Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 31/2024

Úrskurður nr. 31/2024

Laugardaginn 21. desember 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með kæru, dags. 19. nóvember 2024, kærði BBA//Fjeldco lögmannsstofa, f.h.[…], hér eftir kærandi, málshraða embættis landlæknis í máli sem varðaði tilkynningu kæranda um rekstur heilbrigðisþjónustu til embættis landlæknis.

Af kæru kæranda má ráða að kærandi krefjist þess að ráðuneytið úrskurði um að málshraði embættis landlæknis í málinu sé óhæfilegur og að ráðuneytið beini því til embættis landlæknis að taka málið til meðferðar án tafar.

Kæra kæranda byggir á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu

Ráðuneytinu barst málshraðakæra frá kæranda ásamt fylgiskjölum þann 19. nóvember 2024. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna degi síðar. Umsögn embættisins barst ráðuneytinu 6. desember. Ráðuneytið sendi kæranda umsögn embættisins þann 12. desember og bauð kæranda að gera athugasemdir við umsögn embættis landlæknis. Athugasemdir kæranda við umsögn embættisins bárust ráðuneytinu 13. desember. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik

Mál þetta má rekja til beiðni kæranda til embættis landlæknis um að endurupptaka tilkynningu kæranda um rekstur fjarheilbrigðisþjónustu þann 25. desember 2023. Embætti landlæknis synjaði endurupptökubeiðni kæranda 25. júní 2024. Kærandi kærði þá ákvörðun til heilbrigðisráðuneytisins þann 23. júlí 2024. Vegna kærunnar kvað ráðuneytið upp úrskurð nr. 26/2024 þann 10. október sl. Með úrskurðinum var ákvörðun embættisins frá 25. júní felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka tilkynningu kæranda til meðferðar að nýju.
Í kjölfar úrskurðarins óskaði kærandi þann 14. október eftir upplýsingum um stöðu tilkynningarinnar hjá embættinu auk þess sem óskað var eftir upplýsingum um hvenær vænta mætti niðurstöðu í málinu. Degi síðar sendi embættið kæranda tilkynningu þar sem fram kom að málsmeðferð vegna rekstrartilkynningarinnar væri hafin að nýju. Ekki fylgdi tilkynningu embættisins upplýsingar um málsmeðferð málsins. Embættið sendi kæranda aftur póst 12. nóvember og tjáði kæranda að málið væri í vinnslu en engar frekari upplýsingar voru gefnar um málsmeðferðina eða væntanlegan málsmeðferðartíma af hálfu embættisins. Var málshraði embættisins kærður viku síðar, 19. nóvember.

Málsástæður kæranda

Kærandi heldur því fram að með óhæfilegum drætti á málsmeðferðinni hafi embætti landlæknis brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í fyrsta lagi byggir kærandi á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á málsmeðferð embættis landlæknis, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið varði stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi kæranda og mikilvæga fjárhagslega hagsmuni.

Í öðru lagi byggir kærandi á að embætti landlæknis hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína skv. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en þar er kveðið á um að embættinu sé skylt að tilkynna kæranda, að eigin frumkvæði, um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins, hverjar ástæður tafa séu og hvenær ákvörðunar megi vænta. Það hafi embættið ekki gert.

Í þriðja lagi byggir kærandi á að embætti landlæknis geti ekki borið fyrir sig almennt álag í ljósi úrskurðar ráðuneytisins nr. 26/2010. Fyrri ákvörðun embættisins hafi verið ólögmæt og réttmætt að gera þá kröfu að embættið bæti úr mistökum sínum eins fljótt og auðið er.

Að lokum tekur kærandi fram að upplýsingabeiðni hafi verið send til embættisins þann 1. júlí sl. en þeirri beiðni hafi enn ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekaðar áminningar.

Umsögn embættis landlæknis

Embætti landlæknis byggir á að um fordæmisgefandi mál sé að ræða og mikilvægt að embætti rannsaki málið til hlítar.

Einnig byggir embætti landlæknis á að í ljósi úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins nr. 26/2024 sé nauðsynlegt að byrja málsmeðferð vegna rekstrartilkynningarinnar frá grunni og að hún verði eins viðamikil og tímafrek og tilefni er til.

Að lokum byggir embætti landlæknis á að nauðsynlegt sé að framkvæma mat á rekstrartilkynningu kæranda sem krefjist vinnu sérfræðinga embættisins og eftir atvikum öflun utanaðkomandi umsagna.

Athugasemdir kæranda við umsögn embættis landlæknis

Kærandi tekur fram að embætti landlæknis hafi ekki andmælt málsástæðum kæranda um að málsmeðferðartími embættisins vegna málsins væri orðin of langur né að af umsögninni mætti ráða að verið væri að flýta meðferð málsins eins og mögulegt væri, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Einnig heldur kærandi fram að embættið hafi ekki enn upplýst kæranda um hvenær megi vænta ákvörðunar, sem gangi í berhögg við 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi mótmælir því sem fram kemur í umsögn embættisins að málatilbúnaður og rekstrartilkynning kæranda hafi verið óskýr og misvísandi. 

Að lokum hafnar kærandi röksemdafærslu embættisins um að tafir á málinu séu réttlætanlegar þar sem þörf sé á að byrja málsmeðferðina frá grunni og að málsmeðferðin verði eins viðamikil og tímafrek og efni gefi tilefni til. Taka verði mið af því að málið hafi þegar sætt verulegri töf vegna ólögmætrar meðferðar embættisins og að úrbót þeirra brota ætti að vera í forgangi hjá embættinu með hraðri og lögmætri meðferð á máli kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er til skoðunar hvort málsmeðferð embættis landlæknis vegna tilkynningu kæranda um rekstur heilbrigðisþjónustu, sem ráðuneytið sendi til nýrrar meðferðar með úrskurði nr. 26/2024, hafi verið í samræmi við kröfur 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að þar sem leitað er umsagnar skal það gert við fyrsta hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Stjórnvald skal tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins. Í þeim tilvikum skal upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 2. málsl. 3. mgr. Þá er hægt að kæra óhóflegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr.

Með úrskurði ráðuneytisins nr. 26/2024, dags. 10. október 2024, felldi ráðuneytið úr gildi ákvörðun embættisins, dags. 25. júní, og lagði fyrir embættið að taka málið til meðferðar að nýju.

Af gögnum máls þessa má ráða að einhver samskipti hafi átt sér stað milli kæranda og embættisins þar sem kærandi óskaði m.a. eftir upplýsingum um hvenær mætti vænta niðurstöðu í málinu þann 14. október. Embættið sendi kæranda tilkynningu 16. október þar sem tilkynnt var að málsmeðferð væri hafin að nýja og að tekið yrði tillit til allra gagna sem fram komu við meðferð málsins upphaflega og í kærumeðferð fyrir ráðuneytinu. Einnig óskaði embættið eftir upplýsingum um hvort kærandi hygðist skila inn nýrri tilkynningu vegna nýju málsmeðferðarinnar. Engar upplýsingar bárust frá embættinu um væntanlega málsmeðferð eða mögulegan málsmeðferðartíma.

Kærandi svaraði tilkynningu embættisins degi síðar þar sem kærandi tilkynnti að hann hygðist ekki skila inn endurnýjaðri tilkynningu vegna málsins. Ítrekaði kærandi jafnframt upplýsingabeiðni sínu um hvenær vænta mætti niðurstöðu í málinu. Tæpum mánuði síðar baðst embættið velvirðingar á þeim töfum sem orðið hefðu á málsmeðferðinni og að kæranda yrði haldið upplýstum eftir því sem málinu yndi fram. Aftur bárust engar upplýsingar um hvenær kærandi mætti vænta niðurstöðu í málinu eða hvernig málsmeðferð málsins yrði háttað.

Í umsögn embættis landlæknis til ráðuneytisins vegna málshraðakæru kæranda kemur fram að embættinu sé skylt að rannsaka málið til hlítar og leggja með því grunn að traustri niðurstöðu. Í hinni nýju málsmeðferð verði ekki hjá því komist að hefja málsmeðferðina að nýju frá grunni og að hún verði eins viðamikil og tímafrek og rekstrartilkynning kæranda gefur tilefni til. Einnig segir í umsögn embættisins að mat sem framkvæma þurfi vegna tilkynningar kæranda krefjist vinnu sérfræðinga embættisins og eftir atvikum öflun utanaðkomandi umsagna.

Málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga er afstæð að efni til. Verður þannig að meta málsmeðferðina heildstætt í hverju tilviki, þ.e. hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími. Þegar það er gert er litið til umfangs máls og atvika hverju sinni. Með úrskurði ráðuneytisins nr. 26/2024, frá 10. október, var embætti landlæknis gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Samkvæmt tilkynningu embættisins til kæranda var málsmeðferð þegar hafin 16. október en kærandi hefur engar upplýsingar fengið um hvenær vænta megi niðurstöðu í málinu, svo sem kærandi óskaði fyrst eftir 14. október.

Í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að stjórnvaldi ber að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í málinu liggur fyrir að kærandi óskaði eftir upplýsingum um framangreint þann 10. október. Í tilkynningu embættisins til kæranda þann 16. október var kærandi ekki upplýstur um mögulegan málsmeðferðartíma. Það hefur embættið ekki gert í síðari samskiptum sínum við kæranda. Þvert á móti tók embættið fram í umsögn sinni til ráðuneytisins að hefja yrði málsmeðferðina frá grunni og að hún yrði eins viðamikil og tímafrek og tilefni væri til, án þess að marka þeim tíma frekari skil. Kærandi hefur því ekki enn fengið upplýsingar um hvenær vænta megi ákvörðunar í málinu. Er það niðurstaða ráðuneytisins að framangreind málsmeðferð embættis landlæknis hafi ekki verið í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Málsmeðferð embættis landlæknis í máli kæranda sem varðar tilkynningu um rekstur heilbrigðisþjónustu er ekki í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Lagt er fyrir embættið að flýta meðferð málsins eins og kostur er og að upplýsa kæranda um hvenær niðurstöðu sé að vænta. 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta