Úrskurður nr. 10/2024
Úrskurður nr. 10/2024
Mánudaginn 8. apríl 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með kæru, móttekinni 3. janúar 2024, kærði […] (hér eftir kærandi) ákvörðun embættis landlæknis sama dags um að staðfesta ekki tilkynningu hans um fyrirhugaðan rekstur heilbrigðisþjónustu.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun embættis landlæknis verði felld úr gildi og að embætti landlæknis staðfesti tilkynningu hans um rekstur.
Málið er kært á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra innan kærufrests.
Meðferð málsins hjá ráðuneytinu
Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda þann 3. janúar 2024 á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, vegna synjunar embættis landlæknis á tilkynningu kæranda um rekstur heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna þann 8. janúar 2024. Umsögn embættisins um kæruna barst ráðuneytinu 8. febrúar og var kæranda veittur frestur til 23. febrúar til að koma athugasemdum um umsögn embættisins á framfæri við ráðuneytið. Bárust athugasemdir kæranda 14. febrúar. Sama dag var embætti landlæknis sent afrit af athugasemdum kæranda. Gagnaöflun lauk þann dag og var málið tekið til úrskurðar.
Málsatvik
Með tilkynningu til embættis landlæknis, dags. 14. febrúar 2023, tilkynnti kærandi um fyrirhugaðan rekstur heilbrigðisþjónustu. Embætti landlæknis vísaði tilkynningunni frá þann 4. apríl 2023 á þeim grundvelli að fyrirhuguð starfsemi væri ekki rekstur heilbrigðisþjónustu og þar af leiðandi ekki nauðsynlegt að tilkynna reksturinn til embættisins. Kærði kærandi frávísun embættisins til heilbrigðisráðuneytisins þann 5. apríl 2023. Með úrskurði ráðuneytisins nr. 19/2023 var ákvörðun embættis landlæknis, um frávísun á tilkynningu kæranda, felld úr gildi. Byggði úrskurður ráðuneytisins á því að lýsingar kæranda á fyrirhuguðum rekstri hans undir rekstri úrskurðarmálsins hefðu ekki legið fyrir með skýrum hætti við meðferð málsins hjá embætti landlæknis. Þar sem þær upplýsingar gætu haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins var það mat ráðuneytisins að nauðsynlegt væri að leggja fyrir embætti landlæknis að taka málið til meðferðar á ný með hliðsjón af því sem fram hafði komið undir rekstri kærumálsins og taka í framhaldinu aftur afstöðu til þess hvort staðfesta bæri rekstrartilkynningu kæranda.
Í kjölfar úrskurðarins óskaði embætti landlæknis eftir uppfærðri lýsingu frá kæranda á þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann hygðist veita. Í samskiptum kæranda við embættið kom fram að starfsemin fælist í því að veita sjúklingum sem lent hafa í slysi eða orðið fyrir líkamstjóni í kjölfar áverka þjónustu en í því fælist bæði skrásetning vegna líkamstjóns auk greiningar, skoðunar og meðferðar vegna afleiðinga slysa ásamt útgáfu vottorðs.
Sjúklingur myndi senda beiðni til læknis á vegum rekstrarins sem myndi í kjölfarið kalla sjúkling til skoðunar og viðtals á læknastofu. Þar færi fram ítarlegt viðtal þar sem farið er yfir stöðu og ástand sjúklings á þeim tímapunkti. Taka ætti sögu með áherslu á þær sjúkdómsgreiningar, rannsóknir og meðferðir er sjúklingur hefði gengist undir fram að þeim tíma með tilliti til þeirra áverka er hlutust í slysi. Þá yrði framkvæmd líkamsskoðun með áherslu á stoðkerfi auk skoðunar á þeim einkennum og teiknum sem kynnu að varða afleiðingar slys. Yrðu upplýsingarnar síðan skráðar í sjúkraskrá.
Að skoðun lokinni yrði farið yfir fyrra heilsufar sjúklings, einkum m.t.t. þeirra áverka og meiðsla er hlutust í slysi. Þá yrði farið yfir fyrri samskipti sjúklings við aðrar heilbrigðisstofnanir og þær upplýsingar sem fram koma í rafrænni sjúkraskrá hans. Myndi læknir á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga meta að hvaða leyti upplýsingar sem fram koma í sjúkraskrá sjúklinga kunni að hafa áhrif á mat afleiðinga slyss. Með því móti myndi læknir sannreyna sjálfur, með besta mögulega hætti upplýsingar um fyrra heilsufar sjúklings. Á grundvelli alls þess myndi læknir síðan gefa út læknisvottorð þar sem gerð væri grein fyrir umræddum atriðum ásamt því að upplýsa um þau atriði sem óskað væri eftir ef svo bæri undir. Læknir myndi í hvívetna geta heimilda og greina skýrt á milli eigin athugana og annarra.
Með ákvörðun embættis landlæknis þann 3. janúar 2024 synjaði embætti landlæknis tilkynningu kæranda um fyrirhugaðan rekstur heilbrigðisþjónustu. Í ákvörðun embættisins kom fram að ekki væri með fullu ljóst hvort um heilbrigðisþjónustu væri að ræða. Hugtakið heilbrigðisþjónusta væri þó túlkað með rúmum hætti og mögulega félli þjónustan sem kærandi hygðist veita þar undir. Allt að einu taldi embættið að um víðtæka þjónustu væri að ræða sem gera yrði kröfu um að læknir með viðeigandi sérfræðiþekkingu bæri ábyrgð á. Þar sem kærandi hefði ekki sérfræðimenntun gæti hann ekki tekið sjálfstæða ábyrgð á rekstrinum. Af þeim sökum var tilkynningu kæranda um rekstur heilbrigðisþjónustu synjað sem er hin kærða ákvörðun.
Málsástæður kæranda
Kærandi hafnar sjónarmiðum landlæknis í ákvörðun embættisins frá 3. janúar 2024. Kærandi heldur því fram að skoðanir á stoðkerfi og stöðu sjúklings eftir slys eða tjón séu daglegt brauð allra starfandi lækna á heilsugæslum landsins, hvort sem þeir eru sérfræðimenntaðir eða ekki. Það sé ekki rétt að einungis sérfræðingar í heimilislækningum sinni þeim störfum og gefi út vottorð.
Kærandi kveður jafnframt að það sem fram kemur í ákvörðun embættisins að stofnun geti verið ábyrg fyrir vottorði eða annar læknir en sá sem vottorð ritar standist ekki skoðun. Sá einn geti staðfest og útskýrt vottorð sem það ritar. Það fari ekki heim og saman við það sem fram kemur í ákvörðun embættisins um að stofnun eða annar læknir geti verið ábyrgur fyrir vottorði læknis. Læknir beri ávallt ábyrgð á vottorði sem hann hefur ritað.
Kærandi furðar sig einnig á að embætti landlæknis telji nauðsynlegt að ábyrgur starfsmaður reksturs hafi sérþekkingu í heimilislækningum í ljósi þess að allir almennir læknar sinni slíkum störfum á heilsugæslum landsins. Þá séu almennir læknar með rekstrarleyfi í ífarandi og áhættumeiri starfsemi en kærandi hyggst veita.
Um hæfni sína telur kærandi að hann skorti ekki hæfi til að bera ábyrgð á rekstrinum. Hann hafi tekið hluta af sérnámi í heimilislækningum á heilbrigðisstofnunum á Íslandi. Þar að auki hafi hann unnið sem læknir og skoðað sjúklinga og gefið út fjölda vottorða í störfum sínum á heilsugæslum landsins. Þá hafi heilsugæslan á […] gert við hann samning sem m.a. hafi falið í sér útgáfu vottorða.
Að lokum heldur kærandi því fram að embætti landlæknis hafi gert lítið úr þeirri staðreynd að kærandi hafi tekið próf og hlotið CIME réttindi. Í Bandaríkjunum sé forsenda fyrir því að framkvæma læknisfræðilegt örorkumat að læknir hafi öðlast CIME réttindi.
Umsögn embættis landlæknis
Embætti landlæknis tekur fram að því sé bæði heimilt og nauðsynlegt vegna sjónarmiða er varða öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu að gera kröfur um menntun og þekkingu þeirra sem hyggjast veita og bera ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu. Á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem kærandi hafi látið í té hafi embættið framkvæmt mat á inntaki þjónustunnar og komist að þeirri niðurstöðu að það væri einungis á færi lækna sem lokið hefðu sérnámi í heimilislækningum að bera ábyrgð á slíkri þjónustu, enda væri hún bæði fjölbreytt og víðtæk samkvæmt útskýringum kæranda.
Þá byggir embætti landlæknis á því að þótt hvergi sé tilgreint með beinum hætti í lögum eða reglugerðum að heilbrigðisstarfsmaður þurfi að hafa sérfræðileyfi sé ekki óheimilt að gera slíka kröfu að undangengnu mati á þeirri þjónustu sem til stendur að veita. Vísar embættið til ákvæða reglugerðar nr. 786/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur, í því sambandi, sbr. 11. gr. hennar. Embættinu sé bæði heimilt og nauðsynlegt vegna sjónarmiða um öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu að gera ríkar kröfur til menntunar og þekkingar þeirra sem hyggjast bera ábyrgð á rekstri heilbrigðisþjónustu.
Embætti landlæknis fellst ekki á þau sjónarmið sem kærandi heldur fram um að allir læknar á heilsugæslum landsins, hvort sem þeir eru heimilislæknar eða ekki, taki að sér skoðun og ritun vottorða og að það krefjist ekki sérhæfðrar þekkingar að skoða sjúklinga í kjölfar slyss og rita vottorð vegna þeirra. Embætti landlæknis tekur fram að heimilislæknar sem starfi á heilsugæslum hafi lokið fimm ára sérnámi sem m.a. felur í sér þjálfun við gerð vottorða og hafi víðtæka þekkingu og færni á sviði stoðkerfisfræða. Þeim beri, eins og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, að votta um samskipti sín við sjúkling og þá meðferð sem þeir hafi veitt en beri ekki ábyrgð á að votta um meðferðir annarra sérfræðinga þótt þeirra sé getið í vottorðum.
Þá bendir embættið einnig á að þeir almennu læknar sem starfi innan heilsugæslunnar starfi undir bæði framkvæmdastjóra lækninga og yfirlækni sem eru faglega ábyrgir fyrir þeirri þjónustu sem veitt er á heilsugæslu, sbr. 9. og 10. gr. laga, nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Þó að almennur læknir beri ávallt ábyrgð á vottorði sem hann ritar þá sé honum falið það verkefni af faglega ábyrgum lækni stofnunar. Ætli læknir að starfa sjálfstætt ber hann hins vegar einn sjálfstæða ábyrgð á öllum þáttum reksturs og þarf þá að búa yfir viðeigandi hæfni og þekkingu til að bera umrædda ábyrgð. Til þess að bera slíka ábyrgð verði, í tilfelli þeirrar heilbrigðisþjónustu sem kærandi hyggst veita, að gera kröfu um viðeigandi viðbótarmenntun læknis.
Við vinnslu málsins hafði embættið einnig samband við forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (hér eftir HH). Óskaði embættið eftir upplýsingum um fyrirkomulag við ritun vottorða og hvaða læknar sinntu slíkum verkefnum. Í svari forstjóra HH kom fram að yfirleitt væri það heimilislæknir viðkomandi sjúklings eða annar heimilislæknir sem rituðu vottorð fyrir sjúkling. Væru þeir ekki til staðar væri almennum lækni í sumum tilfellum falið að rita vottorð fyrir sjúkling. Það ætti þó helst við í tilfelli einfaldra vottorða. Ef almennum lækni væri falið að rita flóknari vottorð væri það gert undir eftirliti og handleiðslu sérfræðings. Ákjósanlegt væri að heimilislæknir sinnti þeim verkefnum.
Af framangreindu röktu taldi embætti landlæknis að ekki væri unnt að staðfesta að faglegar lágmarkskröfur fyrir tilkynntum rekstri væru uppfylltar. Ljóst væri að kærandi byggi ekki yfir þeirri staðfestu þekkingu sem nauðsynleg væri til að bera ábyrgð á tilkynntum rekstri.
Athugasemdir kæranda
Kærandi bendir á að það er sjúklings að sanna tjón sitt. Til þess þurfi sjúklingur að afla upplýsinga sem lagðar eru fram til grundvallar mats á tjóni. Sjúklingar geti þurft að afla upplýsinga frá meðferðaraðilum. Þjónusta kæranda komi ekki í veg fyrir slíka upplýsingaöflun. Því sé kærandi ekki að fara inn á svið sérfræðinga og annarra sem sjúklingur getur einnig þurft að afla gagna frá. Auk þess tekur kærandi fram að það sé sjúklings eða umboðsmanns hans að leggja fram vottorðsbeiðni. Slík beiðni komi ekki frá öðrum.
Um samskipti embættisins við forstjóra HH tekur kærandi fram að honum þyki óeðlilegt að ágreiningsefni sem hljóti að teljast til trúnaðarupplýsinga sé reifað með jafn ítarlegum hætti fyrir utanaðkomandi aðila og raun ber vitni í málinu. Þá hafi embættið látið í ljós afstöðu sína til efnisins í niðurlagi samskipta við áðurgreindan forstjóra. Óskar kærandi eftir áliti ráðuneytisins á því hvort slík vinnubrögð væru í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.
Kærandi bendir á að í svari forstjóra HH kemur fram að læknir staðfesti fyrir dómi vottorð sitt en enginn annar. Það sé því ekki rétt sem fram komi í málatilbúnaði embættisins um að læknir gefi út vottorð í nafni annars læknis eða starfsstöðvar heilbrigðisstarfsmanna. Þar að auki bendir kærandi á að verklag milli heilsugæslna sé misjafnt. Hann hafi sýnt fram á það undir rekstri málsins að hann hafi í störfum sínum fyrir heilsugæslur ritað og gefið út vottorð þrátt fyrir að vera ekki með sérfræðimenntun.
Þá ber kærandi því við að embætti landlæknis hafi í öllu virt að vettugi reynslu og fyrri störf hans auk réttinda hans sem CIME (Certified Independent Medical Examiner).
Embætti landlæknis þurfi allt að einu að passa að jafnræði sé viðhaft. Embættið hafi ekki sett fram rök fyrir því að öðrum rekstraraðilum sé heimilt að veita heilbrigðisþjónustu án þess að ábyrgðaraðili reksturs sé sérfræðilæknir.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að kæru á ákvörðun embættis landlæknis um að staðfesta ekki tilkynningu kæranda um rekstur heilbrigðisþjónustu sem lýtur að veitingu þjónustu við sjúklinga sem lent hafa í slysi eða orðið fyrir líkamstjóni.
Lagagrundvöllur
Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Hefur atvinnufrelsi í heilbrigðiskerfinu verið settar ýmsar skorður í lögum og reglugerðum með vísan til öryggis og hagsmuna sjúklinga og til að halda uppi gæðum í heilbrigðisþjónustu.
Í 1. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er kveðið á um að þeir, sem hyggist hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. ríkið og sveitarfélög, skuli tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis. Með tilkynningunni skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar um starfsemina, svo sem um tegund heilbrigðisþjónustu, starfsmenn, búnað, tæki og húsnæði. Landlæknir getur óskað eftir frekari upplýsingum og gert úttekt á væntanlegri starfsemi telji hann þörf á því. Með sama hætti skal tilkynna landlækni ef meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila. Sé rekstri heilbrigðisþjónustu hætt skal tilkynna landlækni um það.
Landlæknir staðfestir hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Óheimilt er að hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu nema staðfesting landlæknis liggi fyrir. Landlækni er heimilt að gera frekari kröfur, sé það talið nauðsynlegt, vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða.
Í III. kafla reglugerðar nr. 786/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur, eru ákvæði um nýjan rekstur í heilbrigðisþjónustu. Segir í 1. mgr. 7. gr. að landlæknir staðfesti hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu sem tilkynnt hefur verið um uppfylli faglegar lágmarkskröfur, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar og eftir atvikum kröfur samkvæmt reglugerðum um faglegar lágmarkskröfur á einstökum sviðum og önnur ákvæði heilbrigðislöggjafar. Þá segir í 2. málslið 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar að landlækni sé heimilt að gera frekari kröfur sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um ræðir, sbr. 13. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 786/2007 skal þess jafnframt gætt við veitingu heilbrigðisþjónustu af tiltekinni tegund að einungis heilbrigðisstarfsmenn sem hafa til þess starfsleyfi veiti þjónustuna.
Niðurstaða ráðuneytisins
Í tilkynningu kæranda um rekstur segir að í starfseminni felist veiting þjónustu til sjúklinga sem lent hafa í slysi eða hlotið líkamstjón. Þjónustan miði að því að skrásetja þá áverka sem sjúklingur hefur hlotið og meta líkamstjón sjúklinga. Einnig sé farið yfir fyrra heilsufar sjúklings með hliðsjón af þeim áverkum eða meiðslum sem hlotist hafa í slysi. Læknir riti síðan vottorð um það sem hann kemst að í skoðun og viðtali. Kærandi vísar til þess að hann hafi í störfum sínum fyrir heilsugæslur ritað fjölda vottorða þrátt fyrir að vera ekki með sérfræðimenntun. Þá hafi hann einnig CIME réttindi, sem séu alla jafna forsenda þess að læknar teljist hæfir til að framkvæma læknisfræðileg örorkumöt erlendis. Kærandi hafi jafnframt tekið hluta af sérnámi í heimilislækningum á Íslandi.
Niðurstaða embættis landlæknis byggist á því að sú þjónusta sem kærandi hyggst veita væri bæði fjölbreytt og víðtæk og að gera verði þá kröfu að læknir með viðeigandi sérfræðimenntun, allt eftir tjóni sjúklings, beri ábyrgð á. Læknar sem hafi sérþekkingu til að framkvæma skoðanir sem kærandi hyggst veita væru annars vegar heimilislæknar og hins vegar læknar með sérfræðileyfi á mismunandi sérsviðum eftir vandamáli sjúklings. Í ákvörðun embættisins kemur fram að heimilislæknar sem starfi á heilsugæslum hafi lokið fimm ára sérnámi sem m.a. feli í sér þjálfun í gerð vottorða til tryggingarfélaga og annarra aðila. Heimilislæknar hafi víðtæka þekkingu og færni á sviði stoðkerfisfræða og séu oft lykilaðilar í greiningu og meðferð stoðkerfissjúkdóma. Þá kom einnig fram í niðurstöðu embættisins að heilbrigðisstarfsmenn beri ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir veita og gerð vottorða og álitsgerða sem þeir rita. Þar sem engar upplýsingar lægju fyrir í málinu um þjálfun kæranda og færni, sem sýndu fram á fullnægjandi breidd þekkingargrunns líkt og formlegt sérnám myndi gera, taldi embættið vanta upp á formlegar forsendur þess að kærandi gæti tekið sjálfstæða ábyrgð á rekstri þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hann lýsti í tilkynningu um rekstur. Af þeim sökum taldi embætti landlæknis að tilkynntur rekstur uppfyllti ekki þær faglegu lágmarkskröfur sem gera yrði til mönnunar starfsemi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og 11. gr. reglugerðar nr. 786/2007.
Líkt og fram hefur komið staðfestir embætti landlæknis hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur reglugerðar nr. 786/2007, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er landlækni jafnframt heimilt að gera frekari kröfur til reksturs sé það talið nauðsynlegt vegna þeirrar starfsemi sem um er að ræða, sbr. einnig 13. gr. reglugerðar nr. 786/2007. Þá kemur fram í 11. gr. reglugerðarinnar að þess skuli gætt að við veitingu heilbrigðisþjónustu af tiltekinni tegund skuli einungis heilbrigðisstarfsmenn sem hafa til þess starfsleyfi veiti þjónustuna. Slíkar kröfur verða þó ætíð að eiga sér stoð í heilbrigðislöggjöf í samræmi við 75. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem vegna öryggis og hagsmuna sjúklinga eða til þess að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu. Í ákvörðun embættis landlæknis kom fram að um sé að ræða þjónustu sem embættið telji að falli undir sérsvið heimilislækna og annarra sérgreina sem hafi sérþekkingu á vandamálum sjúklinga sem rekstrinum er ætlað að þjónusta.
Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 856/2023 skal sérnám ávallt fara fram á viðurkenndri kennslustofnun og samkvæmt marklýsingu fyrir viðkomandi sérgrein, sbr. 18. og 19. gr. reglugerðarinnar sem og IV. kafla hennar. Ráðherra skipar mats- og hæfisnefnd sem hefur m.a. það hlutverk að samþykkja marklýsingar fyrir sérnámsgrunn. Samkvæmt marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum er það hluti af sérnámi heimilislækna að skrifa vottorð þegar við á með leyfi sjúklings, svo sem til tryggingafélaga. Miðast hæfni heimilislæknis m.a. að því að hann þekki lagaramma vottorða og ákvæði siðareglna lækna um vottun og vottorð. Af þeim sökum má draga þá ályktun að slík læknisstörf séu almennt á forræði heimilislækna að sinna. Engu að síður getur vel verið að almennir læknar sinni ritun og útgáfu vottorða í einhverjum tilvikum. Sækir það m.a. stoð í málatilbúnaði kæranda og svörum forstjóra HH við fyrirspurn embættis landlæknis um útgáfu vottorða á HH. Það er þó ekki fyrsti kostur og yfirleitt vegna þess að ekki er til staðar læknir sem lokið hefur sérnámi í heimilislækningum sem geti framkvæmt verkið á þeim tíma. Er það þá undir faglega ábyrgum lækni, svo sem yfirlækni eða framkvæmdastjóra lækninga, að treysta almennum lækni fyrir verkinu. Það að almennum lækni geti verið treyst til að skoða og framkvæma ritun vottorðs í einhverjum tilvikum er ekki hægt að jafna við það að almennur læknir geti með sjálfstæðum hætti borið ábyrgð á rekstri sem gengur út á slíkt. Sækir það jafnframt stoð í 1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, sem fjallar um fagstjórnendur á heilbriðisstofnunum. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu skal vera starfandi framkvæmdastjóri lækninga sem ber faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra. Þá kemur fram í 2. mgr. 10. gr. laganna að yfirlæknar sérgreina eða sérdeilda innan heilbrigðisstofnunar bera faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra lækninga eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar. Fer það heim og saman við málatilbúnað kæranda og upplýsinga frá forstjóra HH þar sem kærandi hefur starfað undir faglega ábyrgum lækni líkt og almennir læknar sem taka að sér ritun vottorða á HH.
Sá læknir sem ritar vottorð er ávallt ábyrgur fyrir því sem þar kemur fram. Engu að síður ber faglega ábyrgur læknir ábyrgð á því að þeir starfsmenn sem koma að útgáfu slíkra vottorða séu til þess færir hverju sinni. Það eitt að læknir sem riti vottorð sé ábyrgur fyrir því sem fram kemur í vottorði nægir ekki eitt og sér til þess að heimila hverjum lækni að ábyrgjast rekstur sem gengur út á ritun og útgáfu slíkra vottorða enda verður læknir að vera fær um og hafa næga þekkingu og reynslu til að skoða viðkomandi sjúkling með fullnægjandi hætti, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sem kveður á um að heilbrigðisstarfsmanni beri að virða faglegar takmarkanir sínar. Þá þarf ábyrgur læknir auk þess að hafa þekkingu, menntun og reynslu til að geta tekið upplýsta ákvörðun um að heimila öðrum starfsmanni reksturs að framkvæma og rita vottorð vegna sjúklings, enda er það skylda heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt áðurgreindu ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn að veita sjúklingum einungis þá þjónustu sem þeir hafa faglega þekkingu til.
Með hliðsjón af framangreindu, fellst ráðuneytið á niðurstöðu embættis landlæknis um að slíkur rekstur heilbrigðisþjónustu sem kærandi hyggst veita geti einungis verið á ábyrgð læknis sem lokið hefur viðeigandi sérnámi enda sé það hluti af sérnámi og þ.a.l. sérsviði þeirra að bera ábyrgð á skoðun sjúklings og ritun vottorðs í kjölfar skoðunar. Þá séu veigamiklir hagsmunir sjúklinga undir sem krefjist þess að sjúklingur fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu læknis með fullnægjandi menntun, þekkingu og reynslu. Þar sem kærandi hafi ekki sérfræðimenntun við hæfi getur hann ekki með sjálfstæðum hætti borið ábyrgð á þeim rekstri sem hann lýsti fyrir embætti landlæknis. Verður ákvörðun embættis landlæknis því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun embættis landlæknis í máli kæranda, dags. 3. janúar 2024, er staðfest.