Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR12020276

Ár 2014, 17. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12020276

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu þann 16. febrúar 2012 kærði A,  fd. […], ríkisborgari X (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. janúar 2012, um að synja honum um útgáfu dvalarleyfis vegna námsdvalar.

Ákvörðunin er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er kæran borin fram innan tilskilins kærufrests.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna námsdvalar hér á landi þann 6. október 2010. Þar sem kærandi hafði ekki fengið staðfestingu á skólavist fyrir vorönn 2011 var honum gefinn kostur á að halda sömu umsókn með tilkomu nýrra gagna til Útlendingastofnunar fyrir haustönn 2011. Með bréfum, dags. 4. ágúst og 15. september 2011 ítrekaði Útlendingastofnun við kæranda að tilskilin gögn hefðu ekki verið lögð fram. Engin viðbrögð bárust frá kæranda vegna þeirra erinda. Með ákvörðun sinni, dags. 6. janúar 2012, synjaði stofnunin kæranda svo um umbeðið leyfi.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til ráðuneytisins með bréfi sem barst ráðuneytinu þann 16. febrúar 2012. Með bréfi, dags. 13. mars 2012, óskaði ráðuneytið afrits af öllum gögnum málsins frá Útlendingastofnun auk athugasemda stofnunarinnar ef einhverjar væru. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 23. mars 2012.

Með tölvubréfi, dags. 11. mars 2012, gaf ráðuneytið kæranda færi á að gæta andmælaréttar eða koma á framfæri frekari gögnum eða athugasemdum teldi hann ástæðu til. Í kjölfarið urðu nokkur samskipti á milli ráðuneytisins og kæranda, en ráðuneytinu bárust hins vegar ekki frekar gögn eða athugasemdir varðandi hina kærðu ákvörðun.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

Lagarök:

Um umsókn þessa gilda lög nr. 96/2002 um útlendinga (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með síðari breytingum.

Niðurstaða:

Í 2. mgr. 10. gr. útlendingalaga segir:

„Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi. Umsækjandi skal undirrita umsóknina eigin hendi þar sem m.a. komi fram að hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann undirrita eigin hendi umsóknina þar sem m.a. komi fram að hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda. Umsókn um dvalarleyfi skulu einnig fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um, svo sem sakavottorð, heilbrigðisvottorð og staðfesting á framfærslu og sjúkratryggingu. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram.“

 Þá kemur eftirfarandi fram í ákvæði 39. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga:

„Sækja skal um dvalarleyfi á sérstöku eyðublaði. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann rita undir umsóknina eigin hendi. Umsækjandi skal leggja fram þau gögn sem talin eru nauðsynleg við afgreiðslu umsóknarinnar, svo sem sakavottorð, fæðingarvottorð, heilbrigðisvottorð, hjúskaparvottorð, gögn um framfærslu, tryggingaskírteini eða vottorð um sjúkratryggingu, vottorð um húsnæði og gögn um forsjá barns.“

Þau gögn sem óskað var eftir með bréfum 4. ágúst og 15. september sl. hafa enn ekki borist til Útlendingastofnunar. Fylgigögn umsóknar eru því enn ófullnægjandi og verður ákvörðun því tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Miðað við þau gögn sem umsækjandi hefur lagt fram og þau gögn sem ekki hafa borist, þrátt fyrir beiðni þar um, er ljóst að umsækjandi hefur ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 10. gr. útlendingalaga og þar með ekki sýnt fram á að hann fullnægi skilyrðum fyrir dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. e útlendingalaga.

Því er ákvarðað:

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], f.d. […], ríkisborgara [X], um dvalarleyfi á Íslandi er synjað.

Að lokum er leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur m.a. fram að kærð sé ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis vegna fyrirhugaðs flugnáms hans hér á landi. Í kæru kemur jafnframt fram að kærandi hyggist stunda íslenskunám hjá Mími – símenntun auk þess sem tekið er fram að hann hafi áður dvalið eitt ár á Íslandi sem skiptinemi.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi vegna námsdvalar.

Svo sem rakið er í hinni kærðu ákvörðun er tiltekið í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 hvaða gögn skuli fylgja umsókn um dvalarleyfi. Þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi ítrekað, með bréfum dags. 4. ágúst og 15. september 2011, gefið kæranda færi á að skila til stofnunar nauðsynlegum gögnum gerði hann það ekki. Slík gögn hafa ekki heldur verið lögð fram hjá ráðuneytinu. Í því ljósi ber þá þegar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. janúar 2012, um að synja umsókn A,  fd. […], ríkisborgara X, um útgáfu dvalarleyfis hér á landi, er staðfest.

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta