Úrskurður vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Vesturlandi um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II.
Úrskurður, dags. 15. mars 2019, vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Vesturlandi um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II.
Stjórnsýslukæra
Með tölvupósti, dags. 19. febrúar 2018, bar [S] fram kæru, f.h. félagsins [D slf.] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Vesturlandi (hér eftir sýslumaður) frá 20. desember 2017, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II við [G].
Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem og 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kæran barst innan kærufrests.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og rekstrarleyfi veitt.
Málsatvik
Upphaf þessa máls má rekja til 4. maí 2010, þegar umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar tók ákvörðun um að synja umsókn kæranda um útgáfu byggingarleyfis við [G]. Ákvörðun Snæfellsbæjar var tekin í tengslum við umsókn kæranda til sýslumanns um rekstrarleyfi vegna gististaðar í flokki II.
Í kjölfarið kærði kærandi ákvörðun Snæfellsbæjar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 42/2010, frá árinu 2012, var umrædd ákvörðun Snæfellsbæjar um að synja umsókn kæranda um útgáfu byggingarleyfis felld úr gildi.
Þann 29. júní 2016 sótti kærandi að nýju um rekstrarleyfi vegna gististaðar í flokki II til sýslumanns. Sýslumaður fór með umsókn kæranda líkt og fyrri umsókn kæranda og sendi hana í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þann 22. júlí 2016 komst Snæfellsbær að sömu niðurstöðu og 4. maí 2010, þess efnis að ekki væri unnt að veita jákvæða umsögn vegna umsóknar kæranda. Snæfellsbær byggði niðurstöðu sína á sömu forsendum og byggingarfulltrúi Snæfellsbæjar rakti í umsögn sinni til sýslumanns, dags. 17. nóvember 2016, þ.e. að ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi vegna hússins við [G] og að framlagðar teikningar væru rangar.
Þann 19. desember 2016 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra (áframsend frá Innanríkisráðuneytinu) þar sem kærð var umsögn byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar vegna neikvæðrar umsagnar hans, varðandi beiðni félagsins um rekstrarleyfi í flokki II.
Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 1. desember 2017, var stjórnsýslukæru kæranda vísað frá með vísan til þess að sýslumaður hefði ekki tekið ákvörðun í málinu.
Með ákvörðun dags. 20. desember 2017 synjaði sýslumaður síðan umsókn kæranda með vísan til þess að ekki fengist jákvæð umsögn frá Snæfellsbæ vegna neikvæðrar umsagnar byggingafulltrúa Snæfellsbæjar.
Þann 19. febrúar 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar sýslumanns frá 20. desember 2017.
Með bréfi dags. 28. febrúar 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Snæfellsbæjar ásamt gögnum málsins. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu 7. mars 2018. Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda þann 10. apríl 2017.
Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun sýslumanns, dags. 20. desember 2017, um að synja útgáfu á rekstrarleyfi vegna gististaðar í flokki II við [G] verði felld úr gildi.
Kærandi byggir á því að ekki hafi verið heimilt að synja honum um byggingarleyfi. Þá hafi heilbrigðiseftirlit og brunaeftirlit heimilað rekstur.
Enn fremur bendir kærandi á fyrrnefndan úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 42/2010.
Sjónarmið sýslumanns
Í framhaldi stjórnsýslukærunnar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum.
Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 7. mars 2018.
Í umsögn sýslumanns segir að umsögn byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar hafi borist sýslumanni þann 17. nóvember 2016. Synjun á útgáfu rekstrarleyfis sé byggð á neikvæðri umsögn byggingarfulltrúa, þ.e. að ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi og framlagðar teikningar væru rangar.
Í umsögn sýslumanns er enn fremur vísað til 5. mgr. 10. gr. laga um veitinga- og gististaði nr. 85/2007, sem segir að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn útgáfu leyfis.
Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögn sýslumanns.
Forsendur og niðurstaða
Sem fyrr greinir synjaði sýslumaður umsókn kæranda um rekstur gististaðar í flokki II, við [G] með ákvörðun dags. 20. desember 2017. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra með bréfi dags. 19. febrúar 2018, þar sem kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.
Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.
Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna aðila sem taldir eru upp í ákvæðinu, þar á meðal byggingafulltrúa, við úrvinnslu umsókna um rekstrarleyfi gististaða í flokki II. Í 5. mgr. 10. gr. sömu laga segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu leyfisins. Af orðalagi 5. mgr. 10. gr. er ljóst að umsagnir umsagnaraðila eru bindandi. Þetta er áréttað í frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2007, en í umfjöllun um 10. gr. segir orðrétt að umsagnir umsagnaraðila séu bindandi.
Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu er stjórnvald ekki bundið af umsögnum umsagnaraðila þegar umsókn er haldin verulegum efnisannmarka. Telja verður að sú skylda hvíli á stjórnvaldi að tryggja að allur undirbúningur og málsmeðferð stjórnsýslumáls sé forsvaranleg. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði, áður en ákvörðun er tekin, að mál sé nægilega upplýst. Ef umsögn, sem skylt er að afla við undirbúning ákvörðunar, er haldin verulegum annmarka, ber stjórnvaldi að hafa forgöngu um að bætt verði úr honum, eftir atvikum með því að leita eftir nýrri umsögn.
Þetta er í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. H 1998:820, en í dóminum var leyfisveitandi (Iðnaðarráðuneytið) ekki talinn bundinn af neikvæðri umsögn Tæknifræðingafélags Íslands í ljósi þess að umsögn félagsins var haldin verulegum efnisannmarka. Engu skipti þó leyfisveitanda hafi verið skylt samkvæmt lögum að leita bindandi umsagnar félagsins. Í þessu samhengi má einnig benda á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 612/1992.
Sem fyrr greinir liggur fyrir úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 42/2010 frá árinu 2012, þar sem ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi, var felld úr gildi. Í úrskurðinum segir orðrétt:
„Samkvæmt framansögðu var hin kærða ákvörðun ekki reist á réttum forsendum og var rökstuðningur fyrir henni haldinn verulegum ágöllum. Leiðir af því að fella ber hina kærðu ákvörðun úr gildi.“
Í kjölfar úrskurðarins leitaði kærandi aftur til sýslumanns með umsókn um rekstrarleyfi í flokki II. Með vísan til þess sem rakið er að framan verður að telja að sýslumanni hafi borið að beina því til umsagnaraðila að bæta úr annmarkanum, en að öðrum kosti ganga fram hjá umræddri umsögn, og að öllum öðrum skilyrðum uppfylltum, gefa út umrætt rekstrarleyfi til kæranda.
Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið ákvörðun sýslumanns, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II við [G], ólögmæta.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 20. desember 2017, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II við [G] er hér með felld úr gildi. Lagt er fyrir sýslumann að taka umsókn kæranda aftur til meðferðar óski kærandi eftir því.