Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 1/2024
Miðvikudaginn 6. mars 2024, var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dags. 4. apríl 2022, kærði […], lögmaður, fyrir hönd […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 25. febrúar 2022, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna skaðabótakröfu kæranda á hendur þrotabúi Péturs Bragasonar ehf., kt. 511217-0910.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna skaðabótakröfu kæranda á hendur þrotabúi Péturs Bragasonar ehf. vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir þann 5. júní 2019 en bú Péturs Bragasonar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði, dags. 10. desember 2020.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað var eftir að ráðuneytið ógilti ákvörðunina.
Í erindi kæranda kemur fram að atvik málsins hafi verið þau að kæranda hafi verið falið að slá dokafleka undan steypuplötu í nýbyggingu. Hafi hann verið staddur í stiga þegar plöturnar hafi fallið niður og lent á honum. Vinnueftirlit ríkisins hafi verið kvatt á vettvang og hafi rannsókn leitt í ljós að verkið hafi verið unnið með óhentugum búnaði og ekki í samræmi við áhættumat. Með vísan til rökstuðnings Vinnueftirlits ríkisins hafi kærandi talið ljóst að Pétur Bragason ehf. bæri skaðabótaábyrgð á slysi hans að fullu á grundvelli meginreglna íslensks skaðabótaréttar. Hafi hann því þann 31. janúar 2020 sent beiðni um afstöðu til skaðabótaskyldu til Vátryggingafélags Íslands sem hafi tryggt hlutaðeigandi félag ábyrgðartryggingu. Með tölvubréfi, dags. 18. maí 2020, hafi Vátryggingafélag Íslands viðurkennt að slys kæranda væri skaðabótaskylt og þar með bótaskylt úr frjálsri ábyrgðartryggingu Péturs Bragasonar ehf. hjá félaginu.
Í erindi kæranda kemur einnig fram að mat á afleiðingum slyssins hafi í kjölfarið farið fram í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og að afleiðingar slyssins hafi verið metnar til átta stiga varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku. Í samræmi við það mat hafi þann 6. maí 2021 farið fram bótauppgjör gagnvart Vátryggingafélagi Íslands. Með vísan til þess að á þeim tíma hafi verið búið að úrskurða hlutaðeigandi félag gjaldþrota hafi Vátryggingafélag Íslands dregið frá bótagreiðslum til kæranda eigin áhættu félagsins samkvæmt ábyrgðartryggingu félagsins, samtals 1.050.100 kr.
Í erindi kæranda kemur enn fremur fram að kærandi hafi lýst kröfu í búið með bréfi, dags. 3. júní 2021, og að krafan hafi verið samþykkt af hálfu skiptastjóra sem forgangskrafa skv. 5. tölul. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Þann 23. nóvember 2021 hafi kærandi sent kröfuna til Ábyrgðasjóðs launa með vísan til e-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003. Þá kemur fram í erindi kæranda að þar sem eigin áhætta hins gjaldþrota félags hafi verið dregin frá bótagreiðslum til kæranda vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku hafi kærandi ekki fengið fullar bætur samkvæmt skaðabótalögum og væri kröfu því beint til Ábyrgðasjóðs launa.
Í erindi kæranda kemur auk þess fram að með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, hafi Ábyrgðasjóður launa hafnað umræddri kröfu kæranda með vísan til þess að bú hlutaðeigandi félags hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 10. desember 2020 og að skiptum hafi verið lokið 4. janúar 2022. Enn fremur hafi komið fram í fyrrnefndu bréfi Ábyrgðasjóðs launa, dags. 25. febrúar 2022, að umsögn skiptastjóra hafi borist sjóðnum þann 29. júní 2021 en skv. 12. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sé krafa á hendur sjóðnum því aðeins tekin til greina hafi hún borist sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði. Hafi jafnframt verið vísað til þess að stjórn sjóðsins væri þó heimilt að taka til greina kröfu er bærist innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt væri að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. Enn fremur hafi komið fram í bréfi Ábyrgðasjóðs launa að innköllun vegna umrædds þrotabús hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu þann 16. desember 2020 og þar sem umsókn kæranda hafi ekki borist innan sex mánaða frá þeim degi hafi kröfunni verið hafnað með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
Í erindi kæranda kemur fram að framangreindri röksemdafærslu Ábyrgðasjóðs launa sé hafnað af kæranda sem rangri og að kærandi byggi á því að hann eigi rétt á bótum frá sjóðnum með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Krafa kæranda hafi ekki verið send sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar þar sem krafan hafi ekki stofnast fyrr en eftir það tímamark. Fram kemur að krafa kæranda hafi verið send Ábyrgðasjóði launa þann 23. nóvember 2021 en þá hafi verið liðnir tæpir tólf mánuðir frá birtingu innköllunar. Enn fremur kemur fram að kærandi byggi á því að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laganna séu uppfyllt í ljósi þess að krafan hafi verið gerð innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar og að ekki hafi verið hægt að koma fram með kröfuna fyrr en gert var.
Þá kemur fram í erindi kæranda að bótauppgjör kæranda og Vátryggingafélags Íslands hafi farið fram þann 6. maí 2021 og að Vátryggingafélag Íslands hafi tilkynnt kæranda að það myndi draga frá bótagreiðslum til kæranda eigin áhættu hlutaðeigandi félags þar sem félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Telur kærandi að krafa hans á hendur Ábyrgðasjóði launa hafi ekki stofnast fyrr en þann dag enda hafi kærandi fyrst þá haft vitneskju um að Vátryggingafélag Íslands myndi draga eigin áhættu hlutaðeigandi félags frá bótagreiðslum til kæranda, enda hafi slíkt ekki verið skylt að mati kæranda þrátt fyrir umrætt gjaldþrot hlutaðeigandi félags. Kærandi hafi heldur ekki getað vitað fyrr en þá hver væri fjárhæð kröfu hans til Ábyrgðasjóðs launa þar sem mismunandi sé hver fjárhæð eigin áhættu fyrirtækja í frjálsri ábyrgðartryggingu sé. Fram kemur að krafa kæranda sé að mati kæranda krafa um skaðabætur utan samninga og slík krafa stofnist ekki fyrr en tjónið hafi komið fram, sem í tilfelli kæranda hafi verið þegar Vátryggingafélag Íslands hafi dregið eigin áhættu hlutaðeigandi félags frá bótagreiðslu til kæranda með þeim afleiðingum að hann hafi orðið fyrir tjóni að fjárhæð 1.050.100. kr. Kærandi hafi strax í kjölfarið lýst kröfu sinni í þrotabúið og aflað samþykkis skiptastjóra og forgangsréttarkröfuhafa. Kærandi hafi ekki getað gert kröfu á Ábyrgðasjóð launa fyrr en að fengnu þessu samþykki, sbr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Þar sem að kærandi hafi sent kröfuna til Ábyrgðasjóðs launa innan tólf mánaða frá því að það varð mögulegt sé ljóst að mati kæranda að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laganna séu uppfyllt og að Ábyrgðasjóði launa beri því að samþykkja ábyrgð sjóðsins vegna kröfunnar.
Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. apríl 2022, og var sjóðnum veittur frestur til 12. maí sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Þar sem umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu ekki innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn með bréfum til sjóðsins, dags. 24. júní og 15. ágúst 2022.
Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa, dags. 30. ágúst 2022, kemur fram að umsókn kæranda vegna skaðabótakröfu hans í þrotabú hlutaðeigandi félags hafi borist sjóðnum 19. nóvember 2021. Að teknu tilliti til kröfunnar sem og framlagðra gagna hafi kröfu kæranda verið hafnað, enda hafi krafan ekki verið gerð á sjóðinn innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði, sem ráði lokum kröfulýsingarfrests í búið. Þá kemur fram að kæranda hafi verið send rökstudd ákvörðun sjóðsins þann 25. febrúar 2022.
Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa bendir sjóðurinn á að lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, gildi um greiðslur til launafólks úr sjóðnum vegna vangoldinna krafna við gjaldþrot vinnuveitanda. Samkvæmt 12. gr. laganna verði krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa því aðeins tekin til greina berist hún sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði er ráði lokum kröfulýsingarfrests í búið. Fram kemur að stjórn sjóðsins sé þó heimilt að taka til greina kröfu er berist innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt sé að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.
Í umsögn sinni bendir Ábyrgðasjóður launa á að óumdeilt sé að krafa kæranda hafi ekki borist sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði. Að mati sjóðsins hafi sjóðurinn aftur á móti ekki staðið rétt að leiðbeiningaskyldu sinni þar sem hann hafi ekki upplýst kæranda um að unnt væri að leggja málið undir stjórn sjóðsins á grundvelli 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Stjórn sjóðsins hafi því ekki fjallað um málið og ekki kannað hvort skilyrði fyrrnefnds ákvæðis hafi verið uppfyllt. Þá segir í umsögninni að með vísan til alls framangreinds telji Ábyrgðasjóður launa að rétt hafi verið að hafna kröfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 4. september 2022, óskaði ráðuneytið eftir athugasemdum kæranda við umsögn Ábyrgðasjóðs launa. Var þess óskað að umbeðnar athugasemdir bærust ráðuneytinu fyrir 27. september 2022.
Í svarbréfi kæranda, dags. 26. september 2022, ítrekar kærandi áður fram komin sjónarmið sín í málinu. Í bréfinu kemur jafnframt fram að kærandi taki undir það sem fram komi í umsögn Ábyrgðasjóðs launa þess efnis að ekki hafi verið rétt staðið að leiðbeiningaskyldu hjá Ábyrgðasjóði launa en kærandi hafi gengið út frá því að sú ákvörðun sem hann hafi fengið í hendur, dags. 25. febrúar 2022, hafi verið tekin af stjórn sjóðsins. Það veki því furðu kæranda að sjóðurinn hafi talið rétt að hafna kröfu kæranda og telur kærandi að rétt hefði verið að beina því til hans að bera málið undir stjórn sjóðsins. Þá kemur fram í svarbréfi kæranda að kærandi byggi á því að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, séu uppfyllt í ljósi þess að umrædd krafa hafi verið gerð innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar og að ekki hafi verið hægt að gera kröfuna fyrr en gert var.
II. Niðurstaða.
Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laganna. Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna skaðabótakröfu kæranda á hendur þrotabúi Péturs Bragasonar ehf. vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir en bú Péturs Bragasonar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði, dags. 10. desember 2020.
Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. lög nr. 131/2005, um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur meðal annars fram að „Skipulag íslenskrar stjórnsýslu gerir almennt ráð fyrir tveimur stigum þar sem fyrir hendi eru lægra sett stjórnvöld sem oftast eru stofnanir sem fara með framkvæmd tiltekinna málefna í umboði ráðherra og er þá litið á ráðherra sem æðra stjórnvald á því sviði. Í því skyni að auka réttaröryggi almennings er gert ráð fyrir að heimilt sé að kæra ákvarðanir lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds sem er þá skylt að taka ákvörðunina til endurskoðunar. Í 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa virðist sem miðað sé við þrjú stjórnsýslustig því gert er ráð fyrir málskoti til stjórnar sjóðsins áður en heimilt er að kæra ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins. Hins vegar þykir það samræmast betur skipulagi íslenskrar stjórnsýslu að ákvarðanir sem teknar eru skv. 14. gr. laganna séu teknar í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem síðan eru kæranlegar beint til félagsmálaráðuneytisins. Varsla Ábyrgðasjóðs launa er á ábyrgð stjórnar sjóðsins en stjórnin hefur gert þjónustusamning við Vinnumálastofnun um daglega umsýslu fyrir sjóðinn. Annast því starfsfólk stofnunarinnar að jafnaði afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Þegar upp koma mál sem talin eru þarfnast nánari skoðunar er gert ráð fyrir að starfsmennirnir leggi þau mál fyrir stjórn sjóðsins sem tekur þá ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt. Þrátt fyrir að einstakar umsóknir hljóti þannig umfjöllun stjórnar sjóðsins verða öll mál afgreidd á sama stjórnsýslustigi. Því er litið svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu Ábyrgðasjóði launa hvort sem málið hefur hlotið umfjöllun stjórnar eða eingöngu starfsmanna. Í reynd hefur framkvæmd laganna verið með þessum hætti og er breytingartillaga þessi gerð í því skyni að treysta og skýra framkvæmdina og tryggja réttaröryggi þeirra sem leita þurfa til Ábyrgðasjóðsins.“
Í 1. mgr. 12. laga um Ábyrgðasjóð launa er kveðið á um að krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa verði því aðeins tekin til greina að hún berist sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ráði lokum kröfulýsingarfrests í búið. Jafnframt er kveðið á um að stjórn sjóðsins sé þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.
Í máli þessu hafnaði Ábyrgðasjóður launa kröfu kæranda um ábyrgð sjóðsins með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, enda hafi krafan ekki borist sjóðnum innan sex mánaða frá innköllunardegi í Lögbirtingablaðinu. Í gögnum málsins kemur fram að krafa kæranda hafi borist Ábyrgðarsjóði launa rúmum ellefu mánuðum frá birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði þann 16. desember 2020. Liggur því fyrir að umrædd krafa hafi ekki borist Ábyrgðasjóði launa innan þess frests sem kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að við afgreiðslu umsóknar kæranda um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa hafi ekki verið lagt mat á það hvort rétt hafi verið að taka kröfuna kæranda til greina á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna en í því ákvæði er kveðið á um að stjórn sjóðsins sé heimilt að taka til greina kröfu er berst sjóðnum innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.
Í ljósi framangreinds hefur að mati ráðuneytisins ekki verið tekin afstaða á lægra stjórnsýslustigi til þess hvort 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa eigi við í máli þessu. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð á lægra stjórnsýslustigi sé ekki lokið í máli þessu og að vísa beri málinu til Ábyrgðasjóðs launa til efnislegrar meðferðar að nýju í því skyni að tryggja að málið hljóti efnislega umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum, eftir því sem við á.
Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Ábyrgðasjóð launa að taka málið til meðferðar að nýju.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna hjá ráðuneytinu.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 25. febrúar 2022, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna skaðabótakröfu kæranda á hendur þrotabúi Péturs Bragasonar ehf., er felld úr gildi og lagt fyrir Ábyrgðasjóð launa að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju.