Úrskurður nr. 31/2022
Úrskurður 31/2022
Fimmtudaginn 8. desember 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi, dags. 5. maí 2022, framsendi félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kæru [...], dags. 7. apríl 2022, til ráðuneytisins á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. janúar 2022, um niðurfellingu á lífeyri og þátttöku í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.
Kærandi krefst þess að greiðslukröfur fyrir janúar og febrúar 2022 verði felldar niður eða að útreikningur greiðsluþátttöku dvalargjalds verði endurreiknaður og taki mið af útgjöldum vegna leigusamnings.
Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og barst kæra innan kærufrests.
I. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins.
Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til upplýsinga frá Sjúkratryggingum Íslands um að búseta kæranda á hjúkrunarheimili hafi hafist þann 31. desember 2021. Með ákvörðuninni var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 44.088 kr. Þá var þátttaka í dvalarkostnaði ákveðin 342.453 kr. á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Kærandi lagði í framhaldinu fram umsókn um framlengingu lífeyrisgreiðslna sem var samþykkt þann 10. mars 2022. Tók framlengingin til janúar, febrúar og mars það ár. Umsókn kæranda um framlengingu í þrjá mánuði til viðbótar en hún var ekki tekin til meðferðar hjá TR vegna skorts á upplýsingum um mánaðarlega greiðslubyrði kæranda vegna greiðslukostnaðar, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda þann 3. júní 2022.
Kæra í málinu var send TR til umsagnar sem barst þann 30. júní 2022. Kærandi gerði athugasemdir við umsögnina þann 11. ágúst 2022. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu þann 7. nóvember sl. en eftir uppkvaðningu komu í ljós upplýsingar sem ráðuneytið taldi leiða til ógildingar úrskurðuarins að hluta. Samhliða uppkvaðningu þessa úrskurðar verður fyrri úrskurður í málinu afturkallaður.
II. Málsástæður og lagarök kæranda.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið plássi á hjúkrunarheimili úthlutað á gamlársdag 2021. Hafi hann þurft að vera fluttur á hjúkrunarheimilið eigi síðar en 7. janúar 2022, ella yrði plássinu úthlutað öðrum. Þegar kæranda hafi verið úthlutað plássinu hafi hann verið bundinn leigusamningi með fjögurra mánaða uppsagnarfresti. Greinir kærandi frá því að hafa flutt út úr húsnæði sínu þann 7. janúar 2022 en ekki losnað undan leigusamningi fyrr en 1. mars það ár. Komi kæranda það verulega á óvart að TR hafi ekki tekið tillit til þess að hann hafi búið í leiguhúsnæði með þinglýstan leigusamning og ekki fengið lengri fyrirvara en eina viku til að þiggja umrætt pláss. Kærandi hafi ekki getað búið einn af heilsufarsástæðum og þá sé fjárhagsstaða hans slæm. Sé kostnaður vegna húsaleigu og dvalargjalda í janúar og febrúar langt umfram ráðstöfunartekjur hans. Bendir kærandi einnig á að ákvörðun TR hafi ekki legið fyrir fyrr en 21 degi eftir úthlutun.
III. Málsástæður og lagarök Tryggingastofnunar ríkisins.
Í umsögn TR er lagagrundvöllur málsins rakinn, m.a. með vísun í viðeigandi ákvæði laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Þar sem kærandi hafi hafið varanlega búsetu á hjúkrunarheimili þann 31. desember 2021 falli allar bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Því hafi lífeyrisgreiðslur kæranda verið stöðvaðar frá 1. janúar 2022. Þegar lífeyrisgreiðslur falli niður vegna varanlegrar dvalar á hjúkrunarheimili skuli viðkomandi taka þátt í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimilinu, sbr. 22. gr. laga um málefni aldraðra og 9. gr. reglugerðar um stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Sé þátttakan tekjutengd og reiknuð út á grundvelli tekjuáætlunar. Byggir stofnunin á því að hún hafi stöðvað greiðslur kæranda í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Lögum samkvæmt beri kæranda að taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar, en engin heimild sé í lögum til að taka tillit til skuldastöðu við þá ákvörðun. Vísar TR loks til þess að kærandi hafi fengið samþykkta framlengingu lífeyris í þrjá mánuði með ákvörðun þann 10. mars 2022.
IV. Athugasemdir kæranda.
Kærandi kveður ágreining málsins fyrst og fremst snúast um útreikning á greiðsluþátttöku á því tímabili sem hann var bundinn þinglýstum leigusamningi úr fyrra húsnæði. Hann hafi ekki getað staðið undir greiðslu dvalargjalda á hjúkrunarheimilinu samhliða leigugreiðslum fyrstu tvo mánuði ársins 2022, samtals 617.000 kr. Kærandi sé eignalaus og því sé fjárhagslega útilokað fyrir hann að greiða upp vanskil þessara tveggja mánaða. Óskar kærandi eftir því að tekið verði tillit til aðstæðna hans.
V. Niðurstaða.
Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. ágúst 2022, um þátttöku kæranda í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.
Kæruheimild
Meginregla íslensks stjórnsýsluréttar er sú að heimilt er að kæra stjórnvaldsákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt enda leiði ekki annað af lögum eða venju, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin almenna kæruheimild byggist á stigskiptingu stjórnsýslukerfisins þar sem æðri stjórnvöld hafa yfirstjórn og eftirlit með lægra settum stjórnvöldum.
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er heimilt að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins til úrskurðarnefndar velferðarmála ríki ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum. Hið sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Aftur á móti er ekki mælt fyrir um heimild í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, til að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Almennt má ganga út frá því að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, sem ekki eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt sérlögum, séu kæranlegar til félagsmálaráðherra sem stofnunin heyrir stjórnarfarslega undir. Hins vegar getur undirstofnun með lögum verið fengið verkefni sem fellur undir málefnasviðs annars ráðuneytis en stofnunin heyrir stjórnarfarslega undir.
Samkvæmt n-lið 3. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer heilbrigðisráðherra með málefni hjúkrunarheimila. Af því leiðir að heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn þess málaflokks og telst æðra stjórnvald gagnvart þeim stjórnvöldum sem taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laga um málefni aldraðra sem lúta að hjúkrunarheimilum. Ber heilbrigðisráðuneytinu því að taka mál þetta til efnislegrar umfjöllunar með vísun til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, að því er varðar þátttöku kæranda í dvalarkostnaði, sbr. einnig úrskurð ráðuneytisins nr. 19/2021. Með hinni kærðu ákvörðun var lífeyrir kæranda jafnframt felldur niður frá og með 1. janúar 2022, sbr. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Í ljósi framangreinds ákvæðis 13. gr. laga um almannatryggingar brestur ráðuneytinu heimild að lögum til að taka til endurskoðunar þann hluta ákvörðunarinnar sem lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar um niðurfellingu á lífeyri.
Lagagrundvöllur
Í 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, segir að ef ljóst er að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur samkvæmt lögunum niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Þá er kveðið á um í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, að lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til heimilismanna sem eru á dvalarheimilinu sem ekki eru á föstum fjárlögum falli niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Hafi heimilismaður engar tekjur, sbr. 26. gr., skuli sjúkratryggingastofnunin greiða dvalarheimilinu dvalarframlag til greiðslu dvalarkostnaðar hans á stofnuninni.
Í 22. gr. laga um málefni aldraðra eru ákvæði um þátttöku heimilismanns í greiðslu dvalarkostnaðar og framkvæmd tekjuútreiknings. Segir í 1. mgr. að heimilismaður, sem hefur tekjur, sbr. 26. gr. laganna, umfram 74.696 kr. á mánuði skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Þó skuli greiðsluþátttaka hans aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemi daggjöldum á stofnun eins og samið hafi verið um skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, sbr. þó 24. gr. laga um málefni aldraðra. Í 2. mgr. 22. gr. er fjallað um greiðslu á dvalarkostnaði á dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sem ekki er á föstum fjárlögum og hjúkrunarrými sem er á föstum fjárlögum þegar heimilismaður greiðir dvalarkostnað með tekjum sínum að hluta eða öllu leyti. Gilda um þá aðstöðu ákvæði 1. og 2. tölul. ákvæðisins. Kveðið er á um í 1. tölul. að hafi heimilismaður tekjur, sbr. 26. gr., sem eru hærri en 74.696 kr. á mánuði og skal hann þá með þeim tekjum sem umfram eru taka þátt í dvalarkostnaði, sbr. 1. mgr., frá þeim tíma sem greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um málefni aldraðra skal daggjaldastofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skal innheimta hjá heimilismanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 22. gr. Í 8. gr. reglugerðar um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, nr. 1112/2006, sem sett er með stoð 29. gr. laga um málefni aldraðra, segir að lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanns sem dvelur á hjúkrunarheimili, sem ekki er á föstum fjárlögum, falli niður ef vistmaður dvelst lengur en í mánuð samfellt á heimilinu ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum þessum ef sérstaklega stendur á og gildir reglugerð nr. 357/2005, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða, um heimild þessa. Samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar skal vistmaður á hjúkrunarheimili fyrir aldraða, sbr. 8. gr., taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á hjúkrunarheimilinu. Um þátttöku vistmanns í greiðslu dvalarkostnaðar fer skv. 5. gr., sbr. 3. gr. Hafi vistmaður engar tekjur skulu daggjöld skv. 2. gr. standa straum af dvalarkostnaði hans.
Í 15. gr. reglugerðar nr. 466/2012, um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma, segir að þegar ákvörðun um dvöl einstaklings í dvalar- eða hjúkrunarrými liggur fyrir, sbr. 14. gr., skuli tilkynna hlutaðeigandi einstaklingi ákvörðunina og jafnframt skuli hún tilkynnt færni- og heilsumatsnefnd í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Færni- og heilsumatsnefnd skuli senda öll gögn sem varða viðkomandi einstakling til stofnunarinnar þar sem hann dvelur og skuli þau geymd í sjúkraskrá hans. Einnig skuli færni- og heilsumatsnefnd senda tilkynningu um dvöl viðkomandi einstaklings til Tryggingastofnunar ríkisins.
Með reglugerð nr. 1250/2016, um heimild til að framlengja bætur þrátt fyrir dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili fyrir aldraða eða á sjúkrahúsi, voru settar reglur m.a. um stöðvun og framlengingu bótagreiðslna. Er reglugerðin m.a. sett með stoð í lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir að dvelji lífeyrisþegi á hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnun sem ekki er á föstum fjárlögum falli bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra og 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar er lífeyrisþega, sbr. 1. gr., heimilt að sækja um framlengingu bóta í því skyni að gera honum og eftir atvikum maka hans kleift að standa tímabundið skil á afborgunum eða rekstrarkostnaði íbúðarhúsnæðis þeirra eftir að bætur hafa fallið niður. Tryggingastofnun er heimilt að víkja frá tímamörkum sem tilgreind eru í 1. gr. og framlengja greiðslum bóta þegar sérstaklega stendur á, sbr. 3. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.
Kveðið er á um mat á aðstæðum og skilyrði í 3. gr. reglugerðarinnar. Við mat á því hvort heimila skuli framlengingu bóta skal líta heildstætt á allar aðstæður umsækjanda og eftir atvikum maka hans, þ.m.t. tekjur, eignir og skuldastöðu. Í því sambandi skal einkum litið til þess hvort framlenging bóta sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis umsækjanda, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. kemur fram að framlenging bóta sé aðeins heimil ef mánaðarleg greiðslubyrði umsækjanda er hærri en mánaðarlegar tekjur hans að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður. Sama á við ef mánaðarlegar tekjur umsækjanda að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður eru lægri en sem nemur fullu ráðstöfunarfé, sbr. 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, að teknu tilliti til útgjalda vegna íbúðarhúsnæðis og dvalarkostnaðar ef við á.
Niðurstaða ráðuneytisins
Kærandi vísar til þess að þegar honum hafi verið boðið pláss á hjúkrunarheimili hafi hann verið bundinn af leigusamningi á íbúðarhúsnæði. Frestur til að þiggja boðið hafi verið mjög stuttur og leitt til þess að hann hafi greitt dvalargjald á hjúkrunarheimilinu sem og leigu fyrir húsnæðið í janúar og febrúar á þessu ári, en hann hafi ekki haft fjárhagslega burði til að standa straum af þeim kostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda barst honum símtal þann 31. desember 2021 frá aðstoðarmanni deildarstjóra hjúkrunarheimilisins þar sem honum var tilkynnt um úthlutun herbergis. Kærandi hafi verið veittur tveggja daga frestur til að þá boðið, ella yrði herbergið úthlutað öðrum. Þann 2. janúar 2022 hafi kærandi þegið boðið og hann flutt inn á hjúkrunarheimilið fimm dögum síðar samkvæmt samkomulagi.
Hvað varðar tilkynningu til umsækjanda um að honum hafi verið boðin dvöl á hjúkrunarheimili vísar ráðuneytið til fyrrgreinds ákvæðis 15. gr. reglugerðar um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma. Koma þar fram ákveðnar kröfur um ferli vegna ákvörðunar um dvöl á hjúkrunarrými og tilkynningar í því sambandi, en verður hvorki ráðið af því ákvæði né öðrum sem vísað er til að framan að veita skuli umsækjanda tiltekinn tíma til að verða við boðinu eða flytja á hjúkrunarheimilið. Tímafrestir í því sambandi eru þannig veittir eftir samkomulagi hjúkrunarheimilisins við umsækjanda. Bendir ráðuneytið á að í samningum Sjúkratrygginga Íslands við hjúkrunarheimili er almennt kveðið á um að við andlát íbúa eða þegar íbúi flytur fyrir fullt og allt af hjúkrunarheimili skuli greiða fullt gjald í allt að sjö daga frá andláti eða brottför. Helgast sá knappi tími, sem umsækjanda um dvöl á hjúkrunarheimili er veittur til að svara boði um dvöl á heimilinu og að flytjast þangað af umræddum tíma sem hjúkrunarheimili fá greitt frá Sjúkratryggingum Íslands eftir andlát sjúklings eða flutning af heimilinu. Stendur sjúklingur þá frammi fyrir því að þiggja boðið með skömmum fyrirvara eða hafna því. Sú staðreynd að kærandi hafi verið bundinn leigusamningi á íbúðarhúsnæði þegar honum var boðin dvöl á hjúkrunarheimilinu hefur að mati ráðuneytisins ekki þýðingu að því er varðar frest til að þiggja boð á heimilinu eða flytjast þangað inn. Verður hin kærða ákvörðun þar af leiðandi ekki felld úr gildi eða henni breytt af þeim sökum.
Aðstæður viðkomandi geti hins vegar verið með þeim hætti, líkt og í máli kæranda, að TR fallist á að framlengja lífeyrisgreiðslur til viðkomandi á grundvelli reglugerðar nr. 1250/2016, en við meðferð slíkrar umsóknar ber að líta til tekna, eigna og skuldastöðu viðkomandi. Skal einkum litið til þess hvort framlenging bóta sé nauðsynleg vegna afborgana annars rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis umsækjanda. Eins og fram er komið framlengdi Tryggingastofnun ríkisins lífeyrisgreiðslur til kæranda fyrir janúar, febrúar og mars 2022.
Við meðferð málsins vakti athygli ráðuneytisins að upphaf dvalar kæranda á hjúkrunarheimilinu hefði verið skráð hjá Sjúkratryggingum Íslands sem þann 31. desember 2021, sem kærandi kveður hafa verið þann dag sem honum hafi verið tilkynnt með símtali um að honum byðist pláss á heimilinu. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hann þegið boðið tveimur dögum síðar, þann 2. janúar 2022, og flutt á hjúkrunarheimilið þann 7. sama mánaðar. Staðfesti hjúkrunarheimilið í tölvupósti til ráðuneytisins þann 19. október sl. að kærandi hefði flutt inn á heimilið 7. janúar 2022 en kvað innritunardagsetningu, þ.e. 31. desember 2021, byggja á þeim degi sem boð um dvöl hefði verið þegið. Ráðuneytið óskaði jafnframt eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands um hvaða dag miðað væri við í þessu sambandi, en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefði 7. janúar átt að vera sá dagur sem hann hefði verið innskráður í „stika“ ef hann hefði komið úr heimahúsi.
Dagsetning upphafs dvalar á hjúkrunarheimili hefur lögfylgjur í för með sér fyrir þá einstaklinga sem þiggja boð um dvöl, þ.e. varðandi á greiðslu lífeyris og tímabil þátttöku í dvalarkostnaði. Í 2. mgr. 22. gr. laga um málefni aldraðra eru ákvæði um greiðslu heimilismanns á dvalarkostnaði á dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sem er ekki á föstum fjárlögum og hjúkrunarrými sem er á föstum fjárlögum þegar heimilismaður greiðir dvalarkostnað með tekjum sínum að hluta eða öllu leyti. Hafi heimilismaður tekjur, sem eru hærri en 74.696 kr. á mánuði skal hann þá með þeim tekjum sem umfram eru taka þátt í dvalarkostnaði, sbr. 1. mgr., frá þeim tíma sem greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður.
Í samræmi við framangreind sjónarmið verður að líta svo á að upphaf dvalar kæranda hafi átt að vera 7. janúar 2022, sem var sá dagur sem kærandi flutti inn á hjúkrunarheimilið. Upplýsingar frá hjúkrunarheimilinu til Sjúkratrygginga Íslands um að búseta kæranda hefði hafist þann 31. desember 2021 höfðu áhrif á upphaf tímabils dvalarkostnaðar kæranda, sem var afmarkað í hinni kærðu ákvörðun sem 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 22. gr. laga um málefni aldraðra ber kæranda að taka þátt í dvalarkostnaði frá þeim tíma sem greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður, þ.e. frá næstu mánaðarmótum eftir upphaf dvalar. Liggur einnig fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar um framlengingu á lífeyrisgreiðslum til kæranda í þrjá mánuði, en sú ákvörðun byggði á þeirri forsendu að upphaf dvalar kæranda á hjúkrunarheimilinu hefði verið þann 31. desember 2021. Í ljósi framangreinds verður að fella þann þátt hinnar kærðu ákvörðunar sem laut að upphafi þátttökutímabils kæranda í dvalarkostnaði úr gildi og leggja fyrir Tryggingastofnun ríkisins að afmarka tímabilið í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarákvæði. Í málinu er ekki ágreiningur um þær fjárhæðir sem lagðar voru til grundvallar um mánaðarlega þáttöku kæranda í kostnaði og verður sá hluti ákvörðunarinnar því staðfestur.
Ákvörðun um niðurfellingu lífeyris
Eins og áður greinir brestur ráðuneytinu heimild að lögum til að úrskurða um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um niðurfellingu á lífeyri. Kemur það atriði því ekki til formlegrar endurskoðunar í úrskurðinum. Í ljósi þess að upphaf dvalar á hjúkrunarheimili hefur hins vegar áhrif á rétt kæranda til lífeyrisgreiðslna á grundvelli 5. mgr. 48. gr. laga um almannatrygginga telur ráðuneytið rétt að Tryggingastofnun ríkisins taki það atriði til skoðunar samhliða ákvörðun um upphaf dvalar. Úrskurður þessi er sendur Sjúkratryggingum Íslands og úrskurðarnefnd velferðarmála til upplýsinga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli kæranda, dags. 21. janúar 2022, er staðfest hvað varðar mánaðarlega þátttöku kæranda í dvalarkostnaði. Ákvörðun um upphaf þátttöku kæranda í dvalarkostnaði er felld úr gildi. Lagt er fyrir Tryggingastofnun að taka þann þátt hinnar kærðu ákvörðunar til meðferðar á ný.