Úrskurður félagsmálaráðuneytisins 7/2020
Miðvikudaginn 21. október 2020 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 29. janúar 2019, kærðu Síld og fiskur ehf., kt. 590298-2399, og […], sem er ríkisborgari Srí Lanka, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Síld og fiski ehf.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er ríkisborgari Srí Lanka, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Síld og fiski ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.
Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins með bréfi, dags. 29. janúar 2019. Í erindi kærenda kemur fram að viðkomandi útlendingur hafi dvalið hér á landi frá árinu 2012 er hann hafi komið til landsins á grundvelli dvalarleyfis vegna vistráðningar (Au pair).Frá árinu 2014 hafi hann síðan starfað hér á landi við umönnunarstörf bæði hjá fjölskyldu og einnig hjá Reykjavíkurborg.
Í erindi kærenda kemur fram að hægt sé að mati kærenda að færa rök fyrir því að ráða hafi mátt einstakling í umrætt starf innan Evrópska efnahagssvæðisins en að viðkomandi útlendingur hafi þó verið ráðinn í starfið. Enn fremur kemur fram að viðkomandi útlendingur hafi ákveðið að leita á önnur mið hvað varðar vinnu og þegar hann hafi hafið störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi hann haft samband við Útlendingastofnun þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar að honum væri óhætt að hefja þar störf. Það hafi svo ekki reynst réttar upplýsingar og hann þá hætt störfum um leið og honum hafi verið gert ljóst að atvinnuleyfi væri ekki fyrir hendi.
Erindi kærenda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. febrúar 2019. Var Vinnumálastofnun veittur frestur til 21. febrúar 2019 til að veita ráðuneytinu umbeðna umsögn. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, var bréf ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2019, ítrekað. Með bréfi, dags. 6. mars 2019, voru fyrri bréf ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar og 26. febrúar 2019, ítrekuð auk þess sem ráðuneytið óskaði eftir umbeðinni umsögn stofnunarinnar án ástæðulausrar tafar.
Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 11. mars 2019, ítrekar stofnunin afstöðu sína sem fram kemur í synjunarbréfi stofnunarinnar, dags. 14. janúar 2019, meðal annars þess efnis að það falli í hlut stofnunarinnar að meta hvort umsókn um útgáfu atvinnuleyfis uppfylli skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Það hafi verið mat stofnunarinnar að leit að starfsmanni innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðisins yrði ekki árangurslaus og að ekki væru til staðar sérstakar aðstæður sem réttlættu að vikið yrði frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Þá vísar Vinnumálastofnun til þess í umsögn sinni að meðaltal atvinnuleysis innan Evrópska efnahagssvæðisins hafi verið 6,7% í nóvember 2018 og að meðaltal skráðs atvinnuleysis hér landi hafi verið 2,7% í desember 2018. Fram kemur að skráð atvinnuleysi hér á landi hafi ekki mælst hærra frá því í febrúar 2018. Enn fremur kemur fram að fyrir hafi legið spá Hagstofunnar um atvinnuhorfur hér á landi sem hafi gert ráð fyrir að atvinnuleysi yrði á bilinu 2,9-3,8% á árunum 2018-2020 en fram kemur í umsögninni að sú spá Hagstofunnar hafi verið í takt við spá Vinnumálastofnunar á þeim tíma um horfur á vinnumarkaði.
Í umsögn sinni tekur Vinnumálastofnun enn fremur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar, með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hafi legið fyrir, að um hafi verið að ræða starf sem ófaglærðum starfsmanni hafi verið ætlað að sinna þó að um starf lagerstjóra hafi verið að ræða. Eðli starfsins hafi því að mati stofnunarinnar verið slíkt að ekki hafi verið óeðlilegt að gera kröfur um að hlutaðeigandi atvinnurekandi myndi þjálfa einstakling til að gegna því. Fram hafi komið í samskiptum hlutaðeigandi atvinnurekanda og Vinnumálastofnunar að þjálfun lagerstjóra tæki um tvo til þrjá mánuði að mati hlutaðeigandi atvinnurekanda. Því hafi að mati stofnunarinnar ekki verið um að ræða starf sem krefðist sérstakrar sérþekkingar. Þá hafi engin sérstök sjónarmið verið rakin í umræddri umsókn um atvinnuleyfi sem bent hafi til þess að gerðar væru kröfur til þess sem kæmi til með að gegna starfinu umfram þær kröfur sem almennt séu gerðar til ófaglærðra starfsmanna að því undanskildu að lagerstjóri þyrfti að hafa réttindi til að stjórna lyftara.
Enn fremur kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að viðkomandi útlendingur hafi áður fengið útgefin tímabundin atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli skorts á starfsfólki í því skyni að starfa hjá öðrum atvinnurekanda við umönnun fatlaðs einstaklings. Einnig kemur fram að viðkomandi útlendingur hafi starfað án tilskilins atvinnuleyfis hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda og hafi kærendur þannig að mati stofnunarinnar gerst brotlegir við 2. og 4. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Fyrir liggi að viðkomandi útlendingur hafi sjö sinnum sótt um tímabundin atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun. Þá hafi hlutaðeigandi atvinnurekandi alls 64 sinnum sótt um tímabundin atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd tiltekinna útlendinga. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kærendum því mátt vera ljóst hvaða takmarkanir gilda um atvinnuþátttöku ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.
Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur að lokum fram að þegar litið hafi verið til aðstæðna á vinnumarkaði og gagna málsins í heild hafi það verið mat stofnunarinnar að hægt hafi verið að manna umrætt starf með því að ráða einstakling til starfa sem þegar hefði ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Að öllu framansögðu taldi stofnunin því að rétt hafi verið staðið að ákvörðun hennar um að synja um útgáfu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa viðkomandi útlendingi.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. mars 2019, var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum sínum við umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 11. mars 2019. Auk þess var í bréfi ráðuneytisins til hlutaðeigandi atvinnurekanda óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og þá með hvaða hætti leitað hafi verið eftir starfsmanni til að gegna umræddu starfi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði en fram kæmi í fyrirliggjandi gögnum málsins að viðkomandi útlendingur hafi hafið störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda áður en sótt hafi verið um tímabundið atvinnuleyfi honum til handa. Hefði slík leit ekki farið fram var jafnframt óskað eftir upplýsingum um ástæður þess.
Hinn 2. apríl 2019 bárust ráðuneytinu athugasemdir hlutaðeigandi atvinnurekanda við umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 11. mars 2019, þar sem atvinnurekandinn ítrekar áður framkomin sjónarmið sín í málinu. Þann 4. apríl 2019 bárust ráðuneytinu jafnframt athugasemdir frá viðkomandi útlendingi við fyrrnefnda umsögn Vinnumálastofnunar þar sem útlendingurinn ítrekar meðal annars áður framkomin sjónarmið sín í málinu auk þess sem fram kemur að hann hafi ákveðið að skipta um vinnu í kjölfar meintra rangra upplýsinga frá Útlendingastofnun um að það myndi ekki hafa áhrif á atvinnuleyfi hans. Tekur viðkomandi útlendingur enn fremur fram að hann hefði aldrei hugleitt að hefja störf á nýjum vinnustað hefði hann vitað að með því myndi hann missa atvinnuleyfi sitt hér á landi.
II. Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.
Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga á innlendum vinnumarkaði eru veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra.
Samkvæmt 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi þegar starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu eru meðal annars að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laganna séu uppfyllt. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laganna er það skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis að starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja eða aðrar sérstakar ástæður mæli með veitingu atvinnuleyfis. Þá er tekið fram að áður en atvinnuleyfi er veitt beri atvinnurekanda að hafa leitað eftir starfsfólki með aðstoð Vinnumálastofnunar nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.
Í athugasemdum við 7. gr. a frumvarps þess er varð að gildandi 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1997, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, kemur fram að ákvæðið fjalli um tímabundið atvinnuleyfi sem ætlað er að mæta tímabundnum sveiflum í íslensku atvinnulífi. Gert sé „ráð fyrir að einungis reyni á ákvæði þetta við sérstakar aðstæður enda mikil áhersla lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áfram er því gert ráð fyrir því að atvinnurekandi þurfi að færa sérstök rök fyrir nauðsyn þess að ráða til sín erlent starfsfólk frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins enda verði höfð hliðsjón af aðstæðum á innlendum vinnumarkaði við veitingu atvinnuleyfa sem og hvort vinnuafl fáist frá aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-ríkjum eða Færeyjum. Er gert ráð fyrir að ríkar kröfur verði gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði en mat á þörf eftir vinnuafli verður áfram á ábyrgð Vinnumálastofnunar.“ Er jafnframt vísað til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins er varð að gildandi 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Þar er tekið fram að atvinnurekandi verði að gera grein fyrir þeim tilraunum sem hann hafi gert til að ráða fólk sem þegar hafi aðgengi að innlendum vinnumarkaði auk þess sem áhersla er lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með aðstoð Vinnumálastofnunar með milligöngu EURES,vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, áður en leitað er út fyrir svæðið eftir starfsfólki. Þá segir að það falli „í hlut Vinnumálastofnunar að kanna sjálfstætt áður en atvinnuleyfi er veitt hvert atvinnuástandið innan lands er á hverjum tíma og hvort útséð er um að vinnuafl fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, frá EFTA-ríkjum eða Færeyjum, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðis þessa, enda hlutverk stofnunarinnar að fylgjast með atvinnuástandi í landinu í því skyni að koma í veg fyrir atvinnuleysi eins og frekast er unnt.“
Af efni ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, má því ráða að mat Vinnumálastofnunar á því hvort skilyrði ákvæðisins fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa séu uppfyllt skuli aðallega byggjast á aðstæðum á innlendum vinnumarkaði hverju sinni sem og hvort starfsfólk fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja. Þar á meðal er átt við hið lögbundna hlutverk Vinnumálastofnunar að meta hvort leit atvinnurekanda að starfsmanni, sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, sé fyrirsjáanlega árangurslaus og þar með ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis. Beiðni um aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði er því lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis enda telji stofnunin leitina ekki fyrirsjáanlega árangurslausa.
Við mat á því hvort skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, eru uppfyllt ber Vinnumálastofnun jafnframt að líta til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig 2. gr. sömu laga. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. einnig lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum. Ákvæði 28.-30. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið fjalla sérstaklega um frjálsa för launafólks og eru ákvæðin nánar útfærð í gerðum um þetta efni sem hafa verið felldar undir V. viðauka við samninginn. Samkvæmt reglugerð nr. 492/2011/ESB, um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem tekið hefur gildi hér á landi, sbr. lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sérhver ríkisborgari annars aðildarríkis njóta þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. Er þar jafnframt kveðið á um náið samstarf vinnumiðlana aðildarríkjanna um miðlun lausra starfa innan svæðisins. Það telst því felast í skuldbindingum íslenskra stjórnvalda samkvæmt framangreindum samningi að þau veiti launamönnum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sama aðgang og íslenskir ríkisborgarar hafa að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði og þar með forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að þeim störfum.
Það er því jafnframt lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, að atvinnurekandi hafi áður leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með milligöngu EURES,vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, eftir að leit hans innanlands hefur ekki skilað árangri. Jafnframt eru gerðar ríkar kröfur til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði.
Í máli því sem hér um ræðir var sótt um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga vegna skorts á starfsfólki, sbr. umsóknareyðublað þess efnis sem liggur fyrir í gögnum málsins. Eftir að hafa lagt mat á aðstæður á innlendum vinnumarkaði taldi Vinnumálastofnun að meginregla ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, ætti við í máli þessu og áður en atvinnuleyfi yrði veitt þyrfti hlutaðeigandi atvinnurekandi því að hafa fullreynt að ráða einstakling til starfa sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði. Var það mat Vinnumálastofnunar að leit að starfsmanni innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðisins yrði ekki árangurslaus og að ekki væru til staðar sérstakar aðstæður sem réttlættu að vikið yrði frá fyrrgreindri meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Samkvæmt gögnum málsins var það því mat Vinnumálastofnunar að unnt hafi verið að ráða einstakling til að gegna umræddu starfi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði og að ekkert hafi komið fram í samskiptum stofnunarinnar við hlutaðeigandi atvinnurekanda sem hafi haft slíkt vægi að líta bæri fram hjá hinum lögbundnu sjónarmiðum um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði.
Það fellur ávallt í hlut viðkomandi atvinnurekanda að auglýsa það starf sem um ræðir hverju sinni laust til umsóknar þannig að atvinnuleitendur á innlendum vinnumarkaði og sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins fái tækifæri til að sækja um starfið. Af gögnum málsins má ráða að það starf sem hér um ræðir hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar með framangreindum hætti. Ríkar kröfur eru gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði með aðstoð Vinnumálastofnunar áður en skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins eru talin uppfyllt enda þótt ætla verði atvinnurekendum ákveðið svigrúm varðandi þær kröfur sem gerðar eru til starfsmanna þeirra.
Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð en að mat Vinnumálastofnunar, þess efnis að í ljósi forgangsréttar ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði hafi hlutaðeigandi atvinnurekanda borið að leita eftir starfsfólki innan svæðisins, meðal annars með milligöngu EURES,vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Á það ekki síst við í ljósi eðlis þess starfs sem hér um ræðir sem og að í desember 2018 var skráð atvinnuleysi hér á landi 2,7%, sem samsvarar því að tæplega 5.000 einstaklingar hafi verið skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á sama tíma, sbr. skýrslu stofnunarinnar um vinnumarkaðinn á Íslandi fyrir desember 2018. Enn fremur liggja fyrir upplýsingar um að atvinnuleysi á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins hafi verið um 6,7% á sama tíma. Þá hefur við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga verið lögð áhersla á mikilvægi þess að viðhaldið sé jafnvægi milli framboðs á starfsfólki og eftirspurnar eftir því á innlendum vinnumarkaði. Er því jafnframt þýðingarmikið að horfa til þeirra langtímaáhrifa sem útgáfa tímabundinna atvinnuleyfa getur haft á jafnvægi á vinnumarkaði hvað varðar framboð og eftirspurn eftir starfsfólki.
Líkt og rakið hefur verið fellur það ávallt í hlut atvinnurekenda að leita fyrst eftir starfsfólki á innlendum vinnumarkaði og sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins áður en atvinnuleyfi er veitt á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga vegna skorts á starfsfólki. Ríkar kröfur eru því gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar, sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, þannig að skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna skorts á starfsfólki séu talin uppfyllt.
Af gögnum málsins verður ekki séð að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi fullreynt með aðstoð Vinnumálastofnunar að ráða einstakling til að gegna því starfi sem hér um ræðir sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði sem og að sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins, svo sem með því að auglýsa starfið laust til umsóknar, meðal annars með milligöngu Vinnumálastofnunar og í gegnum EURES,vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, þannig að atvinnuleitendur á framangreindum svæðum hafi haft tækifæri til að sækja um starfið. Þá hefur hlutaðeigandi atvinnurekandi ekki upplýst um ástæður þess að slík leit að starfsmanni hafi ekki farið fram þrátt fyrir að ráðuneytið hafi með bréfi til atvinnurekandans, dags. 20. mars 2019, óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og þá með hvaða hætti leitað hafi verið eftir starfsmanni til að gegna umræddu starfi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði.
Þegar litið er til aðstæðna á innlendum vinnumarkaði, skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem og gagna málsins í heild er það mat ráðuneytisins að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi ekki fullreynt með aðstoð Vinnumálastofnunar að ráða einstakling í starfið sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, svo sem með því að auglýsa starfið laust til umsóknar, meðal annars með milligöngu EURES,vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, um veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. janúar 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er ríkisborgari Srí Lanka, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Síld og fiski ehf., skal standa.