Akraneskaupstaður: Ágreiningur um ráðningu í kennarastarf. Mál nr. 56/2010
Ár 2011, 17. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. 56/2010 (IRR 10121601)
Kristín Frímannsdóttir
gegn
Akraneskaupstað
I. Kröfur, aðild, kæruheimild og kærufrestur
Með stjórnsýslukæru dagsettri 9. ágúst 2010 kærði Kristín Frímannsdóttir, kt. 090669-4009, tvær ákvarðanir skólastjóra Brekkubæjarskóla, Akranesi, um ráðningu í störf umsjónarkennara við skólann vorið 2010.
Ekki eru hafðar uppi sérstakar kröfur í máli þessu en af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að farið sé fram á að hinar umdeildu ráðningar séu lýstar ólögmætar.
Í kæru er vísað til kæruheimildar 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en heimild til að kæra ákvörðun sveitarstjórnar til ráðherra verður almennt ekki leidd af 26. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið lítur hins vegar svo á að skilyrðum til þess að mál þetta verði tekið til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sé fullnægt. Ráðuneytið horfir fram hjá því að ekki hafi verið vísað til réttrar kæruheimildar í kæru enda ber því skylda til að kveða upp úrskurði í málum sem því berast vegna ákvarðana sveitarstjórna á sviði sveitarstjórnarmálefna, sbr. nefnda 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.
Ekki er ágreiningur um aðild.
Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Hinar kærðu ákvarðanir voru tilkynnar kæranda þann 11. júní 2010 og barst kæra ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. ágúst 2010. Telst kæra því fram komin innan hins almenna þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti:
Veturinn 2009-2010 starfaði Kristín Frímannsdóttir (hér eftir nefnd KF) í afleysingum sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi og hafði nokkra vetur á undan sinnt forfallakennslu við sama skóla. Áður hafði hún m.a. starfað sem leiðbeinandi og grunnskólakennari í fullu starfi við Varmárskóla í Mosfellsbæ.
Í apríl 2010 mun KF hafa leitað eftir því að fá varanlega ráðningu við Brekkubæjarskóla en verið tjáð af skólastjóra að ekki yrði orðið við því. Fyrirhugað væri að auglýsa tvær kennarastöður við skólann og væri KF frjálst að sækja um þær eins og öðrum. Skömmu síðar var birt auglýsing um lausar stöður í skólum Akraneskaupstaðar og birtist slík auglýsing m.a. í Fréttablaðinu þann 1. maí 2010. Í auglýsingunni kom m.a. fram að við Brekkubæjarskóla væru umsjónarkennarastöður á mið- og unglingastigi lausar til umsóknar vegna næsta skólaárs auk þess sem auglýst var hlutastarf vegna kennslu í upplýsingatækni og teiknimyndagerð. Í sömu auglýsingu voru jafnframt auglýstar tvær leikskólakennarastöður við leikskólann Akrasel. Umsóknarfrestur vegna allra starfanna var til 14. maí 2010.
Alls bárust sex umsóknir um tvær stöður umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla. Með bréfi, dags. 11. júní 2010, tilkynnti skólastjóri KF að ákveðið hefði verið að ráða Helgu Kristínu Björgólfsdóttur (hér eftir nefnd HKB) og Elínberg Sveinsson (hér eftir nefndur ES) í störfin. Fylgdi rökstuðningur skólastjóra fyrir ráðningunum með bréfinu.
Með bréfi, dags. 9. ágúst 2010, kærði KF þá ákvörðun skólastjóra Brekkubæjarskóla að ráða hana ekki í stöðu kennara við skólann.
Með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, óskaði ráðuneytið eftir nánari gögnum frá KF varðandi kæru hennar. Jafnframt kom ráðuneytið á framfæri þeim skilningi sínum að kæran lyti að því að ráðningar í hinar tvær auglýstu stöður væru ólögmætar. Bárust ráðuneytinu þau gögn með bréfi, dags. 13. september 2010.
Með bréfi, dags. 27. september 2010, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Akraneskaupstaðar um kæruna. Barst umbeðin umsögn sveitarfélagsins með bréfi, dags. 21. október 2010.
Með bréfi, dags. 4. nóvember 2010, gaf ráðuneytið KF færi á að koma fram andmælum vegna umsagnar Akraneskaupstaðar. Bárust þau andmæli ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. desember 2010.
Þann 20. janúar 2011 ritaði ráðuneytið svo málsaðilum bréf þar sem kom fram að ráðuneytið liti nú svo á að gagnaöflun væri lokið og að málið yrði tekið til úrskurðar. Jafnframt var tilkynnt að vegna mikilla anna í ráðuneytinu myndi uppkvaðning úrskurðar tefjast fram í febrúar eða mars 2011.
Að athuguðu máli taldi ráðuneytið nauðsynlegt að afla nánari sjónarmiða Akraneskaupstaðar vegna tiltekinna atriða áður en kveðinn væri upp úrskurður í málinu. Óskaði ráðuneytið þeirra með bréfi, dags. 24. febrúar 2011, og bárust sjónarmið sveitarfélagsins ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. mars 2011.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök KF
Í kæru KF kemur fram að þegar hún hafi verið ráðin til starfa við Brekkubæjarskóla fyrir veturinn 2009-2010 hafi láðst að segja henni að um afleysingarstöðu væri að ræða. Þegar það hafi komið í ljós í ágúst 2009 hafi hún gert athugasemd við það en verið sagt að einungis væri um formsatriði að ræða sem engu máli skipti. Hún fengi örugglega áframhaldandi stöðu. Í lok vinnudags þann 7. apríl 2010 hafi hún hins vegar verið kölluð til skólastjóra og verið tilkynnt að eins og að staðan væri fengi hún ekki stöðu næsta vetur. Komið hefði umsókn frá aðila sem hefði réttindi og reynslu af að vinna með börnum. Skólastjóri hafi sagst ætla að ráða hann en engin auglýsing hefði hins vegar verið birt fyrr en í maí 2010.
Af hálfu KF er því haldið fram að þegar hafi verið búið að ráða í stöðurnar þegar auglýst var. Þegar hún hafi sagt skólastjóra að hún teldi brotið á rétti sínum með því að hún hafi ekki fengið áframhaldandi ráðningu hafi skólastjóri sagt að auglýsa ætti tvær stöður og þær fengju ES og HKB. Þetta hafi skólastjóri ekki viðurkennt og haldið því fram til skólaslita að ekki væri búið að ákveða hverjir yrðu ráðnir en þau tvö hafi svo síðar verið ráðin eins og fram komi í skriflegu svari skólastjóra við umsókn hennar.
Auk þess hafi ekki verið tekið tillit til reynslu við ráðningu umsjónarkennara en hún hafi starfað sem umsjónarkennari í tvö ár. Í rökstuðningi fyrir ráðningunum, sem fylgt hafi svarbréfi skólastjóra, hafi ekki verið minnst einu orði á hæfni umsækjenda til að gegna stöðu umsjónarkennara. Auglýst hafi verið eftir umsjónarkennara en hvorki náttúrufræði- né íslenskukennara eins og skilja megi af rökstuðningi skólastjóra.
Meðmæli hafi ekki heldur verið tekin til greina né áskorun foreldra um að hún fengi áframhaldandi ráðningu.
KF vísar jafnframt til bréfs sem hún sendi trúnaðarmanni Brekkubæjarskóla þann 20. apríl 2010 og hafði áður sent Ólafi Loftssyni, formanni Félags grunnskólakennara. Þar kemur m.a. fram að KF hafi ekki verið sátt við það sem skólastjóri tjáði henni þann 7. apríl 2010 og í kjölfarið hafi hún leitað til Sigríðar Óladóttur, trúnaðarmanns Brekkubæjarskóla, og beðið hana að kanna rétt sinn. Þann 8. apríl hafi samkennari hennar fundað með skólastjóra um skólastarfið komandi vetur. Þar hafi samkennara hennar verið tjáð að KF yrði látin fara því borist hefði umsókn frá karlmanni sem ætti að ráða. Trúnaðarmaður hafi haft samband við Kennarasamband Íslands sem hafi fundist ástæða til að kanna þetta nánar. Trúnaðarmaðurinn hafi jafnframt sent tölvupóst til formanns Félags grunnskólakennara sem hafi talið málið ,,eitthvað skrítið.“
Í framhaldinu hafi KF farið aftur á fund skólastjóra þann 13. apríl og látið hann vita að hún teldi að brotið væri á sér. Skólastjóri hafi þvertekið fyrir það og sagst hafa upplýsingar um annað. Seinna sama dag hafi KF verið kölluð aftur á fund skólastjóra sem hefði tjáð henni að hann hefði haft samband við Skólastjórafélagið og hann væri fullum í rétti til að láta KF fara. Skólastjóri myndi auglýsa tvær stöður og ætlaði að ráða karlmanninn og unga konu sem líka væri með ársráðningu við skólann.
Þann 14. apríl hafi KF og samkennari hennar verið staddar á kennarastofu skólans. Þar hafi ung kennslukona talað um að það væri skrítið að vita ekki hvað hún færi að gera um haustið en vita hvað maðurinn hennar færi að gera. Aðspurð hafi hún sagt að hann færi að kenna 7. bekk þar við skólann. Að sögn KF grunaði hana strax þegar henni var tjáð hún fengi ekki áframhaldandi stöðu við skólann að umræddur karlmaður yrði ráðinn og þarna hefði það verið staðfest.
Þá bendir KF á að í umsögn Akraneskaupstaðar vanti að hún hafi starfað í tvö ár við forföll við Brekkubæjarskóla, þ. á m. 4-5 vikur við að leysa af umsjónarkennara á unglingastigi og sjá um stærðfræðikennslu á unglingastigi. Á þessum tveimur árum hafi KF komið að því að kenna allt frá 1.-10. bekk, auk þess að kenna allar bóklegar greinar auk fárra verklegra greina. Reynslan af því að hafa bæði verið forfallakennari og umsjónarkennari sýni að þar sé breitt bil á milli og um gjörólík störf að ræða. Það viti allir sem reynt hafi.
Þá bendir KF á að í umsögn Akraneskaupstaðar komi fram að meginrökin fyrir ráðningu séu sögð vera menntunarleg samsetning kennarahópsins. Þetta sé vinnuregla sem ekki hafi verið farið eftir áður. Haustið 2009 hafi verið ráðnir fjórir nýir kennarar. Tveir hafi verið fastráðnir sem umsjónarkennarar á unglingastigi en þeir hafi náttúrufræði og listgreinar sem kjörsvið og tveir hafi verið með árs ráðningu, náttúrufræðikennari í námsveri á unglingastigi og samfélagsfræðikennari sem umsjónarkennari á yngsta stigi. Hefði verið horft til menntunarlegrar samsetningar þá hefði ekki verið ástæða til að fastráða þriðja myndmenntarkennara sem bekkjarkennara og klárlega hefði verið ástæða til að fastráða báða náttúrufræðikennarana.
Haustið 2008 hafi a.m.k. þrír leiðbeinendur verið umsjónarkennarar við Brekkubæjarskóla. Það ár hafi nýútskrifaður kennari sótt um starf en verið neitað þar sem ekki hefðu verið lausar stöður. Einnig hafi kennari með réttindi og nokkurra ára reynslu sótt um en fengið neitun. Það ár hafi KF einnig sótt um en verið neitað. Þessi tvö ár hafi augljóslega ekki verið ráðið eftir menntunarlegri samsetningu kennarahópsins. Við þetta bætir KF þeirri spurningu að fyrst að svo mikil þörf hafi verið á íslenskukennurum hvers vegna kenni þeir þá ekki íslensku? Haustið 2010 hafi íslenskukennari með mikla reynslu verið settur í að kenna í námsveri. Annar mjög fær íslenskukennari sé umsjónarkennari í 4. bekk og kenni þar allar bóklegar greinar. Sá sem nú hafi verið ráðinn sé umsjónarkennari 7. bekkjar og kenni flestar eða allar bóklegar greinar. Í flestum bekkjum sé það umsjónarkennari sem kenni íslensku, óháð hvaða kjörsvið eða sérhæfingu hann hafi.
Við þetta sé að bæta að kennsluhættirnir Orð af orði sem nefndir eru í rökstuðningi skólastjóra hafi ekki verið ræddir á kennarafundum vorið 2010. Það sé ljóst að kennarar voru farnir í sumarfrí áður en þeir heyrðu um að þá ætti að taka upp um haustið. Þeir kennarar sem vinni eftir þeim kennsluháttum í dag segist ekki hafa heyrt um þá fyrr en störf hófust um haustið. Þá hafi þeim verið skellt á námskeið og sagt að vinna eftir því sem þeir lærðu þar. Ljóst megi vera að þetta hafi verið ákveðið einhliða eftir að skóla hafi lokið vorið 2010 og spurning sé hvort með því hafi skólayfirvöld verið að búa til rökstuðning fyrir ráðningu.
Þá bendir KF á að í umsögn Akraneskaupstaðar komi fram að skólastjóri upplýsi að hann telji að ýmislegt í samtölum hans og KF hafi verið með öðrum hætti en KF lýsi. Hins vegar sé þar ekki vikið einu orði að því hvað það sé sem hafi verið með öðrum hætti. Hún geti ekki gert athugasemdir við það sem sett sé fram án raka. Það skuli tekið fram að KF standi við allt sem fram komi í upphaflegri kæru um þeirra samskipti. Við það megi bæta að nokkrir kennarar hafi verið á kennarastofunni þegar einn deildarstjórinn, sem sé í skólastjórninni, hafi staðfest að KF fengi ekki stöðu áfram og karlmaður yrði ráðinn. Þetta hafi verið áður en auglýsingin hafi verið birt. KF gæti fengið kennara til að staðfesta skriflega hverjir heyrðu skólastjórann segja fyrir skólalok að undirrituð fengi ekki ráðningu um veturinn. Þeir séu ekki fáir en í ljósi þess hversu starfsandi í skólanum sé erfiður þá muni það ekki þjóna hagsmunum skólans.
Ennfremur hafi ES, sem var ráðinn í aðra auglýstu stöðuna, sagt upp stöðu sinni á leikskólanum Akraseli löngu áður en auglýsingin hafi birst. Hann hafi sagt bæði samstarfsfólki sínu og foreldrum barna á leikskólanum að hann væri að hætta vegna þess að hann hefði fengið kennarastöðu við Brekkubæjarskóla. Hægt væri að fá ýmsa aðila til að staðfesta þetta. Vakin sé athygli á að í bréfi sem KF sendi Ólafi Loftssyni, formanni Félags grunnskólakennara, segi að skólastjórinn hafi sagt henni að hann ætlaði að ráða ES og HKB. Það staðfesti að búið hafi verið að segja KF hverja átti að ráða. Til sé afrit af þessu bréfi sem trúnaðarmanni Brekkubæjarskóla hafi verið sent 20. apríl 2010
Eftir að KF hafi fengið að vita í byrjun apríl að hún fengi ekki áframhaldandi ráðningu hafi hún í fyrstu ekki viljað að það fréttist heldur viljað hugsa um það í friði. Sá friður hafi hins vegar ekki verið í boði því skólastjórinn hafi sagt sumum kennurunum frá því um svipað leyti. KF hafi hins vegar verið á undan að segja trúnaðarmanni vinnustaðarins frá því. Fulltrúar skólans í kennarafélaginu hafi boðað til fundar vegna málsins um vorið 2010. Þar hafi staða KF verið rædd í ljósi þess að hún fengi ekki stöðu áfram. KF hafi vikið af fundinum til að frjálsari umræður gætu átt sér stað en hún viti þó að ýmsir hefðu talað alvarlega um málið.
Í tölvusamskiptum Eiríks Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands, og Arnbjargar Stefánsdóttur skólastjóra komi fram að Eiríkur hafi fyrst heyrt af málinu hjá Skólastjórafélagi Íslands. KF undrast hvernig hafi staðið á því ef ekki hafi verið búið að ráða í stöðuna þegar trúnaðarmaður Brekkubæjarskóla hafi haft samband við Kennarasambandið. KF vekur athygli á því að umrædd samskipti hafi átt sér stað þann 23. apríl 2010 eins og sjá megi af innsendum gögnum. Umrædd tölvupóstsamskipti eru á meðal þeirra gagna eru fylgdu kæru KF.
KF telur að ekkert hafi komið fram í umsögn Akraneskaupstaðar sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að hæfasti starfsmaðurinn hafi verið ráðinn. Til dæmis komi einungis fram að ,,viðunandi“ þekking hafi þegar verið fyrir hendi í samfélagsfræði. KF telur óljóst hvað átt sé við með því. Í auglýsingunni um starfið hafi ekki verið tilgreint skilyrði um ákveðið kjörsvið og hljóti það að staðfesta að kjörsvið kennara hafi ekki átt að skipta máli. Að það sé nú sett fram sem meginröksemd að efla eigi íslenskuþekkingu séu eftirárök sem beri að hafna sem málamyndarökum.
IV. Málsástæður og rök Akraneskaupstaðar
Af hálfu Akraneskaupstaðar er bent á að auglýstar hafi verið tvær lausar stöður umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla. Annars vegar á miðstigi og hins vegar á unglingastigi. Í auglýsingunni hafi ekki verið tilgreind sérstaklega þau atriði sem sóst hafi verið eftir frekar en almennt tíðkist um slíkar auglýsingar. Engu að síður hafi legið fyrir hjá skólastjóra greining á þeim atriðum sem ráðist að sjálfsögðu fyrst og síðast af þörfum skólans og þeirra nemenda sem skólastjóri beri ábyrgð á veita eins góða menntun og frekast sé unnt. Í umsögn Akraneskaupstaðar segir eftirfarandi um hver þau atriði hafi verið:
Að efla þekkingu í kennarahópnum á tilteknum fagsviðum. Þar var annars vegar horft til þess að skólinn hefur ekki haft á að skipa kennurum með sérþekkingu í kennslu náttúrufræðigreina og á stundum orðið að leita út fyrir skólann eftir kennurum til að sinna kennslunni samkvæmt aðalnámskrá. Hins vegar var horft til eflingar íslenskukennslu í skólanum en skólinn er að endurmeta og endurskipuleggja þessa viðamestu kennslugrein í grunnskólanámi.
Í umsögn Akraneskaupstaðar kemur fram að skólastjóri hafi veitt upplýsingar varðandi auglýsinguna, hann hafi tekið á móti umsóknum og gefið upplýsingar um störfin. Hann hafi kallað eftir viðbótarupplýsingum hafi hann talið þess þörf og ráðið þá sem urðu fyrir valinu. Samkvæmt reglum Akraneskaupstaðar sé það verkefni skólastjóra/forstöðumanna stofnana að auglýsa, leggja mat á umsóknir og ráða til starfa. Í þessu ferli hafi skólastjóri haft samráð við skólastjórn sem í sitji deildarstjórar.
Við mat á umsækjendum hafi legið fyrir upplýsingar um menntun, starfsreynslu og meðmæli frá fyrri yfirmönnum. Einnig liggi fyrir að skólastjóri hafi þekkt til starfa þriggja umsækjenda þar sem þeir höfðu áður starfað í Brekkubæjarskóla. Tveir umsækjendanna hafi starfað þar í eitt skólaár, einn umsækjandi hafi starfað í 6 vikur sem forfallakennari í 10. bekk auk þess að taka að sér að kenna utan skólans nemanda skólans sem vísað hafi verið tímabundið úr skóla vegna hegðunarvandamála. Skólastjóri hafi ráðið tvo af þessum þremur umsækjendum til auglýstra starfa.
Eins og fram komi í rökstuðningi skólastjóra hafi hann haft það meginsjónarmið að leiðarljósi að horfa til faglegrar samsetningar umsjónarkennarahópsins sem fyrir hafi verið í skólanum. Skólastjóri hafi ávallt yfirsýn yfir menntun kennara skólans og hvar mikilvægt sé að auka hæfni skólans sem stofnunar til að takast á við það verkefni að veita nemendum eins góða menntun og mögulegt sé í ljósi aðstæðna. Meginrök skólastjórans fyrir ráðningunum séu að umsækjendur skyldu ráðnir út frá þeirri sérhæfingu sem þeir höfðu sótt sér í sínu háskólanámi, þ.e. kjörsvið kennararanámsins, sbr. framangreind atriði og mælikvarða. Annar umsækjandinn sem ráðinn hafi verið hafi náttúrufræði sem kjörsvið en aðeins einn kennari skólans hafi haft það kjörsvið fyrir. Hinn umsækjandinn sem ráðinn hafi verið hafi íslensku sem kjörsvið og skólinn sé að endurmeta alla íslenskukennslu í skólanum. KF hafi hins vegar samfélagsfræði sem kjörsvið en viðunandi þekking hafi þegar verið fyrir hendi í þeirri námsgrein að mati skólastjóra. Ljóst sé að KF hafi fullnægjandi menntun til að gegna starfi umsjónarkennara eins og þeir sem ráðnir hafi verið. Hún hafi lengri starfsaldur en þeir sem ráðnir hafi verið þó að ekki muni þar miklu, ekkert þeirra geti talist hafa langan starfsaldur. Er að öðru leyti vísað til rökstuðnings skólastjóra frá 11. júní 2010 hvað þetta varðar.
Í rökstuðningi skólastjóra kemur fram að alls hafi borist sex umsóknir um auglýst störf tveggja umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla. Allir umsækjendur hafi uppfyllt þær almennu menntunarkröfur sem gerðar séu til þeirra sem gegna umsjónarkennarastarfi. Umsækjendur hafi upplýst um menntun, starfsreynslu og tilnefnt umsagnaraðila. Skólastjóri hafi ákveðið að ráða HKB og ES í umrædd störf. Þá segir að við ráðninguna hafi sjónarmið um faglega samsetningu kennarahópsins sem fyrir var í skólanum og annast bóklega kennslu/umsjónarkennslu verið höfð að leiðarljósi. Því næst er gerð grein fyrir samsetningu kennarahópsins og kemur þar m.a. fram að fjórir kennarar við skólann hafi íslensku sem kjörsvið/valgrein í grunnámi sínu, einn hafi náttúrufræði og þrír samfélagsfræði.
Í rökstuðningi skólastjóra er svo rakið að einungis einn kennari við skólann hafi náttúrufræði sem kjörsvið í sínu grunnámi. Brekkubæjarskóli hafi átt í vandræðum með að sinna kennslu náttúrufræðigreina og um tíma hafi verið leitað samstarfs við Fjölbrautaskóla Vesturlands um kennsluna. Náttúrufræði sé kennd í 1.-10. bekk og því mikilvægt að skólinn hafi innan sinna vébanda kennara sem hafi sérþekkingu í greininni. HKB hafi útskrifast frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2009 og hafi náttúrufræði sem kjörsvið. Hún sé ráðin vegna þess að Brekkubæjarskóli hafi þörf fyrir aukna þekkingu í náttúrufræði í kennarahóp skólans til að geta sinnt betur náttúrufræðikennslu í samræmi við aðalnámskrá.
Þá taki Brekkubæjarskóli nú þátt í þróunarverkefni sem snúi að íslenskukennslu og læsi. Undanfarin þrjú ár hafi báðir grunnskólarnir á Akranesi unnið að verkefninu Byrjendalæsi (1.-3. bekk) og að á næstu árum yrðu kennsluhættir í íslensku í 4.-10. bekk endurmetnir og þróaðir bæði með að taka upp kennsluhætti sem felast í Orð af orði og Gagnvirkum lestri. Verkefnin yrðu unnin í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Brekkubæjarskóli hafi ekki náð ásættanlegum árangri í íslensku á samræmdum prófum og mikill vilji sé til að bæta íslenskukennslu í skólanum. Einn kennari skólans hafi hlotið styrk til að vinna að útfærslu lestrarstefnu sem verði leiðarljós í skólastarfinu takist vel til. Það sé því mat skólastjóra að sá umsækjandi sem hafi íslensku sem kjörsvið frá Kennaraháskóla Íslands sé æskileg viðbót við þann mannauð sem fyrir sé í skólanum. Íslenska sé umfangsmesta námsgreinin í aðalnámskrá og því eðlilegt að það endurspeglist í sérhæfingu/þekkingu í kennarahópnum. ES hafi útskrifast vorið 2010 með íslensku sem kjörsvið. Hann hafi nýjustu þekkingu í kennslufræði á íslensku í grunnskólum og falli menntun hans vel að þeim áherslum sem verði í skólastarfi Brekkubæjarskóla næstu skólaár.
Þá segir í umsögn Akraneskaupstaðar að í greinargerð KF sé komið inn á viðræður á kennarastofu og vitnað í samtöl við skólastjóra. Skólastjóri upplýsi að hann telji ýmislegt í innihaldi samtala hans og KF hafa verið með öðrum hætti en KF lýsi.
Ráðuneytið taldi nauðsynlegt að óska sérstaklega eftir sjónarmiðum og afstöðu Akraneskaupstaðar til bréfs KF til trúnaðarmanns Brekkubæjarskóla, dags. 20. apríl 2010, er ber yfirskriftina ,,Samskipti mín við skólastjóra Brekkubæjarskóla.“ Sendi ráðuneytið sveitarfélaginu bréf þess efnis, dags. 24. febrúar 2011 og barst svar með bréfi, dags. 10. mars 2011.
Í svarbréfi sveitarfélagsins til ráðuneytisins er í upphafi tekið fram að ráðningarsamningur KF við Brekkubæjarskóla hafi verið undirritaður 1. júlí 2009 og hafi gilt til eins árs eins og heimilt sé þegar ráðið í afleysingarstöður. Það sé því ekki rétt sem fram komi í bréfi KF að samningurinn hafi verið undirritaður fljótlega eftir verslunarmannahelgi. Það skuli áréttað að skólastjóra Brekkubæjarskóla greini á við KF um hvað þeim hafi farið á milli þegar umræddur ráðningarsamningur var undirritaður og fullyrði skólastjóri að KF hafi ekki verið lofað áframhaldandi ráðningu þó hann treysti sér ekki til þess að rekja orðaskipti þeirra nákvæmlega, enda sé langt um liðið. Telur Akraneskaupstaður ekkert fram komið sem gefi tilefni til að sú fullyrðing skólastjóra verði véfengd nema staðhæfing KF og því verði að leggja umrædda fullyrðingu KF til grundvallar í málinu.
Þá sé það rétt sem komi fram hjá KF að skólastjóri hafi upplýst hana þann 7. apríl 2010 að staða hennar yrði auglýst og að borist hefðu fyrispurnir um störf við Brekkubæjarskóla frá aðilum sem skólastjóri teldi áhugaverða. Skólastjóri hafi upplýst KF um að hún væri ekki inn í áætlunum hans um kennara við skólann fyrir næsta skólaár. Hafi skólastjóri með þessum upplýsingum viljað gefa KF gott svigrúm til að leita sér að starfi annars staðar.
Þá víki KF að rétti og skyldu skólastjóra til að auglýsa lausar stöður. Í því sambandi sé rétt að fram komi að KF hefði upplýst skólastjóra um að það væri mat Félags grunnskólakennara að kennari sem ráðinn væri til afleysinga við skóla ætti að hafa forgang til starfa við skólann og að það væri verið að brjóta á rétti hennar ef það yrði ekki raunin í þessu tilviki. Skólastjóri hafi af því tilefni haft samband við Skólastjórafélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga og fengið þær upplýsingar að við ráðningu kennara skyldi litið til þarfa skólans og hæfni umsækjenda og að ekki væri skylt að láta kennara sem kennt hefði við skóla skv. tímabundnum ráðningarsamningi njóta forgangs um laust starf. Í því sambandi vill Akraneskaupstaður þó taka fram að sveitarfélagið telji rétt og eðlilegt að starfsmaður sem hafi staðið sig vel í tímabundnu starfi njóti þess þegar ráðið sé í fast starf enda uppfylli hann þær hæfniskröfur sem gerðar séu varðandi starfið í ljósi þarfa viðkomandi stofnunar og skv. greiningu stjórnenda hennar og hafi sýnt góða frammistöðu í starfi að þeirra mati. Skólastjóri hafnar því að hafa kveðið upp úr um hverjir yrðu ráðnir til starfa áður en störfin voru auglýst og fullyrðir að mat á hæfni umsækjenda m.t.t. þeirrar hæfni sem sóst var eftir hafi alfarið ráðið ákvörðun um ráðningar í störfin.
Þá telur Akraneskaupstaður að tilvitnanir í umræður, sem KF segi að hafi átt sér stað á kennarastofu Brekkubæjarskóla, verði hvorki sannaðar né afsannaðar og séu þess eðlis að ekki verði á þeim byggt í stjórnsýslumáli, enda augljóst að hvorki sveitarfélagið né skólastjóri séu í aðstöðu til að staðfesta né hnekkja því að þær hafi átt sér stað né heldur skýra hver hafi verið merking þeirra, sé rétt frá greint.
V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
1. Eins og áður segir verður það ráðið af málatilbúnaði KF að farið sé fram á að ráðuneytið úrskurði hinar umdeildu ráðningar í störf umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla, Akranesi, ólögmætar. Að mati ráðuneytisins snýr úrlausnarefni það sem hér er til staðar einkum að því:
1. hvort rétt hafi verið staðið að auglýsingu starfanna og
2. hvort málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar þegar ákveðið var að láta kjörsvið í náttúrufræði og íslensku ráða úrslitum við ráðningar og
3. hvort gætt hafi verið að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við undirbúning hinna kærðu ákvarðana.
Mun athugun ráðuneytisins því fyrst og fremst lúta að framan greindum atriðum.
2. Í upphafi þykir þó rétt að mati ráðuneytisins að víkja stuttlega með almennum hætti að þeim lagagrundvelli sem grunnskólar starfa samkvæmt og hvernig haga beri ákvarðanatöku þeim að lútandi.
Um grunnskóla er fjallað í lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Þar segir meðal annars í 1. mgr. 5. gr. að rekstur almennra grunnskóla sé á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Sveitarstjórn skal koma á samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.
Í 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að í hverju sveitarfélagi skuli vera skólanefnd sem í umboði sveitarstjórnar fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunni að fela henni. Nánar er kveðið á um meginhlutverk skólanefndar í 2. mgr. 6. gr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skal svo vera skólastjóri við grunnskóla sem sé m.a. forstöðumaður grunnskóla, stjórni honum, veiti faglega forustu og beri ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.
Í 1. mgr. 11. gr. kemur svo fram að um ráðningu skólastjóra og starfsfólk grunnskóla fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eftir því sem við á. Jafnframt er vikið að ráðningum starfsfólks sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 en þar segir í 1. mgr. 56. gr. að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn frá starfi. Í 2. mgr. 56. gr. segir svo að um ráðningar annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga er svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum.
Í bæjarmálasamþykkt (samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar) frá 19. janúar 2009 kemur fram í 68. gr. að fjölskylduráð fari með umsjón og eftirlit með málum sem heyra undir framkvæmd og eftirlit þeirra laga sem nefnd eru í greininni og reglugerða byggðum á þeim, eins og þau eru á hverjum tíma og að því marki sem lögin setja skyldur á herðar sveitarfélaga. Eru lög um grunnskóla nr. 91/2008 á meðal þeirra laga sem heyra undir fjölskylduráð skv. ákvæðinu. Þar segir jafnframt að bæjarstjórn skuli setja fjölskylduráði erindisbréf. Er í gildi slíkt erindisbréf frá 1. júlí 2009 og kemur þar m.a. fram að ráðið fari með framkvæmd og eftirlit laga um grunnskóla í umboði bæjarstjórnar, sbr. 4. gr. erindisbréfsins. Undir fjölskylduráði starfar svo fjölskyldustofa en hún annast umsjón og eftirlit með skólamálum kaupstaðarins. Skólastjórar bera hins vegar faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfi grunnskólanna.
Í 78. gr. bæjarmálasamþykktar Akraneskaupstaðar er svo kveðið á um ráðningar starfsmanna sveitarfélagsins. Þar kemur m.a. fram að bæjarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá bæjarfélaginu og í aðrar nánar tilgreindar stöður, þ.m.t. stöðu skólastjóra. Framkvæmdastjóri stofu ræður deildarstjóra. Í lok ákvæðsins kemur svo fram að forstöðumenn stofnana ráði aðra starfsmenn. Skólastjóri telst forstöðumaður þess grunnskóla er hann stjórnar og er hann því réttur aðili til að ráða kennara við skólann.
Með vísan til framangreinds verður ekki annað ráðið en að stjórnkerfi Akraneskaupstaðar hvað snertir rekstur grunnskóla sé í fullu samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008 og jafnframt að þar til bær aðili hafi tekið ákvörðun um þær ráðningar sem deilt er um í máli þessu.
3. Af hálfu KF er því haldið fram að þegar hún hafi verið ráðin til starfa við Brekkubæjarskóla haustið 2009 hafi henni ekki verið sagt að um afleysingarstöðu væri að ræða. Þegar hún hafi spurst nánar fyrir um það hafi henni verið tjáð að slíkt væri einungis formsatriði og hún fengi örugglega áframhaldandi stöðu. Kennarar væru ávallt ráðnir í eitt ár til að byrja með og hún myndi ganga fyrir um stöðu veturinn á eftir. Í máli KF kemur fram að hún hafi spurt hvort hún gæti treyst slíku munnlegu loforði og hafi hún þá verið fullvissuð um það og að henni væri óhætt að segja lausri stöðu sinni við Varmárskóla. Þegar á hafi reynt hafi hins vegar ekki verið staðið við loforðið.
Þó svo að það hafi ekki beina þýðingu við úrlausn þessa máls telur ráðuneytið rétt að víkja stuttlega að þessu atriði. Í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara (hér eftir nefnur kjarasamningur grunnskólakennara) sem í gildi var frá 1. júní 2008 til og með 31. maí 2009 er í gr. 14.1 fjallað um auglýsingu starfa en þar segir m.a. að öll störf skuli auglýst til umsóknar á opinberum vettvangi. Skuli það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó sé ekki skylt að auglýsa afleysingarstörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda. Jafnvel þó svo að umræddur kjarasamningur sé ekki lengur í gildi þykir ekki óvarlegt að leggja ákvæðið til grundvallar þegar fjallað er um ráðningar grunnskólakennara enda hefur nýr samningur ekki leyst þann eldri af hólmi og verður að telja að í umræddu ákvæði felist meginregla sem gildi almennt um ráðningar opinberra starfsmanna og sveitarfélaga ef ekki er sérstaklega kveðið á um annað. Er það réttlætis- og jafnréttismál að öllum þeim er hugur leikur á tilteknu opinberu starfi sé gefinn kostur á að sækja um það.
Fram hefur komið í máli þessu að KF hafi veturinn 2009-2010 verið ráðin tímabundið í eitt ár vegna afleysinga fyrir kennara sem fengið hafði ársleyfi. Ekki verður hér tekin afstaða til þess hvort staðið hafi verið að ráðningunni með þeim hætti sem KF lýsir en ljóst er að hafi svo verið er það ekki í samræmi við framangreint ákvæði kjarasamningsins. Ennfremur verður að telja slíkt í ósamræmi við vandaða stjórnsýsluhætti enda skal að jafnaði auglýsa öll störf til umsóknar á opinberum vettvangi þar sem ótímabundnar ráðningar eru fyrirhugaðar. Skólastjórar hafa almennt ekki heimild til þess að lofa einstökum kennurum, sem ráðnir eru tímabundið til afleysinga, að þeir muni fá fasta stöðu sé skylt að auglýsa slík störf. Með slíkum loforðum færu skólastjórar út fyrir valdsvið sitt en að sama skapi getur starfsmaður ekki byggt rétt á slíku loforði.
4. Verður þá vikið að auglýsingu þeirra tveggja starfa sem um er deilt í þessu máli. Eins og fyrr segir birtist slík auglýsing m.a. í Fréttablaðinu þann 1. maí 2010. Þar segir að umsjónarkennarastöður á mið- og unglingastigi við Brekkubæjarskóla á Akranesi séu lausar til umsóknar vegna næsta skólaárs. Er svo tekið fram að nánari upplýsingar séu veittar hjá Arnbjörgu Stefánsdóttur skólastjóra og gefnar upplýsingar um netfang hennar og símanúmer. Jafnframt er bent á að unnt sé að kynna sér starfsemi skólans á heimasíðu hans. Eru svo að lokum veittar upplýsingar um umsóknarfrest og hvert skuli skila umsóknum.
Í fyrrnefndri 14.1. gr. kjarasamnings grunnskólakennara eru talin upp þau atriði sem að lágmarki skal tilgreina í starfsauglýsingu en þau eru:
1) Starfsheiti, kennslugrein/aldursstig nemenda og/eða eftir atvikum stutta starfslýsingu.
2) Starfshlutfall ef ekki er um fullt starf að ræða.
3) Menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
4) Viðkomandi kjarasamning og ef við á önnur starfskjör.
5) Hver veitir nánari upplýsingar um starfið.
6) Hvert umsókn á að berast.
7) Hvenær starfsmaður skuli hefja starf.
8) Hvort umsókn eigi að vera á sérstöku formi, t.d. rafrænu og/eða tilteknu eyðublaði, og ef svo er hvar sé hægt að nálgast það.
9) Kröfur um gögn - ef einhver eru - sem eiga að fylgja umsókn.
10) Umsóknarfrest.
Í umræddri auglýsingu kom ekki fram fjöldi þeirra starfa sem laus voru til umsóknar, hvaða kjarasamningur gilti um störfin eða önnur starfskjör. Ekki voru heldur tilteknar þær menntunar- eða hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda. Var auglýsingunni ábótavant að þessu leyti.
Þó svo að ekki hafi verið sérstaklega tiltekið í auglýsingunni hvaða menntunar- eða hæfniskröfur væru gerðar er ljóst að að lágmarki hafi verið gerð sú krafa að umsækjendur uppfylltu skilyrði laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 en þar segir í 1. mgr. 11. gr. að til þess að vera ráðinn kennari við grunnskóla skuli umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari, sbr. einnig 4. gr. og 21. gr. laganna. Telja verður að þótt umsækjendum hafi mátt vera þessar lágmarks menntunar- og hæfniskröfur ljósar sé engu að síður um annmarka að ræða á umræddri auglýsingu.
Í umsögn Akraneskaupstaðar um kæru KF segir að ekki hafi verið tilgreind sérstaklega þau atriði sem sóst hafi verið eftir frekar en almennt tíðkist í slíkum auglýsingum. Jafnframt segir þar að engu að síður hafi legið fyrir hjá skólastjóra greining á þeim atriðum og ráðist þau fyrst og fremst af þörfum nemenda. Horft hafi verið sérstaklega til þess að skólann vantaði kennara með sérþekkingu í náttúrufræðikennslu annars vegar og hins vegar til þess að staðið hafi til að efla íslenskuþekkingu. Telur ráðuneytið samkvæmt þessu ljóst að fyrir hafi legið þegar umrædd auglýsing birtist að leitast yrði við að ráða umsækjendur með sérþekkingu á þessum greinum.
Þegar hinum lögmæltu menntunar- eða hæfisskilyrðum sleppir sem skylt er að byggja á við ráðningu í starf kemur það í hlut þess sem fer með ráðningarvaldið að ákveða á hvaða sjónarmiðum skuli byggja við val milli hæfra umsækjenda, svo framarlega sem þau séu málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Þetta geta t.d. verið sjónarmið um að heppilegra sé að velja einstakling með menntun á ákveðnu sviði fremur en öðru. Liggi það fyrir að stjórnvaldið hafi áður en auglýsing er birt mótað sér skoðun um það til hvaða sjónarmiða það telur eðlilegt að líta við mat á umsóknum eða að ætlunin sé að ljá ákveðnu sjónarmiði, t.d. um mikilvægi tiltekinnar menntunar, sérstakt vægi verður að telja það í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að þetta komi fram í auglýsingu um starfið. Það gefur einnig þeim sem telja sig sérstaklega falla að þeim sjónarmiðum, tilefni til að leggja fram umsóknir ef hugur þeirra stendur til starfsins (sjá álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4279/2004 og úrskurð ráðuneytisins frá 5. maí 2009).
Að mati ráðuneytisins hefði því verið rétt að geta um það í auglýsingu um hin lausu störf umsjónarkennara að sérstaklega yrði litið til þess hvort umsækjendur hefðu þekkingu á íslensku eða náttúrufræði þegar hinum lögmæltu hæfnisskilyrðum sleppti.
Með vísan til framangreinds var auglýsingin haldin töluverðum annmörkum en að mati ráðuneytisins eru þeir þó ekki þess eðlis að slíkt leiði til þess að ákvörðun um ráðningu í störfin teljist ólögmæt enda ekki sýnt að að niðurstaða málsins hefði orðið önnur þótt þessir annmarkar hefðu ekki verið til staðar.
5. Verður þá tekið til skoðunar hvort málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar þegar ákvörðun var tekin um hinar umdeildu ráðningar.
Eins og áður er rakið kemur fram í lögum nr. 87/2008 að til þess að vera ráðinn kennari við grunnskóla skuli umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari. Ekki er hins vegar að finna í lögum nr. 87/2008 sérstök ákvæði um umsjónarkennara. Í 2. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla segir hins vegar að hver nemandi skuli hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.
Jafnframt er vikið að hlutverki umsjónarkennara í aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi þann 1. ágúst 2007. Þar segir í almenna hluta hennar, bls. 22, að fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp skuli skólastjóri velja umsjónarkennara. Hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og einnig fylgist hann náið með námi nemenda sinna og þroska og breytingum á högum og atferli nemenda sem skipt geta máli hvað varðar frammistöðu og líðan þeirra í skólanum. Hann leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar þá og ráðleggur þeim um persónuleg mál.
Í rökstuðningi skólastjóra fyrir ráðningunum tveimur kemur fram að allir umsækjendur hafi uppfyllt þær almennu menntunarkröfur sem gerðar séu til að gegna starfi umsjónarkennara. Jafnframt er ljóst að fyrir lágu upplýsingar um menntun umsækjenda, starfsreynslu og meðmæli frá fyrri yfirmönnum o.fl. sem þekktu til starfa umsækjenda. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að gert hafi verið sérstaklega upp á milli umsækjenda hvað þetta snertir.
Af hálfu KF er vísað til þessi að horft hafi verið framhjá því að hún hafi tveggja ára starfreynslu sem umsjónarkennari, sem sé meira en þeir umsækjendur sem ráðnir voru. Um þetta atriði segir í umsögn Akraneskaupstaðar að ljóst sé að KF hafi fullnægjandi menntun til að gegna starfi umsjónarkennara og hún hafi lengri starfsaldur en þeir sem ráðnir hafi verið þó að þar muni ekki miklu en ekkert þeirra hafi haft langan starfsaldur. Að mati ráðuneytisins er ekki ástæða til að gera athugasemd við það sjónarmið að starfsreynsla sé látin víkja fyrir öðrum sjónarmiðum þegar um stutta starfsreynslu er að ræða eða lítill munur er á starfsreynslu umsækjenda, svo lengi sem þau sjónarmið sem fram yfir eru tekin grundvallast á málefnalegum forsendum. Verður jafnframt að gera þá kröfu að handhafi ráðningarvalds ákveði fyrirfram þau sjónarmið sem hafa eiga aukið vægi við mat á umsóknum eftir því sem framast er unnt.
Þegar hinum lögmæltu menntunar- eða hæfisskilyrðum sleppir sem skylt er að byggja á við ráðningu í starf þá kemur það eins og fyrr segir í hlut þess sem fer með ráðningarvaldið að ákveða á hvaða sjónarmiðum skuli byggja við val milli hæfra umsækjenda. Handhafi ráðningarvalds skal þó ávallt leitast við að velja þann umsækjanda sem hæfastur verður talinn til að gegna því. Sé ekki mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum velur hann hvaða sjónarmið skulu lögð til grundvallar við mat á starfshæfni umsækjenda og hvert innbyrðis vægi þeirra sjónarmiða skuli vera. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verða þau sjónarmið þó að vera málefnaleg. Samkvæmt þessu er handhafa ráðningarvalds unnt að hafa veruleg áhrif á þau atriði sem skipta máli við mat á starfshæfni umsækjenda m.a. með tillliti til þarfa viðkomandi stofnunar eða eðlis starfsins (sjá einnig álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2701/1999).
Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að þegar allir umsækjendur höfðu verið metnir hæfir til að gegna starfi umsjónarkennara og hinum lögmæltu skilyrðum sleppti hafi ákvörðun um hverjir umsækjenda skyldu ráðnir grundvallast á menntunarlegri samsetningu þeirra kennara er fyrir voru við skólann. Þannig var það mat skólastjóra að sérhæfing á sviði náttúrufræði annars vegar og íslensku hins vegar mættu best þörfum skólans eins og á stóð og er það rökstutt nánar í rökstuðningi skólastjóra og umsögn Akraneskaupstaðar. Að mati ráðuneytisins verða þau sjónarmið að teljast málefnaleg en eins og áður segir hefði verið rétt að geta þess í auglýsingu að þau kynnu að vera ráðandi við mat á umsækjendum.
Með vísan til framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að það að byggja ákvarðanir um ráðningu á sérhæfingu í námi með vísan til þarfa skólans teljist málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig og verða hinar kærðu ráðningar því ekki lýstar ólögmætar af þeim orsökum.
6. Verður þá vikið að því hvort að gætt hafi verið að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning hinna kærðu ákvarðana en þar segir:
Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.
Af hálfu KF er því, eins og fyrr segir, haldið fram að þegar hafi verið búið að ráðstafa stöðunum tveimur áður en þær voru auglýstar. Hefur því verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins og fullyrt að ákvarðanir um ráðningar í störfin hafi alfarið ráðist af hæfni umsækjenda. Eins og mál þetta er vaxið telur ráðuneytið ekki unnt að fullyrða að störfunum hafi þegar verið ráðstafað er þau voru auglýst. Á hinn bóginn telur ráðuneytið ljóst af öllum gögnum málsins að áður en störfin voru auglýst hafi legið fyrir af hálfu skólayfirvalda Brekkubæjarskóla að KF yrði ekki á meðal þeirra sem kæmu til greina sem kennari við skólann komandi skólaár og að hún hafi þannig verið útilokuð sem umsækjandi jafnvel þó að ekki hafi legið fyrir á þeirri stundu hvaða umsóknir bærust. Þannig segir t.a.m. í bréfi Akraneskaupstaðar til ráðuneytisins, dags. 10. mars 2011:
Það er rétt sem fram kemur í bréfi kæranda að skólastjóri upplýsti hann þann 7. apríl 2010 um að staða hans yrðir auglýst og að hún hefði fengið fyrirspurnir um störf við Brekkubæjarskóla frá aðilum sem hún teldi áhugaverða. Hún upplýsti kæranda jafnframt um að hann væri ekki inn í hennar áætlunum um kennara við skólann næsta skólaár. Skólastjóri vildi með þessum upplýsingum gefa kæranda gott svigrúm til að leita sér að starfi annars staðar.
Meginreglan um skyldu stjórnvalda til að auglýsa lausar stöður til umsóknar byggist annars vegar á jafnræðissjónarmiðum um að veita beri öllum þeim sem áhuga kunna að hafa tækifæri til að sækja um opinbera stöðu. Með opinberri auglýsingu eru áhugasömum aðilum þannig almennt veittir jafnir möguleikar á að leggja inn umsókn, uppfylli þeir á annað borð þau almennu hæfisskilyrði sem gilda um stöðuna. Hins vegar býr að baki reglunni það sjónarmið að með slíku fyrirkomulagi sé betur tryggt en ella að kostur sé á sem flestum færum og hæfum umsækjendum þegar ráðið er í starf (sjá einnig álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4866/2006).
Til þess að slíkt fyrirkomulag nái markmiði sínu verður að gera þá kröfu að þegar valið er úr umsækjendum sé það gert á málefnalegum forsendum, eftir að allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir og heildstæður samanburður umsókna hefur farið fram. Ef stjórnvald hefur þegar ákveðið að útiloka tiltekinn eða tiltekna umsækjendur eða aðila þegar auglýsing um laus störf birtist, eins og ráðuneytið telur sýnt að átt hafi sér stað í því máli sem hér er til umfjöllunar, er farið framhjá þeim sjónarmiðum sem meginreglan um auglýsingaskyldu byggist á og geta slíkar ráðningar ekki talist grundvallast á málefnalegum forsendum og eru í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að hinar kærðu ákvarðanir um ráðningar í störf tveggja umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla séu ólögmætar. Með tilliti til hagsmuna þeirra er störfin fengu verða þær þó ekki felldar úr gildi.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist nokkuð og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Fallist er á kröfu Kristínar Frímannsdóttur, kt. 090669-4009, um að hinar kærðu ákvarðanir um ráðningu í störf tveggja umsjónarkennara við Brekkubæjarskóla á Akranesi séu lýstar ólögmætar.
Bryndís Helgadóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson