Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir landskjörstjórnar

Úrskurður 14/2024 Framboð til forseta Íslands

Tilvísun lks2024050001

 

Ár 2024, 2. maí kl. 16:00 kom landskjörstjórn saman á fundi í gegnum fjarfundarbúnað til að úrskurða um gildi framkomins framboðs Viktors Traustasonar til kjörs forseta Íslands 1. júní 2024. Var kveðinn um það svofelldur

ú r s k u r ð u r  nr. 14/2024:

I.

Hinn 26. apríl 2024 kl. 10:30 kom Viktor Traustason á fund landskjörstjórnar og skilaði tilkynningu um framboð til kjörs forseta Íslands. Athugun landskjörstjórnar á meðmælum þeim sem Viktor skilaði á pappír, að því marki sem unnt var að framkvæma hana með hliðsjón af þeirri skráningu sem þar kemur fram, ásamt þeim meðmælum sem gefin voru rafrænt, leiddi í ljós að framboðið uppfyllti ekki þau formskilyrði sem áskilið er. Var það mat landskjörstjórnar að um meiri háttar ágalla væri að ræða og þar af leiðandi var Viktori ekki veittur frestur á að bæta úr göllum er vörðuðu meðmælasöfnun hans. Kvað landskjörstjórn upp úrskurð sinn, hinn 29. apríl 2024, þar sem framboð Viktors til forsetakjörs 1. júní 2024 var ekki metið gilt. 

Hinn 29. apríl 2024 lagði Viktor fram kæru hjá úrskurðarnefnd kosningamála og greinargerð til stuðnings kærunni hinn 30. apríl 2024. Úrskurðarnefndin gaf landskjörstjórn kost á að koma með athugasemdir við greinargerð Viktors og skilaði landskjörstjórn umsögn sinni hinn 30. apríl 2024. 

Úrskurðarnefnd kosningamála kvað upp úrskurð sinn í málinu hinn 1. maí 2024 og felldi úr gildi úrskurð landskjörstjórnar um gildi framboðs Viktors til forsetakjörs 1. júní 2024. 

 

II.

Á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndar kosningamála gaf landskjörstjórn Viktori kost á að bæta úr skorti á meðmælum sínum, með því að bæta við upplýsingum, þ.e. er varðaði lögheimili og eftir atvikum kennitölum meðmælenda, á þá undirskriftalista sem skilað hafði verið á pappír og einnig að safna fleiri meðmælum. Opnað var nýju fyrir rafræna söfnun meðmæla á island.is að beiðni Viktors. Var honum veittur frestur til kl. 15:00 hinn 2. maí 2024 til að bæta úr göllunum. 

Að morgni 2. maí 2024 mætti Viktor á skrifstofu landskjörstjórnar og afhenti undirskriftalista sína á nýjan leik ásamt sérstöku skjali þar sem upplýsingar um nafn, kennitölu og lögheimili meðmælenda koma fram. Kl. 15:00 sama dag var lokað fyrir rafræna söfnun meðmæla með framboði Viktors til kjörs forseta Íslands.

 

III.

Landskjörstjórn hefur á ný kannað þau meðmæli sem fylgdu framboði Viktors ásamt þeim lagfæringum sem gerðar voru á þeim auk þeirra meðmæla sem síðar bættust við eftir að meðmælasöfnun var opnuð að nýju á island.is.

Við lok framlengds frests eru gild meðmæli með framboði Viktors samtals 1.982 á landinu öllu. Í Sunnlendingafjórðungi eru gild 936 meðmæli á pappír og 653 meðmæli gefin rafrænt; í Vestfirðingafjórðungi eru gild 66 meðmæli á pappír og 31 meðmæli gefin rafrænt; í Norðlendingafjórðungi eru gild 128 meðmæli á pappír og 66 meðmæli gefin rafrænt og í Austfirðingafjórðungi eru gild 60 meðmæli á pappír og 42 meðmæli gefin rafrænt. 

Könnunin leiddi þannig í ljós að framboðið uppfyllir bæði skilyrði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og kosningalaga nr. 112/2021.

Á grundvelli framangreinds er það niðurstaða landskjörstjórnar að framboð Viktors Traustasonar til kjörs forseta Íslands sé gilt. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Framboð Viktors Traustasonar til forsetakjörs 1. júní 2024 er gilt.

 

Landskjörstjórn,

Kristín Edwald formaður

Arnar Kristinsson

Ebba Schram

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Magnús Karel Hannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta