Úrskurður nr. 17/2022
Úrskurður nr. 17/2022
Föstudaginn 1. júlí 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi, dags. 3. febrúar 2022, kærði [...], ákvörðun embættis landlæknis, dags. 3. nóvember 2021, um að synja honum um sérfræðileyfi í heimilislækningum.
Kærandi krefst þess aðallega að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun embættis landlæknis og leggi fyrir embættið að veita honum sérfræðileyfi á grundvelli reglugerðar nr. 305/1997. Til vara krefst kærandi þess að fella beri umsókn hans undir svonefnt sólarlagsákvæði reglugerðar nr. 467/2015.
Málið er kært á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, og barst kæra innan kærufrests.
I. Málavextir og meðferð málsins.
Samkvæmt gögnum málsins barst embætti landlæknis umsókn frá kæranda um sérfræðileyfi í heimilislækningum þann 25. september 2020. Með ákvörðun embættis landlæknis þann 3. nóvember 2021 var umsókn kæranda synjað, enda taldi embættið ljóst að kærandi hefði ekki lokið formlega viðurkenndu sérfræðinámi í heimilislækningum, hvorki hér á landi né í [...] þar sem hann hafði starfað. Var það mat embættisins að kærandi uppfyllti þannig ekki skilyrði reglugerðar nr. 467/2015, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.
Rökstuðningur fyrir kæru barst ráðuneytinu þann 1. mars 2022. Var rökstuðningurinn sendur til embættis landlæknis sem gaf umsögn þann 6. apríl. Kom kærandi athugasemdum á framfæri þann 29. apríl sl. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.
II. Málsástæður og lagarök kæranda.
Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið almennt lækningaleyfi í febrúar 2010 og hafið skipulagt sérnám í heimilislækningum í maí sama ár. Þá hafi verið í gildi reglugerð nr. 305/1997, um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa. Með reglugerð nr. 1222/2012, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, hafi reglugerð nr. 305/1997 verið felld úr gildi. Í reglugerð nr. 1222/2012 hafi verið ákvæði til bráðabirgða, sem hafi kveðið á um að lækni, sem hafi hafið nám í heimilislækningum á árinu 2007 eða síðar væri heimilt að haga framhaldsnámi í heimilislækningum samkvæmt lið XIV 7. gr. reglugerðar um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, nr. 305/1997, sem var í gildi þegar framhaldsnám hófst. Að mati kæranda verði ekki séð að nein tímamörk hafi verið á ákvæðinu og þótt reglugerð nr. 1222/2012 hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 467/2015 telji kærandi að ekki sé unnt að útiloka að þeir sem hafi verið í sérnámi í heimilislækningum á þeim tíma hafi verið útilokaðir frá því að halda áfram og ljúka sérnámi sínu á grundvelli bráðabirgðaákvæðis með reglugerð nr. 1222/2012. Kveður kærandi að í Svíþjóð hafi sérnámsreglum verið breytt árið 2008 og að aðlögunartíminn hafi verið ákveðinn 14 ár.
Byggir kærandi á því að þegar hann hafi sótt um sérfræðileyfi í heimilislækningum hafi hann fullnægt skilyrðum reglugerða nr. 305/1997 og 1222/2012. Eina ástæðan fyrir því að honum hafi verið synjað um leyfið sé sú að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 467/2015. Virðist sem aldrei hafi verið kannað hvort umsóknin félli undir eldri reglugerðir þótt augljóst hafi verið að hann hafi sótt um á grundvelli þeirra. Telur kærandi ljóst að umsókn hans hafi ekki verið afgreidd í samræmi við efni og ekki tekin afstaða til þess hvort afgreiða mætti umsóknina á grundvelli annarra reglugerða. Í umfjöllun um varakröfu byggir kærandi á því að bersýnilega ósanngjarnt sé að leyfa umsókn hans ekki að falla undir sólarlagsákvæði reglugerðar nr. 467/2015. Umsóknin hafi borist utan frests m.a. vegna flutninga til Íslands og Covid-19 faraldursins. Við hafi bæst tafir á staðfestingum frá þar til bærum aðilum sem nauðsynlegt hafi verið að senda með umsókninni. Kveður kærandi að enginn dragi faglega hæfni hans sem heimilislæknis í efa. Þvert á móti hafi umsagnaraðilar talið hann hafa mjög góða faglega færni.
III. Umsögn embættis landlæknis.
Í umsögn embættis landlæknis er áréttuð sú niðurstaða embættisins að kærandi hafi ekki lokið formlega viðurkenndu sérfræðinámi í heimilislækningum, hvorki hér á landi né í [...] þar sem kærandi hafi starfað lengi. Kærandi hafi ekki lagt stund á formlegt sérnám í heimilislækningum í [...], þrátt fyrir að hafa að eigin sögn reynt að komast inn í slíkt nám þar í landi. Embætti landlæknis hafnar því að unnt sé að beita bráðabirgðaákvæðum reglugerða nr. 1222/2012 eða 467/2015 í málinu. Hefði verið vilji fyrir því af hálfu ráðuneytisins að framlengja gildistíma ákvæðanna hefði það verið gert áður en þau féllu úr gildi. Telur embætti landlæknis að það myndi setja varhugavert fordæmi að fallast á aðalkröfu kæranda og setja skipulagningu sérnám á Íslandi í uppnám. Að mati embættisins sé einnig ljóst að engar forsendur hafi verið fyrir því að afgreiða umsókn kæranda á grundvelli annarrar reglugerðar en þeirrar sem gildi á þeim tíma þegar kærandi hafi lagt umsókn sína fram. Þá fellst embættið ekki á að fella hafi átt umsókn hans undir bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 467/215. Hafi embættið ekki heimild til að fella mál einstakra umsækjenda undir ákvæði reglugerðar nr. 1222/2012 sem fallin sé úr gildi. Ítrekar embættið það mat sitt að kærandi uppfylli ekki ákvæði reglugerðar nr. 467/2015 fyrir veitingu sérfræðileyfis í heimilislækningum.
IV. Athugasemdir kæranda.
Í athugasemdum kæranda kveðst hann ekki fara fram á að vikið sé frá gildandi lögum og reglugerðum um starfsnám. Kæra hans lúti að því að meta eigi starfsnám hans eftir þeim lögum og reglugerðum sem hafi gilt á þeim tíma sem hann hóf námið, þ.e. frá 1997 og 2012. Byggir kærandi á því að ákvæði reglugerðar nr. 467/2015 sé beitt afturvirkt með ólögmætum þar sem viðmiðum um starfsnám sé breytt með ófyrirséðum hætti fyrir þá lækna sem hafi hafið sérnám fyrir gildistöku hennar. Telur kærandi vandséð hvaða lagalegu og almennu hagsmunir hafi legið því að baki að takmarka gildistíma bráðabirgðaákvæðis í reglugerð nr. 467/2015 við fimm ár, en læknar sem hafi hafið sérnám í gildistíð eldri reglugerðar hafi haft réttmætar og lögmætar væntingar til að geta lokið náminu á eðlilegum tíma. Fyrir liggi að kærandi hafi lokið starfsnámi sínu og uppfyllt öll skilyrði reglugerðanna frá 1997 og 2012 nokkru áður en bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 467/2015 hafi runnið út í maí 2020. Telur kærandi rétt að líta til þess að hann hafi verið fjóra mánuði í fæðingarorlofi árið 2018 og að framlengja beri gildistíma bráðabirgðaákvæðisins um þann tíma í ljósi meginreglu laga um fæðingar- og foreldraorlof um að foreldrar glati ekki réttindum vegna fæðingarorlofs. Loks byggir kærandi á því að mál hans velti á formkröfu en ágreiningslaust sé að hann uppfylli þær faglegu kröfur sem gerðar séu til heimilislæknir. Jafn íþyngjandi formkröfu verði ekki beitt með afturvirkum hætti um starfsnám hans sem hann hafi haft réttmætar væntingar um að lægi til grundvallar öflunar sérfræðileyfis.
V. Niðurstaða.
Mál þetta varðar kæru á ákvörðun embættis landlæknis um að synja umsókn kæranda um sérfræðileyfi í heimilislækningum.
Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Með lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, hefur frelsi til að starfa við heilbrigðisþjónustu verið sett ákveðnar skorður. Vísast í þessu sambandi til markmiðs laga um heilbrigðisstarfsmenn, sem er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.
Kveðið er á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og leyfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi í 5. og 6. gr. laganna. Samkvæmt 7. gr. laganna hefur sá einn rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis. Í 8. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis, en í 1. mgr. segir að ráðherra geti kveðið á um löggildingu sérfræðigreina innan löggiltrar heilbrigðisstéttar með reglugerð, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi. Er kveðið á um í 2. mgr. 8. gr. að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Miðað skuli við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði. Í reglugerð skuli m.a. kveðið á um það sérfræðinám sem krafist sé til að hljóta sérfræðileyfi og um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skuli kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar menntastofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérfræðinám.
Í athugasemdum um 8. gr. í frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn er fjallað um 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. ákvæðisins, sem kveður á um að við löggildingu nýrra sérfræðigreina skuli einkum litið til öryggis og hagsmuna sjúklinga. Segir í athugasemdunum að hagsmunir sjúklinga séu einkum fólgnir í því að staðfest sé að heilbrigðisstarfsmenn sem þeir leiti til hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á tilteknu sérsviði. Með ákvæðinu sé undirstrikað að hagsmunir sjúklinga skuli vera ráðandi fremur en hagsmunir stéttarinnar af því að fá að kalla sig sérfræðing. Í athugasemdunum segir jafnframt að mikilvægt sé að reglugerðir um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfa hafi að geyma skýrar reglur um námskröfur, kröfur til starfsþjálfunar og reynslu og aðrar kröfur sem taldar eru nauðsynlegar til þess að einstaklingur megi kalla sig sérfræðing.
Á grundvelli 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn hefur ráðherra sett reglugerð nr. 467/2015, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Í reglugerðinni var ákvæði til bráðabirgða um að lækni sem hafði fengið almennt lækningaleyfi og hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku reglugerðarinnar væri heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, í fimm ár frá gildistöku reglugerðar nr. 467/2015. Reglugerð nr. 467/2015 tók gildi 22. maí 2015 og rann umrætt bráðabirgðaákvæði hennar þannig út að fimm árum liðnum, eða þann 22. maí 2020. Í málinu er ekki ágreiningur um það að umsókn kæranda barst eftir að ákvæðið féll úr gildi, eða þann 5. september 2020. Segir í ákvörðun embættis landlæknis að kærandi geti ekki stuðst við bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 467/2015 við umsókn sína. Þá eru rakin andmæli kæranda við umsagnir um umsóknina, m.a. frá læknadeild Háskóla Íslands, m.a. um hann hafi byggt sérnám sitt upp á grundvelli eldri reglugerðar og því sé ekki unnt að meta umsókn hans út frá reglugerð nr. 467/2015, sem hafi tekið gildi löngu eftir að hann hafi hafið sérnám sitt.
Eins og rakið hefur verið byggir kærandi einnig á því að afsakanlegar ástæður hafi leitt til þess að hann hafi sótt um utan gildistíma ákvæðisins, svo sem fæðingarorlof, tafir á gagnaöflun og flutningar hingað til lands, og að bersýnilega ósanngjarnt væri að framlengja ekki gildistíma ákvæðisins í ljósi aðstæðna. Vegna framangreindra málsástæðna kæranda tekur ráðuneytið fram að við gildistöku reglugerðar nr. 467/2015 féll reglugerð nr. 1222/2012 úr gildi, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 467/2015. Voru ákvæði reglugerðar nr. 1222/2012 þannig ekki í gildi frá og með 22. maí 2015. Í reglugerð nr. 467/2015 var hins vegar fyrrgreint bráðabirgðaákvæði sem mælti fyrir um að læknir sem hefði hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku reglugerðarinnar væri heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli reglugerðar nr. 1222/2012 í fimm ár frá gildistöku reglugerðarinnar.
Með bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 467/2015 var veitt heimild í tiltekinn tíma til að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli brottfallinnar reglugerðar. Í ákvæðinu var ekki mælt sérstaklega fyrir um heimild til að framlengja gildistíma þess við ákveðnar aðstæður. Að því virtu telur ráðuneytið að ekki sé heimild að lögum til að veita undanþágu frá gildistíma ákvæðisins, t.a.m. vegna búferlaflutninga eða tafa á afhendingu gagna vegna umsóknarinnar. Kærandi hefur einnig vísað til meginreglu laga um fæðingar- og foreldraorlof um vernd uppsafnaðra réttinda. Í 28. gr. eldri laga um það efni, nr. 95/2000, sagði að þau réttindi sem starfsmaður hefði þegar áunnið sér eða væri að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs skyldu haldast óbreytt til loka orlofsins. Við lok orlofsins skyldu þessi réttindi gilda, sem og breytingar sem kynnu að hafa orðið á grundvelli laga og kjarasamninga. Sambærilegt ákvæði er í 48. gr. núgildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það sé í samræmi við ákvæði rammasamnings um foreldraorlof sem hafi verið innleiddur með lögum nr. 95/2000.
Telur ráðuneytið ljóst að af rammasamningum, sem og lögum nr. 95/2000 og lögum nr. 144/2020, sé markmiðið að tryggja vernd uppsafnaðra réttinda launþega er varða réttindi á vinnumarkaði og á grundvelli kjarasamninga. Er það samkvæmt framangreindu mat ráðuneytisins að þótt kærandi hafi nýtt sér rétt til töku fæðingarorlofs á gildistíma bráðabirgðaákvæðis reglugerðar nr. 467/2015 leiði umrædd regla, sem sett er fram í lögum um foreldra- og fæðingarorlof, ekki til þess að framlengja beri frest sem lagður var til grundvallar síðastnefndri reglugerð til að leggja fram umsókn um sérfræðileyfi.
Vegna málsástæðna kæranda um að ákvörðun embættis landlæknis hafi brotið gegn réttmætum væntingum bendir ráðuneytið á að frá gildistöku reglugerðar nr. 467/2015 var ljóst að bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar myndi renna út að liðnum fimm árum frá gildistöku hennar. Hafi réttarástand í því sambandi verið ljóst allan þann tíma, en í reglugerð nr. 1222/2012 voru auk þess skilyrði um að umsækjandi um sérfræðileyfi þyrfti að hafa lokið formlega viðurkenndu sérfræðinámi til að verða veitt sérfræðileyfi, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 10. gr. þeirrar reglugerðar. Er það mat ráðuneytisins að meðferð málsins hafi ekki brotið gegn réttmætum væntingum kæranda um þann farveg sem hann taldi að umsóknin skyldi lögð í. Hvað varðar tilvísun kæranda til bráðabirgðaákvæðis í reglugerð nr. 1222/2012 bendir ráðuneytið, eins og áður segir, á að reglugerðin féll úr gildi þann 22. maí 2015. Í reglugerðum um sérfræðileyfi lækna eru skilyrði um menntun í samræmi við þau viðmið sem lögð eru til grundvallar á hverjum tíma og telur ráðuneytið að það skyti verulega skökku við ef kæranda yrði veitt sérfræðileyfi á grundvelli viðmiða sem sett voru með reglugerð árið 1997. Getur kærandi, sem lagði fram umsókn um sérfræðileyfi í september 2020, þannig ekki byggt rétt á bráðabirgðaákvæði í reglugerð sem féll úr gildi rúmum fimm árum áður.
Að framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að þar sem umsókn kæranda um sérfræðileyfi barst utan gildistíma bráðabirgðaákvæðis reglugerðar nr. 467/2015 sé aðeins unnt að taka afstöðu til þess hvort hann uppfylli ákvæði þeirrar reglugerðar fyrir veitingu sérfræðileyfis í heimilislækningum en ekki reglugerða nr. 305/1997 eða nr. 1222/2012. Embætti landlæknis hafi þannig ekki borið að taka afstöðu til umsóknar kæranda samkvæmt öðrum reglugerðum en þeirrar sem nú er í gildi.
Kemur næst til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 467/2015 fyrir veitingu sérfræðileyfis í heimilislækningum. Mælt er fyrir um skilyrði fyrir sérfræðileyfi í 7. gr. reglugerðarinnar, en læknir skal m.a. uppfylla skilyrði c-liðar 2. mgr. ákvæðisins um að hafa lokið viðurkenndu sérnámi, að meðtöldum sérnámsgrunni, og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkokandi sérgrein skv. 8. og 9. gr. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar má veita sérfræðileyfi að loknu viðurkenndu formlegu sérnámi, sbr. 7. og 8. gr.
Í hinni kærðu ákvörðun embættis landlæknis eru viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar rakin. Fram kemur að umsókn kæranda hafi verið sent til umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands þann 2. október 2020. Embættinu hafi borist umsögn sérfræðinefndar lækna, dags. 18. nóvember 2020, umsögn [...] prófessors, dags. 28. október 2020 og umsögn fulltrúa Læknafélags Íslands, dags. 22. október 2020. Í síðastnefndu umsögninni hafi verið talið að kærandi uppfyllti þær kröfur sem settar væru fram í XIV-lið 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 en ekki yrði séð af gögnum málsins að hann uppfyllti skilyrði reglugerðar nr. 467/2015 um viðurkennt formlegt sérnám. Fulltrúi Læknafélagsins hafi mælt með veitingu leyfis en vísað til forstöðumanns fræðasviðs til umsagnar. Fram kemur í umsögn [...] að óskað hafi verið eftir umsögn hans miði við reglugerð nr. 467/2015. Að hans mati uppfyllti kærandi ekki skilyrði reglugerðarinnar, enda hefði hann ekki lokið sérnámi er varðar hópkennslu og kjarnafyrirlestra. Vanti kæranda tvö ár upp á, sbr. marklýsingu frá 2017. Er einnig vísað til þess að kærandi hafi ekki unnið að vísindarannsókn/gæðaverki og kynnt þær niðurstöður á vísindaþingi lækna. Hafi [...] talið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir veitingu sérfræðiviðurkenningar samkvæmt reglugerð nr. 467/2015.
Í umsögn sérfræðinefndar lækna segir að nefndin hafi kannað umsóknargögn með tilliti til XIV-liðar 10. gr. reglugerðar nr. 467/2015. Segir að þrátt fyrir reynslu hafi kærandi ekki lokið formlegu sérnámi í heimilislækningum eins og krafan sé í núgildandi reglugerð, auk þess sem tvö ár vanti upp á í þátttöku í kjarnafyrirlestrum samkvæmt marklýsingu. Einnig uppfyllti kærandi ekki þágildandi skilyrði 7. gr. reglugerðarinnar um að umsækjandi skyldi fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti þess hefði farið fram og sérnámi lokið, í þessu tilviki [...]. Hafi sérfræðinefndin talið að kærandi uppfyllti ekki kröfur reglugerðarinnar um nám í sérgreininni. Rakið er að kærandi hafi lokið einu ári af formlegu sérnámi í heimilislækningum hér á landi og m.a. starfað í 22 mánuði á bráðamóttöku, eitt ár á lyflækningadeild og 15 mánuði á geðdeild á [...]. Þá hafi kærandi starfað í þrjú ár á heilsugæslustöð í borginni. Vísaði embætti landlæknis til þess að í marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum komi fram að sérnámsnemi þurfi að jafnaði að sitja formlega kennslu í sérnámi í þrjú ár og að farið sé yfir kennslu í kjarnaefnum á þeim tíma. Taldi embættið ljóst að kærandi hefði einungis lokið einu ári af fræðilegu sérnámi og að hann uppfyllti því ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015. Þá hafi kærandi ekki hlotið sérfræðileyfi í [...] og þannig ekki uppfyllt 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Var umsókn kæranda synjað í ljósi þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 467/2015.
Að mati ráðuneytisins eiga framangreind skilyrði reglugerðar nr. 467/2015 sér beina skírskotun til 2. mgr. 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem kveðið er á um að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli miðað við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði, sem og markmiðs laganna um að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Ráðuneytið telur að líta verði svo á að hagsmunir sjúklinga séu að miklu leyti fólgnir í því að staðfest sé að heilbrigðisstarfsmenn sem þeir leita til hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á tilteknu sérsviði, sem leyfi landlæknis til handa þeim vísar til. Til að tryggt sé að umsækjandi um sérfræðileyfi hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á sínu sérsviði hefur verið lagt til grundvallar í fyrrgreindum reglugerðum, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, að hann hafi lokið námi á því sviði. Er skilyrði þar að lútandi sett með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi en ekki í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni einstakra heilbrigðisstétta- eða starfsmanna.
Bendir ráðuneytið jafnframt á að leyfi til að kalla sig sérfræðing og starfa slíkur hér ég á landi er veitt að uppfylltum skilyrðum laga um heilbrigðisstarfsmenn, reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðli að, sbr. 29. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, líkt og fram kemur í 9. gr. laganna. Í 29. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn er kveðið á um að landlækni sé heimilt að gefa út leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar á grundvelli gagnkvæms samnings við önnur ríki um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa. Með lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, var tilskipun 2005/36/EB um það efni innleidd inn í íslenskan rétt. Taka lögin til þess þegar meta þarf hvort einstaklingur, sem hefur hug á að starfa hér á landi, sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, uppfyllir skilyrði til að starfa í starfsgrein, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu stjórnvalds, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Er tilskipun nr. 2005/36/EB ætlað að tryggja að einstaklingar sem hafi aflað sér nauðsynlegrar menntunar og tileinkað sér þá hæfni sem þarf til að starfa í tiltekinni sérgrein innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að haga leyfisveitingum í þessu sambandi þannig að þær uppfylli þær kröfur sem lagðar eru til grundvallar í tilskipuninni, sbr. einnig áðurnefnd ákvæði 9. og 29. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Í ljósi þess að tilskipun nr. 2005/35/EB felur í sér gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda standa brýnir hagsmunir um öryggi sjúklinga til þess að aðeins þeim einstaklingum sem lokið hafa tilskildu námi verði veitt leyfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn sem og hljóta sérfræðileyfi á tilteknu sviði.
Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi einu ári í formlegu námi í heimilislækningum í apríl 2011. Eftir það hafi hann starfað á fyrrgreindum heilbrigðisstofnunum erlendis án þess að hafa verið í formlegu sérfræðinámi. Er þannig ljóst að kærandi hefur hvorki lokið viðurkenndu formlegu sérnámi í heimilislækningum hér á landi né í [...], líkt og gerð er krafa um í reglugerð nr. 467/2015 fyrir veitingu sérfræðileyfis í greininni, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. hennar. Í reglugerðinni er ekki mælt fyrir um undanþágu frá þeim skilyrðum sem gæti leitt til þess að kæranda yrði veitt leyfið. Með vísan til alls framangreinds er það mat ráðuneytisins að kærandi uppfylli þannig ekki skilyrði reglugerðarinnar fyrir veitingu sérfræðileyfis í heimilislækningum. Verður hin kærða ákvörðun embættis landlæknis því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 3. nóvember 2021, um að synja umsókn kæranda um sérfræðileyfi í heimilislækningum er staðfest.