Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félagsmálaráðuneytis 17/2021

Miðvikudaginn 22. desember 2021 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 10. desember 2020, kærði Flugfreyjufélag Íslands, fyrir hönd […], kt. […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 20. nóvember 2020, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur þrotabúi WOW air hf., kt. 451011-0220, um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur þrotabúi WOW air hf. um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019 en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði, dags. 28. mars 2019.

 

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 10. desember 2020, með vísan til 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

 

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að með ákvörðun sinni, dags. 20. nóvember 2020, hafi Ábyrgðasjóður launa fallist á kröfu kæranda að öllu leyti hvað varðar ábyrgð sjóðsins vegna gjaldþrotaskipta hlutaðeigandi félags að undanskilinni kröfu kæranda um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna greiðslu dagpeninga fyrir mars 2019 að fjárhæð 81.580 kr. og greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnafresti, annars vegar í apríl 2019 að fjárhæð 66.441 kr. og hins vegar í maí sama ár að fjárhæð 66.441 kr. Í erindi kæranda kemur fram að kærandi fallist á þann hluta umræddrar ákvörðunar Ábyrgðasjóðs launa er lúti að synjun á ábyrgð sjóðsins hvað varðar kröfu um greiðslu dagpeninga fyrir marsmánuð 2019 en að kærandi uni hins vegar ekki þeim hluta ákvörðunarinnar er lúti að synjun á ábyrgð sjóðsins hvað varðar kröfu um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

Í erindi kæranda kemur jafnframt fram að kærandi byggi kröfu sína á þeirri málsástæðu að það sem nefnt sé bifreiðastyrkur á launaseðli sé í raun og veru laun í öllum hefðbundnum skilningi. Að mati kæranda verði að telja það óréttlátt að bifreiðastyrkur teljist ekki til launa þar sem það leiði til þess að launafólk glati mikilvægum rétti sínum, svo sem að laun þeirra séu tryggð á uppsagnarfresti ef til gjaldþrots vinnuveitanda kemur. Er það mat kæranda að Ábyrgðasjóður launa sé með ákvörðun sinni að túlka lög um Ábyrgðasjóð launa of þröngt og að sjóðurinn hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við mat á því hvort umræddur bifreiðastyrkur skuli teljast til vinnulauna í skilningi laga um Ábyrgðasjóð launa. Þessu til stuðnings vísar kærandi til þess að samkvæmt 5. kafla kjarasamnings Flugfreyjufélags Íslands og WOW air hf. hafi WOW air hf. gert kröfu um að starfsmenn mættu á skilgreindan stað á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni þaðan sem fyrirtækið hafi annast akstur til og frá Keflavíkurflugvelli. Af þessum sökum sé ekki unnt að líta svo á að umræddur bifreiðastyrkur hafi falið í sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar starfsmanna. Þá hafi ekki verið unnt að skrá ferðir til og frá vinnu í þar til gerða akstursbók og nýta til frádráttar á tekjuskatti. Þar sem starfið hafi verið þess eðlis að ómögulegt hafi verið fyrir kæranda að nota eigin bifreið í þágu starfs síns sé það mat kæranda að ekki sé unnt að líta á greiðslurnar sem annað en vinnulaun í skilningi laga um Ábyrgðasjóð launa. Hafi framangreind sjónarmið jafnframt verið ítarlega rakin og staðfest í úrskurði yfirskattanefndar nr. 354/2005.

 

Enn fremur kemur fram í erindi kæranda að umræddar greiðslur hafi í raun verið vinnulaun en þær greiddar út sem bifreiðastyrkur í því skyni að komast hjá greiðslum í lífeyrissjóð og lækka stofn launa sem liggi til grundvallar ávinnslu veikindaréttar starfsfólks. Við orlofstöku hafi starfsmenn þar að auki haldið framangreindum greiðslum þrátt fyrir að notkun bifreiðar í þágu vinnuveitanda geti eðli málsins samkvæmt ekki átt sér stað í orlofi. Að mati kæranda sé því túlkun Ábyrgðasjóðs launa á hugtakinu „vinnulaun“ of þröng og ekki í samræmi við túlkun annarra sambærilegra sjóða, en Fæðingarorlofssjóður og Atvinnuleysistryggingarsjóður hafi til að mynda talið umræddan bifreiðastyrk til stofns við útreikning á fjárhæð greiðslna úr sjóðunum. Að mati kæranda sé ekkert að finna í lögum um Ábyrgðasjóð launa sem rökstyðji eða réttlæti að hugtakið vinnulaun sé túlkað með öðrum og þrengri hætti en þegar önnur lög eiga í hlut. Ólík túlkun mismunandi sjóða á hugtakinu sé því í raun brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 8. janúar 2021, var erindi kæranda sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar og var sjóðnum veittur frestur til 25. janúar sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Með tölvubréfi, dags. 25. janúar 2021, óskaði Ábyrgðasjóður launa eftir fresti til 8. febrúar sama ár til að skila umsögn sinni og veitti ráðuneytið umbeðinn frest. Umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. febrúar 2021.

 

Í umsögn sinni ítrekaði Ábyrgðasjóður launa afstöðu sína sem fram kemur í ákvörðun sjóðsins, dags. 20. nóvember 2020. Jafnframt kemur fram að Ábyrgðasjóði launa hafi borist krafa kæranda vegna gjaldþrots hlutaðeigandi vinnuveitanda þann 14. september 2019. Hafi Ábyrgðasjóður launa, að teknu tilliti til umsagnar skiptastjóra, kröfu kæranda og annarra framlagðra gagna, samþykkt að öllu leyti ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda í hlutaðeigandi þrotabú að undanskilinni kröfu um dagpeninga fyrir mars 2019 og kröfu um bifreiðastyrk á uppsagnafresti í apríl og maí sama ár. Í ákvörðuninni hafi Ábyrgðasjóður launa farið yfir málavexti og veitt rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur jafnframt fram að skiptastjóri hlutaðeigandi þrotabús hafi samþykkt kröfu kæranda að fjárhæð 2.358.290 kr. sem forgangskröfu í þrotabúið en Ábyrgðasjóður launa hafi samþykkt 2.143.828 kr. af kröfunni. Bendir Ábyrgðasjóður launa enn fremur á að í athugasemdum við 2. mgr. 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa, komi fram að það sé meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að launakrafa hafi verið samþykkt sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í fyrrnefndu frumvarpi komi jafnframt fram að þar sem ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna einstakra krafna endurspegli ekki að öllu leyti ákvæði 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé áskilnaður um viðurkenningu kröfu sem forgangskröfu með fyrirvara um þau takmörk og frávik sem kveðið sé nánar á um í II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa. Með þessu sé að mati Ábyrgðasjóðs launa undirstrikuð sérstaða reglna um ábyrgð sjóðsins.

 

Þá segir í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að í athugasemdum við 2. mgr. 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, komi jafnframt fram að viðurkenning skiptastjóra á kröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. bindi ekki hendur sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir að sjóðurinn taki ávallt sjálfstæða afstöðu til þess hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt þeim sérstöku reglum sem lögin kveða á um. Afstaða skiptastjóra sé því aðeins hluti af því heildarmati sem þurfi að fara fram. Þá kemur fram í umsögninni að í 1. mgr. 4. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa sé ábyrgð sjóðsins nánar útfærð þar sem kveðið sé á um að ábyrgðin taki til krafna sem taldar séu upp í 5. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 5. gr. laganna ábyrgist Ábyrgðasjóður launa kröfu launamanns um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitenda. Í athugasemdum við 5. gr. laganna, í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, komi fram að með orðinu vinnulaun í skilningi 5. gr. laganna sé fyrst og fremst átt við samningsbundin laun eins og þau séu skilgreind í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Undir þetta falli almenn vinnulaun og ýmsar uppbætur á laun sem tengdar séu vinnuframlagi kröfuhafa. Hins vegar eigi hugtakið vinnulaun ekki við um ýmsar kröfur sem raktar verði til ráðningarsambands, til að mynda kröfur um greiðslu kostnaðar sem launamaður hefur lagt út fyrir, enda flokkist slíkar kröfur ekki til endurgjalds fyrir vinnu í þágu vinnuveitanda. Sem dæmi um slíkar kröfur séu nefndar í fyrrnefndu frumvarpi kröfur um greiðslu ferðareiknings vegna ferða á vegum vinnuveitanda, kröfur um greiðslu eldsneytiskostnaðar og annars sambærilegs kostnaðar.

 

Að mati Ábyrgðasjóðs launa nái ábyrgð sjóðsins ekki til greiðslu á kostnaði sem launamaður hefur sjálfur lagt út fyrir en sjóðurinn telji slíkar kröfur ekki til endurgjalds fyrir vinnu í þjónustu vinnuveitenda. Ábyrgðasjóður launa hafni því röksemdum kæranda þess efnis að túlkun sjóðsins á hugtakinu vinnulaun í skilningi laga um Ábyrgðasjóð launa sé of þröng, enda sé það mat sjóðsins að túlkunin sé í samræmi við ákvæði laganna og viðeigandi lögskýringargögn. Í ljósi þess beri að staðfesta ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. febrúar 2021, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 2. mars sama ár. Í tölvubréfi sem barst ráðuneytinu, dags. 1. mars 2021, kemur fram að kærandi telji ekki ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn sjóðsins auk þess sem kærandi ítrekar þær málsástæður sem fram koma í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. desember 2020.

 

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 20. nóvember 2020, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

Fram kemur í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa að markmið laganna sé meðal annars að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslu vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningum, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna. Er það meginskilyrði fyrir ábyrgð Ábyrðasjóðs launa að kröfur launamanna hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

 

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur meðal annars fram að með ákvæðinu sé „kveðið á um það meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að kröfur launamanna annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þar sem ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum endurspeglar ekki í einu og öllu ákvæði 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga er tekið fram að áskilnaður um viðurkenningu kröfu sem forgangskröfu er með fyrirvara um þau takmörk og frávik sem kveðið er nánar á um í II.–IV. kafla frumvarpsins. Er með þessu undirstrikuð sérstaða þeirra reglna sem hér um ræðir bæði að því er varðar sjálft gildissvið þeirra og nánari skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum.“ Í fyrrnefndum athugasemdum við ákvæðið kemur jafnframt fram að við mat Ábyrgðasjóðs launa á því hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins bindi viðurkenning skiptastjóra á forgangsrétti kröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki hendur sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir að sjóðurinn taki ávallt sjálfstæða afstöðu til þess hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt þeim sérstöku reglum sem lögin kveði á um. Þá kemur fram að áskilnaður um viðurkenningu skiptastjóra á forgangsrétti kröfu gefi kröfunni, í þeim tilvikum þegar það á við, engu að síður ákveðið vægi við mat sjóðsins og það sé því hlutverk Ábyrgðasjóðs launa að meta sjálfstætt hvort kröfur launafólks í þrotabú vinnuveitanda þess skuli njóta ábyrgðar sjóðsins.

 

Samkvæmt gögnum málsins lýsti lögmaður kæranda kröfu í hlutaðeigandi þrotabú, fyrir hönd kæranda, dags. 20. júlí 2019, með vísan til 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Ábyrgðasjóður launa samþykkti að ábyrgjast alla kröfu kæranda að undanskilinni kröfu um dagpeninga fyrir marsmánuð 2019 og kröfu um bifreiðastyrk á uppsagnarfresti í apríl og maí sama ár. Fram kemur í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. desember 2020, að kærandi fallist á þann hluta umræddrar ákvörðunar Ábyrgðasjóðs launa er lúti að synjun á ábyrgð sjóðsins hvað varðar kröfu um greiðslu dagpeninga fyrir marsmánuð 2019. Ágreiningur í máli þessu lýtur því einungis að þeim hluta umræddrar ákvörðunar Ábyrgðasjóðs launa er varðar synjun á ábyrgð sjóðsins hvað varðar kröfu kæranda um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

Í ljósi þess að ágreiningurinn í máli þessu lýtur að greiðslu bifreiðastyrks eftir slit á ráðningarsamningi eða á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019 lítur ráðuneytið svo á að mat Ábyrgðasjóðs launa hvað varðar ábyrgð sjóðsins skuli byggjast á því hvort ákvæði b-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa eigi við en í ákvæðinu er kveðið á um ábyrgð sjóðsins hvað varðar kröfu um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi við gjaldþrot félags.

 

Í 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa eru taldar upp þær kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa auk þess sem þar er nánar kveðið á um skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins vegna einstakra krafna, sbr. a-e lið ákvæðisins. Í athugasemdum við a-lið 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa er hugtakið vinnulaun skýrt með þeim hætti að með hugtakinu sé „fyrst og fremst átt við samningsbundin laun eins og þau eru skilgreind í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Undir þetta falla almenn vinnulaun og ýmsar uppbætur á laun sem tengdar eru vinnuframlagi kröfuhafa. Hins vegar á hugtakið „vinnulaun“ ekki við um ýmsar kröfur sem raktar verða til ráðningarsambands launamanns og vinnuveitenda, til að mynda kröfur um greiðslu á kostnaði sem launamaður hefur sjálfur lagt út fyrir enda flokkast slíkar kröfur ekki sem endurgjald fyrir vinnu í þjónustu vinnuveitenda. Má þar nefna kröfu launamanns um greiðslu ferðareiknings vegna ferðar á vegum vinnuveitenda, kröfu um greiðslu eldsneytiskostnaðar og annars sambærilegs kostnaðar.“ Af efni a-liðar 5. gr. laganna og athugasemdum við ákvæðið í fyrrnefndu frumvarpi má að mati ráðuneytisins ráða að Ábyrgðasjóður launa skuli einungis ábyrgjast kröfu launamanns um ógreidd laun sem teljast sem endurgjald fyrir vinnu launamanns síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda, sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta, en ekki aðrar kröfur. 

 

Í athugasemdum við b-lið 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa segir að ákvæðið sé að mestu efnislega samhljóða sambærilegu ákvæði þeirra laga sem voru í gildi við lagasetninguna. Við framkvæmd þeirra laga hafi ábyrgð sjóðsins á kröfum vegna uppsagnar ráðningarsamnings verið miðuð við föst laun samkvæmt ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi og gert sé ráð fyrir að svo verði áfram.

 

Í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. desember 2020, kemur jafnframt fram það mat kæranda að telja verði umræddan bifreiðastyrk til vinnulauna í skilningi laga um Ábyrgðasjóð launa þar sem starfsmenn hafi ekki átt kost á því að nota eigin bifreið í þágu starfs síns og ferðir til og frá vinnustað hafi ekki verið notkun sem heimilt hafi verið að skrá í þar til gerða akstursbók til frádráttar á tekjuskatti. Að mati kæranda sé túlkun Ábyrgðasjóðs launa á hugtakinu vinnulaun því of þröng. Enn fremur bendir kærandi á að framangreind sjónarmið hafi verið ítarlega rakin í úrskurði yfirskattanefndar nr. 354/2005. Þá kemur fram í fyrrnefndu erindi kæranda til ráðuneytisins að kærandi telji að umrædd ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa sé ekki í samræmi við túlkun annarra sambærilegra sjóða og bendir kærandi í því sambandi sérstaklega á túlkun Fæðingarorlofssjóðs þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru ákvarðaðar á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof sem og túlkun Atvinnuleysistryggingarsjóðs við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á að lög nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, og lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, hafa að geyma ákvæði varðandi þær greiðslur sem teljast til launa þegar ákvörðun er tekin um greiðslur, annars vegar úr Fæðingarorlofssjóði og hins vegar um tekjutengdar atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um tekjutengdar atvinnuleysisbætur og í 2. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingargjald. Þá er í 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof kveðið á um útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og í 4. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að til launa á innlendum vinnumarkaði skv. 1.-3. mgr. ákvæðisins teljist hvers konar laun og þóknanir samkvæmt lögum um tryggingargjald. Það er því vísað til laga nr. 113/1990, um tryggingargjald bæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í lögum um atvinnuleysistryggingar í tengslum við mat á því hvað skuli teljast til launa við útreikninga á greiðslum á grundvelli laganna. Þá bendir ráðuneytið á að í fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar er byggt á ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, við mat á því hvað teljist til tekna og hvenær frádráttur er heimilaður. Í lögum um Ábyrgðasjóð launa er hins vegar hvorki gert ráð fyrir að litið sé til laga um tryggingagjald né laga um tekjuskatt við mat á því hvaða greiðslur sjóðurinn ábyrgist í þeim tilvikum þegar félög eru tekin til gjaldþrotaskipta.

 

Af framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að ákvæði laga um Ábyrgðasjóð launa er lúta að mati á því hvað skuli teljast til launa í skilningi laganna séu ekki sambærileg þeim ákvæðum sem sett eru annars vegar í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og hins vegar í lögum um atvinnuleysistryggingar í tengslum við mat á því hvað skuli teljast til launa við útreikninga á greiðslum á grundvelli hlutaðeigandi laga hverju sinni. Því til stuðnings vísar ráðuneytið til þess að í athugasemdum við frumvarp það er varð að 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að með ákvæðinu sé undirstrikuð sérstaða reglnanna um sjóðinn, bæði að því er varðar sjálft gildissvið þeirra og nánari skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum.

 

Fram kemur í gögnum málsins að samkvæmt kafla 1.5 í ráðningarsamningi kæranda og WOW air hf. skuli launakjör starfsmanns og önnur réttindi taka mið af kjarasamningi WOW air hf. og Flugfreyjufélags Íslands. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að í kafla 4 í fyrrnefndum kjarasamningi er kveðið á um laun starfsmanna og í kafla 4.1 er kveðið á um að til fastra launa teljist grunnlaun ásamt handbókargjaldi. Ákvæði varðandi bifreiðastyrk er hins vegar að finna í 5. kafla fyrrnefnds kjarasamnings sem ber yfirheitið „aðsetursskipti – akstur – bifreiðastyrkur“. Þannig er hvorki kveðið á um í fyrrnefndum kjarasamningi að bifreiðastyrkur skuli teljast til fastra launa þess starfsmanns sem hér um ræðir né að umræddur styrkur sé með einhverjum hætti tengdur vinnuframlagi starfsmanna. Þá verður að mati ráðuneytisins ekki séð af þeim ráðningarsamningi sem liggur fyrir í málinu að umræddur bifreiðarstyrkur skuli teljast til fastra launa þess starfsmanns sem hér um ræðir.

 

Á grundvelli alls framangreinds er það því mat ráðuneytisins að ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa í máli þessu takmarkist við föst laun í skilningi ákvæðis b-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og því hafi sjóðnum borið að synja um ábyrgð á kröfu kæranda um bifreiðastyrk í hlutaðeigandi þrotabú.

 

Í máli þessu byggir kærandi meðal annars kröfu sína á því að Ábyrgðasjóður launa hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hafi borið að rannsaka nánar eðli þeirrar greiðslu sem kölluð sé bifreiðastyrkur á launaseðli. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að mati ráðuneytisins ekki annað ráðið af gögnum málsins en að mál þetta hafi verið nægjanlega upplýst áður en Ábyrgðasjóður launa tók ákvörðun um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019.

 

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að sú krafa sem mál þetta lýtur að, um greiðslu bifreiðarstyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019, falli ekki undir kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrðasjóðs launa á grundvelli 5. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 20. nóvember 2020, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu Flugfreyjufélags Íslands, fyrir hönd […] á hendur þrotabúi WOW air hf. um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti í apríl og maí 2019, skal standa.

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta