Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 13/2023

Úrskurður nr. 13/2013

 

Miðvikudaginn 17. maí 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 10. febrúar 2023, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], gjaldtöku Heilbrigðisstofnunar Austurlands vegna afhendingar sjúkraskrár dóttur kæranda.

 

Kærandi krefst þess að gjaldtakan verði felld niður og að Heilbrigðisstofnun Austurlands verði gert að endurgreiða honum gjaldið.

 

Málið er kært á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir sjúkraskrá dóttur sinnar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Var kæranda gert að greiða gjald vegna afhendingarinnar, sem er grundvöllur kæru til ráðuneytisins.

 

Þann 22. mars 2023 óskaði ráðuneytið eftir skýringum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands vegna gjaldtökunnar. Stofnunin svaraði ráðuneytinu þann 31. mars þar sem fram kom að reikningurinn hefði verið sendur fyrir mistök og að hann yrði endurgreiddur. Ráðuneytið átti í framhaldi í samskiptum við kæranda um það hvort kærandi hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins í ljósi þess að reikningurinn hefði verið endurgreiddur. Kærandi tilkynnti ráðuneytinu að kæra yrði ekki afturkölluð.

 

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi byggir á því að gjaldtaka vegna afhendingar á sjúkraskrá hafi ekki átt sér stoð í 9. tölul. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Í lögum um sjúkraskrár sé kveðið á um almennan rétt sjúklinga til afrits af sjúkraskrám sínum og sé hvergi í þeim lögum kveðið á um gjaldtöku. Vísar kærandi til meginreglunnar um að stjórnvöldum sé ekki heimilt að innheimta þjónustugjöld nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild.

 

Kærandi óskar eftir því að halda kæru í málinu til streitu en hann hafi haft talsverð óþægindi og lögmannskostnað af málinu. Telur hann sig enn hafa hagsmuni af því að úrskurðað verði um gjaldtökuna til þess að hann geti sótt þann kostnað á hendur Heilbrigðisstofnun Austurlands.

 

III. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kæru á innheimtu gjalds vegna afhendingar á sjúkraskrá. Eins og fram er komið kveður Heilbrigðisstofnun Austurlands að reikningurinn hafi verið sendur fyrir mistök. Liggur fyrir í málinu staðfesting á því að gjaldið hafi verið endurgreitt til kæranda.

 

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8178/2014, frá 15. júní 2014, er fjallað um lögvarða hagsmuni af úrlausn af stjórnsýslumáli. Segir í álitinu að þótt sú grundvallarregla sé ekki lögfest í stjórnsýslulögum sé það eitt meginskilyrða fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli að aðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Í því felist m.a. að úrlausn stjórnsýslumáls verði að hafa þýðingu fyrir stöðu aðila að lögum, en þegar tekin sé afstaða til þess verði almennt að gæta töluverðrar varfærni. Þannig þyrfti t.a.m. að liggja fyrir með nokkuð skýrum hætti að úrlausn ágreining hefði ekkert raunhæft gildi fyrir viðkomandi aðila svo að unnt yrði með réttu að fullyrða að hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausninni. Hafi stjórnvaldsákvörðun verið tekin í máli aðila verði að ganga út frá því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðun æðra stjórnvalds í kærumáli á því hvort hún hafi verið lögmæt og rétt að efni til. Þrátt fyrir það geti lögvarðir hagsmunir aðila máls liðið undir lok áður en hann kæri ákvörðun til æðra stjórnvalds eða undir rekstri málsins.

 

Með kæru til ráðuneytisins krafðist kærandi þess að fyrrgreind gjaldtaka yrði felld niður og að hann fengi gjaldið endurgreitt. Liggur þannig fyrir að þeir lögvörðu hagsmunir, sem kærandi taldi sig eiga í málinu, lutu að því að fá fjárhagslegar bætur vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meintrar ólögmætrar gjaldtöku. Í málinu liggur fyrir viðurkenning Heilbrigðisstofnunar Austurlands á því að gjaldtakan hafi verið fyrir mistök og hefur gjaldið verið endurgreitt kæranda. Að því virtu og með vísan til sjónarmiða í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8178/2014 telur ráðuneytið ljóst að þeir fjárhagslegu hagsmunir, sem kærandi hafi átt í málinu, hafi liðið undir lok á kærustigi og að hann hafi ekki lengur slíkra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Þá verður ekki talið að kærandi hafi annarra hagsmuna að gæta, t.a.m. vegna óhagræðis og lögmannskostnaðar sem hann kveðst hafa orðið fyrir, sem leiði til þess að ráðuneytinu beri að taka málið til úrlausnar.

 

Samkvæmt framangreindu verður kæru kæranda vísað frá ráðuneytinu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru í málinu, dags. 10. febrúar 2023, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta