Úrskurður 40/2024 Framboð til Alþingis
Tilvísun lks2024110004
Árið 2024, 3. nóvember kl. 15:00 kom landskjörstjórn saman til fundar í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu í Reykjavík til að úrskurða um gildi framboða við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024.
Fyrir er tekið framboð L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi og kveðinn upp svofelldur
úrskurður nr. 40/2024:
I.
Hinn 31. október 2024 klukkan 11:50 mætti fulltrúi L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Hörpu og afhenti landskjörstjórn meðmæli til stuðnings framboðslistanum og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram, öll rituð með eigin hendi á pappír, samtals 5 blaðsíður.
Sama dag klukkan 12:23 var tilkynningu skilað til landskjörstjórnar um framboð L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi við alþingiskosningar 30. nóvember 2024. Var tilkynningunni skilað með tölvupósti til landskjörstjórnar. Tilkynningunni fylgdi framboðslisti með nöfnum 10 frambjóðenda ásamt fullgildum rafrænum undirskriftum frambjóðenda þar sem þeir samþykkja að nöfn þeirra séu sett á framboðslistann. Framboðið skilaði jafnframt inn tilkynningu um tvo umboðsmenn listans sem taki við athugasemdum um galla sem kunna að vera á framboðinu og muni gæta réttar listans við undirbúning og framkvæmd kosninga ásamt samþykki þeirra auk meðmæla til stuðnings við framboðslistann og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram.
Síðar sama dag kannaði landskjörstjórn tilkynningu um framboð og framboðslista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi til kosninga til Alþingis, þau meðmæli sem framboðinu fylgdu og önnur fylgigögn. Könnunin leiddi í ljós að framboðslistanum og fylgigögnum var skilað eftir lok framboðsfrests.
Á grundvelli 1. mgr. 44. gr. kosningalaga nr. 112/2021 hélt landskjörstjórn fund klukkan 21:00 þann 31. október 2024 þar sem umboðsmönnum allra þeirra framboða sem skilað höfðu framboðslistum var veittur kostur á að vera viðstaddir. Á fundinum var ekki greint frá annmörkum á framboðslista L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi.
II.
Í kosningalögum nr. 112/2021 er fjallað um framboð og kosningar til Alþingis. Í 1. mgr. 36. gr. laganna segir að þegar alþingiskosningar fara fram eftir tilkynningu um þingrof, eins og við á í þessum alþingiskosningum, skulu öll framboð tilkynnt eigi síðar en kl. 12 á hádegi 30 dögum fyrir kjördag. Tilkynningin getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Við alþingiskosningar rannsakar landskjörstjórn framlögð gögn og gengur úr skugga um að uppfyllt séu skilyrði framboðs, sbr. 37. og 39. gr. kosningalaga nr. 112/2021.
Þann 23. október 2024 auglýsti landskjörstjórn hvenær hún tæki við framboðum vegna alþingiskosninga 2024. Í auglýsingunni kom fram að frestur til að skila inn framboðum væri til klukkan 12 á hádegi fimmtudaginn 31. október 2024. Í auglýsingunni kom fram að tekið væri við framboðum á ákveðnum tíma á tilteknum stöðum vítt og breytt um landið en einnig væri unnt að skila framboðum rafrænt. Í auglýsingunni var tekið fram að hægt væri að skila framboðum óháð kjördæmum. Sama dag, eða þann 23. október 2024, var opnað fyrir rafræn skil framboða á Ísland.is.
Heilt yfir gengu rafræn skil framboða mjög vel, en landskjörstjórn er þó kunnugt um að af og til komu upp villur sem ávallt var brugðist við eins fljótt og auðið var.
Í málinu liggur fyrir að framboðslista L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi var skilað rafrænt 23 mínútum eftir að framboðsfrestur rann út. Hins vegar voru fulltrúar listans mættir í Hörpu áður en framboðsfrestur rann út, en landskjörstjórn hafði auglýst að hún tæki þar við framboðum á milli klukkan 10:00-12:00 þann 31. október 2024. Þar afhentu fulltrúar L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt landskjörstjórn meðmæli til stuðnings framboðslistanum sem öll voru rituð eigin hendi á pappír, samtals 5 blaðsíður. Á fundinum kom fram, stutt gögnum, að vegna tæknilegra örðugleika við rafræn framboðsskil hefði ekki tekist að skila framboðslistanum tímanlega. Fulltrúum framboðslistans var leiðbeint að senda gögnin með tölvupósti á skrifstofu landskjörstjórnar.
Að bjóða fram til Alþingis eru grundvallar stjórnskipunarbundin réttindi og þurfa að vera fyrir hendi afar veigamiklar ástæður til þess að ógilda framboðslista. Ákvörðun um að ógilda framboðslista í heild sinni þegar framboðslistinn uppfyllir að öðru leyti lagaskilyrði er að mati landskjörstjórnar ekki í samræmi við sjónarmið um meðalhóf og þau grundvallar stjórnskipunarbundnu réttindi sem hér um ræðir. Þá ber að líta til þess að framboðslistinn uppfyllir skilyrði kosningalaga að öðru leyti.
Á grundvelli framangreinds telur landskjörstjórn að ekki séu fyrir hendi þeir gallar á framboðinu að það verði metið ógilt. Er það því niðurstaða landskjörstjórnar að framboð L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024 sé gilt.
Landskjörstjórn hefur kannað tilkynningu um framboð og framboðslista L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi til kosninga til Alþingis, þau meðmæli sem framboðinu fylgja og önnur fylgigögn. Könnunin leiddi í ljós að framboðið uppfyllir skilyrði kosningalaga nr. 112/2021.
Á grundvelli framangreinds er það niðurstaða landskjörstjórnar að framboð L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024 sé gilt.
ÚRSKURÐARORÐ
Framboðslisti L-lista Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt í Suðurkjördæmi við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024 er gildur.
Landskjörstjórn
Kristín Edwald formaður
Arnar Kristinsson
Elín Ósk Helgadóttir
Hulda Katrín Stefánsdóttir
Magnús Karel Hannesson