Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir landbúnaðarráðuneytis - til 2008

4/1999 Úrskurður frá 5. maí 1999

Ár 1999, miðvikudaginn 5. maí, var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I.

Með bréfi dags. 7. mars s.l., hafa E, f.h. Veiðifélags Skaftár, A, f.h. Veiðifélags Grenlækjar og Ó, f.h. Veiðifélags Kúðafljóts, kært til úrskurðar ráðuneytisins með heimild í 12. mgr. 23. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum, úrskurð veiðimálastjóra um að veita undanþágu frá banni 6. mgr. 23. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum, sbr. heimild í 7. mgr. sömu greinar, sem felur í sér leyfi fyrir Veiðifélag Hellisár til flutnings á hafbeitarlaxi frá hafbeitarstöðinni í Lárósi á Snæfellsnesi til endurveiða í Hellisá á Síðu fyrir árin 1999 og 2000.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 15. febrúar 1999 og birtur í Lögbirtingarblaði 17. febrúar 1999. Kæran barst ráðuneytinu 10. mars 1999 og var tekin til úrskurðar eftir að ráðuneytinu höfðu borist athugasemdir Árna Ísakssonar, veiðimálastjóra, dags. 26. mars 1999, andmæli formanns Veiðifélags Hellisár og formanns Leiðólfs ehf., dags. 16. apríl 1999, sem og athugasemdir kærenda, dags. 26. apríl 1999.

II.

Málsatvik eru þau að með umsókn, dags. 4. desember 1998, fór Veiðifélag Hellisár fram á undanþágu til flutnings á hafbeitarlaxi frá Lárósi til endurveiða í Hellisá á Síðu á árunum 1999 og 2000. Með umsókninni fylgdu umsögn dýralæknis fisksjúkdóma varðandi sjúkdómahættu og umsögn Veiðimálastofnunar varðandi önnur vistfræðileg og erfðafræðileg áhrif. Þá fylgdi greinargerð til veiðimálastjóra varðandi veiði og sleppingar á hafbeitarlaxi sumarið 1998, afrit af veiðiskýrslum og afrit af eyðublöðum vegna flutnings á hafbeitarlaxi sumarið 1998.

Í umsögn dýralæknis fisksjúkdóma var ekki lagst gegn leyfisveitingu með því skilyrði að ekkert komi upp fram á næsta vor í seiðaeldisstöðvum að Laxeyri og Húsafelli, þaðan sem hafbeitarfiskar hjá Lárósi eiga uppruna sinn. Í umsögn Veiðimálastofnunar kom fram að stofnunin teldi sleppingar á hafbeitarlaxi í Hellisá afar óæskilegar. Bent var á að óblíð náttúra svæðisins, sem og athafnir manna yllu því að viss hætta væri á hnignun sjóbirtingsstofna og annarra fiskstofna á svæðinu. Sjóbirtingsstofnar í Skaftárhreppi hefðu mikið verndargildi og að flutningurinn hefði almennt í för með sér hættu fyrir stofnana, auk hættu fyrir lax og bleikju. Bent var sérstaklega á mikilvægi náttúrulegs stofns í Grenlæk sem notaður er til eldis. Bent var á að sleppingar á fiski í Hellisá, sem sé efst í vatnakerfi, skapi hættu á að fiskur berist þaðan í aðrar ár sem neðar eru, enda séu staðfest dæmi um slíkt. Þá var bent á að staðfest væri árangursrík hrygning og uppeldi laxaseiða í Hellisá sem skapi enn frekari hættu á að lax berist í nærliggjandi ár. Það skapi hættu á að laxar hrygni í ánum í samkeppni við sjóbirting sem gæti komið niður á viðkomu hans. Í umsögn Veiðimálastofnunar er ennfremur fjallað um sjúkdómahættu af flutningi hafbeitarlax og efnahagslegt gildi fiskstofna í ám í Vestur-Skaftafellssýslu. Sérstök athugasemd verður gerð við þennan þátt umsagnar Veiðimálastofnunar í niðurstöðukafla úrskurðar þessa.

Þann 16. desember s.l. aflaði veiðmálastjóri sér umsagnar fisksjúkdómanefndar vegna ofangreindrar umsóknar og gaf nefndin jákvæða umsögn sína með bréfi dags. 8. febrúar s.l.

Veiðimálastjóri auglýsti framkomna umsókn í Lögbirtingarblaði 23. desember s.l. og kallaði eftir athugasemdum annarra veiðifélaga á vatnasvæði Skaftár. Frestur til að skila inn andmælum var til 27. janúar s.l.

Þann 26. janúar s.l. bárust veiðimálastjóra andmæli kærenda við leyfisveitingu. Ekki bárust önnur andmæli við leyfisveitingu.

Með bréfi dags. 15. febrúar s.l., veitti veiðimálastjóri umbeðið leyfi með tilteknum skilyrðum, sbr. neðangreint. Segir í leyfisbréfinu að miðað við fyrri leyfisveitingar og aðrar tilgreindar forsendur, sé fallist á undanþágu til flutnings á hafbeitarlaxi í Hellisá.

III.

Hinn kærði úrskurður var auglýstur í Lögbirtingarblaði 17. febrúar 1999. Í auglýsingunni segir:

"Í samræmi við 7.-10. mgr. 23. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum skal hér með upplýst, að veiðifélag Hellisár hefur fengið undanþágu til tveggja ára frá 6. mgr. ofannefndrar lagagreinar til að flytja hafbeitarlax úr Lárósi á Snæfellsnesi til stangaveiði í Hellisá á Síðu á árunum 1999 og 2000 með eftirfarandi skilyrðum:

• Að sett verði upp traust girðing í ánni til að hindra niðurgöngu laxa fyrst eftir flutning.

• Að allur lax, sem fluttur er, verði merktur (98-100%) undir eftirliti embættis veiðimálastjóra. Jafnframt verði öll merkjanúmer skráð í veiðibók, þegar lax endurveiðist.

• Að stangaveiddum laxi verði ekki sleppt aftur í ána en hann fjarlægður og skráður í veiðibók.

• Eftirlit með veiði og skráningu í veiðibækur við Hellisá verði aukið til að fá nákvæmari upplýsingar um afdrif fluttra laxa.

• Að veiðifélag Hellisár fjarlægi lax úr ánni eftir fremsta megni í lok veiðitíma.

• Að allir laxar, sem kunna að bera einhver grunsamleg einkenni við endurheimtu í hafbeitarstöðina Lárós, verði sendir til rannsóknar í Tilraunastöðina á Keldum á kostnað veiðifélags Hellisár.

• Við fyrstu laxagöngur í hafbeitarstöðina Lárós skal framkvæma ákveðna skimun, þ.e. 60 laxa slembiúrtak verði tekið til rannsóknar á kostnað veiðifélags Hellisár. Eftirlitsaðili með fisksjúkdómum skal skoða endurheimtan fisk í stöðinni og viðhafa sláturlínueftirlit ef tök eru á. Þá 60 laxa, sem teknir eru frá, skal kryfja og rannsaka samkvæmt fyrirmælum dýralæknis fisksjúkdóma. Endurtaka skal slíkt 60 laxa slembiúrtak, þegar göngur standa sem hæst, og rannsaka á kostnað veiðifélags Hellisár.

· Heimild til flutnings falli strax niður, samkvæmt nánari ákvörðun fisksjúkdómanefndar, ef kýlaveiki eða annar alvarlegur sjúkdómur greinist í endurheimtum laxi eða í náttúrulegum fiski.

• Heimild til flutnings á árinu 2000 verði endurskoðuð, ef verulegar villur verða á laxi úr sleppingum 1999 í sjóbirtingsár á svæðinu samkvæmt skilum á merkjum.

• Veiðifélag Hellisár láti við fyrstu hentugleika gera faglega úttekt á því, hvort lax getur gengið upp Skaftá í neðsta hluta Hellisár og hvort hægt sé að fanga slíkan lax og flytja upp í ána.

• Í lok veiðitíma verði embætti veiðimálastjóra send greinargóð skýrsla um framkvæmdirnar, svo sem fjölda laxa, sem fluttur er (merktur), fjölda stangveiddra laxa og laxa úr ádráttarveiði.

Kærufrestur til landbúnaðarráðherra vegna þessarar ákvörðunar er fjórar vikur frá birtingu hans í samræmi við 12. mgr. 23. gr. ofannefndra laga."

Í erindi sínu til landbúnaðarráðherra, dags. 7. mars s.l., mótmæla kærendur veitingu leyfis til sleppingar á hafbeitarlaxi í Hellisá á Síðu, sbr. ofangreinda auglýsingu. Kærendur byggja mótmæli sín á ótta við að slíkir flutningar geti valdið óbætanlegum skaða á lífríki svæðisins. Vísa kærendur til álitsgerða fræðimanna á þessu sviði.

IV.

Í erindi formanns Veiðifélags Hellisár og formanns Leiðólfs ehf., dags. 16. apríl s.l., kemur fram að Veiðifélag Hellisár hefur sleppt hafbeitarlaxi í ána allt frá árinu 1993 með leyfi og skilyrðum stjórnvalda, að einu ári undanteknu. Í erindinu er því haldið fram að þessar sleppingar hafi hvorki valdið truflun né skaða á vatnasvæðinu. Ljóst sé að framhald þessarar starfsemi færi umtalsverðar tekjur inn á svæðið. Miklir möguleikar séu á enn frekari uppbyggingu á þessari starfsemi þar sem aðeins lítill hluti árinnar hafi verið nýttur til þessa. Það sé áríðandi að hafa í huga að lax frá hafbeitarstöðinni í Lárósi er Elliðaárstofn, það er að segja að sé hann samstofna þeim fiski sem sleppt hefur verið á svæðið, í Tungufljót, Geirlandsá, Eldvatn, Holtsá og fleiri ár. Í erindinu er því ennfremur haldið fram að ótti kærenda við sleppingar sé órökstuddur og að leyfin til sleppinga hafi öll verið grundvölluð á ítarlegri umfjöllun fagmanna.

V.

Í athugasemdum veiðimálastjóra, dags. 26. mars, er vísað til þess að meðferð embættisins á máli hafi að öllu leyti verið í samræmi við 23. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Umsókn framkvæmdaaðila hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði þann 23. desember 1998 og ljósrit af auglýsingu sent til veiðifélaga á vatnasviði Skaftár. Auk lögbundinna umsagna frá dýralækni fiskisjúkdóma og Veiðimálastofnun hafi embættið með bréfi, dags. 7. október 1998, farið fram á umsögn Fisksjúkdómanefndar um fyrirhugaða framkvæmd og að jákvætt svar nefndarinnar hafi borist í bréfi, dags. 8. febrúar s.l., og að nefndin hafi einnig verið ráðgefandi varðandi þau skilyrði, sem setja ætti fyrir flutningi, ef leyfður yrði. Þá er vísað til þess að afgreiðsla þessa máls sé unnin eftir nýju ferli, sem mótað var með lagabreytingum á árinu 1998 (lög nr. 50/1998). Áður hafi landbúnaðarráðuneytið veitt undanþágu til flutnings í samræmi við ákvæði 4.5 í reglugerð nr. 401/1988 um flutning og sleppingu laxfiska, að fengnu samþykki fisksjúkdómanefndar. Ráðuneytið hafi heimilað veiðifélaginu flutning hafbeitarlaxa til veiði á árunum 1994 til 1998, ef frá er talið árið 1996, en þá hafi fisksjúkdómanefnd ekki talið rétt að heimila sleppingu vegna óvissu um kýlaveikismit, sem greinst hafði í Elliðaám sumarið 1995. Það ár hafi einnig borist smit í hafbeitarfisk sem gekk í Laxeldisstöðina í Kollafirði og staðfest hafi verið að einn lax, sem fluttur var og veiddur í Hellisá, var smitaður. Hins vegar varð ekki vart við neinn fisk í ánni, sem hafði drepist vegna þessa sjúkdóms, þótt girðing væri þvert yfir ána allt sumarið. Síðan 1995 hafi kýlaveikin hvergi greinst á landinu og þá hafi hún aldrei greinst á Breiðafjarðarsvæðinu, þaðan sem áætlað sé að flytja umræddan hafbeitarfisk.

Veiðimálastjóri nefnir að í kæru komi fram sömu atriði og í athugasemd kærenda frá 25. janúar s.l. og þeim athugasemdum hafi að mestu leyti verið svarað í ákvörðun embættisins frá 15. febrúar 1999, sem setji leyfisveitingunni mjög þröngar skorður. Megi þar leggja áherslu á eftirfarandi:

Leitað hafi verið umsagnar Fisksjúkdómanefndar auk lögboðinna umsagna til að tryggja enn betur sjúkdómaþátt málsins.

Settir séu fyrirvarar um niðurfellingu leyfis, ef varasamir sjúkdómar, svo sem kýlaveiki, koma fram einhversstaðar á landinu.

Veruleg sjúkdómaskimun eigi sér stað í Lárósi á göngutíma laxins.

Settir séu fram fyrirvarar um styttingu leyfis úr tveimur árum í eitt, ef veruleg brögð verði að því, að merktir laxar úr sleppingum komi fram á vatnasvæði Skaftár utan Hellisár.

Að því er varðar vísindalegar forsendur þessarra leyfisveitinga telur veiðimálastjóri að staðfesting á einhverju magni af merktum laxi úr sleppingum í Hellisá á nærliggjandi vatnasvæði og aukning á laxgengd inn á svæðið vegna seiðaframleiðslu í Hellisá sé ein af frumforsendum þess, að smitsjúkdómar dreifist um svæðið og að aðgerðirnar hafi erfðafræðileg áhrif á aðra stofna. Eins og fram kemur í töflu, sem fylgi afgreiðslu embættisins, komu laxar úr sleppingunni lítið sem ekkert fram á svæðinu og ekki verði enn vart við aukningu í laxgengd vegna náttúrulegrar framleiðslu. Þá segir í erindinu: "Þar sem varfærni ein og sér skilar okkur ekki fram á veginn, þyrfti frekari rannsóknir varðandi áhrif svo umdeildra aðgerða á meðan á sleppingum stendur...Auk vísindalegra þátta má vera ljóst að embætti veiðimálastjóra þarf, sem endanlegur afgreiðsluaðili í þessum málum, að taka tillit til ýmissa félagslegra og hagrænna þátta...Byggðir landsins standa höllum fæti og ýmiskonar ferðaþjónusta tengd stangaveiði getur aukið fjölbreytni atvinnulífsins í dreifbýli. Vísindaleg rök gegn framkvæmdum þurfa því að vera haldgóð til að vega þyngra en ýmsir aðrir þættir, sem taka verður tillit til."

Að lokum kemur fram í erindinu sú skoðun veiðimálastjóra að 5. og 6. mgr. 23. gr. lax- og silungsveiðilaga varðandi fiskrækt með framandi stofni og flutning á hafbeitar- og eldisfiski til stangaveiði, setji þessum framkvæmdum slíkar skorður, að undanþágur með skilyrðum hljóti að verða nokkuð algengar, ekki síst varðandi fiskrækt í ám, þar sem klakfiskur er ekki fyrir hendi og varðandi flutning á stálpuðum eldisfiski til veiði í náttúrulegar tjarnir. Hins vegar hafi vonandi með breytingu á lax- og silungsveiðilögum tekist að ná stjórn á slíkum flutningum, en þeir hafi áður nánast verið stjórnlausir.

VI.

Í athugasemdum sínum, dags. 26. apríl s.l., árétta kærendur að sérfræðingar Veiðimálastofnunar hafi ávallt lagst gegn sleppingu í Hellisá, sbr. greinargerð Magnúsar Jóhannssonar sérfræðings hjá Veiðimálastofnun, dags. 17. febrúar 1997, og ályktun sérfræðinganefndar Veiðimálastofnunar, dags. í janúar 1997. Þá vísa kærendur ennfremur í umsögn Veiðimálastofnunar um ísetningu hafbeitarlaxa í Hellisá, dags. í nóvember 1998, þar sem á afgerandi hátt sé lagst gegn sleppingu á hafbeitarlaxi í Hellisá.

Kærendur gera þá athugasemd að þar sem veiðimálastjóri sé í fisksjúkdómanefnd og þar með umsagnaraðili um eigin leyfisveitingu, skjóti það skökku við að skilyrði nefndarinnar skuli ekki komast til skila. Vísa kærendur í bréf frá fiskskjúkdómanefnd til veiðimálastjóra, dags. 8. febrúar 1999, þar sem fjallað er um flutning laxa úr Lárósi til sleppinga í Hellisá, nánar tiltekið 2. tl. þar sem segir: "Setja skal upp trausta laxagirðingu til að hindra niðurgöngu laxa." Benda kærendur á í þessu sambandi að í auglýsingu varðandi undanþágu til flutnings á hafbeitarlaxi í Hellisá segi að skilyrði leyfisveitingar sé: "Að sett verði upp traust girðing til að hindra niðurgöngu laxa fyrst eftir flutning." Kærendur segja að af hálfu veiðifélaga á svæðinu hafi ítrekað verið bent á að girðing, sem hindra á niðurgöngu laxa, muni aldrei halda í Hellisá og einnig sé útilokað að hreinsa ána af sleppifiski með ádrætti að hausti. Í því sambandi gera kærendur athugasemd við þann lið í umsögn fisksjúkdómanefndar þar sem segir að veiðifélag skuli eftir fremsta megni fjarlægja allan sleppifisk úr ánni í lok veiðitímabils.

Kærendur byggja á að laxar úr sleppingu komi fram á svæðinu og að áhyggjuefni sé, auk þess sem rannsóknir Veiðimálastofnunar staðfesta hrygningu og uppeldi laxaseiða í Hellisá. Kærendur nefna að of seint sé að grípa til aðgerða ef rannsóknir leiði síðar í ljós að náttúrulegir stofnar hafi beðið varanlegt tjón af völdum sleppinga á laxi í Hellisá.

Kærendur gera athugasemd við það sjónarmið sem kemur fram í athugasemdum veiðimálastjóra, dags. 26. mars s.l. að við ákvörðun um leyfisveitingu þurfi að taka tillit til ýmissa félagslegra og hagrænna þátta og tilvísun í að byggðir landsins standi höllum fæti og ýmiskonar ferðaþjónusta tengd stangaveiði geti aukið fjölbreytni atvinnulífsins í dreifbýli og að vísindasleg rök þurfi því að vera haldgóð til að vega þyngra en ýmsir aðrir þættir, sem taka verði tillit til. Þá gera kærendur athugasemd við það sjónarmið sem kemur fram í nefndu bréfi frá veiðimálastjóra, að undanþágur með skilyrðum hljóti að verða nokkuð algengar, ekki síst varðandi fiskrækt á ám, þar sem klakfiskur sé ekki fyrir hendi.

Kærendur vísa til þess að í ritinu "Verkefni Landbúnaðarráðneytisins 1995-1999" segi meðal annars á bls. 23 að mönnum hafi lengi verið ljós sú hætta sem náttúrulegum stofnum geti stafað af fiskeldi, fiskrækt og flutningi fiska milli vatnakerfa til sleppingar og að mest hætta sé talin geta stafað af útbreiðslu fisksjúkdóma og óæskilegri blöndun erfðaefnis milli stofna sem þróast hafa aðskildir í þúsundir ára.

Kærendur árétta að með breytingum á lögum um lax- og silungsveiði sé fiskrækt í ám og vötnum nú einungis heimiluð ef notaður er stofn úr viðkomandi veiðivatni. Einnig sé hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangveiði óheimill. Veiðimálastjóri geti þó veitt undanþágu frá þessum ákvæðum, að fengnu sérstöku mati á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki veiðvatnsins og aðliggjandi veiðivatna, og að ef starfað sé samkvæmt því sem hér að ofan greinir sé ekki stætt á að veita leyfi til sleppingar á hafbeitarlaxi í Hellisá.

VII.

Eins og áður hefur fram komið lögðu umsækjendur um hina kærðu leyfisveitingu fram lögboðnar umsagnir með umsókn sinni til veiðimálastjóra, annars vegar umsögn dýralæknis fisksjúkdóma og hins vegar umsögn Veiðimálastofnun.

Í umsögn Veiðimálastofnunar, ódags., segir orðrétt meðal annars:

"...Í Hellisá er ekki fiskgengt frá sjó en um 5 km neðan við ármótin eru ófiskgengir fossar í Skaftá auk þess sem ófiskgengur foss er í Hellisá um 2 km ofan ármótanna. Staðbundinn urriði er í ánni og á neðsta hluta hennar er einnig bleikja. Urriðaseiðum, af sjóbirtingsstofni, var sleppt í ána á 9. áratugnum en ekki er vitað hvort fiskur var þar fyrir...

Í gögnum frá Veiðifélagi Hellisár kemur fram að á komandi sumri sé ætlunin að flytja allt að 1.000 laxa frá Lárósi í Hellisá til endurveiða. Frá árinu 1994, að undanskildu árinu 1996, hafa árlega verið fluttir laxar í ána til endurveiða. Árið 1996 var slíkur flutningur ekki leyfður á landinu vegna þess að kýlaveiki fannst árið áður...Minnst hefur verið sleppt 44 löxum en mest 627 árlega. Samkvæmt veiðiskýrslum hafa um 30 til 55% laxanna veiðst aftur á stöng í ánni. Hluti laxanna hefur verið merktur og á sl. ári munu allir hafa verið merktir. Veiðisvæðið er á um 4 km. kafla, frá Hraunfossi að girðingu rétt ofan við bílvað, þar sem línuvegur fer yfir ána. Girðingar sem halda áttu sleppifiski á ánni, hafa ítrekað brostið í flóðum og fiskur farið eða skolast niður ána. Í leyfum hefur verið farið fram á að eftir veiðitíma verði, eftir fremsta megni, allur sleppilax fjarlægður úr ánni. Þetta hefur ekki tekist sem skyldi enda áin erfið viðureignar í þessu tilliti, vegna vatnsmagns og botngerðar. Ljóst er að nokkuð af laxi hefur náð að hrygna í ánni, a.m.k. sum ár.

Hellisá er allfrjósöm og getur hlýnað vel á sumrin. Seiðakönnun á sl. sumri leiddi í ljós að í Hellisá er nú nokkurt uppeldi af laxaseiðum. Þroski seiðanna bendir til þess að áin nái að framleiða laxaseiði til niðurgöngu...

Allar tegundir íslenskra nytjafiska sem lifa í fersku vatni eru á vatnasvæðinu, þ.e. urriði, bleikja, lax og áll. Sjóbirtingur er ríkjandi tegund laxfiska. Sjóbirtingur, fremur en lax eða bleikja, nýtir sér sérstæðar náttúrufarslegar aðstæður svæðisins, þ.e. stutt fiskgeng svæði í þverám og mikil sandsvæði á neðri hluta aðalánna með sandborna ósa. Hrygningu og uppeldi laxa er helst að finna neðst í frjósamari og hlýrri ánum. Bleikja er hins vegar í mestum mæli í kaldari hluta lindánna...

Rannsóknir á vatnasvæði Skaftár og Grenlækjar hafa gefið miklar upplýsingar um lífshætti sjóbirtings. Sjóbirtingurinn hrygnir í þveránum. Nokkur hrygning kann einnig að vera í jökulánum Skaftá og Kúðafljóti en það er ókannað. Hrygningartíminn er í október og nóvember. Uppeldi smáseiða (núll til eins árs) fer aðallega fram í þveránum. Neðri hlutar ánna, gjarna vötn, flóð og tjarnir og jökulvötnin, með aðliggjandi lækjum, virðast hins vegar mikilvæg fyrir uppeldi stálpaðra seiða síðasta skeiðið áður en þau ganga til sjávar. Á þessum svæðum er gjarna mikið magn hornsíla sem urriðaseiði nýta sér sem fæðu. Hreistursrannsóknir gefa til kynna að sjóbirtingsseiðin séu um 25 sm (2 -5 ára) þegar þau ganga til sjávar. Hluti sjóbirtinganna gengur ekki til sjávar og elur allan sinn aldur í fersku vatni. Sjóbirtingurinn gengur til sjávar á vorin (maí - júní) og aftur í árnar síðla sumars eða að hausti. Allur stofninn dvelur í fersku vatni yfir veturinn. Flestir sjóbirtingar verða kynþroska eftir 3-4 sumur í sjó og eru þá orðnir 50-60 sm og 4-6 pund. Sjóbirtingurinn hrygnir síðan á hverju ári meðan hann lifir, allt að 6 sinnum. Merkingar gefa til kynna að sjóbirtingur myndi stofna, líkt og lax, sem þýðir að hver á hafi sinn stofn. Flakk á milli stofna er lítið en er helst hjá ókynþroska fiskum...

Sjóbirtingsstofnar svæðisins eru sérstæðir, því hvergi á landinu finnast svo margar aflasælar ár þar sem stórvaxinn sjóbirtingur er ríkjandi í afla.

Helstu veiðiárnar á vatnasvæði Skaftár eru: Skaftá sjálf og þverárnar, Geirlandsá, Tungulækur, Hörgsá og Fossálar. Skráð 5 ára meðalveiði (árin 1993 til 1997) á sjóbirting á vatnasvæði Skaftár, í stangveiði og netveiði, er 1190 fiskar. Laxveiði er lítil, en skráð 5 ára meðalveiði á laxi er 60 laxar. Bleikjuveiði hefur verið að meðaltali 90 fiskar á ári. Veiðiskýrslur liggja ekki fyrir úr Tungulæk en þar er talsverð sjóbirtingsveiði.

Grenlækur er mesta sjóbirtingsveiðiá landsins. Meðalveiði síðustu 5 ára, í Grenlæk ásamt Jónskvísl, er 2.975 urriðar, 310 bleikjur og 8 laxar.

Tungufljót hefur gefið að meðaltali 241 sjóbirtinga, 32 bleikjur og 62 laxa á stöng síðustu 5 árin. Þá er stunduð ádráttarveiði í Kúðafljóti og þar hafa veiðst að jafnaði um 76 sjóbirtingar á ári síðustu 3 árin. Samtals veiðast því á svæðinu a.m.k. 4.500 sjóbirtingar, um 430 bleikjur og 130 laxar...

Helstu áhrif sem umræddur flutningur getur haft á lífríkið eru: útbreiðsla sjúkdóma, erfðablöndun og samkeppni laxa við náttúrulega stofna. Hér á eftir verður gerð grein fyrir þessum þáttum.

Helsta hættan er að fiskur berst úr Hellisá í nærliggjandi ár. Fullvaxinn lax sem fluttur er til og fer til sjávar leitar í einhverjum mæli á sínar heimaslóðir en ef hann nær ekki þangað er líklegast að hann leiti í aðrar ár til að hrygna.

Hellisá er ofarlega á vatnasvæði Skaftár, þaðan sem samgangur er greiður til margra helstu veiðiánna á svæðinu. Helst má reikna með að þeir geti borist í Skaftá og þverár hennar á Síðu og Tungulæk, einnig í Kúðafljót og þverár þess og Grenlæk. Hér getur bæði verið um að ræða fullvaxinn sleppifisk, sem fer niður ána, og ekki síst laxa á göngu úr sjó sem alist hafa upp í Hellisá.

Sleppilaxar geta gengið niður Ása-Eldvatn eða Skaftá. Merktur lax sem sleppt var í Hellisá 1994 veiddist í Skaftá sama sumar. Frá sleppingum á sl. sumri er vitað um einn lax sem heimtist í Lárósi og einn lax sem veiddur var í læk sem fellur í Kúðafljót. Veiðimálastofnun hefur ekki upplýsingar um að merktur lax úr Hellisá hafi veiðst í öðrum ám.

Eins og fyrr kemur fram benda athuganir á Hellisá til þess að hún fóstri lax. Ætla má að á því svæði sem sleppilax fer á geti áin framleitt laxagönguseiði sem geti skilað í fullri framleiðslu einhver hundruð laxa úr sjó á ári. Laxar á leið úr sjó, ættaðir úr Hellisá, ganga væntanlega upp Skaftá og Kúðafljót. Fossar hindra það að þeir komist í Hellisá. Þeir munu einnig eiga mjög erfitt með að ganga upp jökulgorm Kúðafljóts og Skaftár og því hætta á að þeir stöðvist neðar í ánum. Lax sem ekki kemst í sína heimaá leitar óhjákvæmlega annað til að hrygna. Því er veruleg hætta á að Hellisárlax gangi í sjóbirtingaárnar til hrygningar...

Erfðablöndun. Hér á landi sem erlendis hefur stofnblöndun laxfiska (erfðablöndun, erfðamengun) talsvert verið í umræðunni. Um getur verið að ræða blöndun á hafbeitarlaxi eða öðrum laxi af eldisuppruna við náttúrulega stofna með þeim afleiðingum að arfgerð náttúrulegra stofna breytist sem getur haft neikvæð áhrif á viðkomu stofnanna. Slík blöndun hefur verið talsvert áhyggjuefni á alþjóðlegum vettvangi.

Hætta er á að fullvaxinn lax, uppalinn eða sleppt í Hellisá, fari í aðliggjandi ár og hrygni þar. Nokkrir möguleikar eru fyrir hendi:

að aðfluttir laxar hrygni innbyrðis,

að þeir hrygni með og erfðablandist við laxa sem fyrir eru

að þeir hrygni með og blandist sjóbirtingi sem fyrri (sic.) er.

Í fyrsta tilfellinu er ekki um eiginlega erfðablöndun að ræða í fyrstu kynslóð en getur orðið í næstu kynslóðum. Í möguleika 2 er bein blöndun við þá laxa sem fyrir eru og í þriðja möguleika er um blöndun við sjóbirtingsstofna að ræða. Lax hefur ætíð verið í ám á vatnasvæði Skaftár og Tungufljóti. Veiðitölur og seiðakannanir sýna að stofnarnir eru litlir og stærð þeirra virðist háð ýmsum ytri umhverfisþáttum og samkeppni við aðrar tegundir. Allnokkrar seiðasleppingar hafa verið stundaðar í ánum í gegnum tíðina með aðfluttum laxastofnum. Þó ekki á síðustu árum. Óvíst er um áhrif sleppinga á erfðasamsetningu lax á svæðinu. Allnokkrar tekjur eru hins vegar af veiði á laxi á svæðinu. Líklegt er að sá lax sem nú er í ánum sé aðlagaður aðstæðum í viðkomandi á og óskyldur hafbeitarstofn kynni að breyta því.

Í þriðja möguleika er um að ræða blöndun tveggja náskyldra tegunda. Blöndun sjóbirtings og laxa í náttúrunni er vel staðfest... Svo virðist sem blöndun eigi sér frekast stað á stöðum þar sem tegund kemur á svæði þar sem hún er ekki fyrir frá náttúrunnar hendi... Þá virðist tegundablöndun frekar eiga sér stað frá framandi stofni en frá stofni sem er fyrir... Vitað er að slíkir bastarðar geta verið frjóir og átt lífvænleg afkvæmi... Ekki er fyllilega þekkt hvaða áhrif slík blöndun hefur á náttúrulega stofna... Hætta er fyrir hendi að þetta geti valdið breytingum á genasamsetningu sjóbirtingsstofnanna með ófyrirséðum afleiðingum. Þetta á sérstaklega við þegar um endurtekna atburði er að ræða.

Samkeppni. Lax og urriði (sjóbirtingur) eru náskildar (sic.) tegundir. Líffræðilegar þarfir þeirra eru þó ekki þær sömu... Vegna þess hversu tegundirnar eru líkar er samkeppnin milli þeirra um hrygningastaði og makaval, og hjá seiðum um rými og fæðu... Nú þegar er nokkur samkeppni milli þessara tegunda í sjóbirtingsánum. Lax á erfitt uppdráttar á svæðinu en samkvæmt seiðarannsóknum virðist laxinn helst ná bólfestu í frjósamari og hlýrri dragánum. Ekki er að sjá í veiði að lax sé í sókn en þéttleiki 0+ seiða hefur farið vaxandi síðustu árin. Lax sem villist úr Hellisá í árnar eykur enn á samkeppni frá laxi sem getur komið niður á hrygningu og uppeldi sjóbirtings. Mun minni hætta er á samkeppni við bleikju, enda lítið af bleikju á svæðinu og tegundirnar ólíkari innbyrðis."

Í niðurstöðukafla umsagnar Veiðimálastofnunar segir að sjóbirtingsstofnar í heiminum eigi undir högg að sækja. Þá segir að óblíð náttúra svæðisins, sem sé í sífelldri mótun, og athafnir manna valdi því að viss hætta sé á hnignun sjóbirtingsstofna og annarra fiskistofna á svæðinu. Sjóbirtingsstofnar í Skaftárhreppi séu sérstæðir og mikilvægir byggðinni vegna stangveiða, og hafa mikið verndargildi ekki aðeins á íslenskan mælikvarða heldur á heimsvísu. Sjóbirtingsveiðin á svæðinu sé sérstæð og eigi vart sinn líka annars staðar.

Þá er það áréttað að flutningur á fiski til endurveiða skapi hættu fyrir villta stofna og að flutningur á hafbeitarfiski úr Lárósi í Hellisá sé þar engin undantekning, fyrst og fremst vegna sjóbirtingsstofna en einnig skapist hætta fyrir lax og bleikju og er sérstaklega bent á mikilvægan eldisstofn í Grenlæk. Sleppingar á fiski í Hellisá, sem sé efst í vatnakerfi, skapi hættu á að fiskur berist þaðan í aðrar ár sem neðar séu, enda séu staðfest dæmi um slíkt. Staðfest sé einnig árangursrík hrygning og uppeldi laxseiða í Hellisá sem skapi enn frekari hættu, og líklegast mestu hættuna, á að lax berist í nærliggjandi ár. Sleppifiskar gætu þannig átt greiða leið að öðrum náttúrulegum stofnum. Því sé hætta á að laxarnir hrygni í ánum í samkeppni við sjóbirting sem gæti komið niður á viðkomu hans. Í umsögninni kemur fram að sjóbirtingur og lax séu náskyldar tegundir og að samkeppni sé mikil á milli þessara tegunda þar sem þær lifi saman. Einnig sé vel þekkt að aðkomulax kynblandast sjóbirtingnum og geti á þann hátt skaðað náttúrulega stofninn. Að lokum segir í niðurstöðu umsagnar Veiðimálastofnunar að ljóst megi vera að fiskistofnar í ám í Vestur-Skaftafellssýslu hafi ótvírætt verndargildi auk þess beina efnahagslega gildis sem þeir hafi fyrir byggðarlagið. Því sé rétt að fara með gát þegar hugað sé að aðgerðum sem stofnað geti tilveru þeirra í hættu. Flutningur á hafbeitarafiski í Hellisá skapi hættu fyrir villta stofna. Ýmsir áhættuþættir séu ljósir en óvissa sé í öðrum. Við mat á áhættu verði að túlka óvissuna náttúrulegum fiskistofnum á svæðinu í hag og að sleppingar hafbeitarlaxa í Hellisá séu því afar óæskilegar. Máli sínu til stuðnings vísar Veiðimálastofnun til fjölda heimilda.

Í bréfi veiðimálastjóra til umsækjanda, dags. 15. febrúar, kemur fram það mat veiðimálastjóra að ekki sé um það að ræða að umtalsvert magn af laxi sem tengist flutningum hafi gengið í sjóbirtingsár á svæðinu, þótt sjóbirtingsveiði á svæðinu sé stunduð langt fram í hrygningartíma laxins og allur lax, sem nú sé fluttur á svæðið sé merktur. Frá árinu 1994 hafi í allt verið fluttir 1720 laxar í Hellisá, þar af 1120 merktir. Á sama tíma hafi 2 merktir laxar úr sleppingum í Hellisá veiðst á vatnasvæði Skaftár og Kúðafljóts, en 1 lax komið fram í Lárósi á Snæfellsnesi árið eftir flutning. Þar við bætist að veruleg laxarækt hafi verið stunduð á Skaftársvæðinu um árabil, meðal annars í Geirlandsá og Eldvatni, án staðfestra áhrifa á sjóbirtingsstofna svæðisins. Þá segir í bréfi veiðimálastjóra að miðað við fyrri leyfisveitingar og þessar forsendur sé erfitt að leggjast gegn flutningi með ströngum skilyrðum þetta árið, meðal annars með vísun til þess að villa slepptra laxa í sjóbirtingsár á svæðinu virðist hverfandi. Gera verði ráð fyrir því að veiðar á laxi í þessum ám séu vel skráðar og að veiðimenn taki eftir útvortis merkjum, ekki síst þar sem merkingar og rannsóknir á sjóbirtingi hafi verið stundaðar á nærliggjandi svæðum í nokkur ár. Ef eftirlit með merktum fiskum sé hins vegar ekki fullnægjandi þurfi að hvetja veiðifélög á svæðinu til eflingar á því, þar sem upplýsingar um veiði og heimtur merkja séu sá þekkingargrunnur, sem opinber stjórnsýsla og heimastjórn svæðisins hljóti að byggja ákvarðanir á. Þá segir að flutningurinn sé kjörinn vettvangur til rannsókna á hegðun laxins við þessi óvanalegu skilyrði, til dæmis með radiomerkjum.

VIII.

Í 1. mgr. 23. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum, segir að skylt sé að gera fiskræktaráætlun, er nái til fimm ára í senn, í hverju veiðivatni þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangaveiði eða öðrum atriðum fiskræktar sem um getur í 2. mgr. 44. gr. Í 2. mgr. 44. gr. segir að veiðifélagi sé skylt að stunda fiskrækt, eftir því sem við á og að fiskrækt teljist friðun fisks, umbætur á lífsskilyrðum fisks, flutningur fisks í veiðivatn, auðveldun á gönguleiðum fisks, eftirlit með veiði og annað, er lýtur að aukningu fiskstofns eða viðhaldi hans. Í 5. mgr. 23. gr. segir að við fiskrækt í ám og vötnum skuli einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni. Í 6. mgr. segir að hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangaveiði sé óheimill.

Í 7. mgr. sömu greinar er kveðið á um að veiðimálastjóri geti veitt undanþágu frá ákvæðum 5. og 6. mgr. að fengnu sérstöku mati á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins og aðliggjandi veiðivatna skv. 8. og 12. mgr. Í 8. mgr. segir að til þess að fá undanþágu frá banni skv. 5. og 6. mgr. þurfi veiðifélag eða eigandi veiðivatnsins sem áformar fiskrækt með framandi stofni eða flutning framandi stofns í veiðivatn að sækja um það til veiðimálastjóra. Undanþágu megi að hámarki veita til tveggja ára í senn og með umsókn skuli fylgja greinargerð um framkvæmdina, umsögn dýralæknis fisksjúkdóma um fisksjúkdóma og Veiðimálastofnunar um önnur hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið, þar með talda erfðamengun.

Ákvæði 5. - 12. mgr. 23. gr. laganna komu inn með 11. gr. laga nr. 50/1998 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum. Um flutning á hafbeitarlaxi í veiðiá gilti áður reglugerð nr. 401/1988 um flutning og sleppingu laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Í 5. mgr. 4. gr. nefndrar reglugerðar segir: "Óheimilt er að sleppa fiski í ár eða vötn til endurveiða nema notaður sé stofn af viðkomandi vatnasvæði. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá ákvæði þessu, að fengnu samþykki fisksjúkdómanefndar og viðkomandi veiðifélags."

Í upphafi almennra athugasemda þess frumvarps sem varð að lögum nr. 50/1998 segir að markmið breytinga með frumvarpinu sé meðal annars að treysta lagaákvæði er varða verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska. Um vernd og viðhald náttúrulegra laxastofna er fjallað í sérstökum kafla almennra athugasemda. Í kaflanum kemur fram að á undanförnum árum hafi komið upp vandkvæði við framkvæmd reglugerðar nr. 401/1988. Við setningu reglugerðarinnar hafi mönnum verið ljós sú hætta sem náttúrulegum stofnum geti stafað af fiskeldi, fiskrækt og flutningi fiska milli vatnakerfa til sleppingar. Mest hætta sé talin stafa af útbreiðslu fisksjúkdóma og óæskilegri blöndun erfðaefnis milli stofna sem þróast hafa aðskildir í þúsundir ára. Þá segir í kaflanum að helstu vandkvæði í framkvæmd laganna séu meðal annars tengd þeirri starfsemi að sleppa fullvaxta fiski (hafbeitarfiski) í ár og vötn til endurveiða og að óumdeilanlegt sé að flutningur á lifandi fiski til endurveiði auki hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma. Þá segir að með þessum breytingum á lögum sé stuðlað að því að ekki sé stefnt í óþarfa hættu þeim fjölbreytileika sem er ennþá í stofnum íslenskra laxfiska.

Að lokum segir í nefndum kafla almennra athugasemda að með frumvarpinu sé lagt til að með lögum sé tryggt að ákvarðanir stjórnvalds séu byggðar á faglegum grunni. Með umsókn til veiðimálastjóra, en henni beri að fylgja álitsgerð dýralæknis fisksjúkdóma og Veiðimálastofnunar, séu stjórnvaldi tryggðar faglegar úttektir óháðra aðila auk greinargerðar þess sem sækir um leyfi til framkvæmda.

Svo sem athugasemdir frumvarps til laga nr. 50/1998 bera með sér var fyrir gildistöku laganna byggt á því að landbúnaðarráðherra væri einungis heimilt að veita undanþágu frá banni við flutningi og sleppingu laxfiska í ár og vötn til endurveiða að því skilyrði uppfylltu að fisksjúkdómanefnd og viðkomandi veiðifélag hefðu gefið samþykki sitt. Þá bera ákvæði laganna sem og ofangreindar athugasemdir með sér að með lögum nr. 50/1998 sé ætlunin að tryggja við afgreiðslu umsókna um heimild til flutnings á framandi stofni í veiðivatni verði ennfremur byggt á mati á öðrum hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar á lífríkið, þar með talda erfðamengun. Má af þessu vera ljóst að forsendur fyrir undanþáguveitingu frá banni 5. og 6. mgr. 23. gr. eru aðrar en þær forsendur sem lágu að baki fyrri undanþágum landbúnaðarráðherra. Lög nr. 50/1998 voru samþykkt á Alþingi 28. maí 1998. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 9. febrúar s.l. og birtur 17. febrúar. Verður þegar af þessari ástæðu ekki fallist á að leyfisveitingar fyrri ára komi til athugunar vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Rétt er að vekja athygli á að þessi athugasemd hefur áður verið sett fram í úrskurði landbúnaðarráðherra þann 5. mars s.l.

Í bréfi veiðimálastjóra til umsækjenda, dags. 15. febrúar s.l., athugasemdum hans, dags. 26. mars, og í umsögn Veiðimálastofnunar, ódags., er endurtekið fjallað um fjárhagslegar afleiðingar sleppingu hafbeitarfisks í Hellisá og önnur veiðivötn. Svo sem ákvæði 7. og 8. mgr. 23. gr. lax- og silungsveiðilaga bera með sér, sem og lögskýringargögn, verður ekki byggt á fjárhagslegum sjónarmiðum, þar með talin hagrænum og félagslegum þáttum fiskiflutninga, né heldur byggðasjónarmiðum, við ákvörðun um veitingu undanþágu frá banni 6. mgr. 23. gr., og þá verður umsögn lögboðinna umsagnaraðila ekki byggð á þessum atriðum. Þau sjónarmið sem hér um ræðir eru ekki til þess fallin að ná fram markmiði lax- og silungsveiðilaga, sbr. sérstaklega almennar athugasemdir við frumvarp það sem varð að lögum nr. 50/1998, og eru því ómálefnaleg.

Ákvæði 7. mgr. 23. gr. laga um lax- og silungsveiði veita veiðimálastjóra heimild til að veita undanþágu frá bannákvæði laga. Slíka heimild ber að skýra þröngt. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 50/1998 um breytingu á lax- og silungsveiðilögum kemur fram að með lagabreytingunni sé stuðlað að því að ekki verði stefnt í óþarfa hættu þeim fjölbreytileika sem er ennþá í stofnum íslenskra laxfiska. Í máli því sem hér er til meðferðar liggur fyrir að ekki hefur tekist hingað til að fjarlægja sleppilax úr Hellisá á Síðu, sbr. greinargerð umsækjenda vegna veiða sumarið 1998, dags. 2. október 1998. Í greinargerðinni kemur fram að sannanlega hafi 315 fiskar komið upp úr ánni, en hins vegar hafi 627 fiskum verið sleppt í ánna. Engar staðfestar upplýsingar liggja fyrir um laxa sem ekki komu upp úr ánni, aðra en þá sem veiddust utan Hellisár samkvæmt skýrslu veiðimálastjóra. Þá liggur fyrir að sá hafbeitarfiskur sem sleppt hefur verið í Hellisá hefur náð að hrygna í ánni og leiddi seiðakönnun á síðastliðnu sumri í ljós að í Hellisá er nú nokkurt uppeldi af laxaseiðum. Þá benti þroski seiðanna til þess að áin nái að framleiða laxaseiði til niðurgöngu. Ennfremur hafa merktir laxar sem sleppt hefur verið í Hellisá komið fram í öðrum ám á vatnasvæðinu. Þannig liggja fyrir upplýsingar og rannsóknir sem sýna ótvírætt fram á að slepping á hafbeitarlaxi í þá tilteknu á sem hér um ræðir hefur sannanlega afleiðingar sem eru til þess fallnar að skapa hættu fyrir lífríki vatnasvæðisins, bæði vegna erfðamengunar og annarra vistfræðilegra áhrifa, en með vistfræðilegum áhrifum er í þessu tilviki átt við samkeppni náttúrulegra sjóbirtingsstofna og þeirra laxa sem alast upp í Hellisá og leita í aðrar ár á vatnasvæðinu við uppgöngu. Af þessum ástæðum og að framansögðu virtu, verður ekki fallist á þann úrskurð veiðimálastjóra að veita Veiðifélagi Hellisár leyfi til að sleppa hafbeitarlaxi í Hellisá á Síðu árin 1999 og 2000.

____________

Samkvæmt 8. mgr. 23. gr. lax- og silungsveiðilaga veitir dýralæknir fisksjúkdóma umsögn um fisksjúkdóma og Veiðimálastofnun um önnur hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið, þar með talda erfðamengun. Í umsögn Veiðimálastofnunar er vikið að sjúkdómahættu vegna flutnings á hafbeitarlaxi í Hellisá í sérstökum kafla og byggir niðurstöðukafli umsagnar stofnunarinnar meðal annars á sjúkdómahættu af flutningnum. Umsögn Veiðimálamálastofnunar er haldin annmarka að þessu leyti.


Niðurstaða:


Úrskurður veiðimálastjóra, sem auglýstur var í Lögbirtingarblaði 17. febrúar s.l., um tveggja ára undanþágu til handa Veiðifélagi Hellisár frá banni 6. mgr. 23. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970, með síðari breytingum, er felld úr gildi.

 

Guðmundur Bjarnason.


/Hjördís Halldórsdóttir.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta