanræki að veita rökstuðning, eða leiðbeina aðila um rétt hans til að fá ákvörðun rökstudda kann að teljast afsakanleg ástæða í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimilar að kæra verði tekin til meðferðar þó að hún berist að loknum hinum almenna þriggja mánaða kærufresti (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 272), en getur hins vegar ekki haggað fortakslausu ákvæði 2. mgr. 28. gr. um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Telur ráðuneytið óhjákvæmilegt af þeim sökum að vísa málinu frá.

Þá telur ráðuneytið rétt að geta þess að í kærunni er farið fram á aðgang að gögnum varðandi fyrsta starfsmannaviðtal við A sem haldið var í maí 2009. Var áður óskað eftir afriti af þeim gögnum með tölvupósti, dags. 19. apríl 2010 og aftur þann 22. nóvember 2010 og var síðara erindinu svarað af starfsmannastjóra ÍTR þann 6. desember 2010 með þeim hætti að þegar væri búið að afhenda öll gögn varðandi málið. Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga kemur fram sú meginregla að aðili máls eigi rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál varða, og eru svo í 16. gr. og 17. gr. tilgreindar tilteknar undantekningar frá þeirri meginreglu. Í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga segir svo að kæra megi synjun eða takmörkum á afhendingu gagna til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Skal kæra borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Er því ljóst að kæran er einnig of seint fram komin hvað þetta atriði snertir.

 

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru B, f.h. A á þeirri ákvörðun íþrótta- og tómstundsviðs Reykjavíkurborgar að endurráða A ekki í starf frístundaráðgjafa frá 1. janúar 2010, er vísað frá ráðuneytinu.

 

Fyrir hönd ráðherra

 

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta