Úrskurður félagsmálaráðuneytisins nr. 003/2020
Miðvikudaginn 24. júní 2020 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 21. júní 2018, sbr. einnig erindi, dags. 23. júní 2018, til velferðarráðuneytisins, síðar félagsmálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 118/2018, um skiptingu Stjórnaráðs Íslands í ráðuneyti, dags 3. maí 2018, kærðu Eðalfiskur ehf., kt. 590204-2690, og […], sem er egypskur ríkisborgari, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2018, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Eðalfiski ehf.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er egypskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Eðalfiski ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.
Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins með erindi, dags. 21. júní 2018, sbr. einnig erindi dags. 23. júní 2018. Í erindi kærenda, dags. 21. júní 2018, kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi telji afar íþyngjandi að þurfa að auglýsa umrætt starf laust til umsóknar með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem slíkar auglýsingar hafi aldrei borið árangur í tengslum við laus störf hjá fyrirtæki hans en enginn starfsmaður starfi hjá honum sem ráðinn hafi verið í kjölfar slíkrar auglýsingar. Jafnframt kemur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi telji afgreiðslu Vinnumálastofnunar hafa miðað að því að hamla eðlilegum vexti og þróun í fyrirtæki hans. Þá er vísað til þess að við rekstur málsins hafi gætt ósamræmis í samskiptum Vinnumálastofnunar og hlutaðeigandi atvinnurekanda þar sem stofnunin hafi annars vegar lýst þeirri skoðun sinni að unnt væri að finna hæft fólk til þess að gegna umræddu starfi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði en stofnunin hafi hins vegar tilkynnt hlutaðeigandi atvinnurekanda að ekki væru skráðir hjá stofnuninni einstaklingar án atvinnu sem gegnt gætu starfinu.
Í erindi kærenda, dags. 23. júní 2018, kemur fram að viðkomandi útlendingur telji synjun Vinnumálastofnunar í málinu ekki byggða á málefnalegum eða rökréttum sjónarmiðum. Viðkomandi útlendingur dvelji löglega innan Evrópusambandsins þar sem að hann hafi bæði dvalar- og atvinnuleyfi í Póllandi. Hann hafi eytt umtalsverðum fjármunum í að ferðast hingað til lands og hafi í kjölfarið fengið atvinnuviðtal hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda sem hafi metið hann hæfan til að gegna starfinu. Jafnframt kemur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi áður reynt að auglýsa eftir starfsfólki með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, en án árangurs og telur viðkomandi útlendingur því ekki málefnalegt að Vinnumálastofnun vísi til þess í ákvörðun sinni að það starf sem hér um ræðir hafi ekki verið auglýst.
Erindi kærenda voru send Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 5. júlí 2018, og var stofnuninni veittur frestur til 19. júlí sama ár til að koma umsögn sinni til ráðuneytisins.
Vegna sumarleyfa starfsmanna Vinnumálastofnunar óskaði stofnunin með tölvubréfi til ráðuneytisins, dags. 9. júlí 2018, eftir frekari fresti til 14. ágúst 2018 til að svara bréfi ráðuneytisins, dags. 5. júlí 2018. Var sá frestur veittur með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 11. júlí 2018.
Hinn 30. júlí 2018 barst ráðuneytinu tölvubréf frá kæranda þar sem áður framkomin sjónarmið hans í málinu eru ítrekuð og skorað á ráðuneytið að hraða ákvörðun sinni í málinu.
Með tölvubréfi Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 13. ágúst 2018, óskaði stofnunin eftir enn frekari fresti eða til loka ágústmánaðar 2018 til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Var sá frestur veittur með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 14. ágúst 2018.
Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2018, kemur fram að fyrirhugað starf viðkomandi útlendings hafi verið tilgreint í ráðningarsamningi og umsóknargögnum sem starf verkamanns í laxvinnslu. Með bréfi, dags. 25. maí 2018, hafi Vinnumálastofnun upplýst hlutaðeigandi atvinnurekanda um lagaskilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki. Þar hafi jafnframt komið fram það mat Vinnumálastofnunar að leit að starfsmanni innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðisins myndi ekki verða árangurslaus og að ekki væru til staðar sérstakar ástæður sem réttlættu að vikið yrði frá meginreglu a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja að Evrópska efnahagssvæðinu til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði. Þá væri fyrirséð, miðað við fyrirliggjandi gögn, að umsókn kærenda um tímabundið atvinnuleyfi yrði synjað þar sem umrætt starf hefði ekki verið auglýst laust til umsóknar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fram kemur að hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi verið gefinn kostur á að auglýsa það starf sem um ræðir með milligöngu Vinnumálastofnunar, meðal annars á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og að koma á framfæri við stofnunina rökstuðningi fyrir því af hverju stofnunin ætti að veita umrætt atvinnuleyfi þrátt fyrir framangreint.
Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi svarað fyrrnefndu bréfi stofnunarinnar með tölvubréfum sendum á tímabilinu frá 25. maí til 14. júní 2018. Þar hafi komið fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi áður auglýst eftir starfsfólki með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, en án árangurs sem og að slíkar auglýsingar kosti jafnframt mikla fyrirhöfn og tíma að mati hlutaðeigandi atvinnurekanda. Jafnframt hafi komið fram það mat hlutaðeigandi atvinnurekanda að krafa Vinnumálastofnunar þess efnis að auglýsa bæri umrætt starf laust til umsóknar innan Evrópska efnahagssvæðisins fæli í sér skerðingu á rekstrarfrelsi fyrirtækis hans.
Enn fremur segir í umsögn Vinnumálastofnunar að umsókn kærenda um atvinnuleyfi hafi verið synjað þann 18. júní 2018 með vísan til þess að unnt hafi verið að manna umrætt starf með einstaklingi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði og að ekkert hafi komið fram í samskiptum stofnunarinnar við hlutaðeigandi atvinnurekanda sem hafi haft slíkt vægi að líta bæri fram hjá hinum lögbundnu sjónarmiðum um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði. Nokkur samskipti hafi átt sér stað milli hlutaðeigandi atvinnurekandi og þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Vesturlandi við leit að starfsfólki en hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi jafnframt á öllum stigum málsins verið boðið að auglýsa starfið á Evrópska efnahagssvæðinu með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi jafnframt verið upplýstur um að ef slík auglýsing myndi ekki skila árangri gæti það verið vísbending um að skortur væri á starfsfólki til að gegna umræddu starfi í skilningi laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þannig hafi tilgangur auglýsingar með milligöngu vinnumiðlunarinnar verið útskýrður og gerð grein fyrir afleiðingum þess fyrir meðferð umsóknarinnar ef leit að starfsmanni á þann hátt færi ekki fram. Hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi hins vegar ekki leitað til vinnumiðlunarinnar og hafi það komið skýrt fram við meðferð málsins að hann hefði ekki í hyggju að gera það í tilefni af meðferð umsóknarinnar.
Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að af umsóknargögnum megi ráða að fyrirhugað starf viðkomandi útlendings sé starf verkamanns við laxvinnslu. Engin sérstök sjónarmið hafi komið fram í umræddri umsókn um tímabundið atvinnuleyfi þess efnis að gerðar væru kröfur til þess sem ráðinn yrði til að gegna starfinu umfram þær kröfur sem almennt séu gerðar til ófaglærðra einstaklinga. Auk þess kemur fram að engar upplýsingar sé að finna í gagnagrunni Vinnumálastofnunar þess efnis að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi auglýst eftir starfsfólki með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá hafi ekki verið litið sérstaklega til staðhæfingar hlutaðeigandi atvinnurekanda þess efnis að viðkomandi hafi áður auglýst laust starf til umsóknar með milligöngu fyrrnefndrar vinnumiðlunar enda verði auglýsing með milligöngu vinnumiðlunarinnar að vera nokkuð nýleg til að geta skipt máli við mat á því hvort skortur sé á starfsfólki vegna þess starfs sem um ræðir hverju sinni.
Þá er rakið í umsögn Vinnumálastofnunar að stofnunin sé við ákvarðanatöku bundin af lögum þar sem atvinnu- og athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja séu ýmis takmörk sett. Í lögum sé meðal annars kveðið á um forgangsrétt til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði og í hvaða tilvikum komi til greina að víkja frá honum. Í ákvörðunum Vinnumálastofnunar og í úrskurðum ráðuneytisins hafi komið fram tiltekin viðmið við mat á því hvort skortur sé á starfsfólki í skilningi laga um atvinnuréttindi útlendinga í sambærilegum málum og hér um ræðir sem stofnunin telur sig bundna af. Að mati Vinnumálastofnunar sé því ekki unnt að álykta sem svo að málsmeðferð og ákvarðanataka stofnunarinnar í máli þessu hafi ráðist af því sjónarmiði að hamla eðlilegum vexti og þróun fyrirtækis hlutaðeigandi atvinnurekanda líkt og kærendur haldi fram.
Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur að lokum fram að ekki hafi komið til skoðunar að viðkomandi útlendingur hafi búið og starfað í Póllandi áður en honum hafi boðist starf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda þegar lagt hafi verið mat á hvort skortur væri á starfsfólki í skilningi 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Litið hafi verið til starfsins sem slíks og hvort skortur væri á starfsfólki til að gegna því sem hefði ótakmarkaða heimild til að starfa hér á landi. Hafi því ekki komið til skoðunar hvort hlutaðeigandi útlendingur væri til þess fallinn að gegna starfinu. Að mati Vinnumálastofnunar geti slíkt ekki komið til skoðunar nema grundvöllur sé fyrir því að álykta að skortur sé á starfsfólki til þess að gegna því starfi sem um ræðir hverju sinni. Því sé ekki litið til kynþáttar eða þjóðernisuppruna einstaklinga við meðferð slíkra mála hjá Vinnumálastofnun.
Með bréfum ráðuneytisins, dags. 10. september 2018, var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum sínum við umsögn Vinnumálastofnunar og var frestur veittur til 25. september 2018.
Í svarbréfi kærenda, dags. 16. september 2018, er óhóflegum drætti málsins mótmælt af hálfu kærenda. Þar kemur jafnframt fram að sótt hafi verið um tímabundið atvinnuleyfi þar sem viðkomandi útlendingur hafi þegar fengið útgefið atvinnuleyfi í Póllandi og hafi starfað þar í landi. Rík þörf hafi verið á starfsfólki hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda og að umrætt starf hafi verið auglýst innanlands bæði á íslensku og ensku. Ekki hafi verið auglýst með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, vegna slæmrar reynslu hlutaðeigandi atvinnurekanda af því að auglýsa laus störf með þeim hætti.
Hvað varði rökstuðning Vinnumálastofnunar þess efnis að auglýsa beri starfið laust til umsóknar með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, sé það mat kærenda að launamenn eigi að geta leitað að auglýstum störfum hér á landi og að hagkvæmara sé fyrir atvinnurekendur að ráða til starfa fólk sem þegar sé statt hér á landi og sé viljugt til starfa en mikil kvöð sé í því falin fyrir lítil fyrirtæki að þurfa að auglýsa laus störf til umsóknar með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það sé enn fremur mat kærenda að túlkun Vinnumálastofnunar þess efnis að auglýsa beri laus störf til umsóknar með milligöngu vinnumiðlunarinnar standist ekki skoðun en viðkomandi útlendingur hafi reynst einn sá hæfasti starfsmaður sem leitað hafi til hlutaðeigandi atvinnurekanda eftir atvinnu.
Í svarbréfi kærenda kemur jafnframt fram að viðvarandi skortur hafi verið á starfsfólki hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda en ekki hafi verið skráðir hjá Vinnumálastofnun einstaklingar án atvinnu sem hentað hafi fyrir umrætt starf. Það sé mat kærenda að viðkomandi útlendingur uppfylli skilyrði a-liðar 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þar sem hann hafi þegar verið starfandi innan Evrópska efnahagssvæðisins og hafi honum því verið mismunað á grundvelli þjóðernis við rekstur málsins hjá Vinnumálastofnun.
II. Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytis, áður velferðarráðuneytis, ákvörðun Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2018, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.
Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga á innlendum vinnumarkaði eru veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra.
Samkvæmt 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi þegar starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu eru meðal annars að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laganna séu uppfyllt. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laganna er það skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis að starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja eða aðrar sérstakar ástæður mæli með veitingu atvinnuleyfis. Þá er tekið fram að áður en atvinnuleyfi sé veitt beri atvinnurekanda að hafa leitað eftir starfsfólki með aðstoð Vinnumálastofnunar nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.
Í athugasemdum við 7. gr. a frumvarps þess er varð að gildandi 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1997, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, kemur fram að ákvæðið fjalli um tímabundið atvinnuleyfi sem ætlað er að mæta tímabundnum sveiflum í íslensku atvinnulífi. Gert sé „ráð fyrir að einungis reyni á ákvæði þetta við sérstakar aðstæður enda mikil áhersla lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áfram er því gert ráð fyrir því að atvinnurekandi þurfi að færa sérstök rök fyrir nauðsyn þess að ráða til sín erlent starfsfólk frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins enda verði höfð hliðsjón af aðstæðum á innlendum vinnumarkaði við veitingu atvinnuleyfa sem og hvort vinnuafl fáist frá aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-ríkjum eða Færeyjum. Er gert ráð fyrir að ríkar kröfur verði gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði en mat á þörf eftir vinnuafli verður áfram á ábyrgð Vinnumálastofnunar.“ Er jafnframt vísað til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins er varð að gildandi 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Þar er tekið fram að atvinnurekandi verði að gera grein fyrir þeim tilraunum sem hann hafi gert til að ráða fólk sem þegar hafi aðgengi að innlendum vinnumarkaði auk þess sem áhersla er lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með aðstoð Vinnumálastofnunar, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, áður en leitað er út fyrir svæðið eftir starfsfólki. Þá segir að það falli „í hlut Vinnumálastofnunar að kanna sjálfstætt áður en atvinnuleyfi er veitt hvert atvinnuástandið innan lands er á hverjum tíma og hvort útséð er um að vinnuafl fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, frá EFTA-ríkjum eða Færeyjum, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðis þessa, enda hlutverk stofnunarinnar að fylgjast með atvinnuástandi í landinu í því skyni að koma í veg fyrir atvinnuleysi eins og frekast er unnt.“
Af efni ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, má því ráða að mat Vinnumálastofnunar á því hvort skilyrði ákvæðisins fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa séu uppfyllt skuli aðallega byggjast á aðstæðum á innlendum vinnumarkaði hverju sinni sem og hvort starfsfólk fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja. Þar á meðal er átt við hið lögbundna hlutverk Vinnumálastofnunar að meta hvort leit atvinnurekanda að starfsmanni, sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, sé fyrirsjáanlega árangurslaus og þar með ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis. Beiðni um aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði er því lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis enda telji stofnunin leitina ekki fyrirsjáanlega árangurslausa.
Við mat á því hvort skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, séu uppfyllt ber Vinnumálastofnun jafnframt að líta til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig 2. gr. sömu laga. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. einnig lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum. Ákvæði 28.-30. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið fjalla sérstaklega um frjálsa för launafólks og eru ákvæðin nánar útfærð í gerðum um þetta efni sem hafa verið felldar undir V. viðauka við samninginn. Samkvæmt reglugerð nr. 492/2011/ESB, um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem tekið hefur gildi hér á landi, sbr. lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sérhver ríkisborgari annars aðildarríkis njóta þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. Er þar jafnframt kveðið á um náið samstarf vinnumiðlana aðildarríkjanna um miðlun lausra starfa innan svæðisins. Það telst því felast í skuldbindingum íslenskra stjórnvalda samkvæmt framangreindum samningi að þau veiti launamönnum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sama aðgang og íslenskir ríkisborgarar hafa að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði og þar með forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að þeim störfum.
Það er því jafnframt lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, að atvinnurekandi hafi áður leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, eftir að leit hans innanlands hefur ekki skilað árangri. Jafnframt eru gerðar ríkar kröfur til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði.
Eftir að hafa lagt mat á aðstæður á innlendum vinnumarkaði taldi Vinnumálastofnun að meginregla ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, ætti við í máli þessu og því nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis að hlutaðeigandi atvinnurekandi hefði áður óskað eftir aðstoð stofnunarinnar við leit að starfsfólki í þetta tiltekna starf, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Samkvæmt gögnum málsins var það mat Vinnumálastofnunar að unnt hafi verið að manna umrætt starf með einstaklingi sem þegar hefði aðgengi að innlendum vinnumarkaði og að ekkert hafi komið fram í samskiptum stofnunarinnar við hlutaðeigandi atvinnurekanda sem hafi haft slíkt vægi að líta bæri fram hjá hinum lögbundnu sjónarmiðum um forgangsrétt ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi verið upplýstur um að auglýsa bæri umrætt starf laust til umsóknar, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess sem hann hafi verið upplýstur um afleiðingar þess fyrir meðferð umsóknarinnar ef leit eftir starfsmanni á þann hátt færi ekki fram.
Það fellur ávallt í hlut viðkomandi atvinnurekanda að auglýsa það starf sem um ræðir hverju sinni laust til umsóknar þannig að atvinnuleitendur á innlendum vinnumarkaði og sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins fái tækifæri til að sækja um starfið. Af gögnum málsins má ráða að það starf sem hér um ræðir hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar með framangreindum hætti. Ríkar kröfur eru gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði með aðstoð Vinnumálastofnunar áður en skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins eru talin uppfyllt enda þótt ætla verði atvinnurekendum ákveðið svigrúm varðandi þær kröfur sem gerðar eru til starfsmanna þeirra.
Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð en að mat Vinnumálastofnunar, þess efnis að í ljósi forgangsréttar ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði hafi hlutaðeigandi atvinnurekanda borið að leita eftir starfsfólki innan svæðisins, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati ráðuneytisins á það ekki síst við í ljósi eðlis þess starfs sem hér um ræðir sem og að í júní 2018 mældist atvinnuleysi innan Evrópska efnahagssvæðisins að meðaltali um 6,9% en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru að jafnaði rúmlega 4.000 einstaklingar skráðir án atvinnu hér á landi á sama tíma sem samsvarar því að skráð atvinnuleysi hérlendis hafi verið um 2,1% í júní 2018, sbr. skýrslu stofnunarinnar um vinnumarkaðinn á Íslandi fyrir júní 2018.
Þegar litið er til aðstæðna á innlendum vinnumarkaði, skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, þess að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi ekki óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsmanni til að gegna umræddu starfi sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og gagna málsins í heild er það mat ráðuneytisins að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi ekki fullreynt með aðstoð Vinnumálastofnunar að ráða einstakling í starfið sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði, svo sem með því að auglýsa starfið laust til umsóknar, meðal annars með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í gögnum málsins kemur fram að kærendur telji að atvinnuleyfi umrædds útlendings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið leiði til þess að hann hafi einnig aðgengi að vinnumarkaði hér á landi. Í því sambandi vísar ráðuneytið til þess að samkvæmt reglugerð nr. 492/2011/ESB, um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, eru það aðeins ríkisborgarar aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem njóta þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis sem í hlut á hverju sinni. Þá eru í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, tæmandi taldir þeir aðilar sem eru undanþegnir kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi en þar er meðal annars kveðið á um að ríkisborgarar í ríkjum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi. Ríkisborgarar ríkja sem ekki eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið falla því ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 22. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og skiptir þá ekki máli hvort þeim hafi verið veitt atvinnuleyfi í einhverju aðildarríkja samningsins. Að mati ráðuneytisins nýtur ríkisborgari ríkis, sem ekki er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, því ekki sama forgangsréttar til lausra starfa á innlendum vinnumarkaði og ríkisborgari ríkis sem er aðili að samningnum. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að lögleg dvöl ríkisborgara ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið leiði því ekki til þess að viðkomandi hafi forgang umfram ríkisborgara ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að lausum störfum á vinnumörkuðum aðildarríkja samningsins.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, um veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2018, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er egypskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Eðalfiski ehf., skal standa.