Ákvörðun sveitarfélags um að hafna forráðamanni barna aðgang að Mentor
Föstudaginn 7. júlí 2023 var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR
í stjórnsýslumáli nr. MRN23010168
I.
Kæra, kröfur og kæruheimild
Mennta- og barnamálaráðuneytinu barst hinn 18. janúar 2023, stjórnsýslukæra A (hér eftir nefndur „kærandi“). Í kærunni kemur fram að hún lúti að „ákvörðun [Y-skóla]/[sveitarfélagsins X] um að hafna forráðamanni barna aðgang að Mentor, er birt var 4. október 2022“. Í kæru krefst kærandi þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Um kæruheimild vísar kærandi til 1. mgr. 47. gr. laga, nr. 91/2008, um grunnskóla, sbr. einnig 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi viðbragða á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda mennta- og barnamálaráðherra.
II.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi upphaflega til Y-skóla, þar sem stjúpbörn hans stunda nám, þann 30. ágúst 2022, vegna vandkvæða við að stofna aðgang að Mentor kerfi stjúpbarna sinna og óskaði eftir leiðbeiningum frá skólanum. Með svari skólans, dags. 31. ágúst 2022, var kæranda tjáð að kærandi ,,finnist‘‘ ekki sem aðstandandi í kerfinu og var kærandi spurður um nöfn umræddra barna. Kærandi svaraði skólanum samdægurs og kvaðst vera forsjáraðili umræddra barna. Þann 3. október 2022 ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupósti til skólans.
Af þeim bréfaskiptum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að skólastjóri Y-skóla tjáði kæranda, með tölvupósti dags. 4. október 2022, að honum yrði ekki veittur aðgangur að Mentor kerfinu nema með skriflegu samþykki beggja foreldra umræddra barna. Í tölvupósti skólastjóra segir orðrétt: ,,Ég leitaði upplýsinga hjá lögmanni [sveitarfélagsins X] vegna þessa máls og fékk þetta svar: Það eitt og sér að barn búi á heimili stjúpforeldris er ekki nóg til þess að stjúpforeldrið fari með forsjá. Við setjum þig því ekki inn í Mentor nema með skriflegu samþykki beggja foreldra.‘‘
Með erindi til skólastjóra, dags. 4. október 2022, lýsti kærandi þeirri skoðun sinni að með framangreindu erindi skólastjóra til kæranda hefði verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli hans og óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir meintri stjórnvaldsákvörðun og krafðist þess að rökstuðningur skyldi berast honum eigi síðar en 18. október 2022. Kærandi ítrekaði beiðni um rökstuðning með erindi til skólastjóra, dags. 18. október 2022.
Þann 18. október 2022 svaraði skólastjóri kæranda og tilkynnti honum að sviðsstjóri Z-sviðs sveitarfélagsins X hefði tekið við málinu og myndi sjá um öll samskipti hvað það varðar. Í gögnum málsins liggur fyrir að umræddur sviðsstjóri sendi kæranda erindi, dags. 14. október 2022, þar sem kærandi er spurður hvort kærandi og sambúðarmaki hans, þ.e. móðir stjúpbarna hans, hafi gert samning um forsjá stjúpforeldris skv. 29. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, og ef slíkur samningur hefði verið gerður var óskað eftir afriti af honum. Með erindi til sviðsstjóra sveitarfélagsins, dags. 18. október 2022, lýsti kærandi sjónarmiði sínu um að fyrirspurn um tilvist framangreinds samnings hefði borist of seint, enda hefði að hans mati þegar verið tekin bindandi ákvörðun í málinu.
Með erindi til kæranda, dags. 19. október 2022, gerði sveitarfélagið grein fyrir þeim sjónarmiðum sem það byggir á þegar kemur að aðgangi að Mentor kerfinu og óskaði staðfestingar þess að kærandi færi með forsjá stjúpbarna sinna, sbr. 1. mgr. 29. gr. a barnalaga. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi svarað þessu erindi sveitarfélagsins.
III.
Málsmeðferð
Stjórnsýslukæra barst mennta- og barnamálaráðuneytinu þann 18. janúar 2023. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. febrúar 2023, var óskað eftir gögnum málsins ásamt afstöðu sveitarfélagsins X til þess hvort tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun í málinu, og ef svo væri, var óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til þess hvort meðferð málsins hafi uppfyllt reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Svör sveitarfélagsins bárust með tölvupósti 14. mars 2023.
Með erindi til kæranda, dags. 15. mars 2023, óskaði ráðuneytið eftir staðfestingu á því að fyrir liggi samningur á grundvelli 29. gr. a barnalaga nr. 76/2003, ásamt afriti af slíkum samningi væri hann til staðar. Þann 22. mars 2023 svaraði kærandi ráðuneytinu að slíkur samningur væri ekki til staðar.
Svör sveitarfélagsins voru send kæranda þann 23. mars sl. og honum gefinn kostur á að bregðast við þeim. Kæranda var gefinn frestur til 5. apríl sl. til andmæla. Þann 4. apríl sl. óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til 14. apríl og var viðbótarfrestur veittur kæranda. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu þann 14. apríl 2023.
IV.
Málsástæður
Kærandi telur að með tölvupósti skólastjóra, dags. 4. október 2022, hafi sveitarfélagið X tekið stjórnvaldsákvörðun um að hafna kæranda aðgangi að Mentor kerfinu vegna stjúpbarna kæranda. Að mati kæranda voru ágallar á málsmeðferð sveitarfélagsins við töku ákvörðunarinnar.
Kærandi telur að afgreiðsla og svör sveitarfélagsins beri merki um að það hafi ekki gætt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins og að afgreiðsla sveitarfélagsins hafi ekki fullnægt kröfum V. kafla stjórnsýslulaga.
Sveitarfélagið X telur að ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða með tölvupósti skólastjóra til kæranda, dags. 4. október 2022, heldur var um að ræða hluta af þjónustustarfsemi grunnskólans. Að mati sveitarfélagsins sé um að ræða athöfn sem er hluti af kennslustarfsemi sveitarfélagsins og þeirri þjónustu sem er veitt í tengslum við hana. Komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða byggir X á því að meðferð málsins hafi uppfyllt reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
V.
Rökstuðningur niðurstöðu
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. sama ákvæðis kemur fram sú regla að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Grundvöllur þess að mennta- og barnamálaráðuneytið geti tekið kæru þessa til efnislegrar úrlausnar er að sveitarfélagið X hafi tekið endanlega ákvörðun í máli kæranda.
Að mati ráðuneytisins bera gögn málsins með sér að ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu af hálfu X. Ráðuneytið fellst ekki á það með kæranda að erindi skólastjóra til kæranda 4. október 2022, beri með sér tilkynningu til kæranda um töku stjórnvaldsákvörðunar. Að mati ráðuneytisins bera gögn málsins, þar á meðal erindi sviðsstjóra Z-sviðs sveitarfélagsins til kæranda 14. október 2022 og tölvupóstur skólastjóra til hans 18. október 2022, með sér að sveitarfélagið hafði ekki lokið meðferð máls kæranda þegar kærandi tilkynnti sveitarfélaginu að hann teldi að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin. Með vísan til þessa er það niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytis að vísa beri stjórnsýslukæru kæranda frá.
Þá telur ráðuneytið ekki tilefni til frekari viðbragða gagnvart sveitarfélaginu X vegna máls kæranda. Fyrir liggur að sveitarfélagið hefur leiðbeint kæranda um að leggja fram gögn um hvernig forsjá barnanna, sem mál þetta lýtur að, er háttað en slíkar upplýsingar eru forsenda þess að unnt sé að taka afstöðu til réttar kæranda til upplýsinga um umrædd börn, skv. 18. gr. laga um grunnskóla, sbr. jafnframt 52. gr. barnalaga. Kæranda er leiðbeint um að verða við beiðni X um að leggja þessar upplýsingar fram hjá sveitarfélaginu. Verði kærandi ósáttur við afgreiðslu X í kjölfarið getur hann leitað aftur til ráðuneytisins vegna þess.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærunni er vísað frá.