Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR13020105

Ár 2014, 25. júlí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 13020105

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. febrúar 2013 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [A], kt. […], ríkisborgara [X] (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. janúar 2013, um að fella niður dvalarrétt kæranda. Gerð er sú krafa í kæru að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig leyfi verð veitt og til þrautavara að leyfi til búsetu hér á landi verði veitt á öðrum/nýjum forsendum.

Ákvörðunin er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er kæran borin fram innan tilskilins kærufrests.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var kæranda þann 19. júlí 2011 fengin staða hér á landi á grundvelli e-liðar 2. mgr. 8. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 en samkvæmt ákvæðinu þurfti kærandi ekki dvalarleyfi á meðan hjúskap hans varði. Þann […] var skráð í þjóðskrá að kærandi og fyrrverandi maki hans væru skilin að borði og sæng. Þann 14. ágúst 2012 sendi Útlendingastofnun kæranda bréf þar honum var tilkynnt að forsendur réttar hans til dvalar hér á landi væru brostnar enda hefði réttur hans grundvallast á hjúskap. Var kæranda þá jafnframt veittur 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um efni máls áður en Útlendingastofnun tæki ákvörðun um hvort fella ætti niður rétt hans til dvalar án dvalarleyfis. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 23. janúar 2013, tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um að réttur hans til dvalar á Íslandi án dvalarleyfis væri felldur niður.

Framangreind ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 7. febrúar 2013. Þann 13. febrúar 2013 óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins frá Útlendingastofnun og bárust umbeðin gögn ráðuneytinu þann 1. ágúst 2013.


III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

,,Lagarök:

Um ákvörðun þessa gilda lög nr. 96/2002 um útlendinga  og reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga.

Niðurstaða:

Í 8. gr. útlendingalaga er fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Í 2. mgr. ákvæðisins er talið upp hvaða útlendingum er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis. Í e-lið 2. mgr. 8. gr. segir að útlendingi sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár án hjúskapar sé heimil dvöl á landinu án dvalarleyfis.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2008 um breytingu á útlendingalögum, þingskjal 1299, 337. mál segir í athugasemdum við ákvæðið:

„Undanþágur c-, e- og f-liðar eru þegar í reglugerð um útlendinga og eru þær til samræmis við lög nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Þess ber að geta að í þeim tilvikum þegar hjúskap eða staðfestri samvist lýkur bresta forsendur fyrir undanþágu fyrir dvalarleyfi og ber útlendingi þá að sækja um dvalarleyfi hafi hann hug á áframhaldandi dvöl hér á landi. Áskilnaður e-liðar um þriggja ára samfellu tekur bæði til búsetu með maka hér á landi og dvalarleyfis.“

Réttur til dvalar skv. e-lið 2. mgr. 8.gr. útlendingalaga fellur þó ekki sjálfkrafa niður. Í 16. gr. útlendingalaga er fjallað um afturköllun dvalarleyfis. Þar segir m.a. að Útlendingastofnun sé heimilt að afturkalla dvalarleyfi ef ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir útgáfu leyfisins. Er það mat Útlendingastofnunar að rétt sé að beita 16. gr. útlendingalaga við niðurfellingu réttar til dvalar án dvalarleyfis enda er um fullkomlega sambærileg tilvik að ræða. Dvalarheimild rétthafa byggði á hjúskap við íslenskan ríkisborgara, en líkt og fram hefur komið er rétthafi skilinn að borði og sæng og eru því forsendur fyrir rétti rétthafa brostnar.

Umsókn rétthafa um búsetuleyfi á Íslandi er í vinnslu hjá Útlendingastofnun.

Því er ákvarðað:

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Réttur [A], kt. […], ríkisborgara [X], til dvalar á Íslandi án dvalarleyfis er felldur niður.“

 

Að lokum er leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Kæra barst ráðuneytinu þann 7. febrúar 2013. Kemur þar fram að kærð sé ákvörðun Útlendingastofnunar um að fella niður dvalarrétt kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að henni verði breytt þannig að leyfi verði veitt og til þrautavara að leyfi til búsetu hér á landi verði veitt á öðrum/nýjum forsendum.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Samvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 geta nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi á Íslandi enda séu skilyrði ákvæðisins að öðru leyti uppfyllt. Í 2. mgr. 13. gr. laganna er nánar útskýrt hverjir teljast til nánustu aðstandenda í skilningi ákvæðisins og er maki þar á meðal. Í 2. mgr. 8. gr. laga um útlendinga eru þeir taldir sem heimilt er að dvelja á Íslandi án dvalarleyfis, en samkvæmt e-lið ákvæðisins er útlendingi sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar, heimil slík dvöl. Heimild e-liðar 8. gr. var færð inn í ákvæðið með 5. gr. laga nr. 86/2008. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að áður hafi eingöngu verið mælt fyrir um að dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum væri heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis. Þá hafi verið að finna reglugerðarheimild til þess að geta um fleiri undanþágur. Þær undanþágur sem kveðið var á um í reglugerð um útlendinga voru færðar inn í lögin með 5. gr. laga nr. 86/2008. Undanþága e-liðar er til samræmis við lög nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt. Þess er sérstaklega getið í athugasemdunum að í þeim tilvikum þegar hjúskap eða staðfestri samvist ljúki bresti forsendur fyrir undanþágu fyrir dvalarleyfi og beri útlendingi þá að sækja um dvalarleyfi hafi hann hug á áframhaldandi dvöl hér á landi. Að lokum segir einnig í athugasemdunum að áskilnaður e-liðar um þriggja ára samfellu taki bæði til búsetu með maka hér á landi og dvalarleyfis.

Af gögnum málsins er ljóst að þann 19. júlí 2011 staðfesti Útlendingastofnun að kærandi ætti rétt á því að dveljast á Íslandi án dvalarleyfis. Ekki var hins vegar um það að ræða að sérstakt dvalarleyfi væri þá gefið út enda kæranda ekki skylt að hafa slíkt leyfi lengur.

Þann […] var skráð í þjóðskrá að kærandi og maki hans væru skilin að borði og sæng. Tekur ráðuneytið undir með Útlendingastofnun að þar með voru brostnar forsendur fyrir undanþágu fyrir dvalarleyfi, en ákvæðið tekur bæði til búsetu með maka og dvalarleyfis, og gat kærandi því ekki lengur byggt rétt á ákvæði e-liðar 2. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Hins vegar var ekki unnt að afturkalla eða fella niður dvalarrétt kæranda á grundvelli 16. gr. laga um útlendinga, líkt og gert var með hinni kærðu ákvörðun, enda fjallar það ákvæði um afturköllun dvalarleyfis og búsetuleyfis. Ljóst er að kærandi hafði ekki slíkt leyfi á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin enda var kæranda áður heimil dvöl á Íslandi án dvalarleyfis. Grundvöllur heimildar kæranda til dvalar á Íslandi án dvalarleyfis var því ekki afturkallalegur af Útlendingastofnun heldur féll réttur kæranda til dvalar á Íslandi án dvalarleyfis sjálfkrafa niður án sérstakrar ákvörðunar þar um. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun byggði ekki á lögum og var marklaus.

Ráðuneytið áréttar þó að í framangreindu felst ekki að kæranda sé nú heimil dvöl á Íslandi án dvalarleyfis enda er alveg ljóst að kærandi getur ekki lengur byggt rétt á e-lið 2. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, þar sem hjúskap kæranda er lokið. Þegar svo háttar til að forsendur slíks dvalarréttar bresta og hann fellur þar með niður, er Útlendingastofnun rétt að beina tilkynningu þess efnis til hlutaðeigandi útlendings þar sem upplýst er um réttarstöðu hans og honum veittur hæfilegur frestur til þess að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, standi vilji hans til áframhaldandi dvalar á Íslandi. Ekki verður séð að Útlendingastofnun hafi gætt að leiðbeiningarskyldu sinni að þessu leyti og er það ámælisvert.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. Ráðuneytið telur rétt að leiðbeina um að standi vilji kæranda til áframhaldandi dvalar á Íslandi er kæranda nauðsynlegt að sækja að nýju um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar á þeim grundvelli sem kærandi telur best eiga við um aðstæður sínar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. janúar 2013, um að fella niður dvalarrétt [A], kt. […], ríkisborgara [X], er felld úr gildi.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta