Úrskurður vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja umsókn kæranda um skráningu heimagistingar.
Úrskurður, dags. 10. janúar 2019, vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja umsókn kæranda um skráningu heimagistingar.
Stjórnsýslukæra
Með stjórnsýslukæru dags. 4. apríl 2018, bar [R] (hér eftir kærandi) fram kæru vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 3. apríl 2018, um að synja umsókn kæranda um skráningu heimagistingar að [H].
Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem og 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Kæran barst innan kærufrests.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og breytt á þá vegu að kæranda verði veitt heimilt til að reka heimagistingu að [H].
Málsatvik
Þann 7. mars 2018 lagði kærandi inn beiðni til sýslumanns um skráningu heimagistingar að [H].
Sýslumaður tilkynnti kæranda fyrirhugaða synjun á skráningu í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á grundvelli þess að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði skráningar hvað varðaði lögheimili né eignarheimild.
Kæranda var veittur 14 daga frestur til að koma andmælum eða athugasemdum að áður en skráningu yrði synjað.
Með tölvupósti dags. 7. mars. 2018 mótmælti kærandi fyrirhugaðri synjun með vísan til þess að þinglýstur eigandi [H] væri eiginmaður kæranda og fasteignin væri þar af leiðandi sameiginleg eign kæranda og þinglýsts eiganda.
Þann 3. apríl 2018 synjaði sýslumaður beiðni kæranda um skráningu heimagistingar að [H] með vísan til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði skráningar á umræddri fasteign, hvorki á grundvelli lögheimilisskráningar né eignarheimildar. Kæranda var jafnframt leiðbeint um kæruleiðir.
Þann 4. apríl 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem kærð er ákvörðun sýslumanns um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir skráningu heimagistingar að [H].
Með bréfi dags. 17. apríl 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt gögnum málsins. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu með bréfi dags. 23. apríl 2018. Umsögn sýslumanns var send kæranda til andmæla með bréfi dags. 7. maí 2018. Andmæli kæranda bárust með bréfi dags. 19. maí 2018.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun sýslumanns, dags. 20. júlí 2017, um að synja skráningu heimagistingar að [H] verði felld úr gildi og breytt á þá leið að kæranda verði gert heimilt að reka þar heimagistingu.
Kærandi byggir á því að hún uppfylli öll skilyrði fyrir skráningu heimagistingar að [H]. Kærandi mótmælir afstöðu sýslumanns um að hún þurfi að vera þinglýstur eigandi umræddar eignar. Kærandi byggir á því að hún sé eigandi [H] og uppfylli öll skilyrði þess að reka þar heimagistingu. Kærandi byggir enn fremur á því að eignarheimild hennar sé til komin vegna þess að hún og þinglýstur eigandi [H] hafi verið í hjúskap þegar eiginmaður hennar varð þinglýstur eigandi að umræddri eign.
Loks byggir kærandi á því að þinglýsingalög nr. 39/1978 og hjúskaparlög nr. 31/1993, sem sýslumaður vísar til í rökstuðningi fyrir synjun á skráningu, hafi tekið gildi eftir að kaupin áttu sér stað og eftir að kærandi og þinglýstur eigandi gengu í hjúskap.
Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið sýslumanns
Í framhaldi stjórnsýslukærunnar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt öllum málsgögnum. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 23. apríl 2018.
Í umsögn sýslumanns segir að lagaskilyrði hafi brostið fyrir skráningu heimagistingar á eignina að [H].
Í umsögn sýslumanns er enn fremur bent á að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði skráningar á grundvelli lögheimilis né eignarheimildar, skv. 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, ásamt síðari breytingum, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni.
Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögn sýslumanns.
Forsendur og niðurstaða
Eins og fram kemur hér að ofan synjaði sýslumaður umsókn kæranda frá 7. mars 2018 um skráningu heimagistingar að [H]. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra með bréfi, dags. 4. apríl 2018, þar sem kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og niðurstöðu sýslumanns breytt á þá vegu að kæranda verði heimilt að reka heimagistingu að [H].
Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.
Kærandi byggir fyrst og fremst á eftirfarandi sjónarmiðum:
- Að hún uppfylli öll lagaleg skilyrði fyrir skráningu heimagistingar að [H].
- Að hún þurfi ekki að vera þinglýstur eigandi heldur dugi eignarheimild hennar að [H] ein og sér.
- Að eignarheimildin sé til komin vegna þess hún sé, og hafi verið, í hjúskap með þinglýstum eiganda þegar kaupin að umræddri eign áttu sér stað.
Þá byggir kærandi enn fremur á því að hún hafi greitt af húsnæðislánum sem hvíldu á [H]. Auk þess hafi eignin aldrei verið leigð út heldur eingöngu verið til notkunar innan fjölskyldunnar.
Heimagisting er skilgreind í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þar segir m.a.:
„Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu.“
Ráðuneytið getur fallist á það með kæranda að þinglýst eignarhald er ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir skráningu heimagistingar. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 3. gr. ofangreindra laga er hins vegar ljóst að einstaklingur þarf annað hvort að uppfylla skilyrði skráningar á grundvelli lögheimilis eða eignarhalds.
Óumdeilt er að kærandi var ekki, og er ekki, með skráð lögheimili að [H].
Þá kemur til skoðunar hvort kærandi sé eigandi fasteignarinnar að [H] í skilningi 1. mgr. 3. gr. ofangreindra laga.
Í 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 segir:
„Þinglýsta eignarheimild hefur sá, er þinglýsingabók nefnir eiganda á hverjum tíma.“
Í athugasemdum við frumvarp til þinglýsingalaga segir um 25. gr.:
„Ljóst er, að sá maki, sem greindur er í þinglýsingabók sem eigandi, er réttur heimildarmaður, nema bæði hjón séu þar taldir eigendur.“
Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er ekki skráð þinglýstur eigandi að [H] í þinglýsingabók. Þinglýstur eigandi er einn skráður [E].
Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 er fjallað ítarlega um eignir hjóna, forræði þeirra og takmarkanir þar á. Í 1. mgr. 4. gr. sömu laga er sett fram eftirfarandi meginregla:
„Hvort hjóna ræður yfir eign sinni og svarar til skulda sinna eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum.“
Þrátt fyrir að þinglýstur eigandi að fasteign geti þurft að sæta takmörkunum á forræði yfir eign sinni meðan á hjúskap stendur, og að eign kunni að koma til skipta við hjónaskilnað skv. ákvæðum hjúskaparlaga, miðast eignarheimild í skilningi 1. mgr. 3. gr. áðurnefndra laga nr. 85/2007, við þann aðila sem nefndur er eigandi í þinglýsingabók á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Með vísan til ofangreinds getur ráðuneytið ekki fallist á röksemdir kæranda, um að hún, sem ekki er skráð eigandi í þinglýsingabók, uppfylli skilyrði um eignarhald líkt og krafa er gerð um í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007.
Þá bendir ráðuneytið á að meðferð kærunnar og niðurstaða fer eftir núgildandi lögum, sem voru einnig í gildi þegar umsókn kæranda var lögð fram til sýslumanns.
Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ákvörðun sýslumanns, um að synja umsókn kæranda um skráningu heimagistingar að [H] hafi ekki verið ólögmæt.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 3. apríl 2018, um að synja umsókn kæranda um skráningu heimagistingar að [H] er staðfest.