Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 15/2024

Úrskurður nr. 15/2024

 

Miðvikudaginn 22. maí 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 6. mars 2024, kærði […], lögmaður, f.h. […], […] og […] (hér eftir kærendur), ákvörðun embættis landlæknis um að vísa frá kvörtun þeirra, dags. 7. nóvember 2022. Kvörtun kærenda laut að meðferð sem faðir þeirra naut á Landspítala í aðdraganda andláts hans þann 9. júlí 2022.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun embættis landlæknis um að vísa málinu frá verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir embættið að taka kvörtun kærenda til efnislegrar meðferðar.

Málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli, skv. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er kæranleg á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laganna og barst kæra innan kærufrests.

  1. Meðferð málsins hjá ráðuneytinu

    Ráðuneytinu barst kæra þann 7. mars 2024 frá kærendum auk rökstuðnings og fylgiskjala. Degi síðar óskaði ráðuneytið eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna. Umsögn embættisins barst ráðuneytinu þann 11. apríl. 15. apríl var kærendum sent afrit af umsögn embættisins og þeim boðið að gera athugasemdir við umsögnina. Athugasemdir kærenda við umsögn embættis landlæknis bárust þann 26. apríl. Viðbótargögn bárust frá kærendum þann 2. maí. Óskað var eftir umsögn embættis landlæknis um viðbótargögnin og barst umsögn vegna þeirra frá embættinu þann 8. maí. Gagnaöflun lauk þann dag og var málið tekið til úrskurðar.

  2. Málsatvik

    Mál þetta varðar heilbrigðisþjónustu sem faðir kærenda, […], naut í aðdraganda andláts hans þann 9. júlí 2022 á Landspítala.

    Af gögnum málsins verður ráðið að […] hafi komið á Landspítala í annað skiptið á tveimur dögum þann 29. júní 2022 vegna bakverks. Við komuna talaði hann óskýrt og lágt, var vel vakandi en bráðveikindalegur. Ástæða komu var fall í gólfið þar sem hann gat ekki hreyft sig. Hríðskalf […] við komuna auk þess sem hann var greindur með Covid-19. Var hann lagður inn vegna bakverks ásamt því að hann naut fjarþjónustu COVID göngudeildar. Af sjúkraskrárgögnum verður ráðið að hann hafi haft einhver einkenni Covid-19 þegar hann lagðist inn.

    Þann 1. júlí hafði heilsu […] hrakað nokkuð og bjó hann þann dag yfir skertri sjálfsbjargargetu ásamt því að þurfa aðstoð við næringu. Hafði hann þá verið færður á lungnadeild innan spítalans. Taldi sjúkraþjálfari að ekki væru forsendur fyrir líkamlegri þjálfun. Sérfræðingur ráðlagði sama dag að […] yrði gefið lyfið Remdesivir í þrjá til fimm daga vegna Covid-19 sýkingarinnar sem virtist vera valda honum miklum veikindum á þeim tíma. Var það rætt við […] sem sagðist vilja þiggja þá meðferð sem læknar ráðlögðu og að hann væri sáttur við að honum yrði gefið lyfið Remdesivir auk annarrar stuðningsmeðferðar. Var sonur […] jafnframt upplýstur um þá tilhögun.

    Heilsu […] hrakaði áfram 2. júlí. Sama dag komu fram mótmæli kærenda við því að […] væri gefið lyfið Remdesivir og var lyfjagjöf þá stöðvuð að þeirra beiðni. Dóttir […] kom reglulega í heimsókn meðan á innlögn hans stóð. Bar […] þess merki við brottför hennar í eitt skipti, 3. júlí, að hún hefði gefið honum einhverjar töflur í gegnum munn og reyndi því með beinum hætti að hafa áhrif á þá meðferð sem sérfræðingar Landspítala veittu […]. Þá tilkynnti hún í gegnum síma síðar sama dag að hún vildi ekki að […] fengi Morfín eða Remdesivir heldur að meðferð hans yrði byggð upp á vítamínum og næringu í æð.

    Næstu daga á eftir fór heilsa […] versnandi og er hann nánast meðvitundarlaus megnið af tímanum. Ákvörðun um að hefja lífslokameðferð var tekin á fjölskyldufundi með kærendum þann 8. júlí. […] lést að morgni dags 9. júlí. Samkvæmt læknabréfi var […] 84 ára maður með margvísleg heilsufarsvandamál þegar hann kom á bráðadeild 29. júní auk þess sem hann greindist með Covid-19. Í kjölfarið hafi hann verið lagður inn á lungnadeild og fengið stuðningsmeðferð og sýklalyf. Þrátt fyrir það hafi fjölkerfabilun af völdum Covid-19 gert vart við sig sem leiddi til andláts hans.

  3. Málsástæður kærenda

    Kærendur bera því við að frávísun landlæknis eigi ekki við rök að styðjast. Efni kvörtunar þeirra hafi verið skýrt. Kvörtunin byggi jafnframt á skýrri lagaheimild og lagaskylda hvíli á embættinu að taka kvörtunina til meðferðar, sem feli í sér að kærendur eigi rétt á að fá efnislega niðurstöðu.

    Kærendur halda því fram að meðferð málsins sé á stjórnsýslustigi og að á embættinu hvíli margvíslegar skyldur s.s. varðandi málsmeðferð. Sé eitthvað óljóst beri embættinu að afla frekari upplýsinga áður en til frávísunar kemur. Af gögnum málsins verði ráðið að afgreiðsla þess hafi ekki samræmst grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um efnismeðferð stjórnvalds.

  4. Umsögn embættis landlæknis

    Embætti landlæknis vísar í úrskurð heilbrigðisráðuneytisins í máli nr. 2/2024 máli sínu til stuðnings. Í úrskurðinum komi fram að embættinu sé heimilt að ljúka kvörtunarmáli án álits þegar ekkert í kvörtun eða þeim gögnum sem embættið aflar við meðferð hennar bendir til þess að hún varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Við slíkar aðstæður standi engin rök til þess að láta kvörtun sæta efnislegri meðferð.

    Embættið tekur einnig fram að það hafi óskað eftir frekari skýringum frá kærendum á efni kvörtunarinnar og að hvaða leyti inntak kvörtunarinnar beindist að meintum mistökum eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Ekkert hafi þó komið fram í svari kærenda sem til kynna gæfi að mistök eða vanræksla hefðu átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu til handa […].

    Embættið heldur því fram að það hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína með því að afla sjúkragagna […] frá Landspítala vegna umræddrar sjúkrahúslegu hans. Þar hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að mistök hafi orðið eða vanræksla við veitingu heilbrigðisþjónustu heldur hafi hann fengið meðferð sem var í fullu samræmi við gildandi læknisfræðileg viðmið við sambærileg tilvik.

    Þá hafnar embættið málsástæðum kærenda og telur að meðferð málsins hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og almennar reglur stjórnsýsluréttarins.

  5. Athugasemdir kærenda við umsögn embættis landlæknis

    Kærendur kveða að kvörtun þeirra hafi snúist efnislega um tvö atriði. Annars vegar hvort aflað hafði verið upplýsts samþykkis fyrir meðferð og hins vegar hvort sú meðferð sem sjúklingurinn fékk hafi verið viðeigandi.

    Kærendur halda því fram að þeir hafi rökstutt að upplýsts samþykkis hafi ekki verið aflað fyrir þeirri meðferð sem […] var veitt á Landspítala. Þá hafi óskum kærenda ekki verið fylgt né á þær hlustað. Þá hafi ákvörðun heilbrigðisstarfsmanna, að gefa […] lyfið Remdesivir, verið mistök sem hafi á endanum leitt til andláts hans.

  6. Niðurstaða

Í máli þessu reynir á hvort embætti landlæknis hafi verið heimilt að vísa frá kvörtun sem laut að meintum mistökum eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu þegar […], faðir kærenda, naut heilbrigðisþjónustu á Landspítala á árinu 2022. Hvað kæruheimild varðar er það mat ráðuneytisins, að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 11471/2022, að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað um kvörtun kæranda á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Embætti landlæknis beri þannig að leiðbeina þeim einstaklingum, sem fái sambærilega niðurstöðu, um heimild til að kæra meðferð slíkra mála til ráðuneytisins á grundvelli 6. mgr. 12. gr. sömu laga svo sem embættið gerði í bréfi til kærenda.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laganna skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir út skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

Kvörtun kærenda beindist að tveimur atriðum. Annars vegar að rannsakað yrði hvort […] hafi veitt upplýst samþykki fyrir þeirri meðferð sem hann naut á Landspítala í aðdraganda andláts síns og hins vegar hvort sú meðferð sem hann fékk hafi verið viðeigandi.

Við málsmeðferðina hjá embætti landlæknis óskaði embættið eftir sjúkraskrárgögnum […] frá Landspítala. Í sjúkraskrárgögnum hans kemur fram að hann hafi gefið upplýst samþykki við að honum yrði veitt sú meðferð sem sérfræðingar Landspítala ráðlegðu auk þess sem hann myndi þiggja stuðningsmeðferð. Kærendur telja með hliðsjón af skráningum í sjúkraskrá […] að ómögulegt hafi verið fyrir hann að veita upplýst samþykki á þeim tíma fyrir nokkurri meðferð.

Af gögnum málsins verður ráðið að […] hafi verið mis áttaður fyrstu dagana eftir að hann lagðist inn á Landspítala. Engu að síður er heilbrigðisstarfsfólk best til þess fallið að meta ástand sjúklinga hverju sinni og hvort það sé með þeim hætti að taka eigi mark á sjúklingi. Vel getur verið að sjúklingar svari vel eina stundina en lítið þá næstu. Í sjúkraskrá […] kemur skýrt fram að samtal hafi átt sér stað á milli sérfræðilæknis og […] að öðrum heilbrigðisstarfsmönnum viðstöddum þar sem […] samþykkir og óskar eftir þeirri meðferð sem læknar ráðleggi. Ekkert bendir því til annars en að hann hafi á þeim tíma verið fær um og til þess bær að gefa umrætt samþykki. Skiptir hér ekki máli að hann hafi fyrr sama dag verið óáttaður og erfitt að ná meðferðarsambandi við hann þegar kom að því að gera líkamlegar æfingar. Fellst ráðuneytið því á það með embætti landlæknis að ekkert bendi til þess að mistök eða vanræksla hafi orðið við veitingu heilbrigðisþjónustu þegar […] gaf upplýst samþykki fyrir þeirri meðferð sem honum var veitt í umrætt skipti. Þess fyrir utan áréttar ráðuneytið að ekki er gerð krafa um að sjúklingar gefi upplýst samþykki fyrir hverri lyfjagjöf sem meðferðaraðilar telja að sé sjúklingum fyrir bestu. Sjúklingur geti þó hafnað meðferð standi vilji hans til þess, sbr. 8. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

Kærendur telja einnig að embætti landlæknis hafi borið að rannsaka þá meðferð sem […] naut í aðdraganda andláts hans enda telja þau víst að aukaverkanir lyfsins Remdesivir hafi orsakað andlát hans. Vísa þau til gagna með kæru og athugasemdum sínum, við umsögn embættisins, sem sýni fram á að notkun lyfsins fylgi stórfelldar og lífshættulegar aukaverkanir.

Í málinu liggur fyrir bréf frá Lyfjastofnun til kærenda vegna upplýsingabeiðni þeirra um lyfið Remdesivir. Í bréfinu kemur fram að lyfið (sem nú heitir Veklury) sé með markaðsleyfi á Íslandi í kjölfar útgáfu miðlægs markaðsleyfis í Evrópu. Lyfið hafi ekki verið markaðssett á Íslandi en heimilt sé að nota það á grundvelli 1. mgr. 12. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020, sem undanþágulyf. Þá kom fram að ein tilkynnt aukaverkun hefði borist Lyfjastofnun vegna lyfsins og að ekki hafi verið um alvarlega aukaverkun að ræða. Þá væri nýrnabilun ekki skráð sem þekkt aukaverkun lyfsins og tengdist ekki notkun þess samkvæmt sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja. Á fylgiseðli lyfsins eru ekki heldur tilteknar þær aukaverkanir sem kærendur halda fram að séu vegna lyfsins og hafi leitt til andláts […].

Í ákvörðun embættis landlæknis kom fram að samkvæmt sjúkraskrárgögnum […] hefði hann verið greindur með Covid-19. Því hafi verið gild ábending fyrir notkun lyfsins þegar honum var gefið lyfið og lyfjagjöfin í fullu samræmi við ábendingar í viðurkenndri samantekt á eiginleikum lyfsins. Ástæða þess að lyfjagjöf var stöðvuð var eingöngu vegna andstöðu kærenda við lyfjagjöfina.

Af sjúkraskrárgögnum verður ráðið að […] hafi fengið Remdesivir vegna Covid-19 sýkingar en lyfið er undanþágulyf sem fengið hefur markaðsleyfi á Íslandi í gegnum miðlægt markaðsleyfi innan Evrópu. Samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar hefur lyfið verið gefið sjúklingum á Íslandi sem greinst hafa með Covid-19 og sú lyfjagjöf gefist vel samkvæmt yfirlækni á Landspítala. Ekkert hefur komið fram í gögnum málsins sem bendi til annars en að […] hafi látist af völdum Covid-19. Hann hafi verið komið með Covid-19 þegar hann leitaði á Landspítala með bakverk. Heilsu hans hafi hrakað mikið á stuttum tíma í kjölfar innlagnar þrátt fyrir þær stuðningsmeðferðir sem hann hafi fengið og voru viðhafðar á spítalanum við Covid-19 og hann látist tæpum tveimur vikum eftir að hann lagðist inn á spítalann.

Þá báru kærendur því við að ekki hafi verið hlustað á beiðnir þeirra um tilteknar meðferðir við veitingu heilbrigðisþjónustu til […]. Fram kemur í gögnum málsins að þær meðferðir sem kærendur hafi óskað eftir við Landspítala að viðhafa hafi farið gegn gildandi læknisvenjum og vísindum. Því hafi ekki verið möguleiki að verða við þeim. Verður sú málsástæða kærenda af þeim sökum ekki tekin til greina.

Með vísan til eftirlitshlutverks embættis landlæknis með heilbrigðisþjónustunni og þeim markmiðum sem að er stefnt í því sambandi, einkum að viðhalda gæðum þjónustunnar, telur ráðuneytið að þegar ekkert í kvörtun eða þeim gögnum sem embættið aflar við meðferð hennar bendi til þess að hún varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sé embættinu heimilt að ljúka máli án útgáfu álits. Við þær aðstæður standi engin rök til þess að láta kvörtun sæta frekari efnislegri meðferð, með öflun umsagnar óháðs sérfræðings og þeim málsmeðferðartíma sem slíkt hefur í för með sér, og útgáfu formlegs álits um það hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Að því sögðu telur ráðuneytið að kvörtunarmáli verði aðeins lokið með þessum hætti í undantekningartilvikum þegar bersýnilegt er af þeim gögnum sem liggja fyrir í máli að engin mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Telur ráðuneytið að mat á meintum mistökum eða vanrækslu geti ekki eingöngu verið á forræði þess sjúklings sem leggur fram kvörtun heldur verði kvörtun að gefa með einhverju móti til kynna, á því sviði heilbrigðisþjónustu sem um ræðir, að hún varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu þeirrar þjónustu til að falla undir gildissvið 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Með hliðsjón af því sem hér að framan verður rakið verður á það fallist með embætti landlæknis að ekkert bendi til þess að mistök eða vanræksla hafi orðið á Landspítala við veitingu heilbrigðisþjónustu til handa […] þegar hann lagðist inn á spítalann með verk í baki og staðfesta Covid-19 greiningu. Kærendur hafa ekki með málatilbúnaði sínum eða fylgigögnum bætt við einhverju sem áhrif hafi á niðurstöðuna. Fellst ráðuneytið því á þá niðurstöðu embættis landlæknis að ljúka máli kærenda með bréfi til þeirra án þess að taka kvörtunina til frekari meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Verður málsmeðferð embættisins í málinu því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð embættis landlæknis í máli kærenda er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta