Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 2/2023

Mánudaginn 17. júlí 2023 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, sem barst félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu 12. maí 2023, kærðu Kaffihús Kaffitárs ehf., kt. […], og […], sem er kólumbískur ríkisborgari, fd. 22. september 1992, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Kaffihúsi Kaffitárs ehf.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er kólumbískur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Kaffihúsi Kaffitárs ehf. Sótt hafði verið um umrætt atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

 

Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu þeir ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála með tölvubréfi, dags. 10. maí 2023. Í kjölfarið framsendi úrskurðarnefnd velferðarmála fyrrnefnt tölvubréf til ráðuneytisins og barst það ráðuneytinu 12. maí 2023.

 

Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dags. 22. maí 2023, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 6. júní 2023 til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.

 

Í svarbréfi viðkomandi útlendings, dags. 23. maí 2023, kemur meðal annars fram að í kjölfar þess að kærendum hafi borist ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi þeir haft samband við stofnunina til þess að fá upplýsingar um kærurétt sinn. Að sögn kærenda hafi Vinnumálastofnun upplýst kærendur um að þeir gætu kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála og að málsmeðferðartíminn hjá nefndinni væri um 26 mánuðir.

 

Í fyrrnefndu svarbréfi viðkomandi útlendings kemur enn fremur fram að aðili tengdur viðkomandi útlendingi hafi síðar haft samband við úrskurðarnefnd velferðarmála og fengið upplýsingar um að málsmeðferðartíminn hjá nefndinni væri um fjórir til sex mánuðir. Í kjölfarið hafi kærendur kært ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Síðar hafi þeir fengið upplýsingar um að kæruréttur væri til ráðuneytisins. Kærendur benda því á að þeir hafi fengið misvísandi upplýsingar, bæði hvað varðar málsmeðferðartímann sem og til hvaða stjórnvalds væri heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar, sem hafi leitt til þess að ekki hafi verið kært innan kærufrests.  

 

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í máli því sem hér um ræðir rann því lögbundinn kærufrestur út þann 4. apríl 2023 en umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu ekki fyrr en 12. maí 2023 eða rúmlega níu vikum eftir að lögbundnum kærufresti lauk.

 

Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

 

Í ljósi framangreinds óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti. Í svarbréfi viðkomandi útlendings kemur meðal annars fram að kærendur hafi fengið misvísandi upplýsingar um til hvaða stjórnvalds heimilt væri að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar sem hafi leitt til þess að ekki hafi verið kært innan kærufrests.

 

Í gögnum málsins kemur fram að afrit af bréfi Vinnumálastofnunar, sem innihélt umrædda ákvörðun stofnunarinnar, hafi verið sent kærendum með tölvubréfi þann 6. mars 2023 eða sama dag og ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að í fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunar hafi meðal annars komið fram, bæði á íslensku og ensku, að kærendum væri heimilt að kæra ákvörðun stofnunarinnar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins innan fjögurra vikna frá því að tilkynning barst um ákvörðunina, sbr. 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.

 

Í ljósi framangreinds verður því að mati ráðuneytisins að ætla að kærendur hafi eigi síðar en um miðjan mars verið nægjanlega upplýstir af hálfu Vinnumálastofnunar um kæruleið sem og um þann frest sem þeir hefðu lögum samkvæmt til að kæra til ráðuneytisins umrædda ákvörðun stofnunarinnar.

 

Það er því jafnframt mat ráðuneytisins að kærendur hafi ekki sýnt fram á afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Enn fremur verður að mati ráðuneytisins ekki ráðið af gögnum málsins að hagsmunir kærenda séu annars eðlis en almennt eiga við í sambærilegum málum og því verður að mati ráðuneytisins ekki talið að veigamiklar ástæður séu fyrir hendi sem mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Með vísan til framangreinds er erindi kærenda vísað frá ráðuneytinu, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Stjórnsýslukæru Kaffihúss Kaffitárs ehf. og […], sem barst félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu 12. maí 2023, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], í því skyni að ráða sig til starfa hjá Kaffihúsi Kaffitárs ehf., er vísað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta