Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 13/2024

Úrskurður nr. 13/2024

 

Þriðjudaginn 9. apríl 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 4. mars 2024, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], niðurstöðu færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að forsendur fyrir færni- og heilsumati kæranda til að komast í hjúkrunarrými væru ekki nægjanlegar.

Kærandi krefst þess að ráðherra felli niðurstöðu færni- og heilsumatsnefndar úr gildi og leggi fyrir færni- og heilsumatsnefnd að staðfesta umsókn kæranda um færni- og heilsumat.

Synjun færni- og heilsumatsnefndar er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu

Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda með bréfi mótteknu 13. mars 2024. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins um kæruna með tölvupósti, dags. 14. mars. Umsögn færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins barst ráðuneytinu með bréfi þann 19. mars. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik og málsástæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um færni- og heilsumat þann 15. nóvember 2023. Í umsókn kæranda komu fram upplýsingar um hvers vegna hún taldi að hagsmunum sínum væri best borgið í langtímadvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými. Kærandi heldur því fram að hún sé ekki nógu og heilsuhraust til að búa áfram sjálfstætt á eigin vegum enda skorti hana nú orðið hæfni til að sinna einföldustu húsverkum. Þá valdi sjálfstæð búseta henni óöryggi og andlegri vanlíðan.

Með bréfi dags. 9. janúar 2024 tilkynnti færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins kæranda að nefndin teldi að forsendur fyrir færni- og heilsumati í hjúkrunarrými væru ekki nægjanlegar þar sem úrræði til stuðnings áframhaldandi búsetu á eigin heimili væru lítt reynd í tilfelli kæranda.

Með kæru kæranda til ráðuneytisins bárust frekari gögn um heilsufar kæranda. Voru þau gögn ásamt kærunni send færni- og heilsumatsnefnd til umsagnar. Þá hafði nefndinni einnig borist umsögn frá dagdvöl sem kærandi hefur dvalið hjá á daginn. Í umsögn nefndarinnar til ráðuneytisins um kæruna kom fram að með þeim viðbótarupplýsingum sem þá lágu fyrir nefndinni væru fram komin gögn sem að samanlögðu myndu leiða til samþykktar á umsókn kæranda um færni- og heilsumat. Var það jafnframt tilkynnt kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu reynir á ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins um að synja kæranda um færni- og heilsumat.

Fjallað er um færni- og heilsumat í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, sbr. 15. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. getur enginn dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar, sem ráðherra skipar, á þörf fyrir slíka dvöl. Þá kemur fram í 5. mgr. ákvæðisins að ráðherra kveði nánar á um færni- og heilsumat í reglugerð.

Á grundvelli 5. mgr. 15. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 466/2012, um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma. Í II. kafla reglugerðarinnar er fjallað um dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými og forsendur og framkvæmd færni- og heilsumats. Um framkvæmd færni- og heilsumats fer samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar. Kemur þar m.a. fram hverra upplýsinga færni- og heilsumatsnefnd skuli afla við matið. Var synjun nefndarinnar í upphafi byggð á því að úrræði til stuðnings áframhaldandi búsetu á eigin heimili væru lítt reynd, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er einstaklingum, sem sætta sig ekki við niðurstöðu færni- og heilsumats, heimilt að skjóta niðurstöðu nefndarinnar til ráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Eitt meginskilyrða fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli er að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Af þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er ljóst að kærandi hefur fengið samþykkta umsókn um færni- og heilsumat á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga um málefni aldraðra, sbr. einnig 11. gr. reglugerðar nr. 466/2012. Verður því ekki annað ráðið en að hin nýja ákvörðun komi í stað hinnar kærðu ákvörðunar um synjun og að kröfur kæranda hafi verið teknar til greina að öllu leyti.

Af þeim sökum og eins og mál þetta liggur fyrir telur ráðuneytið að kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um hina kærðu ákvörðun. Verður máli þessu þegar af þeim sökum vísað frá ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru kæranda, dags. 4. mars 2024, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta