Úrskurður nr. 29/2022
Úrskurður nr. 29/2022
Fimmtudaginn 17. nóvember 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 31. október 2022, kærði [...] (hér eftir kærandi), meinta ranga sjúkdómsgreiningu á árinu 2013 og meintar rangfærslur í sjúkraskrá kæranda.
Kærandi krefst þess að hann fái upplýsingar frá embætti landlæknis um hvað verði gert vegna kærunnar.
I. Málsástæður og lagarök kæranda.
Kærandi byggir á því að hann hafi fengið ranga sjúkdómsgreiningu árið 2013 án þess að nokkrar sannanir hafi verið fyrir þeirri greiningu. Aðrir læknar hafi tekið greininguna trúanlega sem sé rauður þráður í ósönnum bókunum í sjúkraskrá af þeim læknum sem kærandi hafi sótt þjónustu til á árunum 2013-2017. Kveður kærandi að um alvarlega misnotkun á sjúkraskrá sé að ræða ef hægt sé að bóka hvaða ósannindi sem er. Læknir kæranda hafi ekki fengist til að bóka inn í sjúkraskrá athugasemdir sem kærandi hafi afhent honum árið 2020, líkt og embætti landlæknis hafi verið tilkynnt um. Fram kemur að þær athugasemdir sem kærandi hafi sent inn hafi sumar verið bókfærðar en meirihluti ekki. Kveður kærandi að fjöldamörg dæmi séu um rangar skráningar í sjúkraskrá sem hafi ekki fengist leiðréttar.
II. Niðurstaða.
Málið lýtur að fyrrgreindri kæru á sjúkdómsgreiningu og færslum í sjúkraskrá. Hefur ráðuneytið til skoðunar hvort taka beri kæruna til meðferðar.
Hvað varðar kæru á rangri sjúkdómsgreiningu bendir ráðuneytið á embætti landlæknis tekur við kvörtunum vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Uppfylli kvörtunin skilyrði ákvæðisins tekur landlæknir hana til rannsóknar og lýkur meðferð hennar með útgáfu álits um það hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Heimilt er að kæra málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar til ráðherra, sbr. 6. mgr. ákvæðisins. Í málinu liggur ekki fyrir meðferð kvörtunar kæranda á grundvelli 12. gr. sem sætt getur endurskoðun hjá ráðuneytinu og ekki undir ráðuneytinu komið að rannsaka meint mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu. Verður sá hluti kærunnar þannig ekki tekinn til meðferðar hjá ráðuneytinu.
Kæra lýtur einnig að færslum í sjúkraskrá kæranda. Í lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár, er m.a. kveðið á um skyldu heilbrigðisstarfsmanns sem fær sjúkling til meðferðar að færa sjúkraskrá, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt sjúklings við færslu sjúkraskráa. Kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að telji sjúklingur eða umboðsmaður hans að sjúkraskrárupplýsingar séu rangar eða villandi skuli athugasemd hans um það skráð í sjúkraskrána. Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimilt með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá viðkomandi enda sé þess gætt að ekki glatist upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna réttarágreinings. Neiti umsjónaraðili að leiðrétta sjúkraskrárupplýsingar sem sjúklingur telur bersýnilega rangar eða villandi getur sjúklingur skotið þeirri synjun til landlæknis með kæru. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna eru ákvarðanir landlæknis um leiðréttingu eða eyðingu sjúkraskrárupplýsinga endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra. Af 7. gr. laga um sjúkraskrár er ljóst að ráðuneytið hefur ekki hlutverki að gegna að því er varðar rétt sjúklings til að fá færslur í sjúkraskrár leiðréttar.
Í ljósi framangreinds lýtur kæra ekki að neinni ákvörðun eða málsmeðferð sem er kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli heilbrigðislöggjafar eða stjórnsýslulaga. Verður kærunni því vísað frá ráðuneytinu.
Með kæru fylgdi bréf frá kæranda þar sem óskað var eftir upplýsingum, m.a. um hvert sjúklingar eigi að snúa sér með kvartanir vegna mistaka eða rangra aðgerða heilbrigðisstarfsfólks og til að fá leiðréttingu á sjúkraskrá. Eins og áður greinir er sjúklingum heimilt að leggja fram kvörtun til embættis landlæknis á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Skal kvörtun vera skrifleg og þar skal koma skýrt fram hvert sé tilefni hennar, sbr. 3. mgr. 12. gr. laganna. Að því er varðar beiðni um leiðréttingu á sjúkraskrárfærslum skal þeim beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar, þ.e. læknis, sem ábyrgðaraðili hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrár. Verði umsjónaraðili ekki við beiðni um leiðréttingu getur sjúklingur eins og áður segir skotið þeirri synjun til embættis landlæknis.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru í málinu, dags. 31. október 2022, er vísað frá ráðuneytinu.