Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR13040273

Ár 2014, 10. janúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 13040273

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu þann 23. apríl 2013 kærði B hdl., f.h. A, kt. […], ríkisborgara X, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2013, um að synja umsókn kæranda um útgáfu dvalarleyfis.

Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er kæran borin fram innan kærufrests.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings þann 12. september 2011 með gildistíma í eitt ár. Leyfið var síðar endurnýjað með gildistíma frá 9. ágúst 2012 til 9. ágúst 2013. Það leyfi var afturkallað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. febrúar 2013, þar sem kærandi og fyrrverandi maki hans höfðu þá skilið að borði og sæng. Þann 20. desember 2012 sótti kærandi svo um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli og var þeirri beiðni synjað með hinni kærðu ákvörðun, dags. 11. apríl 2013.

Framangreind ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 23. apríl 2013. Með bréfi, dags. 23. apríl 2013, óskaði ráðuneytið eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 2. maí 2013.

Með bréfi, dags. 30. maí 2013, gaf ráðuneytið kæranda færi á að koma á framfæri frekari gögnum eða upplýsingum teldi hann tilefni til. Athugasemdir kæranda þar að lútandi bárust ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 7. júní 2013.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis hljóðar svo:

Lagarök:

Um umsókn þessa gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerðar um útlendinga nr. 53/2002, með síðari breytingum.

Niðurstaða:

Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga segir að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Í umsókn segir að tilgangur dvalar sé: „I came on october 2010 in Iceland and I got married with [… ]but we got divorced, so now I have my work here and I like Iceland, so I would like to be here“. Þar sem sótt var um atvinnuleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli var umsókn flokkuð sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. a útlendingalaga.

Samkvæmt 12. gr. a útlendingalaga er það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna tímabundins skorts á vinnuafli að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2013, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað. Útlendingastofnun er því ekki heimilt að veita dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli og því er umsókn hans um fyrrgreint dvalarleyfi synjað.

Umsækjandi hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og lögum samkvæmt er honum ekki heimil dvöl án þess en heimild til dvalar án dvalarleyfis er eingöngu til staðar á meðan sú umsókn sem hér er til umfjöllunar er til vinnslu. Af þeim sökum ber umsækjanda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar þar sem hann hefur ekki gilt dvalarleyfi, ella telst dvöl hans á landinu ólögmæt. Það athugist að skv. 20. gr. útlendingalaga getur ólögmæt dvöl leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands, tímabundið eða að fullu og öllu. Til að forðast frekari óþægindi er [A] beðinn um að leggja fyrir Útlendingastofnun, innan framangreinds tímafrests, flugseðil sem sýnir væntanlega för hans úr landi auk staðfestingar á greiðslu fargjaldsins. Eftir komu á áfangastað er [A] beðinn að koma afriti af brottfararspjaldi sínu til stofnunarinnar.

Því er ákvarðað:

 

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], ríkisborgara [X], um dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli skv. 12. gr. a  laga nr. 96/2002 um útlendinga, er synjað.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í kæru til ráðuneytisins er tekið fram að ákvörðun Útlendingastofnunnar sé kærð til ráðuneytisins þar sem beðið sé úrlausnar velferðarráðuneytisins á kæru á ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um útgáfu atvinnuleyfis. Þá hefur kærandi lagt fram gögn vegna umferðaróhapps sem hann varð fyrir en ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér efni þeirra.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 20. desember 2012 um útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli.

Svo sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun þá segir í 12. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku á vinnumarkaði hér á landi í samræmi við 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru m.a. þau að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. a, og að atvinnuleyfi á grundvelli 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið veitt, sbr. b-lið 1. mgr. 12. gr. a laga nr. 96/2002. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2012, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað. Sú niðurstaða var samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins staðfest með úrskurði velferðarráðuneytisins þann 12. desember 2013. Með vísan til framangreinds er því ljóst að skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli eru ekki uppfyllt í tilviki kæranda og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðunar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2013, um að synja umsókn B, ríkisborgara A, um útgáfu dvalarleyfis, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta