Úrskurður nr. 9/2021
Föstudaginn 27. ágúst 2021 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 009/2021
Með bréfi, dags. 26. október 2020, kærði [...] (hér eftir nefnd kærandi), niðurstöðu embættis landlæknis í eftirlitsmáli, dags. 23. ágúst 2019. Af kæru verður ráðið að kærandi krefjist þess að niðurstaða embættis landlæknis verði felld úr gildi.
I. Málsmeðferð ráðuneytisins.
Þann 16. nóvember 2020 óskaði ráðuneytið eftir afstöðu embættis landlæknis til tiltekinna atriða í málinu, svo sem ástæðu þess að leyst hafi verið úr málinu á grundvelli III. kafla laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Embætti landlæknis óskaði eftir lengri fresti til að svara fyrirspurn ráðuneytisins og barst svar þann 25. febrúar 2021.
II. Málavextir.
Málið er að rekja til þess að kærandi kvartaði til embættis landlæknis vegna læknisvottorðs sem [...], sérfræðingur í [...], gaf út vegna kæranda. Fram kemur í niðurstöðu landlæknis að tilurð vottorðsins hafi verið að rekja til beiðni héraðsdóms Reykjavíkur um læknisfræðilegt mat á ákveðnum þáttum er vörðuðu heilsufar kæranda vegna máls sem hafi verið til meðferðar hjá dómnum í tengslum við [...]. Við meðferð málsins hjá landlækni var málið afgreitt sem eftirlitsmál á grundvelli 13. laga um landlækni og lýðheilsu, en ekki kvörtunarmál samkvæmt 12. gr. sömu laga. Þann 23. ágúst 2019 komst embætti landlæknis að þeirri niðurstöðu að við útgáfu læknisvottorðsins hefðu skilyrði laga og reglna um útgáfu læknisvottorða, sbr. 19. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, verið uppfyllt.
III. Málsástæður og lagarök kæranda.
Í kæru vísar kærandi til úrskurða landsréttar frá [...]. Úrskurðirnir varða rekstur máls fyrir dómstólum þar sem [...].
IV. Bréf embættis landlæknis.
Í bréfi embættis landlæknis, dags. 25. febrúar 2021, segir m.a. að það hafi verið mat embættisins að með hliðsjón af skilgreiningu á hugtakinu heilbrigðisþjónusta í lögum um landlækni og lýðheilsu félli erindi kæranda ekki undir gildissvið 2. mgr. 12. gr. laganna þar sem um hafi verið að ræða þjónustu sem heilbrigðisstarfsmaður hafi veitt þriðja aðila að beiðni héraðsdóms Reykjavíkur. Málið hafi þannig verið afgreitt á grundvelli 13. gr. laganna og kærandi upplýst um niðurstöðu málsins. Ráðuneytið sendi kæranda bréfið til andmæla en engar athugasemdir bárust.
V. Niðurstaða.
Mál þetta lýtur að niðurstöðu eftirlitsmáls hjá embætti landlæknis, sem tekið var til meðferðar vegna kvörtunar kæranda yfir útgáfu læknisvottorðs.
Í 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eru ákvæði um kvörtun til landlæknis. Er greinin í II. kafla laganna sem fjallar um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Þá er heimilt, á grundvelli 2. mgr. ákvæðisins, að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.
Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram kvörtun til landlæknis þann 25. október 2018 þar sem hún kvartaði yfir meintum mistökum við veitingu heilbrigðisþjónustu. Var efni kvörtunarinnar áðurnefnt læknisvottorð útgefið af [...], en vottorðið var gefið út til héraðsdóms Reykjavíkur vegna dómsmáls sem laut að [...]. Eins og fram er komið var það mat embætti landlæknis að efni kvörtunar kæranda félli ekki undir 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og var málið afgreitt á grundvelli 13. gr. laganna, sem fjallar um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum. Telur ráðuneytið að taka verði afstöðu til þess hvort rétt hafi verið af embætti landlæknis að leggja málið í annan farveg en sem kvörtunarmál samkvæmt 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, eins og upphaflegt erindi kæranda bar með sér. Í því sambandi verði m.a. að leggja mat á hvort atvik í máli kæranda teljist veiting heilbrigðisþjónustu og að embætti landlæknis hafi þannig borið að skera úr um hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við útgáfu vottorðsins.
Hugtakið heilbrigðisþjónusta er skilgreint í 2. tölul. 3. gr. laga um landlæknis og lýðheilsu sem hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsaþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga. Í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn er hugtakið skilgreint með sambærilegum hætti, en í lögunum segir hins vegar að þjónustan sé veitt í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga. Fjallað er um vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur í 19. gr. þeirra laga.
Af skilgreiningu á hugtakinu heilbrigðisþjónusta í lögum um landlækni og lýðheilsu verður ekki ráðið hvort ákvæðið eigi aðeins við um heilbrigðisþjónustu sem veitt sé sjúklingi með beinum hætti í hans þágu eða hvort ákvæðið taki einnig til atvika eins og í máli þessu, þar sem vottorð er gefið út að beiðni þriðja aðila. Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og orðalagi 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er það þó mat ráðuneytisins að veiting heilbrigðisþjónustu feli almennt í sér bein samskipti milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanns eða heilbrigðisstofnunar sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis nr. 6767/2011.
Við mat á því hvort embætti landlæknis hafi borið að taka mál kæranda til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu má jafnframt líta til 1. mgr. 9. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, í II. kafla laganna um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt ákvæðinu skulu heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu halda skrá um óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Með óvæntu atviki sé átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni. Er ákvæðið sett til að tryggja eftirlit landlæknis með slíkum atvikum við veitingu heilbrigðisþjónustu, en senda skal embættinu reglulega yfirlit um öll óvænt atvik eftir nánari ákvörðun landlæknis, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Felur ákvæði 2. mgr. 12. gr. í sér annan þátt í eftirliti embættis landlæknis með atvikum í heilbrigðisþjónustunni sem kunna að hafa falið í sér meinta vanrækslu eða mistök, en í þeim tilvikum er það á forræði sjúklings að kvarta yfir slíkum atvikum.
Í læknisvottorði því sem gefið var út vegna kæranda, dags. 22. maí 2018, kemur fram að kærandi hafi verið í eftirliti á [...] frá 4. apríl 2014. Er heilsufar hennar í framhaldinu rakið og vísað til þess að hún hafi síðast komið til [...] þann 31. október 2017. Greint er frá þeirri skoðun auk rannsóknar sem hafi verið gerð á kæranda í framhaldi af henni. Liggur þannig fyrir að læknisvottorðið fól aðeins í sér yfirferð á þeim gögnum sem lágu fyrir um heilsufar kæranda eftir að eftirlit með henni hófst árið 2014. Hafi útgáfa vottorðsins auk þess ekki verið liður í því að efla heilbrigði kæranda, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa hana heldur mat læknis á heilsufari kæranda með tilliti til fjárræðis að beiðni þriðja aðila. Er það mat ráðuneytisins, eins og atvikum í máli þessu er háttað, að útgáfa vottorðsins hafi ekki falið í sér veitingu á heilbrigðisþjónustu í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna. Þá hafi atvik í málinu ekki verið þess eðlis að þau vörðuðu atriði sem embætti landlæknis beri skylda til að hafa eftirlit með á grundvelli II. kafla laga um landlækni og lýðheilsu um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Hafi embætti landlæknis þannig ekki borið að afgreiða mál á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laganna í samræmi við erindi kæranda.
Í 13. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eru ákvæði um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum. Segir í 1. mgr. að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við eigi. Fyrir liggur að embætti landlæknis tók erindi kæranda til afgreiðslu á grundvelli ákvæðisins með þeirri niðurstöðu að útgáfa læknisvottorðs um heilsufar kæranda hefði verið í samræmi við lög og reglur sem gilda um útgáfu læknisvottorða, sbr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Hlaut erindi kæranda þannig úrlausn hjá embætti landlæknis þar sem tekin var afstaða til þess hvort ákvæðum laga hafi verið fylgt við útgáfu vottorðsins. Kærandi var ekki aðili að málinu hjá landlækni og þá er enga kæruheimild að finna í 13. gr. laga um landlækni og lýðheilsu um að ráðuneytinu beri að endurskoða málsmeðferð eða niðurstöðu í máli sem hlotið hefur afgreiðslu hjá landlækni á grundvelli ákvæðisins.
Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að unnt sé að kæra niðurstöðu embættis landlæknis í málinu til ráðuneytisins. Verður kærunni því vísað frá ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru á niðurstöðu eftirlitsmáls embættis landlæknis, dags. 23. ágúst 2019, er vísað frá ráðuneytinu.