Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 6/2024

Miðvikudaginn 28. febrúar 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, móttekinni. 4. desember 2023, kærði […] (hér eftir kærandi) vinnubrögð embættis landlæknis og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE), vegna samskipta stofnananna við kæranda um heilbrigðisþjónustu sem mági kæranda var veitt á HVE á Akranesi á árinu 2022.

 

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að athugasemdum hans um aðbúnað mágs síns á sjúkrahúsinu á Akranesi verði svarað.

I. Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Með kæru, móttekinni 4. desember 2023, kærði kærandi vinnubrögð embættis landlæknis og HVE.

Með tölvupósti ráðuneytisins til kæranda, dags. 9. janúar 2024 var óskað eftir frekari skýringum frá kæranda. Bárust svör frá kæranda með tölvupósti, dags. 10. janúar 2024. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

 

II. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins sendi kærandi, þann 17. október 2022, Framkvæmdaskýrslu – Ríkiseigna (Ríkiseignir) erindi vegna aðstöðu mágs síns á sjúkrahúsinu á Akranesi sem honum þótti óboðlegur sjúklingum. Gerði kærandi að meginstefnu til athugasemdir við herbergið sem mági hans hafði verið úthlutað, en ljóst er að innan herbergisins var hreinsibúnaður sem gaf frá sér hávaða á ákveðnum tímapunkti í hreinsunarferli búnaðarins. Fékk kærandi svar samdægurs frá Ríkiseignum þar sem honum var tjáð að erindið hefði verið framsent stjórnendum á HVE. Kærandi framsendi erindið einnig á Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, dags. 14. nóvember 2022. Var honum samdægurs tjáð að eftirlitið myndi taka athugasemdir kæranda til rannsóknar. Jafnframt sendi eftirlitið afrit af bréfinu á embætti landlæknis. Með tölvupósti, dags. 15. nóvember 2022, tjáði embætti landlæknis kæranda að það myndi skoða umræddar aðstæður á sjúkrahúsinu á Akranesi.

 

Með tölvupósti, dags. 21. nóvember 2022, sendi kærandi embættinu erindi þar sem hann kvartaði yfir því að vera ekki „innvinklaður“ í frekari meðferð embættisins og heilbrigðiseftirlitsins og honum haldið upplýstum. Var kæranda, sama dag, tjáð af embættinu að starfsmenn þess og Heilbrigðiseftirlitsins hefðu þegar farið á staðin og málið væri í vinnslu. Ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar á þeim tíma. Síðar sama dag sendi kærandi embættinu athugasemdir um þá heilbrigðisþjónustu sem mágur hans hlaut að öðru leyti á sjúkrahúsinu á Akranesi og framkomu starfsfólks gagnvart honum.

 

Þann 28. nóvember 2022 svaraði embættið kæranda þar sem það taldi að kærandi hefði athugasemdir varðandi ófullnægjandi þjónustu. Benti embættið kæranda á að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, skuli athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar, HVE í tilfelli kæranda.

 

Með bréfi, dags. 19. janúar 2023, svaraði HVE athugasemdum kæranda að því er varðaði legurými á slysadeild sjúkrahússins á Akranesi. Var kæranda þar greint frá þeim úrbótum sem vænta mætti á deildinni sem og þeim tímabundnu ráðstöfunum sem stofnunin hafði gripið til svo koma mætti í veg fyrir að umræddar aðstæður kæmu fyrir aftur.

 

Kæranda barst jafnframt tölvupóstur frá HVE þann 2. febrúar 2023 vegna aðbúnaðar á lyflækningadeild sjúkrahússins. Var í bréfinu rakið hvernig nánar tilgreind atvik áttu sér stað og hvernig hefði verið brugðist við þeim. Þá var kæranda þakkað fyrir ábendingarnar og honum tjáð að farið yrði yfir verklag innan sjúkrahússins.

 

Með tölvupósti til stjórnar HVE og embætti landlæknis gerði kærandi margvíslegar athugasemdir við það sem fram kom í erindum HVE til kæranda. Óskaði hann eftir viðbrögðum við athugasemdunum.

 

Með tölvupósti, dags. 8. mars 2023, tjáði embætti landlæknis kæranda að embættið hefði brugðist við erindum kæranda í samræmi við eftirlitsskyldu sína og teldi málinu lokið. Þá hafði starfsmaður embættis landlæknis samband við kæranda bæði í síma og síðar í tölvupósti. Kom þar fram að fundur væri á dagskrá á milli HVE og nánasta aðstandanda mágs kæranda. Ekki fylgir hvort sá fundur hafi farið fram eða hvernig þeim fundi lyktaði.

 

III. Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi telur að honum hafi ekki borist fullnægjandi rökstuðningur vegna athugasemda sinna um aðbúnað og aðstöðu á sjúkrahúsinu á Akranesi þar sem mágur hans hlaut heilbrigðisþjónustu. Kærandi bendir á að samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga er starfsmönnum heilbrigðisstofnunar skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Einnig óskar kærandi eftir því að fá skrifleg og rökstudd svör og sækir sú krafa stoð í 4. mgr. 28. gr. sömu laga.

 

IV. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að vinnubrögðum embættis landlæknis og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands vegna athugasemda kæranda við heilbrigðisþjónustu HVE á Akranesi sem mágur hans hlaut sem sjúklingur á sjúkrahúsinu á Akranesi.

 

Lagagrundvöllur

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, hefur embætti landlæknis eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Í 1. málslið 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að ef landlæknir telji að heilbrigðisþjónusta uppfylli ekki faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu, skv. 6. gr. laganna, skuli hann beina tilmælum um úrbætur til rekstraraðila.

 

Í VII. kafla laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er fjallað um rétt til að koma athugasemdum á framfæri eða kvarta. í 1. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skuli beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Skal sjúklingur fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er, sbr. 4. mgr. 28. gr. laganna. Af 3. mgr. 28. gr. laganna má ráða að réttur til að beina athugasemdum nái einnig til vandamanna sjúklings sem vilja koma á framfæri athugasemd. Af lögunum verður ráðið að ekki séu sömu kröfur gerðar til heilbrigðisstofnunar um svörun erinda sem berast frá vandamönnum sjúklinga og sjúklingum sjálfum, umboðsmönnum þeirra eða aðstandendum látinna sjúklinga. Engu að síður ber stjórnvöldum að svara öllum erindum samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar.

 

Athugasemdir vegna þjónustu

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru mun kærandi hafa gert athugasemdir við aðbúnað mágs síns á Sjúkrahúsinu á Akranesi, en athugasemdirnar lutu m.a. að hávaða í herbergi sem hann dvaldi í á sjúkrahúsinu. Eins og rakið hefur verið er kærandi ósáttur við lyktir athugasemdanna hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og embætti landlæknis.

 

Af 28. gr. laga um réttindi sjúklinga má ráða að vandamönnum sjúklings er heimilt að koma á framfæri athugasemd vegna heilbrigðisþjónustu, en tekið er fram í 4. mgr. ákvæðisins að sjúklingur skuli fá svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er. Með erindum frá HVE til kæranda, dags. 19. janúar og 2. febrúar 2023, var athugasemdum kæranda svarað að því marki sem stofnunin taldi fullnægjandi. Þá lá jafnframt fyrir að stofnunin hefði boðið nánustu aðstandendum mágs kæranda, til fundar til að ræða þá heilbrigðisþjónustu sem sjúklingurinn naut, en hann var þá látinn. Verður því ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi fengið skrifleg svör við athugasemdum sínum.

 

Með því að koma á framfæri athugasemd vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun á grundvelli 28. gr. laga um réttindi sjúklinga er ekki hafið stjórnsýslumál í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda getur niðurstaða slíkrar athugasemdar ekki orðið ákvörðun um rétt eða skyldur manna, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna. Svar stofnunar, samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, er því ekki stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til ráðuneytisins. Verður þeim þætti kærunnar sem lýtur að svörum HVE til kæranda varðandi aðbúnað mágs hans á sjúkrahúsinu á Akranesi af þeirri ástæðu vísað frá ráðuneytinu.

 

Embætti landlæknis hefur, líkt og áður greinir, eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Getur embættið á grundvelli eftirlitshlutverks síns beint tilmælum um úrbætur til rekstraraðila telji það að heilbrigðisþjónusta uppfylli ekki faglegar lágmarkskröfur reglugerðar nr. 786/2007. Getur ábending líkt og sú sem mál þetta snýr að orðið grundvöllur slíkra tilmæla, en af gögnum málsins er ljóst að embætti landlæknis fór í eftirlitsferð á sjúkrahúsið eftir að athugasemdir kæranda bárust. Veitti embættið kæranda upplýsingar þann 8. mars 2023 um að það hefði brugðist við ábendingu hans í samræmi við eftirlitsskyldu embættisins og að málinu væri lokið. Kærandi getur ekki talist vera aðili að slíku máli hjá embætti landlæknis. Verður því ekki talið að kærandi geti kært úrlausn slíks máls til ráðuneytisins eða eigi rétt á upplýsingum um lyktir slíks máls umfram almennar reglur stjórnsýsluréttar. Að þessu virtu verður kæranda, sem lýtur að vinnubrögðum embættis landlæknis í kjölfar ábendingar kæranda um aðstöðu mágs hans, vísað frá ráðuneytinu.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru kæranda, dags. 4. desember 2023, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta