Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir landskjörstjórnar

Úrskurður 55/2024 Framboð til Alþingis

Tilvísun lks2024110005

 

Árið 2024, 3. nóvember kl. 15:00 kom landskjörstjórn saman til fundar í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu í Reykjavík til að úrskurða um gildi framboða við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024.

Fyrir er tekið framboð J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi og kveðinn upp svofelldur

úrskurður nr. 55/2024:

I.

Hinn 31. október 2024 klukkan 11:44 mætti fulltrúi J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi í Hörpu og afhenti landskjörstjórn meðmæli til stuðnings framboðslistans og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram öll rituð með eigin hendi á pappír, samtals 26 blaðsíður.

Sama dag kl. 12:19 var framboðslista með 28 nöfnum frambjóðenda skilað rafrænt til landskjörstjórnar f.h. J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi við alþingiskosningar 30. nóvember 2024 ásamt 21 fullgildri rafrænni undirskrift frambjóðenda og tveimur undirrituðum eigin hendi þar sem þeir samþykkja að nöfn þeirra séu sett á framboðslistann. Auk þess fylgdu upplýsingar um heiti stjórnmálasamtakanna sem bjóða listann fram og listabókstaf þeirra, tilkynning um umboðsmenn listans sem taki við athugasemdum um galla sem kunna að vera á framboðslistanum og munu gæta réttar listans við undirbúning og framkvæmd kosninga ásamt samþykki þeirra, auk rafrænna meðmæla til stuðnings framboðslistanum og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram. 

Síðar sama dag kannaði landskjörstjórn tilkynningu um framboð og framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi til kosninga til Alþingis, þau meðmæli sem framboðinu fylgdu og önnur fylgigögn. Könnunin leiddi í ljós að framboðslistanum og fylgigögnum var skilað eftir lok framboðsfrest og yfirlýsingar fimm frambjóðenda um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á framboðslistann, undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift í samræmi við a. lið 1. mgr. 39. gr. kosningalaga nr. 112/2021, skorti. 

Á grundvelli 1. mgr. 44. gr. kosningalaga nr. 112/2021 hélt landskjörstjórn fund klukkan 21:00 þann 31. október 2024 þar sem umboðsmönnum allra þeirra framboða sem skilað höfðu framboðslistum var veittur kostur á að vera viðstaddir. Á þeim fundi var m.a. tilkynnt að komið hefðu fram gallar á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi og að umboðsmönnum listans væri gefinn kostur á að bæta úr þeim göllum, sem lutu að því að yfirlýsingar fimm frambjóðenda skorti. Umboðsmenn J-lista Sósíalistaflokks Íslands upplýstu síðar að þeim hefði ekki borist fundarboðið.

Síðar sama kvöld, klukkan 22:55, sendi landskjörstjórn öllum umboðsmönnum J-lista Sósíalistaflokks Íslands tölvupóst með nánari upplýsingum um þá galla sem komið höfðu fram við yfirferð landskjörstjórnar á framboðslistum í öllum kjördæmum landsins og veitti þeim frest til klukkan 21:00 þann 1. nóvember 2024, í því skyni að bæta úr göllunum, í samræmi við heimild 1. mgr. 44. gr. kosningalaga nr. 112/2021.

Klukkan 15:22 þann 1. nóvember 2024 barst landskjörstjórn, í tölvupósti, samþykki fjögurra af þeim fimm frambjóðendum sem skorti, um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á framboðslistann, undirrituð með fullgildri rafrænni undirskrift. Frá einum frambjóðanda í 27. sæti barst hins vegar ekki undirritað samþykki samkvæmt kröfum kosningalaga nr. 112/2021.

Með tölvupósti sem sendur var til umboðsmanna J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi suður, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi klukkan 22:07 þann 1. nóvember 2024 óskaði landskjörstjórn m.a. eftir ítarlegum skýringum á ástæðum þess að framboðslistunum hefði ekki verið skilað innan tilgreinds frests. Var þess óskað að sendar yrðu skriflegar skýringar og önnur þau gögn sem skýrt gætu málið eigi síðar en kl. 14:00 þann 2. nóvember 2024.

Klukkan 13:24 þann 2. nóvember 2024 barst landskjörstjórn tölvupóstur frá kosningastjórn J-lista Sósíalistaflokks Íslands, ásamt sjö fylgiskjölum sem m.a. innihéldu andmæli til skýringar á skilaferli framboða J-lista Sósíalistaflokks Íslands. Þar er m.a. vísað til samskipta sem áttu sér stað við landskjörstjórn kl. 10:36 þann 31. október sl. þar sem því er lýst yfir að framboðið telji sig geta hafið skil á öllum framboðslistum, „þeir séu lögformlega tilbúnir m.v. þau þingsæti sem hvert kjördæmi telur“. Þá kemur fram að kl. 11:17 hafi komið upp villa við hin rafrænu framboðsskil sem seinkaði vinnsluferlinu við skil gagnanna. Þá var í andmælum óskað eftir fundi með landskjörstjórn til að gera munnlega grein fyrir sjónarmiðum framboðslistans.

Landskjörstjórn benti á í tölvupóstsamskiptum að metið yrði við yfirferð gagnanna hvort veittur væri frestur til að bæta úr göllum. Þá var sérstaklega áréttað mikilvægi þess að skila framboðslistum fyrir kl. 12:00 31. október sl. og að unnt væri að skila gögnum á fundi landskjörstjórnar í Hörpu fyrir sama tímamark.

Þann 2. nóvember kl. 18.30 varð landskjörstjórn við beiðni J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi suður, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi um fund þar sem fulltrúar framboðslistanna fóru yfir skriflegar athugasemdir sínar og ítrekuðu sjónarmið sín.

II.

Í kosningalögum nr. 112/2021 er fjallað um framboð og kosningar til Alþingis. Í 1. mgr. 36. gr. laganna segir að þegar alþingiskosningar fara fram eftir tilkynningu um þingrof, eins og við á í þessum alþingiskosningum, skulu öll framboð tilkynnt eigi síðar en kl. 12 á hádegi 30 dögum fyrir kjördag. Tilkynningin getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Við alþingiskosningar rannsakar landskjörstjórn framlögð gögn og gengur úr skugga um að uppfyllt séu skilyrði framboðs, sbr. 37. og 39. gr. kosningalaga nr. 112/2021. 

Þann 23. október 2024 auglýsti landskjörstjórn hvenær hún tæki við framboðum vegna alþingiskosninga 2024. Í auglýsingunni kom fram að frestur til að skila inn framboðum væri til klukkan 12 á hádegi fimmtudaginn 31. október 2024. Í auglýsingunni kom fram að tekið væri við framboðum á ákveðnum tíma á tilteknum stöðum vítt og breitt um landið en einnig væri unnt að skila framboðum rafrænt. Í auglýsingunni var tekið fram að hægt væri að skila framboðum óháð kjördæmum. Sama dag, eða þann 23. október 2024, var opnað fyrir rafræn skil framboða á Ísland.is. 

Heilt yfir gengu rafræn skil framboða mjög vel, en landskjörstjórn er þó kunnugt um að af og til komu upp villur sem ávallt var brugðist við eins fljótt og auðið var.

Í málinu liggur fyrir að framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi var skilað rafrænt 19 mínútum eftir að framboðsfrestur rann út. Hins vegar voru fulltrúar listans mættir í Hörpu áður en framboðsfrestur rann út, en landskjörstjórn hafði auglýst að hún tæki þar við framboðum á milli klukkan 10:00-12:00 þann 31. október 2024. Þar afhentu fulltrúar J-lista Sósíalistaflokks Íslands landskjörstjórn meðmæli til stuðnings framboðslistanum sem öll voru rituð eigin hendi á pappír, samtals 26 blaðsíður.

Við yfirferð gagnanna varð ljóst að framboðinu hefði verið unnt að skila tilkynningu um framboð, framboðslistanum og fylgigögnum með tölvupósti fyrir lok kærufrests.

Landskjörstjórn er skylt á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að veita þeim sem til stjórnvaldsins leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar. Í þeim málum sem um ræðir veitti landskjörstjórn ekki fullnægjandi leiðbeiningar um að jafnframt væri unnt að skila framboðum með tölvupósti. 

Öðrum framboðslista í sambærilegum aðstæðum, þ.e. þegar tæknileg villa kom upp, voru veittar þær leiðbeiningar af hálfu landskjörstjórnar að mögulegt væri að skila framboði með tölvupósti. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þá verður að líta svo á að um sambærileg tilvik hafi verið að ræða sem landskjörstjórn bar að afgreiða með sambærilegum hætti. 

III.

Fyrir liggur að samþykki eins frambjóðanda uppfyllir ekki skilyrði a. liðar 1. mgr. 39. gr. kosningalaga nr. 112/2021 um að vera undirritað eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Þar sem lögmælt samþykki umrædds frambjóðanda er ekki fyrir hendi lítur landskjörstjórn svo á að frambjóðandinn hafi ekki samþykkt að taka sæti á framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi með þeim hætti sem ákvæði a. liðar 1. mgr. 39. gr. kosningalaga nr. 112/2021 kveður á um.

 

Í 40. gr. kosningalaga nr. 112/2021 segir að frambjóðandi geti afturkallað samþykki sitt til framboðs á framboðslista stjórnmálasamtaka fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út, þ.e. klukkan 12:00 fimmtudaginn 31. október 2024 sl. Er því ekki fært að fjarlægja frambjóðanda af framboðslista og tilnefna nýjan í hans stað þegar frambjóðandi hefur sannarlega gefið samþykki sitt innan framboðsfrests. Hér er aftur á móti um að ræða þá stöðu að á  framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi vantar einn frambjóðanda. Með vísan til 40. gr. kosningalaga nr. 112/2021 verður að telja ljóst að eftir framangreint tímamark, þ.e. þegar framboðsfrestur er útrunninn, verður nýjum frambjóðendum ekki bætt við framboðslista hvort sem um er að ræða þá stöðu að frambjóðandi vilji afturkalla samþykki sitt til framboðs á framboðslista stjórnmálasamtaka eða lögskylt samþykki um að taka sæti liggur ekki fyrir.

 

Samkvæmt 42. gr. kosningalaga nr. 112/2021 um könnun á framboðslistum rannsakar landskjörstjórn framlögð gögn og gengur úr skugga um að uppfyllt séu skilyrði framboðs sbr. 37. gr. og 39. gr. laganna. Í 2. mgr. 42. gr. kosningalaga nr. 112/2021 segir að nema skuli burt af framboðslista öftustu nöfn sem eru fram yfir tilskilda tölu en ekki er fjallað um það tilvik er samþykki frambjóðanda liggur ekki fyrir. Í athugasemdum við 2. mgr. 42. gr. frumvarps til kosningalaga segir að hún sé samhljóða 1. og 2. mgr. 34. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og 2. málsl. 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 sem frumvarpinu var ætla að fella úr gildi. Í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis segir að berist yfirkjörstjórn listi er nafn manns stendur á án þess að leyfi hans fylgi, eða maður hefur leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, skuli yfirkjörstjórn nema það nafn burt af listanum eða listunum. Samsvarandi ákvæði var að finna í 27. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Við slík tilvik má ætla að sá sem á eftir kæmi á framboðslista hefði verið færður upp um sæti. Leiða má að því líkur að láðst hafi að færa ákvæði 2. mgr. 34. gr. eldri laga um kosningar til Alþingis í 2. mgr. 42. gr. núgildandi kosningalaga líkt og fram kemur í greinargerð  frumvarpsins.

 

Í 43. gr. kosningalaga nr. 112/2021 er fjallað um andlát frambjóðanda áður en kosning fer fram en eftir að framboðsfrestur er liðinn, og skal þá landskjörstjórn við alþingiskosningar, færa þá frambjóðendur sem koma á eftir hinum látna á listanum upp um sæti. Sambærilegt ákvæði um tilfærslu upp á við er að finna í 3. mgr. 65. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991. Í ákvæðinu segir m.a. að varamenn þingmanna taka þingsæti eftir reglum skv. 111. og 112. gr. kosningalaga nr. 112/2021 þegar þingmenn þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá og án tillits til þess hver þingmaður listans það er. Falli varamaður frá tekur sá varamannssæti sem næstur er í röðinni á lista.

 

Að mati landskjörstjórnar kemur til álita í því tilviki sem hér um ræðir að beita lögjöfnun frá framangreindum ákvæðum kosningalaga nr. 112/2021. Ekki er að finna almenna lagaheimild í íslenskum lögum fyrir beitingu lögjöfnunar en hún er viðurkennd og telst stjórnskipunarleg dómvenja, sem ekki verður breytt með almennum lögum. Þá telur landskjörstjórn rétt við þessar aðstæður að líta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem vísar til þess að stjórnvöld gæti hófs í meðferð valds síns. Þannig ber að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra sem athafnir stjórnvaldsins beinist að. Í því sambandi horfir landskjörstjórn til þeirra mikilvægu stjórnskipunarbundnu réttinda sem felast í því að geta boðið fram til Alþingis. 

 

Af því sem að framan greinir liggur fyrir að samþykki eins frambjóðanda um að taka sæti á framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi skortir og felur það í sér að galli er á framboðslistanum sem ekki hefur verið bættur þrátt fyrir að frestur til þess hafi verið veittur.

 

Líta ber til þess að framboðslistinn uppfyllir skilyrði kosningalaga um fjölda frambjóðenda í Suðvesturkjördæmi þar sem eru 14 þingsæti en samkvæmt 1. mgr. 37. gr. kosningalaga nr. 112/2021 skulu a.m.k. vera á framboðslista jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. 

 

Telur landskjörstjórn því rétt að fella frambjóðanda í 27. sæti á framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi af framboðslistanum enda skortir samþykki hans um að taka sæti á listanum. Þar sem ekki er heimilt að bæta nýjum frambjóðendum á framboðslista mun sá frambjóðandi sem næst kemur á listanum færast upp um sæti í stað þess sem fellur brott. Á framboðslista J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi voru 28 nöfn frambjóðenda við móttöku hans 31. október sl. Með því að fella einn frambjóðanda af framboðslistanum yrði hann skipaður 27 frambjóðendum sem myndi uppfylla skilyrði 1. mgr. 37. gr. kosningalaga nr. 112/2021 um fjölda frambjóðenda á lista. Enn fremur telur landskjörstjórn rétt við þessar aðstæður að horfa til athugasemdanna við 2. mgr. 42. gr. núgildandi kosningalaga sem raktar eru að framan. 

IV.

Að bjóða fram til Alþingis eru grundvallar stjórnskipunarbundin réttindi og þurfa að vera fyrir hendi afar veigamiklar ástæður til þess að ógilda framboðslista. Ákvörðun um að ógilda framboðslista í heild sinni þegar framboðslistinn uppfyllir að öðru leyti lagaskilyrði er að mati landskjörstjórnar ekki í samræmi við sjónarmið um meðalhóf og þau grundvallar stjórnskipunarbundnu réttindi sem hér um ræðir. Þá ber að líta til þess að framboðslistinn uppfyllir skilyrði kosningalaga að öðru leyti.

Á grundvelli framangreinds telur landskjörstjórn að ekki séu fyrir hendi þeir gallar á framboðinu að það verði metið ógilt. Er það því niðurstaða landskjörstjórnar að framboð J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024 sé gilt.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Framboðslisti J-lista Sósíalistaflokks Íslands  í Suðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis þann 30. nóvember 2024 er gildur með þeim frávikum sem að framan greinir.

 

Landskjörstjórn

 

Kristín Edwald formaður

Arnar Kristinsson

Elín Ósk Helgadóttir

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Magnús Karel Hannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta