Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir ferðamál

Rekstrarleyfi vegna gististaðar í flokki II

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 17. ágúst 2017 bar [A hrl.] fram kæru f.h. [B] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 21. júlí 2017 um að synja umsókn um rekstrarleyfi fyrir gististað í fl. II í tveimur íbúðum að [C].

Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.

Málsatvik

Upphaf málsins má rekja til umsóknar kæranda, dags. 11. maí 2017, um rekstrarleyfi fyrir gististað í fl. II í tveimur íbúðum að [C].

Umsóknin fór í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Skrifstofa borgarstjórnar lagðist gegn gegn útgáfu rekstrarleyfis þann 26. maí 2017 á þeim grundvelli að staðsetning fyrirhugaðrar starfsemi væri á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB9, þar sem ekki sé heimilt að reka gististaði í fl. II. Því væri umsókn ekki innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkurborgar kveða á um.

 

Með bréfi dags. 2. júní 2017 tilkynnti sýslumaður kæranda að fyrirhugað væri að synja umræddri umsókn á grundvelli fyrirliggjandi umsagna. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri andmælum eða athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þann 22. júní 2017 bárust andmæli frá kæranda með bréfi. Var því m.a. borið við að fyrirhuguð synjun bryti í bága við meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þá var því haldið fram að kærandi hafi öðlast réttmætar væntingar til útgáfu leyfisins.

Með bréfi dags. 21. júlí 2017 hafnaði sýslumaður framkomnum athugasemdum og synjaði umsókn kæranda.

Þann 22. ágúst 2017 barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna synjunar sýslumanns á umræddri umsókn.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2017 óskaði ráðuneytið umsagnar sýslumanns um kæruna. Þá fór ráðuneytið fram á að fá send gögn málsins.

Umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum bárust með bréfi dags. 6. september 2017. Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 12. september 2017.

Með bréfi dags. 21. september 2017 mótmælti kærandi umsögn sýslumanns og ítrekaði fyrri málsástæður.

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun sýslumanns dags. 21. júlí 2017, um synjun á útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í fl. II í tveimur íbúðum að [C], verði felld úr gildi.

Kærandi telur að ákvörðun sýslumanns hafi farið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Þá telur kærandi að synjun umsóknar hafi farið gegn meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

 

Í kæru kemur fram að umræddar fasteignir séu staðsettar í miðbæ Reykjavíkur og séu óteljandi gististaðir í nágrenninu. Í kæru er bent á að gistiheimili í nálægum fasteignum hafi fengið útgefin rekstrarleyfi. Megi þar nefna [D], [E], [F], [G], [H], [I], [J] og [K].

 

Kærandi telur að fyrirhuguð starfsemi sé sambærileg þeirri sem nú þegar er stunduð í nærliggjandi fasteignum.

 

Kærandi telur ákvörðun sýslumanns fara í bága við  atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Einungis megi setja þessu frelsi skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Slíku sé ekki fyrir að fara í máli þessu.

 

Af framangreindu virtu telur kærandi sig hafa réttmætar væntingar til útgáfu rekstrarleyfis.. 

 

Í kæru kemur einnig fram að umsögn skrifstofu borgarstjórnar sé illa rökstudd. Verði að gera þá kröfu að umsagnaraðilar taki tillit til meginreglna stjórnsýsluréttar og rökstyðji neikvæðar umsagnir sínar vel. Kærandi telur að slíkt hafi ekki verið gert í tilfelli umsagnar skrifstofu borgarstjórnar, með þeim afleiðingum að brotið var gegn jafnræðis- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttar við úrlausn málsins. Af þeim sökum telur kærandi að ekki sé unnt að leggja umrædda umsögn til grundvallar í máli þessu.

 

Sjónarmið sýslumanns

Í framhaldi þess að kæra barst óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 6. september 2017.

 

Sýslumaður bendir á að skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsagna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni. 

 

Sýslumaður bendir á að neikvæð umsögn Reykjavíkurborgar byggist á því að umsókn kæranda samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

 

Sýslumaður bendir á að skv. 1. tl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 er hlutverk sveitastjórna m.a. að staðfesta að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. Það er mat sýslumanns að ekkert hafi komið fram í málinu sem hrófli við framkomnu mati Reykjavíkurborgar.

 

Varðandi athugasemdir kæranda um réttmætar væntingar vísar sýslumaður til þess að aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030 sem samþykkt var 24. febrúar 2014, feli í sér almennar takmarkanir til reksturs gististaða innan íbúðabyggða og þjónustukjarna. Þá séu rekstrarleyfi gefin út í samræmi við gildandi aðalskipulag hverju sinni.

 

Sýslumaður tekur ekki undir sjónarmið kæranda að í því felist brot á jafnræðisreglu að önnur gistiheimili haldi rekstrarleyfum sínum, sem gefin voru út fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags.

 

Varðandi athugasemdir kæranda um meðalhóf bendir sýslumaður á að málið hafi hafist með umsókn kæranda. Í ljósi þess að sýslumaður hafi talið að lagalegar forsendur hafi brostið til útgáfu leyfis hafi honum borið að synja umræddri umsókn. 

 

Viðbótarsjónarmið kæranda

Við meðferð málsins var kæranda veitt færi á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna umsagnar sýslumanns.

 

Með bréfi dags. 21. september 2017 kom kærandi á framfæri frekari athugasemdum.

 

Í bréfinu mótmælir kærandi umsögn sýslumanns í heild sinni. Einkum mótmælir kærandi umfjöllun sýslumanns um jafnræðisreglu og meðalhóf. Kærandi telur að í því felist brot á jafnræðisreglu að umsókn hans hafi ekki verið samþykkt. Þá áréttaði kærandi sjónarmið um réttmætar væntingar og brot á meðalhófsreglu.

 

Að öðru leyti ítrekaði kærandi þau sjónarmið og málsástæður sem áður hafa fram komið.

 

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr greinir synjaði sýslumaður umsókn kæranda um leyfi til reksturs gististaðar í fl. II í tveimur íbúðum að [C]. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra 22. ágúst 2017.

 

Sýslumaður veitti umsögn um kæruna með bréfi, dags. 6. september 2017. Þá bárust viðbótarsjónarmið og athugasemdir frá kæranda með bréfi dags. 21. september 2017.

 

Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.

 

Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsagna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni. 

 

Samkvæmt gögnum málsins grundvallast synjun sýslumanns á neikvæðri umsögn skrifstofu borgarstjórnar. Kemur þá til skoðunar hvort að umsögnin hafi verið haldin slíkum efnisannmörkum að sýslumanni hafi verið rétt að víkja henni til hliðar eða afla nýrra umsagna.

 

Um hlutverk umsagnaraðila er fjallað í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Samkvæmt ákvæðinu er hlutverk sveitarstjórnar m.a. að staðfesta að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 kemur fram að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.

 

Í málinu liggur fyrir að skrifstofa borgarstjórnar lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 26. maí 2017. Hin neikvæða umsögn byggist á því að fyrirhuguð starfsemi sé staðsett á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB9. Að mati umsagnaraðila er staðsetning fyrirhugaðrar starfsemi ekki innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkurborgar segja til um, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007.

 

Í kæru er m.a. byggt á því að útgáfa annarra rekstrarleyfa í miðborg Reykjavíkur hafi hlotið jákvæðæar umsagnir m.t.t. skipulags. Að mati ráðuneytisins getur það ekki talist brot á jafnræðisreglu að önnur gistiheimili haldi rekstrarleyfum sínum, sem gefin voru út fyrir gildistíð núgildandi aðalskipulags. Þá telur ráðuneytið ekki unnt að líta til afgreiðslu annarra rekstrarleyfa vegna gististarfsemi sem staðsett er á öðrum íbúðarsvæðum þar sem gert hefur verið ráð fyrir fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

 

Að framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem hróflað hafi við fyrirliggjandi mati lögbundins umsagnaraðila. Við meðferð málsins bar ráðuneytið athugasemdir kæranda undir umsagnaraðilann sem sá ekki tilefni til að endurskoða afstöðu sína.

 

Það er einnig mat ráðuneytisins að ekki megi ráða annað af gögnum máls en að afgreiðsla málsins hafi farið í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og viðurkennda stjórnsýslumeðferð.

 

Mál þetta hefst með umsókn aðila. Með hliðsjón af atvikum máls er það mat ráðuneytisins að meðferð málsins hafi ekki farið í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

 

Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið ákvörðun sýslumanns, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II í tveimur íbúðum að [C] lögmæta.

 

Vegna mikilla anna hefur dregist á langinn að úrskurða í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. júlí 2017, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II í tveimur íbúðum að [C], er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta