Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 2/2024
Mánudaginn 10. júní 2024 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 18. janúar 2024, kærði […], lögmaður, fyrir hönd Lisa Spa ehf., kt. 610223-2570, og […], sem er ríkisborgari Víetnam, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lisa Spa ehf.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lisa Spa ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 8. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu þeir ákvörðunina til ráðuneytisins með tölvubréfi, dags. 18. janúar 2024.
Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dags. 23. janúar 2024, óskaði ráðuneytið meðal annars eftir upplýsingum um ástæður þess að umrætt erindi hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 7. febrúar 2024 til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.
Í svarbréfi kærenda, dags. 11. febrúar 2024, hafna kærendur því að umrædd kæra hafi borist að liðnum fjögurra vikna kærufresti. Benda kærendur á að kærandi […] sé af erlendum uppruna og skilji enga íslensku auk þess sem hún geti ekki lesið ensku. Þá hafi kærandi […] enga þekkingu af íslensku réttarkerfi og hafi auk þess ekki notið aðstoðar lögmanns við málsmeðferð umsóknar sinnar hjá Vinnumálastofnun um tímabundið atvinnuleyfi.
Enn fremur benda kærendur á að í umræddu máli hafi hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar eingöngu verið send atvinnurekanda en ekki kæranda […]. Hafi hin kærða ákvörðun þannig aldrei verið birt kæranda […]og hafi kærandi […] því ekki séð rökstuðning Vinnumálastofnunar við móttöku tilkynningar um hina kærðu ákvörðun. Þess í stað hafi kærandi […] eingöngu fengið einblöðung á ensku sem hafi innihaldið einfaldaða samantekt af ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hafi verið synjað.
Auk þess vekur kærandi […] sérstaka athygli á að í tilkynningu Vinnumálastofnunar um umrædda ákvörðun sé hvergi að finna leiðbeiningar stofnunarinnar um rétt kærenda til að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Telur kærandi […] því að birting og efni fyrrnefndrar tilkynningar hafi ekki uppfyllt kröfur 20. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 5. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sem og 31. gr. sömu laga. Þegar af þeirri ástæðu hafi tilkynning Vinnumálastofnunar um umrædda ákvörðun að mati kærenda ekki réttaráhrif við móttöku, enda kæranda […] ekki leiðbeint um rétt hennar til að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stjórnvaldsins en aðgangur að rökstuðningi stjórnvaldsins er að mati kærenda forsenda þess að hægt sé að taka ákvörðun um kærumeðferð málsins. Að mati kæranda […] hafi slíkt aukið vægi í málum er varði atvinnuréttindi.
Þá telja kærendur veigamikil rök fyrir því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar og vísa meðal annars til þess að um sé að ræða mál er varðar atvinnuréttindi kæranda […] og hagsmunir því miklir að þeirra mati og vísa kærendur í því sambandi til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Loks telja kærendur að ef miða eigi kærufest við móttöku fyrrnefnds einblöðungs Vinnumálastofnunar, þvert gegn væntingum kærenda, verði að leggja til grundvallar að umræddur einblöðungur sé að mati kærenda haldinn slíkum ágalla að taka eigi kæruna til efnismeðferðar. Í framangreindu felist að ekki sé rétt að mati kærenda að miða upphaf kærufrests við sendingu umræddrar tilkynningar um ákvörðun Vinnumálastofnunar heldur beri að miða við þann tíma þegar kærandi […] gat kynnt sér forsendur hinnar kærðu ákvörðunar, sem hafi verið nokkru síðar.
Með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2024, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá stofnuninni um samskipti stofnunarinnar við kærendur í tengslum við mál þetta.
Í svari Vinnumálastofnunar, dags. 23. febrúar 2024, kemur meðal annars fram að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 19. desember 2023. Jafnframt kemur fram að fyrrnefnd ákvörðun hafi verið tilkynnt skráðum umboðsmanni kærenda með tölvubréfi sama dag.
II. Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.
Fram kemur í gögnum málsins að ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á veitingu umrædds atvinnuleyfis hafi verið send skráðum umboðsmanni kærenda með tölvubréfi, dags. 19. desember 2023. Að mati ráðuneytisins verður því ekki annað séð af gögnum málsins en að upplýsingar um ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi borist kærendum með hefðbundum og sannanlegum hætti strax í kjölfar þess að ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir.
Í því sambandi bendir ráðuneytið á að skv. 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, telst stjórnvaldsákvörðun á rafrænu formi birt aðila þegar hann á þess kost að kynna sér efni ákvörðunarinnar og ber aðili máls ábyrgð á því að vél- og hugbúnaður hans fullnægi þeim kröfum sem til búnaðarins eru gerðar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna, og nauðsynlegar eru svo að hann geti kynnt sér efni stjórnvaldsákvörðunar eða annarra gagna sem stjórnvald sendir honum á rafrænu formi.
Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að kærufrestur í máli þessu hafi byrjað að líða þann 19. desember 2023 og að hann hafi runnið út þann 17. janúar 2024 eða fjórum vikum frá því að tilkynning barst til skráðs umboðsmanns kærenda um umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. einnig 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kveðið er á um útreikning kærufrests. Var lögbundinn kærufrestur því að mati ráðuneytisins runninn út í máli þessu áður en ráðuneytinu barst umrætt erindi kærenda, dags. 18. janúar 2024.
Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Að mati ráðuneytisins verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að rökstuðningur Vinnumálastofnunar fyrir umræddri ákvörðun komi fram í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2023. Enn fremur liggur að mati ráðuneytisins fyrir í gögnum málsins að með umræddri ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi fylgt upplýsingar um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt þannig að unnt sé að óska eftir því að málið verði tekið til meðferðar hjá stofnuninni á ný á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem kærendum hafi verið leiðbeint hvað varðar kæruleið til ráðuneytisins.
Í ljósi framangreinds lítur ráðuneytið svo á að hin kærða ákvörðun hafi verið birt og rökstudd með fullnægjandi hætti af hálfu Vinnumálastofnunar og að kærendur hafi ekki sýnt fram á að afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, séu fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið að mati ráðuneytisins en að kærendur hafi getað kært umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins innan lögbundins kærufrests hafi þeir talið slíka ráðstöfun þjóna hagsmunum sínum.
Þá verður að mati ráðuneytisins ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum í málinu að hagsmunir kærenda séu annars eðlis en almennt á við í sambærilegum málum og því verður að mati ráðuneytisins ekki talið að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til alls framangreinds er stjórnsýslukæru kærenda, dags. 18. janúar 2024, vísað frá ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð.
Stjórnsýslukæru, Lisa Spa ehf. og […], dags. 18. janúar 2024, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lisa Spa ehf., er vísað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.