Úrskurður 13/2024 Framboð til forseta Íslands
Tilvísun lks2024040007
Ár 2024, 29. apríl kl. 11:00 kom landskjörstjórn saman á fundi í Þjóðminjasafni Íslands til að úrskurða um gildi fram kominna framboða til kjörs forseta Íslands 1. júní 2024.
Fyrir er tekið framboð Viktors Traustasonar til kjörs forseta Íslands og kveðinn upp svofelldur
ú r s k u r ð u r nr. 13/2024:
Hinn 26. apríl 2024 kl. 10:30 kom Viktor Traustason á fund landskjörstjórnar og skilaði tilkynningu um framboð til kjörs forseta Íslands. Tilkynningin var undirrituð af Viktori og henni fylgdi undirskriftalisti meðmælenda til stuðnings framboðinu, samtals 62 blaðsíður. Á tilkynningarblaðinu kom fram að meðmælum væri einnig safnað rafrænt.
Á undirskriftalistanum sem skilað var á pappír eru rituð nöfn meðmælenda, kennitölur þeirra og dagsetning. Lögheimili meðmælenda eru ekki tilgreind og í sumum tilvikum ekki heldur kennitala hlutaðeigandi meðmælanda.
Þegar framboðsfrestur var liðinn, kl. 12:00 föstudaginn 26. apríl, lá fyrir að 69 einstaklingar höfðu mælt með framboði Viktors Traustasonar rafrænt inn á island.is
Í 2. mgr. 5. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir að forsetaefni skuli hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir síðan að í lögum um framboð og kjör forseta megi ákveða að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.
Í kosningalögum nr. 112/2021 er fjallað um framboð og kjör forseta Íslands. Í 1. mgr. 25. gr. þeirra laga segir að landskjörstjórn skuli auglýsa forsetakjör eigi síðar en þremur mánuðum fyrir kjördag og tiltaka hámarks- og lágmarkstölu meðmælenda forsetaefnis úr hverjum landsfjórðungi í réttu hlutfalli við kjósendatölu þar. Auglýsing um framboð og kjör forseta Íslands var birt í Stjórnartíðindum hinn 23. febrúar 2024 og þar var tiltekin hámarks- og lágmarkstala meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi.
Í 1. mgr. 50. gr. kosningalaga segir að framboðum til forsetakjörs skuli skila í hendur landskjörstjórnar ásamt samþykki forsetaefnis og nægilegri tölu kosningarbærra meðmælenda, sbr. 5. gr. stjórnarskrárinnar, eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag.
Landskjörstjórn hefur farið yfir þau meðmæli sem fylgja framboðstilkynningu Viktors Traustasonar.
Liggur fyrir að þau meðmæli sem gefin voru rafrænt eru gild og skiptast þau þannig; 59 í Sunnlendingafjórðungi, eitt í Vestfirðingafjórðungi, eitt í Norðlendingafjórðungi og átta í Austfirðingafjórðungi eða samtals 69 talsins.
Þau meðmæli sem gefin voru á undirskriftalista og skilað inn á pappír, tilgreina ekki lögheimili viðkomandi meðmælanda eins og áskilið er í ákvæði d. liðar 1. mgr. og 2. mgr. 39. gr. kosningalaga. Uppfylla meðmælin að þessu leyti því ekki ófrávíkjanleg skilyrði kosningalaga. Aukinheldur tilgreina sum þessara meðmæla ekki kennitölur viðkomandi meðmælanda eins og áskilið er í áður tilvitnuðum lagaákvæðum. Þar fyrir utan skortir verulega á að tilskildum lágmarksfjölda meðmælenda sé náð í Sunnlendingafjórðungi og Norðlendingafjórðungi.
Á grundvelli framangreinds er það niðurstaða landskjörstjórnar að framboð Viktors Traustasonar til kjörs forseta Íslands sé ekki gilt.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Framboð Viktors Traustasonar til forsetakjörs hinn 1. júní 2024 er ekki gilt.
Landskjörstjórn
Kristín Edwald, formaður
Arnar Kristinsson
Ebba Schram
Hulda Katrín Stefánsdóttir
Magnús Karel Hannesson