Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 3/2019

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 3/2019

 

Föstudaginn 14. júní 2019 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með bréfi, dags. 29. október 2018, kærði A, hér eftir nefndur kærandi, synjun Embættis landlæknis, dags. 22. mars 2018, um að gefa út svokallað „Certificate of Current Professional Status“ (CCPS), þ.e. vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi (hér eftir tilskipunin).

 

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ákvörðun Embættis landlæknis um að synja um útgáfu á CCPS-vottorði er að mati ráðuneytisins stjórnsýsluákvörðun skv. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að taka megi kæru til meðferðar þegar afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist innan kærufrests. Í ljósi þess að ekki var leiðbeint um kæruheimild skv. 20. gr. laganna hefur ráðuneytið ákveðið að taka málið til efnislegrar meðferðar. Um kæruheimild fer skv. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 30. október 2018, eftir greinargerð Embættis landlæknis og gögnum málsins. Umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. nóvember 2018, og var hún send kæranda með tölvubréfi ásamt bréfi ráðuneytisins, dags. 18. desember 2018, þar sem honum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðina. Með tölvupósti, dags. 9. janúar 2019, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Embætti landlæknis til kynningar með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. janúar 2019. Með tölvupósti Embættis landlæknis var óskað eftir viðbótarfresti til 11. febrúar 2019 til að fara nánar yfir andmæli kæranda. Engar athugasemdir bárust frá embættinu.

 

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi beint umsókn til Embættis landlæknis um svokallað CCPS-vottorð, þ.e. vottorð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunarinnar. Varðandi rök fyrir kæru vísar kærandi í kvörtun til umboðsmanns Alþingis, dags. 6. apríl 2018.

Kærandi hafi sótt um CCPS-vottorð þann 9. febrúar 2018 til Embættis landlæknis. Samkvæmt tilskipuninni, viðauka VII, lið 1 (d), eigi að gefa út CCPS-vottorð innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar. Með tölvupósti, dags. 20. mars 2018, hafi Embætti landlæknis hafnað beiðni kæranda. Hafi landlæknir talið að embættið gæti aðeins staðfest að kærandi hefði leyfi til að stunda lýtalækningar á Íslandi en gæti ekki staðfest að þjálfun kæranda hefði verið í samræmi við kröfur tilskipunarinnar og gæti þar af leiðandi ekki gefið út CCPS-vottorð.

Umboðsmaður Alþingis hafi í tilefni af kvörtun kæranda ritað landlækni bréf, dags. 24. apríl 2018, og óskað eftir upplýsingum um í hvaða farveg mál kæranda hefði verið lagt og hvort embættið liti svo á að afgreiðslu þess væri lokið. Ef málinu væri lokið óskaði umboðsmaður jafnframt eftir að upplýst yrði hvort kæranda hefði verið leiðbeint um kæruleiðir. Embætti landlæknis hafi svarað umboðsmanni Alþingis með bréfi, dags. 18. september 2018, og sent gögn málsins, þar á meðal bréf Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 24. ágúst 2018, til utanríkisráðuneytisins vegna málsins. Í bréfi Embættis landlæknis til umboðsmanns komi fram að málinu hafi verið lokið 20. mars 2018. Jafnframt að embættið telji í ljósi niðurstöðu ESA frá 24. ágúst 2018 að því sé ekki heimilt að gefa út CCPS-vottorð til handa kæranda. Niðurstaða ESA, samkvæmt bréfi dags. 24. ágúst 2018, hafi verið sú að tilskipunin gæfi EES-ríkjum ekki leyfi til að veita „EFQ“ (vitnisburð um formlega menntun og hæfi) fyrir þjálfun sem þau hefðu ekki skipulagt sjálf. Hafi EES-ríki ekki skipulagt þjálfunina geti það aðeins veitt einstaklingi leyfi/heimild til að stunda starfsgreinina á yfirráðasvæði þess. Slíkt leyfi eða heimild veiti handhafa hins vegar ekki rétt til að fá hæfni sína sjálfkrafa viðurkennda í öðru EES-ríki í andstöðu við vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ). Umboðsmaður hafi bent kæranda á að freista þess að bera málið undir ráðuneytið áður en kærandi leitaði til hans með kvörtun.

Þá kemur fram í kæru að Embætti landlæknis hafi tilkynnt um breytt afturvirk vinnubrögð við útgáfu sérfræðileyfa í læknisfræði hinn 14. desember 2017. Í sumum tilvikum neiti embættið að gefa út CCPS-vottorð vegna sérfræðileyfa sem það hafi gefið út vegna þjálfunar innan EES en haldi áfram að gefa út CCPS-vottorð vegna sérfræðileyfa til þeirra sem hlotið hafi þjálfun í ríki utan EES, svokölluðu þriðja ríki.

Í fyrsta lagi sé þessi framkvæmd embættisins að mati kæranda ólögleg þar sem verið sé að setja afturvirkt nýjar reglur varðandi útgáfu sérfræðileyfa sem hafi verið staðfest gild og uppfylli skilyrði tilskipunarinnar.

Í öðru lagi sé ekki lagastoð fyrir slíkri framkvæmd í tilskipuninni, þ.e. að gefa út CCPS-vottorð vegna sérfræðileyfa frá þriðja ríki en ekki vegna sérfræðileyfa með þjálfun innan EES. Það standist ekki að embættið telji sig ekki geta metið þjálfun frá ríki innan EES samkvæmt tilskipuninni, en telji sig bært til að meta þjálfun frá þriðja ríki og að slík þjálfun sé í samræmi við tilskipunina.

Í þriðja lagi sé synjun embættisins, um að endurstaðfesta þegar útgefið sérfræðileyfi, í andstöðu við tilskipunina þar sem verið sé að gera ómögulegt að fá slíkt leyfi viðurkennt í öðru EES-ríki. Starfsgreinar sem taldar séu upp í III. kafla tilskipunarinnar með titla sem listaðir séu upp í viðauka V, lið 5.1.2, geti einungis hlotið sjálfkrafa viðurkenningu í öðru EES-ríki. Ekki sé um aðra löglega leið í tilskipuninni að ræða.

Tilskipunin kveði á um að sérfræðileyfi sem listuð séu í viðauka V, lið 5.1.2, með uppruna frá EES-ríki eigi að hljóta sjálfkrafa viðurkenningu innan EES, þar sem þau uppfylla samræmdar lágmarkskröfur um menntun sem séu samþykktar innan EES. Það sé þess vegna að mati kæranda í samræmi við tilskipunina ómögulegt fyrir ríki að fá sérgrein listaða í lið 5.1.2 og greina á milli sérgreina, til dæmis með hliðsjón af því hvort þjálfun fór fram innan eða utan EES. Vilji EES-ríki hafa sérgrein sem er einungis gild á yfirráðasvæði þess ríkis vegna meiri eða minni krafna en lágmarkskröfur um menntun samkvæmt tilskipuninni verði það ríki að nota annað heiti sérgreinar á slíkt leyfi en það sem þegar sé listað í lið 5.1.2. Þar sem lýtalækningar séu taldar upp í lið 5.1.2 sé ekki unnt að greina á milli leyfa þannig að það sé stundum í samræmi við tilskipunina. Embættinu hafi því ekki verið heimilt að gefa út sérfræðileyfi á grundvelli verndaðs titils í lið 5.1.2 sem séu ekki í samræmi við tilskipunina. Þetta sé í samræmi við 12. gr. tilskipunarinnar.

Í fjórða lagi komi sérstaklega fram í d-lið 10. gr. tilskipunarinnar að sérfræðileyfi sem talin séu upp í viðauka V, lið 5.1.2, skuli fá sjálfkrafa viðurkenningu undir hinu svokallaða almenna kerfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi. Reglum um áunnin réttindi fyrir lækna sé einungis beitt þegar þjálfun sérfræðings er lokið áður en ríki sem gaf út leyfið gekk í ESB eða EES og innleiddi tilskipunina.

Í kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis, dags. 6. apríl 2018, kemur meðal annars fram að kærandi telji að með synjun landlæknis um að gefa út svokallað CCPS-vottorð hafi landlæknir breytt fyrri framkvæmd sinni við afgreiðslu sambærilegrar beiðni.

Það hljóti að vera grundvallarregla að fyrri ákvörðun tekin af lögmætu stjórnvaldi, á grundvelli gildandi laga og reglna, verði ekki í framtíðinni breytt eða ógilt með innleiðingu nýrra afturvirkra reglna eða með nýrri túlkun á eldri reglum. Það hljóti að vera reglur á Íslandi sem stöðvi slíka framkvæmd, sem hafi jákvæð áhrif á borgarana.

Embætti landlæknis hafi áður gefið út sérfræðileyfi til handa læknum samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, á grundvelli mats sérfræðinefndar læknadeildar Háskóla Íslands á starfsþjálfun og menntun lækna. Fram til 14. desember 2017 hafi ekki verið gerð krafa um sérfræðileyfi frá því landi þar sem námið var síðast stundað til að geta hlotið gilt íslenskt sérfræðileyfi sem uppfyllti skilyrði tilskipunarinnar. Sérfræðileyfi gefin út samkvæmt lögum nr. 34/2012 hafi verið talin af landlækni vera í samræmi við tilskipunina, sem hafi gert það mögulegt að fá þau sjálfkrafa viðurkennd innan EES.

Í tilkynningu sinni, dags. 14. desember 2017, hafi landlæknir í sumum tilvikum afturvirkt neitað að staðfesta að þegar útgefin sérfræðileyfi séu í samræmi við tilskipunina, einnig í þeim tilvikum þar sem landlæknir hafi áður gefið út að sérfræðileyfi væru í samræmi við tilskipunina.

Afturvirk ný túlkun á eldri reglum sé geðþóttaákvörðun þar sem sama vandamál ætti einnig að gilda fyrir eldri sérfræðileyfi útgefin fyrir 2012 á grundvelli eldri laga. Embætti landlæknis virðist áfram gefa út staðfestingar fyrir þau leyfi um að þau séu í samræmi við tilskipunina.

 

III. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 20. nóvember 2018, kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sé með mál kæranda til rannsóknar. Málið hafi verið borið undir ESA af hálfu danskra stjórnvalda þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við að Embætti landlæknis hafi vottað að kærandi væri með sérfræðileyfi á Íslandi og að það uppfyllti kröfur tilskipunar 2005/36/EB, þ.e. að sérfræðileyfið hefði verið veitt í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um formlega menntun og hæfi.

Kærandi hafi óskað eftir svokölluðu CCPS-vottorði með tölvubréfi þann 16. júní 2017. Hafi samskipti embættisins og kæranda farið fram í tölvubréfum. Endanlegt svar embættisins er í tölvupósti frá 20. mars 2018. Ástæða þess að kærandi hafi ekki fengið svar fyrr en raun bar vitni megi rekja til þeirrar flóknu stöðu sem upp hafi verið komin hér á landi varðandi útgáfu CCPS-vottorða. Mál kæranda hafi því verið sent ESA til meðferðar. Embættinu hafi borist niðurstaða rannsóknar ESA í máli kæranda með bréfi, dags. 10. september 2018. Af niðurstöðu ESA sé ljóst að landlækni hafi ekki verið heimilt að gefa út CCPS-vottorð til handa kæranda.

 

IV. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að synjun Embættis landlæknis á útgáfu CCPS-vottorðs til handa kæranda, þ.e. vottorðs um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunar 2005/36/EB.

Í 4. mgr. 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015, kemur fram að um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB fari samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna nr. 461/2011. Í 5. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 461/2011 er vitnisburður um formlega menntun og hæfi skilgreint þannig: „Prófskírteini, vottorð og annar opinber vitnisburður sem staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt.“

Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015 kemur fram að umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skuli fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem námið eða meirihluti sérnáms fór fram og þar sem því lauk.

Í c-lið 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012, sem var felld brott með reglugerð nr. 467/2015, kom fram það skilyrði að til að hljóta sérfræðileyfi skuli umsækjandi hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi skv. 10. gr. Í þeirri grein var kveðið á um að námstími mætti ekki vera styttri en fjögur og hálft ár í aðalgrein, er það var og er í samræmi við lágmarkskröfur tilskipunar 2005/36/EB. Þær sérgreinar sem taldar voru upp í 10. gr. eru sérgreinar sem viðurkenndar eru hér á landi og hljóta sjálfkrafa staðfestingu á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem útgefið er í öðru EES-landi.

Með orðunum formlegu viðurkenndu sérnámi er átt við að námið skuli vera skipulagt á sérsviðum læknisfræði. Á Íslandi er einungis unnt að stunda skipulagt sérnám í fáum sérgreinum og að því skilyrði uppfylltu að fyrir liggi samþykkt marklýsing skv. 15. gr. reglugerðar nr. 465/2015. Í marklýsingu skuli meðal annars kveðið á um skipulag og inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnáms og einstaka námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfnismat. Sérnám í lýtalækningum er ekki skipulagt á Íslandi og því ekki unnt að stunda sérnám í þeirri sérgrein á Íslandi.

Þá þykir rétt að benda á að í 9. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 sagði að ráðherra væri heimilt að setja reglur um sérnám hér á landi að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands. Engar slíkar reglur voru settar í gildistíð reglugerðarinnar eða forvera hennar nr. 305/1997 um nám í lýtalækningum.

Í niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 24. ágúst 2018, í máli kæranda kemur meðal annars fram að hinn 3. febrúar 2017 hafi svið innri markaðarins (hér eftir sviðið) óskað eftir upplýsingum frá ríkisstjórn Íslands í því skyni að kanna framkvæmd og beitingu tilskipunarinnar að því er varðar veitingu vitnisburðar um formlega menntun og hæfi (EFQ), þ.e. sérfræðileyfis til handa sérfræðilæknum á Íslandi. Hafði málið komið til kasta sviðsins að tilhlutan framkvæmdastjórnar ESB í kjölfar þess að Ísland veitti kæranda sérfræðileyfi í lýtalækningum, í samræmi við upptalningu í viðauka 5.1.3 við tilskipunina. Hann hafi síðan sótt um að fá að starfa í Danmörku, en Danmörk hafi vegna umsóknarinnar leitað til framkvæmdastjórnarinnar með nokkrar spurningar. Ísland svaraði spurningum sviðsins hinn 31. mars 2017 og var málið einnig rætt á pakkafundi á Íslandi í júní 2017.

Að mati sviðsins veitir tilskipunin EES-ríkjum ekki heimild til að veita vitnisburð um formlega menntun og hæfi, þ.e. EFQ/sérfræðileyfi fyrir nám sem þau skipuleggja ekki sjálf og geta því aðeins veitt leyfi sem heimila einstaklingi að stunda sérgrein sína innan þess ríkis. Slíkt leyfi (sérfræðileyfi) veiti handhafa ekki rétt til að fá menntun sína og hæfi sjálfkrafa viðurkennt í öðru EES-ríki. Hafi þessi afstaða sviðsins verið tjáð í bréfi sviðsins til Íslands, dags. 21. september 2017.

Framangreind málefni voru rædd á pakkafundum ESA á Íslandi árið 2018. Þar útskýrði fulltrúi ríkistjórnarinnar að kærandi, sem sé Svíi og lýtalæknir, hafi hlotið sérmenntun sína í Þýskalandi og Noregi en ekki fengið vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ)/sérfræðileyfi í öðru hvoru þessara ríkja. Hafi sviðið þá þegar bent á að EES-ríki sem skipuleggur ekki sérnám í heild sinni hafi hvorki heimild til að veita vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ)/sérfræðileyfi í samræmi við listana í viðaukanum við tilskipunina né heldur „samræmisvottorð“, þ.e. CCPS-vottorð. Í slíkum tilvikum geti EES-ríki aðeins veitt „leyfi“ í þeirri merkingu að veita einstaklingi heimild til að starfa við sérgreinina á yfirráðasvæði þess ríkis.

Þá kemur fram að það sé skoðun sviðsins að löggjöf EES komi ekki í veg fyrir að Ísland veiti leyfi einstaklingum sem óska þess að starfa sem sérfræðingar á Íslandi. Aftur á móti verði veiting slíks leyfis að grundvallast alfarið á íslenskri löggjöf og falli utan gildissviðs tilskipunarinnar.

Þá þurfi að tilkynna kæranda að „leyfið“ sé ekki vitnisburður um formlega menntun og hæfi (EFQ)/sérfræðileyfi í merkingu tilskipunarinnar og þar af leiðandi sé honum ekki unnt að krefjast réttinda samkvæmt tilskipuninni á grundvelli leyfisins.

Hafi Ísland í hyggju að gefa út vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ/sérfræðileyfi) í skilningi tilskipunarinnar er það á ábyrgð þess að sérnám í læknisfræði uppfylli öll lágmarksskilyrði tilskipunarinnar. Mikilvægt er að þeim skilyrðum sé mætt en ekki endilega hvort allt sérnámið hafi farið fram á Íslandi.

Hvað varðar túlkun kæranda á 50. gr. tilskipunarinnar er rétt að benda á að ákvæði a- og c-liðar 3. mgr. 50. gr. gætu verið viðmið til að meta hvort sérfræðinám sé fullnægjandi, þ.e. að Ísland gæti svarað báðum atriðum játandi út frá eigin aðstöðu. Þá ætti það sama að gilda frá sjónarhóli annarra ríkja þegar viðkomandi fær vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ) frá Íslandi.

Að mati ráðuneytisins er ekki unnt að fella mál kæranda undir ákvæði 50. gr. Annars vegar vegna þess að Ísland skipuleggur ekki sérnám í lýtalækningum. Hins vegar þar sem kærandi lagði ekki fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá því eða þeim ríkjum þar sem hann stundaði sérnám sitt. Uppfyllir hann því hvorki skilyrði a- né c-liðar ákvæðisins. Embætti landlæknis er því ekki heimilt að gefa út CCPS-vottorð til handa kæranda þar sem ekki er um skipulagt nám í lýtalækningum að ræða á Íslandi. Í tilviki kæranda geti embættið aðeins veitt „leyfi“ í þeirri merkingu að veita einstaklingi heimild til að starfa við sérgreinina á yfirráðasvæði sínu, þ.e. á Íslandi.

Kærandi gerir athugasemdir varðandi útgáfu CCPS-vottorða til handa þriðjalandsborgurum sem hlotið hafa starfsleyfi hér á landi. Landlækni ber að fara eftir ákvæði 27. gr. reglugerðar nr. 461/2011 varðandi útgáfu leyfa til að starfa sem læknir og sérfræðingur. Þar kemur fram að umsækjandi með menntun frá ríki utan EES, þ.e. þriðja ríki, eigi rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi hann lagt fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi eða prófskírteini sem útgefið er í þriðja ríki og uppfyllir lágmarkskröfur tilskipunarinnar. Þá þarf að leggja fram vottorð um þriggja ára starfsreynslu frá EES-ríki sem hefur viðurkennt vitnisburðinn.

Þegar umsækjandi hefur ekki starfsreynslu en leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi, útgefinn í þriðja ríki ásamt staðfestingu frá EES-ríki um að það hafi viðurkennt vitnisburðinn, skal landlæknir við umsókn um starfsleyfi eða sérfræðileyfi meta menntun skv. III. kafla reglugerðarinnar, þ.e. eftir hinu svo kallaða almenna kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám. Landlæknir skal enn fremur meta starfsreynslu sem staðfest er að fram hafi farið í EES-ríki.

Til að unnt sé að meta nám frá þriðja ríki þarf viðkomandi nám í læknisfræði að vera skipulagt hér á landi. Uppfylli þriðjalandsborgari framangreind skilyrði og hafi hann hlotið starfsleyfi hér á landi er ekkert því til fyrirstöðu að landlæknir gefi út CCPS-vottorð.

Í D-lið viðauka við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007 um breytingar á VII. viðauka (gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og bókun 37 við EES-samninginn eru í iii-lið talin upp heiti sérnáms í sérgreinum læknisfræði í viðauka V, viðurkenning á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun. Hvað Ísland varðar eru taldar upp þær sérgreinar, undir fyrirsögninni „5.1.3“, sem viðurkenndar eru hér á landi, þ.e. hljóta sjálfkrafa viðurkenningu.

Þá vísar kærandi til 12. gr. tilskipunarinnar um jafna stöðu prófskírteina, sbr. og reglugerð nr. 879/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, en þar er vísað til 11. gr. tilskipunarinnar um þrepaskiptingu menntunar og hæfis. Samkvæmt 12. gr. þarf vitnisburður um formlega menntun og hæfi sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki að votta að handhafi hafi lokið á fullnægjandi hátt námi í Evrópusambandinu sem metið sé á samsvarandi stigi og veiti rétt til aðgangs að eða stundunar starfsgreinar sem vitnisburður um formlega menntun og hæfi af því tagi getur um í 11. gr., þ.m.t. í sama þrepi. Er hér um að ræða starfsgreinar sem falla undir hið svokallaða almenna kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 461/2011.

Í c-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 461/2011 kemur fram að umsækjandi eigi rétt á starfsleyfi sem sérfræðingur í læknisfræði ef hann leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt lið 5.1.2 í V. viðauka tilskipunarinnar sem sérmenntaður læknir.

Þá kemur fram í 2. og 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 461/2011 að umsækjandi sem ekki uppfyllir skilyrði c-liðar 1. mgr. sem sérfræðingur innan læknisfræði eigi þó rétt á starfsleyfi sem sérfræðingur ef hann uppfyllir skilyrði íslenskra reglna um sérfræðiviðurkenningu. Við matið skuli tekið tillit til tímalengdar og innihalds náms umsækjanda, starfsreynslu og viðbótarnáms innan læknisfræðinnar almennt. Sérfræðinám má einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í heimalandi sínu.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar á umsækjandi, sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem sérfræðingur innan læknisfræði og uppfyllir ekki ákvæði 1. mgr., rétt á sérfræðiviðurkenningu ef hann leggur fram staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki sem hefur gefið út vitnisburðinn. Staðfestingin skal staðfesta að sérfræðinámið og vitnisburðurinn sé í samræmi og sambærilegur við kröfur tilskipunarinnar.

Ísland skipuleggur ekki sérnám í læknisfræði á sviði lýtalækninga og eru skilyrði 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar um skilyrði íslenskra reglna því ekki uppfyllt. Þá er ljóst að skilyrði 3. mgr. sama ákvæðis eru ekki uppfyllt þar sem kærandi lagði ekki fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem er í samræmi og er sambærilegur við kröfur tilskipunarinnar. Í slíkum tilvikum er um að ræða sjálfkrafa viðurkenningu á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun skv. II. kafla reglugerðar nr. 461/2011.

Af framansögðu er því ljóst að Embætti landlæknis var ekki heimilt að gefa út svokallað CCPS-vottorð „Certificate of Current Professional Status“, þ.e. vottorð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Hvað varðar vísan kæranda til d-liðar 10. gr. tilskipunarinnar er ljóst að krafist er að viðkomandi hafi undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ), en kærandi hefur ekki lagt fram slíkan vitnisburð.

Til að fá sjálfkrafa viðurkenningu á sérfræðileyfi hér á landi þarf viðkomandi að leggja fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ) frá opinberum aðila þar sem námið fór fram. Þar sem Ísland skipuleggur ekki sérnám í lýtalækningum gat landlæknir ekki á grundvelli náms sem fer fram í öðrum EES-ríkjum án viðurkenningar á formlegri menntun og hæfi gefið út leyfi eða sjálfkrafa viðurkennt viðkomandi nám.

Í niðurstöðu ESA, dags. 24. ágúst 2018, kemur fram að tilskipunin gefi EES-ríki ekki leyfi til þess að veita vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ) fyrir þjálfun sem þau hafa ekki skipulagt sjálf. Hafi EES-ríki ekki skipulagt þjálfunina geti ríkið aðeins veitt umsækjanda leyfi til þess að stunda starfsgrein á yfirráðasvæði þess. Slíkt leyfi veiti handhafa aftur á móti ekki rétt til að fá menntun sína og hæfi sjálfkrafa viðurkennda í öðru EES-ríki í andstöðu við vitnisburð um formlega menntun og hæfi (EFQ).

Með vísan til alls framangreinds er því hin kærða ákvörðun Embættis landlæknis, um að synja kæranda um „Certificate of Current Professional Status“ (CCPS), vottorð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á því að kveða upp úrskurð þennan en ástæðu þess má rekja til anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 20. mars 2018, um að synja A um „Certificate of Current Professional Status“ (CCPS), vottorð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám kæranda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta