Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 5/2022

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 5/2022

 

Þriðjudaginn 15. febrúar 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með erindi til ráðuneytisins þann 6. september 2021 óskaði […] (hér eftir kærandi), eftir að gera athugasemdir við vinnubrögð og svör embættis landlæknis vegna afgreiðslu kvörtunar sem hann hafði borið fram hjá embættinu. Verður að skilja erindið sem svo að kærandi kæri málsmeðferð embættis landlæknis í málinu og óski eftir að málið verði sent til nýrrar meðferðar hjá embættinu.

 

Málið er kæranlegt á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra innan kærufrests.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins og málavextir.

Frekari gögn bárust frá kæranda 14. og 18. september 2021. Með tölvupósti, dags. 6. október 2021, óskaði ráðuneytið eftir skýringum frá embætti landlæknis vegna málsins. Samkvæmt embætti landlæknis hafði kærandi einnig kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna málsins, en embættið svaraði umboðsmanni með bréfi þann 14. október 2021. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, en bréfið barst ráðuneytinu þann 21. desember sama ár. Þar sem kvörtun kæranda til umboðsmanns var lögð fram á sama grundvelli sendi embætti landlæknis afrit af svarbréfi sínu til umboðsmanns til ráðuneytisins. Kærandi kom á framfæri athugasemdum þann 8. febrúar 2022.

 

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram kvörtun til embættis landlæknis þann 21. september 2020. Í bréfi embættis landlæknis til kæranda, dags. 10. ágúst 2021, kom fram að embættið teldi eðlilegt að líta á kvörtun kæranda sem athugasemd við þjónustu, sbr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en slíkum kvörtunum skyldi beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Embættið hefði aflað greinargerðar frá heimilislæknum kæranda þar sem svarað væri mörgum spurningum sem kærandi hefði borið fram í kvörtun. Beindi embætti landlæknis því til kæranda að leggja mat á þau svör sem kæmu fram í greinargerðinni og, ef hann hefði athugasemdir, að beina þeim til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með vísan til gagna málsins taldi embættið kvörtunina ekki gefa tilefni til frekari málsmeðferðar, þ.e. rannsóknar eða eftirfylgni m.t.t. eftirlitshlutverks landlæknis.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi byggir á því að málsmeðferð embættis landlæknis hafi verið óeðlileg. Kvörtunin hafi m.a. lotið að […], en kærandi hafi tekið lyfið […] í nokkur ár. Kveður kærandi að lyfið eigi vanalega að nota í 3-6 mánuði. Í kvörtun hafi kærandi jafnframt gert athugasemdir við skort á upplýsingum frá læknum sem hann hafi sótt heilbrigðisþjónustu til.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis og athugasemdir kæranda.

Í fyrirliggjandi bréfi embættis landlæknis kemur fram að kvörtun frá kæranda hafi borist embættinu þann 21. september 2020, en viðbætur og athugasemdir frá kæranda hafi borist síðar. Embætti landlæknis hafi óskað eftir greinargerð og gögnum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en greinargerðin hafi borist 12. janúar 2021. Hafi það verið mat sérfræðinga sviðs eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu hjá embættinu að ekki væri um að ræða mál sem félli undir 1. eða 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu heldur mál sem ætti frekar undir heilsugæslu kæranda, þ.e. varðaði þjónustu sem vísa bæri til viðkomandi stofnunar samkvæmt 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Í kvörtuninni hafi kærandi verið ósáttur við margt, m.a. eftirfylgni blóðprufa og afgreiðslu heimilislæknis. Erfitt hafi verið að henda reiður á hvað embætti landlæknis gæti gert fyrir kæranda og allt bent til að athugasemdir hans væru byggðar á misskilningi. Hafi það verið mat embættis landlæknis að kærandi þyrfti heldur á útskýringum og leiðbeiningum að halda frekar en að mál hans færi í farveg kvörtunarmáls sem taki venjulega 1-2 ár, auk þess sem niðurstaða þess myndi væntanlega ekki gagnast kæranda. Á grundvelli gagna málsins hafi ekki verið unnt að sjá að um mistök eða vanrækslu væri að ræða. Því hafi kvörtunin verið afgreidd með þeim hætti sem lýst hefur verið.

 

Í athugasemdum kæranda kveður hann málið vera furðulegt, en það eigi að vera stefnan með lyfjagjöf að fólk nái bata en ekki veikjast á annan hátt. Veltir kærandi því upp hvort greining á heilsubresti hafi verið rétt á sínum tíma. Þá eigi læknar í dag að hafa viðmið um hvað teljist eðlilegt og hvað ekki, og gildi það um allt sem mælt sé í blóðprufum.

 

IV. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli.

 

Meðal hlutverka embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. e-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í II. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laganna skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

Í kvörtun kæranda kemur fram að hann kvarti yfir vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Vísar kærandi til þess að hann hafi leitað til læknis í þeim tilgangi að láta athuga með hormón, sem hafi verið gert, en niðurstaðan hafi verið sú að kærandi hafi verið […]. Fram kemur að kærandi hafi byrjað að lesa sér til og fundið grein á netinu þar sem fjallað hafi verið um svokallaða „PSA“ mælingu fyrir hormónasprautu sem kærandi hafi nefnt við lækninn sem hafi ekki framkvæmt mælinguna. Læknirinn hafi gefið kæranda þá skýringu að hann sé […], sem sé ástæðan fyrir […]. Kærandi segir þá greiningu vera lélega og kveður að […] og fleiri einkennum. Í kvörtuninni kveðst kærandi jafnframt hafa spurt lækninn hver útkoman hafi verið úr […] en læknirinn hafi ekki svarað. Læknirinn hafi síðar sent tölvupóst á kæranda þar sem  m.a. hafi komið fram að flókið sé að lesa úr prófinu. Telur kærandi það vera sérstakt svar. Þá hafi kærandi óskað eftir því að læknirinn færi yfir ferli sem lýst sé í grein á netinu en læknirinn hafi talað um að fara í gegnum það seinna.

 

Kærandi vísar einnig til þess að hann hafi sent tölvupósta á heilsugæsluna í […] og embætti landlæknis til að fá afrit af sjúkraskrá, án þess að hafa fengið svar. Kveður kærandi að málið gangi út á að honum hafi ekki verið sagt frá niðurstöðum úr blóðprufum sem teknar hafi verið reglulega frá 2015-2020. Honum hafi verið sagt frá „INR“ en ekki miklu öðru. Kemur einnig fram að kærandi hafi verið á lyfinu […] í fjögur ár en hann kveður lyfið vanalega vera notað í 3-6 mánuði. Að sögn kæranda sé lyfið í raun eitur, en hann hafi margsinnis tekið fram við lækni að lyfið hafi valdið honum vanlíðan án þess að hlustað hafi verið á það. Greinir kærandi frá því að eitlar hafi alltaf verið bólgnir en séu það ekki lengur eftir að hann hafi hætt að taka lyfið. Í kvörtuninni vísar kærandi jafnframt til þess að árið 2020 hafi hann átt í öndunarerfiðleikum í […] og verið fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. Blóðprufa hafi verið tekin á bráðamóttökunni sem hafi sýnt allt of lágt […]. Fram kemur að kærandi hafi, nokkrum mánuðum áður en þetta hafi gerst, farið til blóðsjúkdómalæknis og lýst einkennum sínum fyrir honum. Niðurstaða hans hafi verið sú að kærandi hafi verið allt of lágur í […] og spurt hvort heimilislæknirinn væri ekkert að gera fyrir hann. Þá veltir kærandi því upp hvort nýru hafi skaddast vegna töku […] lyfs.

 

Fyrir liggur greinargerð frá tveimur læknum á heilsugæslu […] sem komu að meðferð kæranda, en í greinargerðinni er nokkrum atriðum sem kærandi byggir á í kvörtun svarað. Greinargerðinni fylgdi  bréf frá framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Að því er varðar […] og PSA mælingar kveða læknarnir að ástandið hafi verið talið […] og hafi kærandi fengið uppbótarmeðferð með sprautum IM. PSA hafi verið mælt árið 2018 en ekki verið mælt síðan, en ekkert sé til fyrirstöðu að mæla það aftur. Harma læknarnir að hafa ekki náð að gera kæranda það betur ljóst. Hvað varðar athugasemdir um að víðtækari rannsóknir hafi ekki farið fram á […] þá hafi málið verið tekið upp á fundi lækna á stöðinni snemma árs 2020 en ekki hafi þótt ástæða til frekari rannsókna. Vísað er til þess að kærandi hafi verið greindur með […] í blóði í kjölfar blóðtappa, en rannsókn hafi verið gerð vegna þessa árið 2018. Eftir að […] meðferð hafi hafist árið 2015 hafi […] verið á milli 3 og 3,5. Síðustu ár hafi kærandi verið á uppbótarmeðferð og gengið vel. Þá kemur fram að engin merki hafi verið um skerta nýrnastarfsemi.

 

Í bréfi embættis landlæknis til kæranda, dags. 10. ágúst 2021, segir að í ljósi framangreindra upplýsinga telji embættið eðlilegt að líta á kvörtun kæranda sem athugasemd við þjónustu, sbr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Slíkum kvörtunum skuli beina til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar, en fyrir liggi svar yfirstjórnar, þ.e. framkvæmdastjóra lækninga. Kemur fram það mat embættis landlæknis að málið gefi ekki tilefni til frekari málsmeðferðar, þ.e. rannsóknar eða eftirfylgni embættisins m.t.t. eftirlitshlutverks þess.

 

Með 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu hefur löggjafinn mælt fyrir um heimild til að kvarta til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Er heimildin sett í þeim tilgangi að veita sjúklingum, og eftir atvikum aðstandendum þeirra, færi á að upplýsa embætti landlæknis um atvik sem hafa að þeirra mati falið í sér vanrækslu og/eða mistök. Við meðferð þeirra kvartana sem teknar eru til umfjöllunar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu þarf embætti landlæknis að uppfylla kröfur sem leiða má af stjórnsýslulögum, svo sem um rannsókn og andmælarétt. Rannsókn á kvörtun og útgáfa álits á grundvelli 12. gr. laga um landlæknis og lýðheilsu er liður í eftirlitshlutverki embættisins og getur t.a.m. orðið til þess að heilbrigðisstarfsmaður sæti viðurlögum á grundvelli III. kafla laganna.

 

Við mat á því hvort kvörtun heyri undir ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu má jafnframt hafa hliðsjón af því að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Er kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð geti hann beint kvörtun til landlæknis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga segir að gerður sé greinarmunur á athugasemdum og kvörtunum. Sé um athugasemdir að ræða við meðferð sem sjúklingur hafi fengið á heilbrigðisstofnun skuli þeim beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Kvörtunum sé hins vegar beint til embættis landlæknis. Hefur löggjafinn samkvæmt framangreindu gert greinarmun á athugasemdum vegna þjónustu sem veitt er af hálfu heilbrigðisstarfsfólks og kvörtunum til embættis landlæknis vegna meintra mistaka eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Að mati ráðuneytisins þurfa atriði sem vísað er til í kvörtun til embættis landlæknis að ná ákveðnum lágmarksþröskuldi í samræmi við inntak ákvæðisins til að kvörtun verði tekin til meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Nái kvörtun ekki þeim þröskuldi megi eftir atvikum líta á kvörtun sem athugasemd við þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Er það mat ráðuneytisins með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, málsmeðferð á grundvelli 12. gr. laganna sem lýst er í ákvæðinu sem og eftirlitshlutverki landlæknis, að til að kvörtun til embættisins verði tekin til efnislegrar meðferðar verði hún að gefa að einhverju leyti til kynna að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu.

 

Í kvörtun sinni til embættis landlæknis gerði kærandi athugasemdir í nokkrum liðum sem varða t.a.m. mælingar við […], orsök skortsins, lyfjagjöf og meðferð við […]. Kvörtunin beinist að þeim læknum sem komu að meðferð kæranda á heilsugæslunni í […], en greinargerð þeirra vegna kvörtunarinnar liggur fyrir í gögnum málsins. Þegar umrædd gögn, sem rakin hafa verið að framan, eru virt í heild er það mat ráðuneytisins að kvörtunin feli aðallega í sér athugasemdir við að kærandi hafi ekki verið upplýstur nægilega um ýmis atriði í tengslum við rannsóknir á heilsufari hans og að hann skorti frekari upplýsingar, svo sem um lyfjagjöf. Verður þannig ekki talið að kvörtunin varði atvik sem lúta að meintum mistök eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sem leiði til þess að embætti landlæknis, á grundvelli eftirlitshlutverks þess, sé skylt að taka kvörtun kæranda til meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og ljúka með útgáfu faglegs álits. Er það mat ráðuneytisins, með vísan til alls framangreinds, að rétt hafi verið af embætti landslæknis að líta á kvörtun kæranda sem athugasemd við þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga.

 

Verður málsmeðferð embættisins vegna kvörtunar kæranda, sem barst þann 21. september 2020, því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar, dags. 21. september 2020, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta