Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félagsmálaráðuneytisins 9/2020

Föstudaginn 18. desember 2020 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 2020, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 18. september 2020, kærði […], lögmaður, fyrir hönd OFG - Verk ehf., kt. 491101-2530, og […], sem er albanskur ríkisborgari, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2020, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá OFG - Verk ehf.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […]í því skyni að ráða sig til starfa hjá OFG - Verk ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins með tölvubréfi dags. 19. ágúst 2020, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 18. september 2020. Í fyrrnefndu tölvubréfi, dags. 19. ágúst 2020, kemur fram að kærðar séu ákvarðanir Vinnumálastofnunar í málum alls fjögurra albanskra ríkisborgara á meðan mál þeirra séu til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála. Í tölvubréfinu kemur jafnframt fram að umræddir útlendingar hafi kært ákvarðanir Útlendingastofnunar er varða dvalarleyfi þeirra til kærunefndar útlendingamála sem hafi frestað réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar.

Með tölvubréfum, dags. 3. og 8. september 2020, bárust ráðuneytinu frekari gögn í tengslum við umrætt erindi til ráðuneytisins. Í tölvubréfinu, dags. 8. september 2020, kemur fram að með erindi, dags. 19. ágúst 2020, hafi einungis verið ætlunin að óska eftir frestun réttaráhrifa hvað varðar ákvarðanir Vinnumálastofnunar svo umræddum útlendingum sé heimilt að starfa hér á landi á meðan mál þeirra væru til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála. Ætlunin hafi hins vegar ekki verið að kæra efnislegar ákvarðanir Vinnumálastofnunar.

Með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 11. september 2020, vísaði ráðuneytið til þess að skv. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé meginreglan sú að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra sé til meðferðar þar sem ástæður mæli með því, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Vísaði ráðuneytið jafnframt til þess að í ljósi framangreinds skorti ráðuneytið heimild til að taka til efnislegrar meðferðar beiðni um frestun réttaráhrifa ákvarðana sem ekki hafi verið kærðar til ráðuneytisins.

Í tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 11. september 2020, var jafnframt tekið fram að hafi verið ætlunin að kæra framangreindar ákvarðanir Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins óski ráðuneytið eftir upplýsingum um ástæður þess að umrætt erindi hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti.

Með erindi til ráðuneytisins, dags. 18. september 2020, barst ráðuneytinu undirrituð stjórnsýslukæra þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2020, um synjun á veitingu umrædds atvinnuleyfis er kærð til ráðuneytisins. Þá kemur fram að óskað sé eftir frestun réttaráhrifa framangreindrar ákvörðunar þar sem verulegir hagsmunir séu í því fólgnir að viðkomandi útlendingi sé heimilt að starfa hér á landi á meðan mál hans sé til meðferðar í ráðuneytinu, meðal annars í ljósi þess að eiginkona hans sé þunguð.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. september 2020, óskaði ráðuneytið á ný eftir upplýsingum um ástæður þess að umrætt erindi hafi borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 6. október 2020.

Þar sem svarbréf barst ekki við framangreindu bréfi ráðuneytisins sendi ráðuneytið að nýju bréf til kærenda, dags. 13. október 2020, þar sem ráðuneytið ítrekaði enn á ný beiðni um upplýsingar um ástæður þess að umrætt erindi hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti. Jafnframt tók ráðuneytið fram að ráðuneytið myndi ljúka afgreiðslu málsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna hefðu umbeðnar upplýsingar ekki borist ráðuneytinu fyrir 21. október 2020.

Þar sem svar barst ekki við bréfi ráðuneytisins, dags. 13. október 2020, mun ráðuneytið ljúka afgreiðslu málsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í máli því sem hér um ræðir var því lögbundinn kærufrestur runninn út áður en ráðuneytinu barst umrætt erindi kærenda, dags. 19. ágúst 2020, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 18. september 2020.

Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð af gögnum málsins en að upplýsingar um ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi borist kærendum með hefðbundnum hætti þegar í kjölfar þess að ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir eða með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. júní 2020, en í bréfinu kemur meðal annars fram að kærufrestur sé fjórar vikur. Hins vegar er ekki að finna í fyrirliggjandi gögnum málsins upplýsingar um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.

Ráðuneytið óskaði ítrekað eftir nánari upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti en kærendur urðu ekki við þeirri beiðni ráðuneytisins. Í ljósi þess skortir ráðuneytið forsendur til að meta hvort afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga liggi að baki því að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.

Þá verður að mati ráðuneytisins ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum í málinu að hagsmunir kærenda séu annars eðlis en almennt á við í sambærilegum málum og því verður að mati ráðuneytisins ekki talið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er erindi kærenda vísað frá ráðuneytinu, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Stjórnsýslukæru OFG – Verk ehf. og […], dags. 19. ágúst 2020, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 18. september 2020, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2020, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá OFG - Verk ehf., er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

 

Fyrir hönd félags- og barnamálaráðherra

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta