Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 7/2019

 

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 7/2019

Fimmtudaginn 15. ágúst 2019 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, mótt. 31. janúar 2019, kærði A, hér eftir nefndur kærandi, synjun landlæknis frá 28. nóvember 2018 um leyfi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. janúar 2019, var óskað eftir umsögn Embættis landlæknis um kæruna og öllum gögnum varðandi málið. Með erindi embættisins, dags. 7. febrúar 2019, var óskað eftir fresti sem var veittur til 7. mars 2019. Kærandi var upplýstur um frestinn með bréfi, dags. 8. febrúar 2019. Hinn 4. mars 2019 barst umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum málsins og voru þau gögn send kæranda til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. mars 2019. Hinn 24. mars 2019 bárust athugasemdir með tölvupósti frá kæranda sem voru sendar Embætti landlæknis til kynningar með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. mars 2019. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. maí 2019, að fyrirsjáanlegar væru tafir á afgreiðslu máls hans.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Af kæru virðist mega ráða meðal annars að kærandi hafi sótt tveggja ára nám í Vårdskolan í Torpa, en ekki eins árs líkt og fram hafi komið í svari Fjölbrautaskólans við Ármúla til Embættis landlæknis. Árið 1997 hafi kærandi bætt við sig námi í Kommunala Vuxenutbildningen sem hafi verið sambærilegt við stúdentspróf. Kærandi hafi unnið að því að vekja áhuga á, kenna og leiðbeina umönnunarteymum um betra líf fyrir veika eldri borgara sem var átak sænska félagsmálaráðuneytisins.

Kærandi greinir frá því að námið í Vårdhögskolan í Gautaborg sé eins árs framhaldsnám eftir stúdentspróf, sambærilegt eins árs háskólanámi sem aðstoðarmaður á rannsóknarstofu (sæ. laboratorieassistent). Einnig hafi kærandi lært í sama skóla félagslega umhyggju í eina önn. Vårdpraktik sé nám og starfsþjálfun á vinnustað sem sé viðurkennt eins og fram komi á skírteinum frá Vårdskolan í Torpa og Regionarkivet.

Einnig sé kærandi með viðurkenningu í hjúkrun og umönnun (sæ. vårdkunskap) eins og fram komi á einkunnarblaðinu frá Vårdskolan í Torpa og Regionsarkivet.

Í svari frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla hafi komið fram að ekki sé ljóst hvaða námi kærandi hafi lokið í Svíþjóð. Kærandi bendir á að það komi skýrt fram á vottorði frá Vårdskolan í Torpa að kærandi hafi lokið námi í heilbrigðis- og umönnun ásamt öldrunarþjónustu (sæ. Hälso- och sjukvård samt åldringsvård). Þessi menntun gefi kæranda leyfi til að vinna sem sjúkraliði í Svíþjóð. Kærandi hafi ekki starfsleyfi sem sjúkraliði þar sem starfsstéttin sé ekki löggilt í Svíþjóð. Aftur á móti hafi kærandi vottorð og einkunn frá atvinnurekendum um að hann hafi unnið sem sjúkraliði í Svíþjóð.

Þá skilji kærandi íslensku orðið nokkuð vel, hafi lesið íslensku 1, 2 og 3 á netinu og farið á tveggja anna kvöldnámskeið. Kærandi hafi unnið á X í bráðum tvö ár og geti talað vandræðalaust við íbúana.

Kærandi viti að Embætti landlæknis hafi veitt sjúkraliðum frá Svíþjóð starfsleyfi sem sjúkraliði á Íslandi. Kærandi hafi einnig haft samband við Sjúkraliðafélag Íslands sem hafi sagt að það sé yfirleitt ekki vandamál fyrir sjúkraliða frá Svíþjóð að fá starfsleyfi frá landlækni.

III. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 4. mars 2019, er reifuð meðferð þessa máls, en kærandi sótti um starfsleyfi sem sjúkraliði með umsókn, mótt. 6. júlí 2017. Embætti landlæknis leitaði eftir umsögn heilbrigðisbrautar Fjölbrautaskólans við Ármúla með tölvupósti, dags. 13. október 2017. Umsögnin barst embættinu 8. desember 2017. Var umsögnin send kæranda til kynningar 11. desember 2017 og var honum veittur frestur til 11. janúar 2018 til að koma að athugasemdum. Viðbótargögn bárust frá umsækjanda, dags. 12. janúar 2018, og voru þau send umsagnaraðila 15. janúar 2018. Með tölvupósti umsagnaraðila, dags. 6. mars 2018, var staðfest að viðbótargögnin breyttu engu um niðurstöðuna. Með ákvörðun landlæknis, dags. 28. nóvember 2018, var umsókn kæranda um starfsleyfi sem sjúkraliði á Íslandi synjað.

Embætti landlæknis bendir á að í 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, nr. 511/2013, sé fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis sjúkraliða. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. megi veita þeim starfsleyfi sem lokið hafa sjúkraliðanámi frá viðurkenndri menntastofnun sem starfar á grundvelli aðalnámskrár framhaldsskóla. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. megi einnig veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss en um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sjúkraliða sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fari samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.

Embætti landlæknis bendir á að eins og fram komi í ákvörðun embættisins, dags. 28. nóvember 2018, hafi Fjölbrautaskólinn í Ármúla, sem hefur umsjón með menntun sjúkraliða á Íslandi, vísað til þess í umsögn sinni að í gögnum málsins kæmi ekki fram að kærandi hefði tekið áfanga í hjúkrunarfræði í námi sínu eða vinnustaðanám á heilbrigðisstofnun og ekki væri ljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvaða námi kærandi hafi nákvæmlega lokið í Svíþjóð. Kærandi hafi skilað inn viðbótargögnum til embættisins 18. september 2017, sem send hafi verið til umsagnaraðila 15. janúar 2018. Í tölvupósti umsagnaraðila, dags. 6. mars 2018, komi fram að viðbótargögn kæranda hefðu ekki breytt umsögninni.

Í kæru hafi kærandi bent á að í gögnum málsins komi skýrt fram í vitnisburði frá Vårdskolan í Torpa að hann hafi lokið námi í heilbrigðis- og umönnun ásamt öldrunarþjónustu (sæ. Hälso- och sjukvård samt åldringsvård). Embættið vísi í þessu sambandi til þess að umsagnarnefndin hafi metið það nám, sem gögn málsins styðja að kærandi hafi lokið, ekki fullnægjandi. Að því virtu og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum telji embættið framangreint ekki gefa tilefni til að víkja frá ákvörðun þess um synjun á starfsleyfi til handa kæranda.

Þá hafi kærandi vísað til þess að menntun hans í Svíþjóð veitti honum leyfi til þess að starfa sem sjúkraliði þar í landi. Það breyti því ekki að kærandi þurfi að uppfylla þær kröfur sem gerðar séu hér á landi um menntun og hæfi sjúkraliða svo honum sé heimilt að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Enn fremur hafi kærandi bent á að hann skilji íslensku nokkuð vel, hafi farið á kvöldnámskeið til að læra málið og geti talað vandræðalaust við íbúa á X þar sem hann starfi. Embættið dragi tungumálakunnáttu kæranda ekki í efa en vísi til þess að synjun umsóknar hans á starfsleyfi sem sjúkraliði hér á landi byggðist ekki á þessu atriði.

Einnig hafi kærandi kvaðst hafa lagt fram vottorð frá atvinnurekendum sem staðfesti að hann hafi unnið sem sjúkraliði í Svíþjóð. Embætti landlæknis árétti í þessu sambandi að 12. gr. Norðurlandasamnings nr. 36/1993 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna, eins og honum var breytt með auglýsingu nr. 6/2001, kveði svo á um að sá eigi rétt að fá viðurkenningu sem sjúkraliði á Íslandi sem uppfylli þær kröfur sem gildi í Svíþjóð um menntun og starfsreynslu fyrir sjúkraliða eða hafi aflað sér sambærilegrar eldri menntunar sem viðurkennd sé af til þess bærum yfirvöldum. Þá segi í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum að umsækjandi eigi rétt á starfsleyfi hér á landi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar sem sjúkraliði ef hann leggi fram hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist sé í öðru EES-ríki til að geta starfað þar innan framangreindrar löggiltrar heilbrigðisstéttar. Líkt og fram komi í ákvörðun landlæknis sé ekki í boði formlegt nám fyrir sjúkraliða í Svíþjóð sem standi og sé starfsheiti sjúkraliða ekki lögverndað þar í landi. Því sé ekki unnt að meta hvort menntun og starfsreynsla kæranda uppfylli skilyrði framangreindrar 12. gr. Norðurlandasamningsins eða 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða landlæknis að ekki hafi verið heimilt að veita kæranda starfsleyfi sem sjúkraliði þar sem menntun hans uppfyllir ekki skilyrði reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi nr. 511/2013.

IV. Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda frá 24. mars 2019 við umsögn Embættis landlæknis vísar hann til þess sem segir um samþykki. Landlæknir hafi viljað fá sönnun fyrir að kærandi megi vinna sem sjúkraliði. Menntun kæranda sé tveggja ára eins og fram komi á vottorðum hans. Eftir á hafi landlæknir einnig farið fram á sönnun um að kærandi hafi unnið sem sjúkraliði. Kærandi hafi þá sent inn vottorð um þetta og bendir á að hann hefði ekki verið ráðinn ef hann hefði ekki verið með rétttindi.

Í Svíþjóð gefi Socialstyrelsen ekki út vottorð/löggildingu fyrir sjúkraliða. En kærandi hafi nú sýnt fram á að hann hafi lokið náminu. Kærandi hafi einnig framhaldsnám á háskólastigi frá Vårdhögskola. Þá hafi kærandi unnið sem leiðtogi fyrir sjúkraliða og unnið sem leiðbeinandi/kennari fyrir stjórnendur og annað starfsfólk í umönnun.

Kærandi sé búinn að senda inn vottorð sem sýni að hann hafi unnið sem sjúkraliði og sem sjúkraliði hér á Íslandi í næstum tvö ár án athugasemda frá atvinnurekanda, þar sem kærandi hafi einnig vottorð og sem hafi tekið menntun kæranda og vinnuskjöl gild.

Þá hafi landlæknir einnig viðurkennt að embættið hafi veitt öðrum sjúkraliðum leyfi að vinna sem sjúkraliði á Íslandi. Fyrst hafi landlæknir aðeins viljað fá einkunnirnar. Þar á eftir hafi embættið viljað fá sönnun á verknáminu og hjúkrunarfræði, sem fram komi á einkunninni. Jafnframt hafi embættið haldið að menntunin væri eitt ár, en hún sé tvö ár eins og fram komi á lokaeinkunn, og að kærandi hefði ekki verknám sem kærandi hafi eins og fram komi á lokaeinkunn og vottorði frá Riksarkivet í Svíþjóð.

Einnig hafi embættið viljað að kærandi kynni íslensku sem sé ekki stórt vandamál. Kærandi tali sífellt betri íslensku og fólk skilji hann. Kærandi tali og skilji oft meira og betur en margir sem hafi búið hér í mörg ár. Síðan hafi embættið viljað fá vottorð frá atvinnurekanda sem það og fékk, þó það væri búið að fá það áður.

Í Svíþjóð hafi kærandi unnið sem sjúkraliði á gjörgæsludeild, hjúkrunarheimili, í þjónustuíbúðum, með fatlaða, handleiðslu/kennslu fyrir stjórnendur og annað starfsfólk í umönnun og leiðbeint starfsfólki í umönnun en kærandi sjái ekki að það sé metið. Kærandi hefði aldrei fengið að vinna við það ef hann hefði ekki að minnsta kosti réttindi sem sjúkraliði.

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að ákvörðun Embættis landlæknis frá 28. nóvember 2018 um að synja kæranda um starfsleyfi sem sjúkraliði. Kærandi fer fram á að ráðuneytið snúi við ákvörðun embættisins og að lagt verði fyrir það að veita sér starfsleyfi. Embætti landlæknis telur menntun kæranda ekki uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 511/2013 og því ekki unnt að veita honum starfsleyfi.

Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis sem sjúkraliði eru talin upp í 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, nr. 511/2013. Í 1. mgr. 3. gr. segir að leyfi skv. 2. gr. reglugerðarinnar megi veita þeim sem lokið hafa sjúkraliðanámi frá viðurkenndri menntastofnun sem starfar á grundvelli aðalnámskrár framhaldsskóla. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að einnig megi veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sjúkraliða sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fari samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.

Í 15. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, er fjallað um þær kröfur sem má gera ef starfsgrein er ekki lögvernduð í því ríki sem umsækjandi kemur frá, en svo háttar til í þessu máli að sjúkraliði er ekki lögvernduð starfsgrein í Svíþjóð.

Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011 er kveðið á um það að umsækjandi sem hefur starfað í öðru EES-ríki innan starfsgreina sem taldar eru upp í 14. gr. reglugerðarinnar eigi rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi umsækjandi starfað innan starfsgreinarinnar í öðru EES-ríki í minnst tvö ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum, að því tilskildu að hann leggi fram eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi til að inna starfið af hendi. Það sama gildi um nám skv. 2. mgr. 14. gr., en í 1. málsl. ákvæðisins segir að umsækjandi með nám sem er meira en einu þrepi neðar í þrepaskiptingu menntunar og hæfis skv. 11. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal II, en samsvarandi menntun á Íslandi eigi ekki rétt á starfsleyfi skv. 1. mgr.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011 segir að ef sótt er um starfsleyfi í starfsgrein sem er lögvernduð í öðru EES-ríki og námið uppfyllir kröfur b-, c-, d- eða e-liðar skv. 1. gr. fylgiskjals II er ekki krafist starfsreynslu skv. 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Í gögnum málsins liggja fyrir skjöl sem staðfesta starfsreynslu kæranda í Svíþjóð, annars vegar frá sveitarfélaginu Gautaborg, dags. 14. september 2011, og hins vegar frá heilsugæslunni í Gautaborg, dags. 1. febrúar 1988. Þau gögn staðfesta að kærandi hafi starfað sem sjúkraliði en eru ekki staðfest afrit af hæfnisvottorði. Þau gögn eða önnur sem liggja fyrir í máli þessu uppfylla því ekki ákvæði 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011.

Hvað varðar vitnisburð um formlega menntun og hæfi er á það bent í umsögn Fjölbrautaskólans við Ármúla að kærandi hafi hvorki tekið áfanga í hjúkrunarfræði eða vinnustaðanám á heilbrigðisstofnunum né væri ljóst hvaða námi kærandi hafi lokið í Svíþjóð. Var það mat skólans að kærandi uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 511/2013 til að hljóta starfsleyfi. Þrátt fyrir að kærandi hafi lagt fram viðbótargögn sem lögð voru fyrir Fjölbrautaskólann við Ármúla voru þau ekki talin breyta fyrirliggjandi umsögn.

Að mati ráðuneytisins hefur kærandi hvorki í kæru sinni né athugasemdum sínum við umsögn Embættis landlæknis sýnt fram á að hann hafi stundað það nám sem sambærilegt er sjúkraliðanámi hér á landi, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011.

Með vísan til framangreinds er því hin kærða ákvörðun Embættis landlæknis staðfest.

Í ljósi leiðbeiningarreglu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er Embætti landlæknis bent á að leiðbeina kæranda um hvaða námskeið hann þarf að taka hann geti sótt á ný um starfsleyfi sem sjúkraliði, komi fram beiðni þess efnis frá honum.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa við uppkvaðningu þessa úrskurðar en ástæðu þess má rekja til anna í ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Embættis landlæknis frá 28. nóvember 2018, um að synja kæranda um starfsleyfi sem sjúkraliði er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta