Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 18/2023

Úrskurður nr. 18/2023

 

Mánudaginn 25. september 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

Með kæru, dags. 7. mars 2023, kærði […] (hér eftir kærandi) til heilbrigðisráðuneytisins ákvörðun embættis landlæknis, dags. 6. desember 2022, um að veita honum áminningu á grundvelli 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun embættisins verði felld úr gildi.

Málið er kært á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Kæra barst utan kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur ráðuneytið til skoðunar hvort taka beri kæruna til meðferðar.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda veitt áminning vegna alvarlegra mistaka í fæðingu barns og vanrækslu á færslu sjúkraskrár. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna sem barst þann 5. apríl sl. Kæranda var veitt færi á að gera athugasemdir við umsögnina en þann 11. maí greindi kærandi frá því að hann myndi ekki koma athugasemdum á framfæri. Var málið þá tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur fram að áminningin hafi verið veitt þann 6. desember 2022 en að embætti landlæknis hafi leiðrétt áminninguna degi síðar og sent honum eintak af leiðréttu eintaki í bréfpósti. Byggir kærandi á því að miða eigi kærufrest við þann tíma. Kæranda var veitt tækifæri til að tjá sig um hvort aðstæður 28. gr. stjórnsýslulaga ættu við í málinu en engar athugasemdir bárust. 

III. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru á ákvörðun embættis landlæknis um að veita kæranda áminningu. Hefur ráðuneytið til skoðunar hvort taka beri kæruna til meðferðar.

 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Ákvörðun telst bindandi þegar hún er komin til aðila, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir að það sé ekki gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar málsaðila. Hefur umboðsmaður Alþings talið að þannig eigi að vera nægilegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt má búast við því að aðili geti kynnt sér hana, t.d. að bréf hafi verið afhent á heimili hans, sbr. álit frá 10. apríl 2015 í máli nr. 8140/2014. Meðferð máls þess sem hér er til meðferðar var rafræn, en um þau mál gilda ákvæði IX. kafla stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. mgr. 39 gr. laganna telst stjórnvaldsákvörðun birt aðila þegar hann á sér kost á að kynna sér efni hennar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 51/2003 um breytingu á stjórnsýslulögum (rafræn stjórnsýsla) segir að ef tölvuskeyti er t.d. aðgengilegt aðila hjá vefþjóni hans mundi skeytið teljast komið til hans í skilningi ákvæðisins. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að leggja megi til grundvallar að ákvörðun, sem send er á rafrænu formi til málsaðila, teljist birt þegar aðili hefur kost á að kynna sér efni hennar í tölvupósthólfi.

 

Í hinni kærðu ákvörðun, sem er dagsett þann 6. desember 2022, kemur fram að hún hafi verið send í tölvupósthólf kæranda. Liggja fyrir upplýsingar frá embætti landlæknis um að ákvörðunin hafi verið send kæranda rafrænt þann dag og að hún hafi verið sótt af kæranda samdægurs. Hófst þá þriggja mánaða kærufrestur, sem rann út þann 6. mars 2023. Kærandi kærði ákvörðunina ekki til ráðuneytisins fyrr en 7. mars sl., sem er utan þess kærufrests sem lagður er til grundvallar í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir á því að miða eigi kærufrest við sendingu leiðrétts eintaks hinnar kærðu ákvörðunar í bréfpósti.

 

Af hinni kærðu ákvörðun er ljóst að kæranda var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest, sbr. 2. og 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærufrestur hafi þannig hafist við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þótt ákvörðunin hafi verið leiðrétt skv. 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga, og kæranda sent nýtt endurrit af hinni kærðu ákvörðun, leiðir það ekki til þess að kærufrestur taki gildi við birtingu leiðrétts eintaks enda ekki um nýja ákvörðun að ræða í málinu.

 

Í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist. Af hálfu kæranda hafa engar athugasemdir borist um þetta atriði og kæran því ekki tekin meðferðar á þessum grundvelli.

 

Ráðuneytinu ber jafnframt að taka til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Við það mat horfir ráðuneytið m.a. til þess hvort málið geti haft þýðingarmikið fordæmisgildi eða hvort aðili hafi mikla hagsmuni af því að málið verði tekið til meðferðar, sem eru meiri en almennt á við í sambærilegum málum. Við það mat hefur umboðsmaður Alþingis einnig litið til þess hvort verulegir form- eða efnisannmarkar hafi verið á málsmeðferð hins lægra setta stjórnvalds, sbr. álit umboðsmanns frá 5. júní 2009 í máli nr. 5471/2008.

 

Ljóst er að ákvörðun embætti landlæknis er íþyngjandi gagnvart kæranda. Við mat á því, hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, hefur skoðun ráðuneytisins m.a. beinst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun í máli kæranda hafi verið haldin verulegum form- eða efnisannmörkum sem gætu leitt til ógildingar.

 

Eftir að hafa kynnt sér þau gögn sem liggja til grundvallar í málinu er það mat ráðuneytisins að ekkert bendi til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin verulegum form- eða efnisannmörkum. Þá telur ráðuneytið að málið hafi ekki fordæmisgildi í málum sem varða áminningu, enda sé um að ræða persónubundin atvik sem hafi leitt til þeirrar ákvörðunar embættisins að áminna kæranda. Sé enn fremur ljóst að kærandi hafi ekki meiri hagsmuni af því að fá málið til meðferðar en í sambærilegum málum sem varða áminningu.

 

Samkvæmt öllu framangreindu er það mat ráðuneytisins að undanþágur 1. og 2. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrir því að taka kæru sem berst að liðnum kærufresti til meðferðar, eigi ekki við í máli kæranda. Verður kærunni því vísað frá ráðuneytinu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru í málinu er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta