Úrskurður félagsmálaráðuneytisins nr. 004/2019
Þriðjudaginn 19. nóvember 2019 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 10. september 2019, kærði […], lögmaður, fyrir hönd S.B. brugghúss ehf., kt. 540317-1860, (hér eftir kærandi) ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 16/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun tiltekinna bruggunarkúta og öryggisloka þeim tengdum í eigu kæranda auk þess sem kærandi óskaði eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Úrskurður þessi lýtur eingöngu að beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 16/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun tiltekinna bruggunarkúta og öryggisloka þeim tengdum í eigu kæranda með vísan til 1. mgr. 48. gr. a og 85. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins með bréfi, dags. 10. september 2019, með vísan til 98. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Auk þess óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum. Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi flutt hingað til lands búnað til bjórframleiðslu og að íslensk yfirvöld hafi skoðað búnaðinn en hann hafi meðal annars farið í gegnum tollskoðun og síðan hafi honum verið hleypt inn í landið eftir að tilskilin gjöld hafi verið greidd enda hafi allar merkingar og gögn verið í samræmi við hefðbundna staðla að því er kærandi og íslensk yfirvöld hafi talið á þeim tíma. Jafnframt kemur fram að sýslumaður hafi gefið út leyfi fyrir starfsemi kæranda en nokkrum árum síðar hafi Vinnueftirlitið talið að búnaðurinn stæðist ekki tiltekin reglugerðarákvæði, væri hættulegur og að ekki mætti nota hann. Að mati kæranda hafi hann frá upphafi verið í góðri trú og reynt að finna lausn á málinu en hvorki fyrr né síðar hafi verið sýnt fram á að umræddur búnaður sé hættulegur. Þá bendir kærandi á að um sé að ræða lítinn atvinnurekstur á landsbyggðinni sem feli í sér frumkvöðlastarf en að mati kæranda sé slíkt starf einstaklega mikilvægt samfélaginu vegna þeirrar nýsköpunar sem það hafi í för með sér.
Með bréfi, dags. 18. september 2019, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Vinnueftirlits ríkisins og var sérstaklega óskað eftir umsögn stofnunarinnar í tengslum við beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.
Með bréfi, dags. 27. september 2019, barst ráðuneytinu umsögn Vinnueftirlits ríkisins hvað varðar beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Í umsögn Vinnueftirlitsins kemur meðal annars fram að stofnunin telji rétt að ráðuneytið hafni beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þar sem sá búnaður sem hér um ræðir hafi hvorki farið í gegnum nauðsynlegt öryggismat né verið merktur sem öruggur búnaður í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt. Í því sambandi bendir Vinnueftirlitið á að umrædd ákvörðun hafi meðal annars verið tekin með vísan til 1. mgr. 85. gr., laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Enn fremur kemur fram í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að það sé mat stofnunarinnar að möguleg hætta sé á ferðum ef framleiðandi eða innflytjandi þrýstibúnaðar, sem vinnur að þrýstingi allt að 2,0 börum, geti ekki sýnt fram á að búnaðurinn hafi verið skoðaður í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt og hafi staðist slíka skoðun. Þá kemur fram í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að slíkur búnaður geti verið mjög hættulegur ef hann er ekki rétt framleiddur þar sem hann geti meðal annars gefið sig vegna þrýstings ef réttar málmblöndur og samsetningar eru ekki til staðar. Jafnframt bendir Vinnueftirlitið á að þoli slíkur búnaður ekki þann þrýsting sem um ræðir geti hann sprungið með ófyrirséðum afleiðingum og því sé nauðsynlegt að unnt sé að sýna fram á að sá búnaður sem um ræðir hverju sinni þoli þann þrýsting sem honum er ætla að þola. Þar sem kærandi hafi ekki getað sýnt fram á að sá búnaður sem hér um ræðir hafi verið skoðaður samkvæmt þeim reglum sem gilda um slíkar skoðanir og hafi staðist slíka skoðun er það mat Vinnueftirlitsins að hér sé um að ræða búnað sem mögulega geti verið mjög hættulegur og geti því sett starfsmenn kæranda og aðra í verulega hættu. Því sé mikilvægt að mati Vinnueftirlitsins að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað. Í því sambandi bendir Vinnueftirlitið jafnframt á að í 2. mgr. 85. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé kveðið á um að áfrýjun á ákvörðunum stofnunarinnar skv. 84. og 85. gr. laganna fresti ekki stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar.
Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 9. október 2019, var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum við umsögn Vinnueftirlitsins til ráðuneytisins. Kærandi svaraði því bréfi með tölvubréfi þann 15. október 2019 þar sem vísað var til fyrirliggjandi gagna í málinu.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli laganna. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, frestar stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er æðra stjórnvaldi þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 2. mgr. 29. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum kemur meðal annars fram að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Enn fremur kemur fram að sé hin kærða ákvörðun íþyngjandi fyrir aðila máls mæli slíkt almennt með því að heimila frestun réttaráhrifa. Í ljósi framangreinds lítur ráðuneytið almennt svo á að við mat á því hvort fresta beri réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar beri ávallt að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegast á hverju sinni.
Fram kemur í gögnum málsins að kærandi telji mikilvægt að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar sem hann hafi frá upphafi verið í góðri trú og reynt að finna lausn á málinu en hvorki fyrr né síðar hafi verið sýnt fram á að umræddir bruggunarkútar og öryggislokar þeim tengdum séu hættulegir. Þá bendir kærandi á að um sé að ræða lítinn atvinnurekstur á landsbyggðinni sem feli í sér frumkvöðlastarf en að mati kæranda sé slíkt starf einstaklega mikilvægt samfélaginu vegna þeirrar nýsköpunar sem það hafi í för með sér.
Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að Vinnueftirlit ríkisins hafi tekið þá ákvörðun sem hér um ræðir meðal annars með vísan til 1. mgr. 85. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í því ákvæði er kveðið á um að telji Vinnueftirlitið að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna eða annarra geti það krafist þess að strax verði bætt úr skorti á nægjanlegu öryggi eða látið hætta vinnu í þeim hluta starfseminnar sem þannig sé á sig kominn. Einnig kemur fram í gögnum málsins að Vinnueftirlit ríkisins hafi tekið umrædda ákvörðun þar sem kærandi hafi ekki getað sýnt fram á að þeir bruggunarkútar sem hér um ræðir og öryggislokar þeim tengdum hafi verið skoðaðir samkvæmt þeim reglum sem gilda um slíkar skoðanir og hafi staðist slíka skoðun. Það hafi því verið mat Vinnueftirlitsins að hér sé um að ræða bruggunarkúta og öryggisloka þeim tengdum sem mögulega geti verið mjög hættulegur búnaður og geti því sett starfsmenn kæranda og aðra í verulega hættu.
Af framangreindu má að mati ráðuneytisins ráða að umrædd ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins geti varðað verulega hagsmuni kæranda þar sem stofnunin hefur með ákvörðun sinni bannað notkun á tilteknum búnaði sem kærandi notar í starfsemi sinni. Hins vegar telur ráðuneytið ekki unnt að líta fram hjá því í máli þessu að það er mat Vinnueftirlits ríkisins að umræddur búnaður geti haft í för með sér verulega hættu fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna kæranda eða annarra. Þau sjónarmið vega að mati ráðuneytisins þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað meðan ráðuneytið hefur málið til meðferðar.
Að þessu virtu er það mat ráðuneytisins að í máli þessu séu ekki fyrir hendi sérstakar ástæður sem réttlæti frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Að mati ráðuneytisins ber í því sambandi meðal annars að líta til þess að framangreind heimild til frestunar réttaráhrifa samkvæmt stjórnsýslulögum er undantekning frá þeirri meginreglu laganna að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna, en að mati ráðuneytisins ber almennt að beita þröngri lögskýringu við túlkun slíkra undantekninga.
Í ljósi alls framangreinds er það mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi ástæður sem mæla með því að 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli þessu þannig að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Vinnueftirlits ríkisins um bann við markaðssetningu og notkun tiltekinna bruggunarkúta og öryggisloka þeim tengdum í eigu kæranda verði frestað meðan ráðuneytið hefur málið til meðferðar. Á það ekki síst við í ljósi þess að skv. 2. mgr. 85. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frestar áfrýjun á ákvörðunum Vinnueftirlits ríkisins á grundvelli 85. gr. laganna ekki stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar en skv. 3. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga gilda 1. og 2. mgr. sömu greinar ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Beiðni S.B. brugghúss ehf. um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnueftirlits ríkisins, nr. 16/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun tiltekinna bruggunarkúta og öryggisloka þeim tengdum í eigu félagsins, er hafnað.