Úrskurður nr. 9/2022
Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 9/2022
Föstudaginn 29. apríl 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 16. nóvember 2021, kærði [...], ákvörðun embættis landlæknis, dags. 2. september 2021, um að veita honum áminningu á grundvelli 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Kærandi krefst þess að heilbrigðisráðherra felli úr gildi áminningu embættis landlæknis.
Málið er kært á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og barst kæra innan kærufrests.
I. Meðferð málsins og málavextir.
Við meðferð málsins óskaði ráðuneytið eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna sem barst þann 13. desember 2021. Kærandi gerði athugasemdir við umsögnina þann 1. febrúar 2022. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.
Í ákvörðun embættis landlæknis segir að kærandi hafi flett upp í sjúkraskrá tiltekins sjúklings (hér eftir A) án heimildar í júní og júlí 2017. Taldi embættið kæranda hafa misnotað aðstöðu sína í starfi sem heilbrigðisstarfsmaður og brotið gegn ákvæðum laga um sjúkraskrár.
II. Málsástæður og lagarök kæranda.
Í kæru kemur fram að óumdeilt sé að kærandi hafi án heimildar flett upp í sjúkraskrá A í nokkur skipti í júní og júlí 2017. Fram kemur að A hafi haft samband við hann á þessum tíma vegna innlagnar á spítala og hafi kærandi að einhverju leyti tekið því sem beiðni hennar um að fara yfir sjúkraskrá hennar. Hins vegar sé óumdeilt að kærandi hafi ekki haft beina heimild A til uppflettinganna. Bendir kærandi á að A hafi hins vegar ekki kvartað til embættis landlæknis fyrr en í október 2020, eða rúmum þremur árum eftir að uppflettingarnar áttu sér stað. Byggir kærandi á því að þessi dráttur á framlagningu kvörtunar hafi áhrif í málinu. Kærandi vísar einnig til athugasemda sem hann lagði fram við meðferð málsins hjá embætti landlæknis, en þar hafi hann greint frá því að hann og A hafi um nokkurt skeið átt í nánu sambandi og m.a. keypt sér fasteign saman. Þá hafi kærandi lagt fram samskipti milli sín og A frá 2017, eftir að A hafi orðið var við uppflettingarnar, þar sem hún hóti því ítrekað að kæra kæranda vegna uppflettinganna ef hann gerði ekki eins og hún vildi.
Í kæru koma fram athugasemdir við ákvörðun embættis landlæknis í fimm liðum. Í fyrsta lagi telur kærandi áminningu embættis landlæknis harkalega, en hún sé veitt rúmum fjórum árum eftir að uppflettingarnar hafi átt sér stað. Byggir kærandi á því að áminningin sé brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Bendir kærandi á að í 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu skuli beina tilmælum til heilbrigðisstarfsmanns vegna brota á ákvæðum heilbrigðislöggjafar og áminna hann eftir atvikum. Af orðalagi ákvæðisins verði ekki annað ráðið en að tilmæli um úrbætur séu vægasta úrræðið í kringumstæðum sem þessum, en dugi þau tilmæli ekki skuli áminna heilbrigðisstarfsmanninn eftir atvikum. Kærandi byggir í öðru lagi á því að verulegu máli skipti hversu lengi A hafi dregið að leggja fram kvörtun til embættis landlæknis. Kveður kærandi að A hafi sífellt hótað að kæra kæranda vegna uppflettinganna ef hann gerði ekki eins og hún vildi varðandi fjárhagsleg málefni þeirra á milli. Kvörtunin komi í beinu framhaldi af því að kærandi hafi gert A grein fyrir því að hann myndi ekki láta undan tilraunum hennar til að kúga hann fjárhagslega til að ná fram betri rétti en hún hafi átt í kjölfar slita á sambandi þeirra. Hins vegar hafi kærandi greitt A talsvert meira en hún hafi átt rétt á. Þá gerir kærandi athugasemdir við afstöðu embættis landlæknis um að brot eins og uppflettingar í sjúkraskrá fyrnist ekki.
Í þriðja lagi byggir kærandi á því að í stjórnsýslurétti verði að vera tímanlegt samhengi milli atviks og áminningar, sem sé ekki í tilviki hans. Vísar kærandi í þessu sambandi til fyrningarfresta í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og telur allar líkur á því sök í málinu sé fyrnd samkvæmt 81. gr. þeirra laga. Telur kærandi að embætti landlæknis hafi verið óheimilt að grípa til viðurlaga gegn kæranda enda hafi brotið verið fyrnt tveimur árum eftir að það hafi átt sér stað. Kærandi byggir í fjórða lagi á því að það sé fyrning á stjórnsýslubrotum. Þannig muni það vera verklagsregla að ef starfsmaður fær áminningu og svo aðra áminningu innan árs leiði það til brottvikningar. Ef önnur áminning komi eftir að árið sé liðið hefjist nýr frestur. Byggði kærandi einnig á því við meðferð málsins hjá landlækni að almennt væri litið svo á að hefði starfsmaður fengið áminningu, en ekki verið áminntur aftur fyrr en meira en fjórum árum síðar, væri ekki unnt að byggja á fyrri áminningu við mögulega uppsögn. Greinir kærandi frá athugasemdum um 14. gr. í frumvarpi til laga um landlækni og lýðheilsu, en þar komi skýrt fram að tilmæli séu vægara úrræði og til þess ætluð að gefa heilbrigðisstarfsmanni kost á að bæta ráð sitt. Jafnframt komi fram í skýringunum að þótt tilmælin hafi verið ný í lögunum hafi þau verið í samræmi við verklag embættis landlæknis í gegnum tíðina. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi aftur flett upp með óheimilum hætti í sjúkraskrá. Megi þegar af þeirri ástæðu halda því fram að viðurlög séu ónauðsynleg. Í fimmta lagi byggir kærandi á því að við ákvörðun viðbragða af hálfu embættis landlæknis verði að skoða þann tíma sem liðið hafi.
III. Athugasemdir landlæknis.
Í umsögn embættis landlæknis segir að fyrir liggi að kærandi hafi flett upp í sjúkraskrá A án heimildar í júní og júlí 2017. Að mati embættisins hafi það ekki haft áhrif á rétt A til að kvarta til embættisins þótt hún hafi haft vitneskju um uppflettingarnar fyrr. Embættinu sé skylt að rannsaka ábendingar um óheimilar uppflettingar í sjúkraskrá á grundvelli eftirlitshlutverks síns og að ekkert í lögum um sjúkraskrár kveði á um að réttur sjúklings til að kvarta til embættisins falli niður eftir ákveðinn tíma frá því að uppfletting átti sér stað. Segir í umsögninni að aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár eða öðrum lögum. Vísar embættið í þessu sambandi til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Fram kemur að sjúkraskrárupplýsingar séu trúnaðarmál og skrárnar fyrst og fremst nauðsynlegt vinnutæki heilbrigðisstarfsmanna vegna heilbrigðisþjónustu.
Að mati embættis landlæknis sé alvarlegt brot á framangreindum lögum að fara inn í sjúkraskrá sjúklings án heimildar, en slíkt brot geti gefið tilefni til kæru til lögreglu. Rekur embættið í framhaldinu athugasemdir í frumvarpi til laga um sjúkraskrár, m.a. um að áhersla skuli lögð á að brot gegn ákvæðum laganna verði tekin föstum tökum, einkum þegar brotið sé gegn hagsmunum sjúklinga og þá einkum persónuverndarhagsmunum þeirra. Fram kemur að embættið hafi talið að vægari úrræði en áminning hafi ekki staðið til boða þegar um svo alvarlegt brot hafi verið að ræða. Vísar kærandi jafnframt málsástæðum kæranda um fyrningu á bug, enda séu engin ákvæði þess efnis í lögum um sjúkraskrá eða lögum um landlækni og lýðheilsu. Kveður embætti landlæknis að með atferli sínu hafi kærandi brotið gegn rétti A til friðhelgi einkalífs og virt að vettugi þann trúnað sem ríki um heilbrigðisupplýsingar. Kærandi hafi misnotað aðstöðu sína í starfi og brotið gegn skyldum sínum sem heilbrigðisstarfsmaður og ákvæðum laga um sjúkraskrár. Telur embættið að ekki hafi verið hægt að komast að annarri niðurstöðu en að veita kæranda áminningu.
IV. Athugasemdir kæranda.
Í athugasemdum sínum segir kærandi það vera sérkennilegt ef embætti landlæknis telji að á stjórnsýslulegum vettvangi megi ganga lengra í viðurlögum en á vettvangi sakamála. Þá er kærandi ósammála því að embætti landlæknis þurfi ekki að taka afstöðu til náins sambands aðila eða þess hvort annarlegar hvatir hafi legið að baki. Telur kærandi það vera undirstöðuatriði og að tímalínan staðfesti að kvörtunin sé sett fram þegar A sjái að hótun um kvörtun fái kæranda ekki til að samþykkja kröfur vegna fjárskipta þeirra. Þá vísar kærandi til meðalhófsreglu og telur að vægara úrræði hafi staðið til boða. Í athugasemdunum vísar kærandi til samskipta við A frá byrjun árs 2018, sem að sögn kæranda sýni fram á að samskiptin hafi þá verið ágæt milli hans og A.
V. Niðurstaða.
Mál þetta varðar kæru á ákvörðun embættis landlæknis um að veita kæranda áminningu, sbr. 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Meðal hlutverka embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. e-lið 1. mgr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Í 1. mgr. 14. gr. laganna er kveðið á um að verði landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanræki starfsskyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins og skuli hann þá beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Verði heilbrigðisstarfsmaður ekki við tilmælum landlæknis, sem veitt eru án áminningar, skal landlæknir áminna hann. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við veitingu áminningar, sem skal vera skrifleg og rökstudd og ætíð veitt vegna tilgreinds atviks eða tilgreindra atvika. Ákvörðun um veitingu áminningar sætir kæru til ráðherra, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
Í athugasemdum við ákvæði 14. gr. í frumvarpi til laga um landlækni og lýðheilsu segir að í ákvæðinu sé kveðið á um heimild og eftir atvikum skyldu landlæknis til að áminna heilbrigðisstarfsmenn. Samkvæmt ákvæðinu ber landlækni, verði hann var við að heilbrigðisstarfsmaður vanræki skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða stjórnvaldsfyrirmæli, t.d. fagleg fyrirmæli landlæknis, að beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Hafi landlæknir einungis beint tilmælum til heilbrigðisstarfsmanns skv. 1. málsl. og heilbrigðisstarfsmaður verður ekki við þeim er landlækni skylt að áminna viðkomandi heilbrigðisstarfsmann. Í athugasemdunum er vísað til læknalaga nr. 53/1988 og skyldu landlæknis til að áminna heilbrigðisstarfsmanns samkvæmt því 1. mgr. 28. gr. þeirra laga. Fram kemur að ákvæði frumvarpsins sé frábrugðið því ákvæði að því leyti að það geri ráð fyrir því að landlæknir geti, áður en til áminningar kemur og þegar það á við, beint tilmælum til viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns og þannig gefið honum kost á að bæta ráð sitt. Segir að framangreint ákvæði læknalaga hafi í reynd verið framkvæmt með þessum hætti en réttara þyki að þetta komi skýrt fram í lagatextanum.
Í málinu koma einnig til skoðunar ákvæði laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Er tilgangur þeirra laga að setja reglur um sjúkraskrár þannig unnt sé að veita sjúklingum eins fullkomna heilbrigðisþjónustu og kostur er á hverjum tíma og tryggja um leið vernd sjúkraskrárupplýsinga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Kveðið er á um í 2. gr. laganna að við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skuli mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga virtur, þess gætt að sjúkraskrár hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar séu trúnaðarmál. Mælt er fyrir um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum í IV. kafla laga um sjúkraskrár, en heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að sjúkraskrá sjúklingsins með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. hefur landlæknir eftir því sem við á eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt. Fram kemur að um eftirlit landlæknis og eftirlitsúrræði fari samkvæmt lögum um landlækni. Er kveðið á um í 4. mgr. 22. gr. að leiði eftirlit í ljós að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn persónuverndarhagsmunum sjúklings skuli brot kært til lögreglu. Fer þá um málið hjá lögreglu samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Kæra til lögreglu stöðvar ekki athugun og beitingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum um landlækni og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða beitingu úrræða samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
Fram kemur í athugasemdum í frumvarpi til laga um sjúkraskrár að lögð sé áhersla á að brot gegn ákvæðum laganna verði tekin föstum tökum og leidd til lykta með þeim úrræðum sem lög bjóði. Eigi þetta einkum við þegar brotið sé gegn hagsmunum sjúklinga og þá einkum persónuverndarhagsmunum þeirra. Í athugasemdum um 2. gr. laganna segir að hafa beri í huga við alla vinnslu sjúkraskrárupplýsinga að þær teljist viðkvæmar persónuupplýsingar og að þær séu trúnaðarmál. Er hér vísað til þess trúnaðarsambands sem ríkja skal á milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanns og þeirrar þagnarskyldu sem ávallt hvílir á heilbrigðisstarfsmanni um upplýsingar um sjúklinga sem hann kemst að í starfi sínu. Þá kemur fram í athugasemdum um 13. gr. að meginreglan sé sú að einungis þeir heilbrigðisstarfsmenn sem komi að meðferð sjúklings og þurfi á sjúkraskrárupplýsingum að halda vegna starfa sinna skuli eiga aðgang að sjúkraskrá hans með þeim takmörkunum sem leiði af ákvæðum laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Í frumvarpinu segir um 4. mgr. 22. gr. að ákvæðinu sé ætlað að undirstrika alvarleika þess athæfis þegar brotið sé gegn persónuverndarhagsmunum sjúklinga, t.d. ef upplýsinga er aflað úr sjúkraskrá án þess að tilefni sé til þess vegna meðferðar sjúklings eða lagaheimild skortir að öðru leyti. Ákvæðið sé til þess fallið að auka varnaðaráhrif refsiákvæðis 23. gr. frumvarpsins gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem hafa aðgang að sjúkraskrárupplýsingum samkvæmt lögum.
Gögn málsins bera með sér að kærandi, sem er læknir, og A hafi átt í sambandi sem hafi staðið yfir frá [...] til maí 2017. Liggur fyrir að skömmu eftir sambandsslit þeirra lagðist A inn á sjúkrahús í einhvern tíma sem hún hafi tjáð kæranda. Kveðst kærandi hafa athugað sjúkraskrá hennar í nokkur skipti á tímabilinu 15. júní til 1. júlí 2017, en uppflettingarnar hafi stafað af áhyggjum kæranda af heilsufari A. Er ljóst af gögnum málsins að næstu ár hafi ágreiningur átt sér stað á milli kæranda og A sem hafi átt rætur að rekja til fasteignakaupa sem áttu sér stað áður en sambandi þeirra lauk og fjárhagslegu uppgjöri þeirra á milli vegna kaupanna. Kveður kærandi að A hafi nýtt sér upplýsingar um að hann hefði flett henni upp í sjúkraskrá í þeim tilgangi að fá hagfelldari niðurstöðu í uppgjörinu en hún hefði annars rétt á. A hefði búið yfir upplýsingum um uppflettingarnar lengi en ekki kvartað til embættis landlæknis vegna þeirra fyrr en síðla árs 2020, eða rúmum þremur árum eftir að uppflettingarnar hafi átt sér stað.
Af þeim ákvæðum laga um sjúkraskrá sem rakin hafa verið er ljóst að eitt af meginmarkmiðum laganna er að tryggja vernd sjúkraskrárupplýsinga, sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, og að trúnaður ríki um upplýsingarnar. Til að tryggja vernd upplýsinganna er lagt til grundvallar að einungis þeir heilbrigðisstarfsmenn sem komi að meðferð sjúklings og þurfi á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skuli hafa aðgang að sjúkraskrá sjúklingsins.
Í málinu er ekki deilt um það að kærandi fletti A upp í sjúkraskrá í nokkur skipti í júní og júlí 2017 án þess að vera heilbrigðisstarfsmaður sem kom að meðferð A sem þarf á sjúkraskrárupplýsingum að halda. Með háttsemi sinni braut kærandi gegn 1. mgr. 13. gr. laga um sjúkraskrár og virti um leið að vettugi persónuverndarhagsmuni A og þann trúnað sem lögunum er ætlað að tryggja um sjúkraskrárupplýsingar. Kærandi hefur borið því við að uppflettingarnar hafi stafað af áhyggjum hans af heilsufari A. Að mati ráðuneytisins verður ekki talið að þær skýringar hafi áhrif á beitingu viðurlaga gegn kæranda, enda ljóst að hann hafði enga heimild samkvæmt fyrrgreindu ákvæði til að fletta upp í sjúkraskrárgögnum A á umræddu tímabili. Hafi kæranda, sem lækni, mátt vera ljóst að sú háttsemi fæli í sér skýrt brot á lögum um sjúkraskrár.
Kærandi byggir m.a. á því að embætti landlæknis hafi, í ljósi fyrningafresta 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ekki verið heimilt að veita honum áminningu vegna brotanna, enda sé sök í málinu fyrnd samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Að mati ráðuneytisins verður ekki talið að þótt sök kunni að vera fyrnd í málinu á grundvelli almennra hegningarlaga leiði það til þess að stjórnvöldum sé óheimilt að beita stjórnsýsluviðurlögum vegna brotsins. Fyrning sakar á grundvelli almennra hegningarlaga lýtur að meðferð máls í refsivörslukerfinu og hvort unnt sé að refsa fyrir brot með refsikenndum viðurlögum á borð við sekt eða fangelsi. Mál kæranda lýtur á hinn bóginn að beitingu stjórnsýsluviðurlaga á grundvelli 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, í þessu tilviki áminningu, sem eru mun vægari viðurlög en refsiviðurlög samkvæmt almennum hegningarlögum. Verður þannig ekki talið að leggja beri fyrningarfresti almennra hegningarlaga til grundvallar í þeim tilvikum þar sem mál varðar heimildir embættis landlæknis til að grípa til áminningar á grundvelli 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
Þá hefur kærandi borið því við að möguleikar til áminningar vegna stjórnsýslubrota fyrnist á ákveðnum tíma. Vísar kærandi í þessu sambandi til óskráðra sjónarmiða sem hann kveður gilda um fresti í tengslum við áminningar og uppsagnir á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðuneytið bendir í þessu sambandi á að í lögum um landlækni og lýðheilsu eru engin ákvæði sem mæla fyrir um tímafresti í tengslum við áminningu, svo sem að embættinu sé óheimilt að áminna heilbrigðisstarfsmanna að ákveðnum tíma liðnum frá því að brot átti sér stað. Þá verður ekki séð að fyrir liggi skýr réttarframkvæmd um brottfall heimildir til að áminna starfsmenn samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, s.s. hversu langir þeir séu, eða að rétt væri að leggja þá til grundvallar í þessu máli. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að heimild embættis landlæknis til að beita stjórnsýsluviðurlögum vegna brota kæranda á lögum um sjúkraskrár hafi verið fallin brott þegar embættið tók ákvörðun um að áminna hann vegna þeirra. Hins vegar er það mat ráðuneytisins að tímalengd frá broti þar til viðurlög eru ákvörðuð geti haft áhrif á val á úrræði á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Kærandi byggir á því að sú ákvörðun embættis landlæknis að veita honum áminningu vegna brota sem hafi átt sér stað árið 2017, sem A hafi dregið að tilkynna til embættis landlæknis þar til í lok árs 2020, hafi falið í sér brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Hafi embætti landlæknis borið að grípa til vægara úrræðis í málinu í ljósi aldurs brotanna og þess að kærandi hafi ekki gerst sekur um slík brot aftur. Eins og áður segir telur ráðuneytið að við mat á því, hvort áminna beri starfsmann vegna brota gegn heilbrigðislöggjöf á grundvelli 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, geti sjónarmið um lengd frá broti komið til athugunar í ljósi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.
Þegar lagt er mat á hvort embætti landlæknis hafi borið að grípa til annarra úrræða gagnvart kæranda, í ljósi sjónarmiða um meðalhóf vegna þess tíma sem liðið hafði frá brotunum, bendir ráðuneytið á að af fyrrgreindum athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi til laga um landlæknis og lýðheilsu má ráða að ákvæðinu hafi verið ætlað að lögfesta heimild embættis landlæknis til að gefa heilbrigðisstarfsmanni kost á að bæta ráð sitt áður en til áminningar kæmi. Að mati ráðuneytisins verður að túlka orðalag 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og athugasemdir að baki ákvæðinu með þeim hætti að ákvörðun um að beina tilmælum til heilbrigðisstarfsmanns á grundvelli ákvæðisins eigi einkum við um þær aðstæður þar sem heilbrigðisstarfsmaður hefur tækifæri til að bæta ráð sitt og haga störfum sínum á þann veg að þau falli ekki undir umrætt ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu. Í þeim tilvikum kunni meðalhófsreglur að leiða til þess að starfsmanni verði frestur til að gera úrbætur áður en til áminningar kemur.
Ráðuneytið bendir jafnframt á að brot sem lúta að persónuvernd sjúklinga eru litin alvarlegum augum í lögum um sjúkraskrár. Er lögð áhersla á að brot gegn ákvæðum þeirra verði tekin föstum tökum og leidd til lykta með þeim úrræðum sem lög bjóði. Við mat á því, hvort rétt hafi verið af embætti landlæknis að áminna kæranda, horfir ráðuneytið til þess að brot kæranda lutu að þeim meginhagsmunum sem lögum um sjúkraskrá er ætlað að vernda, þ.e. friðhelgi einkalífs sjúklinga og persónuvernd þeirra, sem og þess að um ásetningsbrot var að ræða. Frá því að brotin áttu sér stað í júní og júlí árið 2017, og þar til ákvörðun var tekin í málinu í september árið 2021, liðu rúm fjögur ár. Eins og áður segir var embætti landlæknis hins vegar ekki upplýst um málið fyrr en í október árið 2020. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þess um hversu alvarleg brot er að ræða er það mat ráðuneytisins að framangreindur tími hafi ekki verið svo langur að embætti landlæknis hafi af þeim sökum eða öðrum borið að grípa til vægara úrræðis en áminningar á grundvelli 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Telur ráðuneytið í ljósi framangreinds að vægari úrræði en áminning hefði ekki náð því markmiði sem að er stefnt með lögum um sjúkraskrár og lögum um landlækni og lýðheilsu, þ.e. að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu, vernd sjúkraskrárupplýsinga og að virða mannhelgi og sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga. Hin kærða ákvörðun hafi því ekki brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða ráðuneytisins að embætti landlæknis hafi verið rétt að veita kæranda áminningu vegna ólögmætra uppflettinga í sjúkraskrá, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 2. september 2021, um að veita kæranda áminningu, er staðfest.