Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 15/2022

Úrskurður nr. 15/2022

Þriðjudaginn 13. júní 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 25. apríl 2022, kærði [...] (hér eftir kærandi), synjun embættis landlæknis um að aðhafast ekki vegna bréfs sem embættið sendi til velferðarráðuneytisins þann 16. mars 2016, þar sem fjallað var um kæranda.

 

Kærandi gerir þá kröfu að ráðuneytið taki efnislega afstöðu til innihalds bréfsins.

I. Málsástæður kæranda.

Kærandi vísar til bréfs sem fyrrverandi sviðsstjóri embættis landlæknis ritaði velferðarráðuneytinu þann 16. mars 2016. Í bréfinu hafi verið vísað til fyrirlesturs sem kærandi, sem sé fyrrum starfsmaður embættis landlæknis, hafi haldið hjá ráðuneytinu um lyfjaávísanir og dauðsföll vegna þeirra. Hafi það verið mat sviðsstjórans að það hafi verið fullkomlega óeðlilegt að kærandi hafi fjallað um tiltekin mál í kynningunni en einnig að ræða við aðstandendur þeirra sem hafi verið til skoðunar á meðan hún hafi starfað hjá embætti landlæknis.

 

Þegar kærandi hafi komist á snoðir um tilvist bréfsins hafi hún ekki viljað una því að vera vænd um að vera lausmál um málefni skjólstæðinga embættis landlæknis. Kærandi hafi bent á að dauðsföllin sem hún hafi fjallað um í fyrirlestrinum hafi átt sér stað utan þess tíma sem hún hafi starfað hjá embættinu. Fram kemur að kærandi hafi verið í samskiptum við þáverandi sviðstjóra embættis landlæknis vegna málsins sem hafi ekki borið árangur. Af hálfu kæranda er m.a. vísað til þess að efni fyrirlestrarins hafi legið fyrir í Læknablaðinu í um hálft ár þegar fyrirlesturinn var fluttur. Kveður kærandi að umrædd dauðsföll sem hún hafi fjallað um í fyrirlestrinum séu þau sömu og hún hafi fjallað um í grein í Læknablaðinu. Tvö málanna hafi verið afgreidd áður en hún hafi hafið störf hjá embætti landlæknis og þriðja málið hafi varðað dauðsfall hálfu öðru ári eftir að hún hafi lokið störfum hjá embættinu. Krefst kærandi liðsinnis ráðuneytisins til að fá embætti landlæknis til að endurskoða ákvörðun sína um að aðhafast ekkert vegna bréfs sviðsstjórans. 

 

II. Niðurstaða.

Mál þetta varðar kæru á synjun embættis landlæknis að aðhafast ekkert vegna bréfs sem embættið sendi velferðarráðuneytinu, dags. 16. mars 2016, þar sem fjallað var um kæranda. Ráðuneytið hefur til skoðunar hvort taka beri kæruna til meðferðar.

 

Í málinu liggur fyrir bréf frá embætti landlæknis til kæranda, dags. 20. janúar 2022, þar sem fjallað er um athugasemdir kæranda við innihalds fyrrgreinds bréfs. Segir í bréfinu að það hafi verið mat þáverandi sviðsstjóra að efni bréfsins hafi átt rétt á sér. Er í framhaldinu greint frá samskiptum kæranda og embættisins vegna málsins, en í tölvupósti þann 8. júní 2017 hafi sviðsstjórinn sagt málinu vera lokið. Ekki verði annað séð en að þá hafi legið fyrir að embætti landlæknis teldi ekki ástæðu til að afturkalla eða breyta umræddu bréfi, sem hljóti að fela í sér skýra afstöðu þáverandi landlæknis og sviðsstjóra. Fram kemur að embættið hafi farið ítarlega yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins, rætt við þáverandi sviðsstjóra og fleiri starfsmenn sem hafi unnið hjá embættinu á þeim tíma sem um ræðir. Hafi ekkert komið fram sem hafi varpað nýju ljósi á málið. Með vísan til framangreinds telji núverandi landlæknir og sviðsstjóri eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu ekki forsendur til að afturkalla eða leiðrétta umrætt bréf. Vísar embættið einnig til þess að fyrrverandi sviðsstjóri hafi verið viðstödd fyrirlesturinn.

 

Í kæru er ekki vísað með beinum hætti til kæruheimildar, en ljóst er að kærandi telur að embætti landlæknis hafi tekið stjórnvaldsákvörðun í málinu sem sé kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna gilda þau þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

 

Efni fyrrnernds bréfs frá embætti landlæknis til velferðarráðuneytisins, dags. 16. mars 2016, var „Upplýsingar til ráðuneytisins“, en með bréfinu kom embætti landlæknis á framfæri við ráðuneytið athugasemdum í fimm liðum vegna umræðu kæranda í fjölmiðlum og á ýmsum öðrum vettvangi, þá síðast með fyrirlestri í velferðarráðuneytinu þann 15. mars það ár. Lutu athugasemdirnar aðallega að gagnrýni kæranda á lyfjagagnagrunn embættis landlæknis sem embættið taldi þörf á að leiðrétta eða skýra nánar. Í bréfinu var jafnframt vísað til fyrrgreindrar kynningar kæranda í velferðarráðuneytinu, en embættið kvað kæranda hafa rætt andlát einstaklinga sem hefðu verið til skoðunar hjá embættinu vegna lyfjaávísana þegar hún var starfsmaður embættisins. Væri það álit embættis landlæknis að það væri fullkomlega óeðlilegt að starfsmaður væri bæði að fjalla um þessi mál en einnig að ræða við aðstandendur þeirra sem væru til skoðunar meðan hún hefði starfað fyrir embættið. Þar að auki væri vandséð hvaða erindi þessi mál ættu í umræðu um gæði lyfjagagnagrunns, stoðskráa hans eða lyfjagagnagrunn. Ljóst er að tilgangur bréfsins var aðeins að upplýsa ráðuneytið um tiltekin atriði í tengslum við umfjöllun kæranda um lyfjagagnagrunn embættis landlæknis. Bréf ráðuneytisins hafði engar lögfylgjur í för með sér og fól ekki í sér töku stjórnvaldsákvörðunar sem kvað á um rétt eða skyldu kæranda í skilningi stjórnsýslulaga. Þá varð bréfið ekki tilefni neinna viðbragða hjá velferðarráðuneytinu, hvorki þá né síðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins.

 

Kærandi hefur verið í ítrekuðum samskiptum við embætti landlæknis og ráðuneyti heilbrigðismála vegna bréfsins. Með tölvupósti velferðarráðuneytisins til kæranda þann 31. október 2017 sagði að ekki yrði séð að stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin í málinu sem gæti sætt kæru til ráðuneytisins. Í framhaldi af frekari samskiptum kæranda við embætti landlæknis tók embættið athugasemdir kæranda til frekari skoðunar og sendi henni bréf um lyktir málsins þann 20. janúar 2022. Með vísan til þess sem fram er komið um efni bréfs landlæknis verður ekki talið að það hafi falið í sér töku stjórnvaldsákvörðunar sem sé kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 1. gr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur fyrir að embætti landlæknis hefur tekið athugasemdir kæranda til ítarlegrar athugunar og komist að þeirri niðurstöðu að hvorki afturkalla né breyta efni umrædds bréfs sem sent var til velferðarráðuneytisins í mars 2016. Er ekki heimild í lögum til að skjóta þeirri úrlausn málsins til ráðuneytisins til endurskoðunar. Að framangreindu virtu verður kærunni því vísað frá ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru kæranda, dags. 25. apríl 2022, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta