Úrskurður félagsmálaráðuneytisins nr. 031/2018
Miðvikudaginn 31. október 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 5. desember 2017, kærði […] hrl., fyrir hönd Stapa Lífeyrissjóðs, kt. 601092-2559, synjun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 2. október 2017, um ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur G&M Sp. z.o.o., útibús á Íslandi, kt. 580216-0130, um greiðslu vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda á tímabilinu júní til október 2016.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa um ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur G&M Sp. z.o.o., útibús á Íslandi, án undangengis gjaldþrots. Umrædd ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa var tekin á fundi 21. september 2017 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 2. október 2017. Stjórnin synjaði kröfu kæranda á þeirri forsendu að hvorki hefði verið fullreynt af hálfu kröfuhafa að koma fram gjaldþrotaskiptum á búi vinnuveitanda né sýnt fram á að kostnaður kröfuhafa af því að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi vinnuveitanda í Póllandi yrði óeðlilega mikill, sbr. 7. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
Þessari ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 5. desember 2017. Í erindi kæranda til ráðuneytisins kemur fram að G&M Sp. z.o.o. er útibú samnefnds pólsks hlutafélags að heimili í Varsjá, Póllandi. Félagið var með starfsemi hér á landi í útibúi og skilaði ekki greiðslum til lífeyrissjóðs fyrir starfsmenn sína. Þannig hafi kæranda ekki borist greiðslur iðgjalda frá G&M Sp. z.o.o., útibúi á Íslandi, á tímabilinu júní til október 2016.
Fram kemur í gögnum frá kæranda að ekki hafi verið starfstöð á skráðu lögheimili útibúsins hér á landi og hafði aldrei verið. Þar hafi verið til húsa fyrirtækið Proteus ehf. sem útbjó og sendi skilagreinar fyrir útibúið. Leitaði kærandi til Vinnumálastofnunar til að fá uppgefinn sérstakan fulltrúa útibúsins í samræmi við 10. gr. laga nr. 45/2007, um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda. Sá aðili, […], hafi aldrei haft lögheimili hér á landi en dvalarstaður hans var á Þeistareykjum. Þá hafi útibústjórinn, […], verið skráður utangarðs og aldrei verið búsettur hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.
Í gögnum sem fylgdu erindi kæranda kemur fram að kærandi hafi sent innheimtuviðvörun, dags. 14. nóvember 2016, til útbúsins sem svarað var með bréfi, dags. 1. desember 2016, þar sem tekið var fram að vegna vanefnda greiðslna yfirverktaka þeirra, LNS Sögu ehf., hafi þeir ekki getað greitt kröfuna. Krafan var send í innheimtu hjá Lögheimtunni sem sendi innheimtubréf, dags. 6. mars. 2017, til útbúsins hér á landi. Því innheimtubréfi hafi ekki verið svarað.
Enn fremur kemur fram að innheimtubréf hafi verið send í tölvupósti á fyrirtækið, lögmann þess, útibústjóra og fulltrúa þess án þess að viðbrögð yrðu við þeim bréfum. Þá bárust engin viðbrögð við greiðsluáskorun, sem birt var 31. mars 2017, fyrir starfsmanni Proteus ehf. Tekið er fram í erindi kæranda að sú greiðsluáskorun hafi ekki áhrif að lögum.
Árangurslaust fjárnám var gert 17. júlí 2017 hjá útibúinu að beiðni embættis Tollstjóra. Kærandi aflaði í kjölfarið upplýsinga um greiðsluhæfi móðurfélagsins frá fyrirtækinu Creditinfo. Samkvæmt skýrslu Creditinfo voru 85,52% líkur á greiðsluþroti fyrirtækisins (e. insolvency) og byggir það á upplýsingum um frystingu eigna fyrirtækisins samkvæmt dómstóli.
Með framlagningu þessara gagna telur kærandi sig hafa skýrt af hverju skilyrði 7. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðsjóð launa, með síðari breytingum, um ábyrgð án gjaldþrotaskipa séu uppfyllt. Málaferli í Póllandi, sem engan veginn sé fyrirséð hvert leiði, séu augljóslega kostnaðarsöm fyrir aðra sjóðfélaga og alls ekki fyrirséð að þau skili niðurstöðu sem leiði til ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa, meðal annars vegna tímafresta, eða greiðslu frá móðurfélaginu. Þá er afstaða kæranda að kostnaður við slíka innheimtu sé ekki innan þess ramma sem sjóðnum sé settur. Því byggi kærandi meðal annars á því að það sé í samræmi við tilgang laganna um Ábyrgðasjóð launa og skyldur Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því launafólki sem vann hjá útibúi G&M Sp. z.o.o. sé tryggð inngreiðsla á frádregnu framlagi og lögbundnu mótframlagi til lífeyrissjóðs.
Þá kemur fram hjá kæranda að fallist sjóðurinn ekki á að greiða vangoldin iðgjöld án undangengins gjaldþrots á búi vinnuveitanda sé þess farið á leit við sjóðinn að hann ábyrgist kostnað við að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi móðurfélagsins í Póllandi.
Erindi kæranda var sent stjórn Ábyrgðasjóðs launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. desember 2017, og var frestur gefinn til 4. janúar 2018. Með bréfi, dags. 18. desember 2017, óskaði Ábyrgðasjóður launa eftir viðbótarfresti til 20. janúar 2018 til að skila inn umsögn vegna kærunnar. Með bréfi, dags. 22. desember 2017, varð ráðuneytið við ósk Ábyrgðasjóðs launa um viðbótarfrest.
Umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. janúar 2018. Þar kemur fram að afstaða sjóðsins hafi verið sú að synja bæri kröfu kæranda með vísan til þess að hvorki hafi verið sýnt fram á af hverju kærandi hefði ekki farið fram á gjaldþrotaskipti á búi móðurfélags G&M Sp. z.o.o. í Póllandi né hver kostnaður yrði af því að ná fram gjaldþrotaskipum á félaginu í Póllandi. Enn fremur vísaði stjórn sjóðsins til þess að fram kæmi í erindi kæranda til ráðuneytisins að hugsanlega kunni móðurfélagið í Póllandi að standa skil á þeim greiðslum sem kröfuhafi á heimtingu á og af því muni ekki koma til ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa á kröfunni. Þá taldi stjórn sjóðsins að sjóðnum væri ekki heimilt að ábyrgjast greiðslu kostnaðar við að ná fram gjaldþroti á búi móðurfélagsins í Póllandi samkvæmt lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, og reglna nr. 644/2003, um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins.
Með bréfi, dags. 25. janúar 2018, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 9. febrúar 2018. Svar barst frá lögmanni kæranda með tölvubréfi þann 9. febrúar 2018 þar sem sjónarmið kæranda voru ítrekuð.
II. Niðurstaða.
Ákvarðanir stjórnar Ábyrgðasjóðs launa eru kæranlegar til velferðarráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda vegna vangoldinna lífeyrisiðgjalda án þess að bú vinnuveitanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, segir að starfrækja skuli Ábyrgðasjóðs launa sem ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur þær sem njóta ábyrgðar sjóðsins eru síðan nánar skilgreindar í a-e liðum 5. gr. laganna.
Í þessu máli er ekki um að ræða kröfu í gjaldþrota bú þar sem G&M Sp. z.o.o. hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Því kemur undanþágukvæði 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa til athugunar. Samkvæmt því ákvæði er stjórn Ábyrgðasjóðs launa heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur skv. 5. gr. laganna án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, enda liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum á búi hans hafi ekki borið árangur eða ef kostnaður af að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðsstjórnar óeðlilega mikill.
Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að 7. gr. laganna er tekið fram að ákvæðið sé að efni til samhljóða 4. mgr. 5. gr. þágildandi laga nr. 53/1993, um sama efni. Ákvæðið virðist vera nýmæli í lögunum frá 1993 án þess að fjallað sé nánar um efni þess í athugasemdum við frumvarp það er varð að þeim lögum. Þó er tekið fram í athugasemdum við frumvarpið er varð að gildandi lögum að „[þ]ar sem um heimildarákvæði er að ræða ber kröfuhafi sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði fyrir beitingu þessarar undanþágu sé fyrir hendi.“
Ágreiningslaust er í máli þessu að útibú G&M Sp. z.o.o. hér á landi hafi sannanlega hætt starfsemi sinni. Í gögnum málsins er rakin árangurslaus innheimtuferill kröfunnar gagnvart útibúi félagsins og því ljóst að tilraunir hafa verið gerðar til að ná fram gjaldþrotaskiptum á útibúi þess hér á landi. Jafnframt liggur fyrir að um er að ræða útibú erlends félags en samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, er það skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum á útibúi erlends félags hér á landi að bú hins erlenda félags hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta áður en útibú þess hér á landi geti verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það er því mat ráðuneytisins að í tilvikum erlendra útibúa hér á landi verði að gera þá kröfu að kröfuhafar beini kröfum sínum að móðurfélögum þeirra áður en leitað er til Ábyrgðarsjóðs launa um ábyrgð á kröfum þeirra.
Í máli þessu virðist sem að kærandi hafi ekki leitast við að beina kröfum sínum að móðurfélaginu í Póllandi, hvorki með bréfaskriftum né með aðstoð þarlendra innheimtumanna, en samkvæmt fyrirtækjaskrá í Póllandi er félagið enn starfandi og engar upplýsingar liggja fyrir um gjaldþrotaskiptameðferð þar í landi. Þar af leiðandi er það mat ráðuneytisins að engar tilraunir hafi verið gerðar til að knýja á um efndir umræddrar kröfu hjá móðurfélaginu og þar með verður ekki litið svo á að það sé fullreynt hvort félagið hafi burði til að greiða kröfuna án þess að til gjaldþrots þess þurfi að koma. Úttekt fyrirtækis hér á landi um ætlaða fjárhagslega stöðu félagsins í Póllandi koma að mati ráðuneytisins ekki í stað innheimtuaðgerða á lífeyrisiðgjaldskröfu kæranda. Telur ráðuneytið jafnframt eðlilegt að gerðar séu ríkar kröfur til að vandað sé til undirbúnings tilraunar til að ná fram gjaldþrotaskiptum áður en kemur til ábyrgðar sjóðsins án undangenginna gjaldþrotaskipta skv. 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Með vísan til framangreinds er það er mat ráðuneytisins að slíkt hafi ekki verið gert í þessu máli.
Samkvæmt 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er sjóðnum heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur án undangengins gjaldþrots á búi vinnuveitanda þegar kostnaður af að koma fram gjaldþroti yrði að mati stjórnar sjóðsins óeðlilega mikill. Í máli þessu vísar kærandi til ætlaðra málaferla í Póllandi sem séu augljóslega kostnaðarsöm fyrir aðra sjóðfélaga og ekki fyrirséð hvaða niðurstöðu þau leiddu til. Hvorki er að finna í gögnum málsins nánari skýringar á því af hverju talið er að þurfi að ráðast í tilvitnuð málaferli né í hverju sá mikli kostnaður felist. Það er mat ráðuneytisins að almennt fylgi því kostnaður fyrir kröfuhafa að innheimta kröfur sínar og eykst sá kostnaður að jafnaði nokkuð láti skuldarar hjá líða að greiða kröfurnar. Verður ekki séð að sá kostnaður kunni sjálfkrafa að verða óeðlilega mikill í skilningi 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa enda þótt hugsanlega sé þörf á að reka mál í öðru landi en Íslandi, í þessu tilviki Póllandi, í samanburði við sambærilegan málarekstur hér á landi. Jafnframt þykir það liggja í hlutarins eðli að ekki er unnt að segja fyrir um niðurstöður slíks málareksturs hvort sem hann yrði rekinn á Íslandi eða annars staðar.
Í þessu sambandi lítur ráðuneytið svo á að það verði að gera sambærilegar kröfur til innheimtu krafna sem leiða má af ráðningarsamningi vinnuveitanda við starfsmenn sína hvort sem um er að ræða erlend eða innlend félög. Er Ábyrgðasjóði launa ekki ætlað að bera ríkari ábyrgð á kröfum á hendur útibúa erlendra félaga hér á landi áður en til gjaldþrots þeirra kemur heldur en íslenskra félaga. Verður jafnframt að gera sömu kröfur til tilrauna til innheimtu slíkra krafna. Þykir því ekki hafa verið sýnt fram á að kostnaður kröfuhafa af að koma fram gjaldþroti á búi vinnuveitanda í máli þessu verði óeðlilega mikill þannig að skilyrðum 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa verði fullnægt að mati ráðuneytisins.
Í ljósi framangreinds og almennra lögskýringarsjónarmiða um að skýra beri undanþágur frá meginreglum laga þrengjandi lögskýringu er það niðurstaða ráðuneytisins að umrædd krafa njóti ekki ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa á grundvelli 7. gr. laga, nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
Hvað varðar kröfu kæranda um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kostnaði hans við að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi móðurfélags G&M Sp. z.o.o. í Póllandi þá er ekki að finna heimild fyrir sjóðinn að bera ábyrgð á slíkum kostnaði í lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
ÚRSKURÐARORÐ
Synjun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 2. október 2017, um ábyrgð á kröfu Stapa Lífeyrissjóðs, kt. 601092-2559, á hendur G&M Sp. z.o.o., útibús á Íslandi, kt. 580216-0130, vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda fyrir tímabilið júní til október 2016, skal standa.