Synjun um rétt til að nota starfsheitið kennari
Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. MMR21090236:
Kæra
Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst með tölvupósti stjórnsýslukæra þann 27. september 2021. Kærð er ákvörðun Menntamálastofnunar, dags. 28. júní 2021, um að synja A (hér eftir nefndur „kærandi“) um rétt til að nota starfsheitið kennari samkvæmt 4. gr. og 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.
Kæruheimild vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar um synjun er að finna í 4. mgr. 10. gr. laga, nr. 95/2019. Af kærunni verður ráðið að kærandi fari fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Menntamálastofnun verði gert skylt að gefa út leyfisbréf honum til handa.
Málsatvik
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi B.Ed. prófi í grunnskólakennarafræði frá Háskóla Íslands árið 2018, viðbótardiplóma í vefmiðlun frá Háskóla Íslands í febrúar 2020 og MA í hagnýtri menningarmiðlun í október 2020 frá Háskóla Íslands. Kærandi hefur óskað eftir að fá útgefið leyfi til að nota starfsheitið kennari og telur sig uppfylla hæfnikröfur í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.
Menntamálastofnun synjaði kæranda um útgáfu leyfisbréfs samkvæmt 4. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til skilyrða um útgáfu leyfisbréfs á grundvelli laganna. Umsækjandi skal hafa lokið meistaraprófi eða öðru prófi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi. Umsækjandi þarf að auki að uppfylla almenn skilyrði í uppeldis- og kennslufræðigreinum, auk sérhæfðrar hæfni samkvæmt 5. gr. laganna. Menntamálastofnun taldi kæranda ekki uppfylla skilyrði um þá almennu hæfni sem krafist er samkvæmt ákvæðinu, þ.e. um lok á lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræðigreinum og leiðbeindi kæranda um að leita til viðeigandi menntastofnunar um mat á því námi sem vantaði upp á til að kærandi hefði lokið fullnægjandi námi fyrir útgáfu leyfisbréfs. Kærandi óskaði eftir endurupptöku hinnar kærðu ákvörðunar um synjun með tölvupósti, dags. 30 ágúst 2021, en þeirri beiðni var synjað af Menntamálastofnun, dags. 9. september 2021, með vísan til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Málsmeðferð
Stjórnsýslukæran barst mennta- og menningarmálaráðuneyti eins og fram hefur komið þann 27. september 2021, vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar, dags. 28. júní 2021, um að synja kæranda um leyfisbréf til að nota starfsheitið kennari samkvæmt lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Ráðuneytið óskaði eftir mati hjá ENIC/NARIC skrifstofunni á námi kæranda 30. september 2021 og þar sem hin kærða ákvörðun fylgdi ekki með kærunni kallaði ráðuneytið eftir ákvörðuninni, umsögn um kæruna og fylgigögnum frá Menntamálastofnun 7. október 2021. Jafnframt var kæranda tilkynnt um að málsmeðferð vegna stjórnsýslukærunnar væri hafin í ráðuneytinu. Endurrit hinnar kærðu ákvörðunar, umsögn og önnur gögn bárust ráðuneytinu með tölvupósti 27. október 2021 frá Menntamálastofnun. Að auki fylgdi ákvörðun Menntamálastofnunar um synjun á endurupptöku á ákvörðuninni, dags. 9. september 2021. Kæranda var gefinn kostur á með bréfi, dags. 1. nóvember 2021, að bregðast við umsögn Menntamálastofnunar og barst ráðuneytinu svar frá kæranda 15. nóvember 2021. Ráðuneytið óskaði þar að auki eftir mati Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á námi kæranda með bréfi 11. nóvember 2021, en svarbréf barst frá háskólanum 7. desember 2021. Að lokinni gagnaöflun var málið tekið til úrskurðar í ráðuneytinu.
Málsástæður
Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, verður fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls og verða öll framkomin sjónarmið og málsástæður höfð til hliðsjónar við úrlausn þess svo og umsagnir sem liggja fyrir.
Málsástæður kæranda
Kærandi vísar til þess að hann telji sig uppfylla hæfnikröfur samkvæmt lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019 til þess að fá útgefið leyfisbréf. Kærandi vísar til námsloka sinna frá Háskóla Íslands, reynslu sem hann hafi öðlast og námskeiða sem hann hafi lokið.
Í viðbótargögnum tekur kærandi fram að hann telji sig eiga rétt til útgáfu leyfisbréfs til að nota starfsheitið kennari þar sem Menntamálastofnun hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir því hvað vanti upp á hæfni kæranda til að nota starfsheitið kennari samkvæmt lögum, nr. 95/2019.
Málsástæður Menntamálastofnunar
Í ákvörðun Menntamálastofnun kemur fram að kærandi uppfylli ekki almenn skilyrði 4. gr laga nr. 95/2019 um að hafa lokið 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræðigreinum. Menntamálastofnun hafi leiðbeint kæranda að leita til viðkomandi menntastofnunar um hvernig hann geti öðlast þá hæfni sem vanti upp á og gerð eru að skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfs samkvæmt 4. gr. og 9. gr. laga, nr. 95/2019. Í ákvörðun Menntamálstofnunar um synjun á endurupptöku, dags. 9. september 2021, komi fram að kærandi uppfylli ekki kröfur laga, nr. 95/2019 og að ekki hafi verið um að ræða nýjar upplýsingar sem uppfylli skilyrði til endurupptöku samkvæmt stjórnsýslulögum. Í umsögn Menntamálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 20. október 2021, er vísað til þess að til að öðlast leyfisbréf kennara skuli umsækjandi hafa lokið 120 námseininga meistaraprófi samkvæmt 9. gr. laganna sem og að sú reynsla sem kærandi vísar í og þau einstöku námskeið sem kærandi hafi tekið á ólíkum stöðum geti ekki fallið undir námseiningar í skilningi 5. mgr. 9. gr. laga, nr. 95/2019, en með námseiningum sé átt við ECTS námseiningar, sbr. einnig lög um háskóla, nr. 63/2006.
Umsögn ENIC/NARIC skrifstofunnar á Íslandi
Að mati ENIC/NARIC skrifstofunnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafi kærandi lokið 180 ECTS einingum í uppeldis- og kennslufræðum á bakkalárstigi og 100 ECTS einingum á meistarastigi. Hægt sé að meta B.Ed. námið á þrepi 5.2 í hæfniramma um íslenska menntun (ISQF). Viðbótardiplómapróf kæranda telst samsvara 60 einingum á þrepi 6.1 í ISQF. Kærandi hafi fengið 50 einingar metnar af viðbótardiplóma inn í meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun sem sé hægt að meta á þrepi 6.2. í ISQF.
Umsögn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Í umsögn Háskóla Íslands kemur fram það mat að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfs, enda hafi hann ekki lokið 120 námseiningum á meistarastigi eins og lög, nr. 95/2019 gera kröfu um.
Rökstuðningur niðurstöðu
Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, tóku gildi 1. janúar 2020. Með lögunum voru lögbundin tiltekin skilyrði um hæfni sem einstaklingar þurfa að fullnægja til að geta notað starfsheitið kennari hér á landi. Í lögunum er kveðið á um það nýmæli að eitt leyfisbréf er gefið út fyrir starfsheitið kennari sem gildir fyrir skólastigin þrjú, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og hefur sá einn rétt til að nota starfsheitið kennari sem hefur til þess leyfisbréf, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Að auki er það nýmæli í lögunum að fjallað er um hæfni kennara, sbr. 3.- 5. gr. laganna. Til að öðlast leyfisbréf samkvæmt gildandi lögum þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni samkvæmt 4. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga sem felur í sér að umsækjandi skuli hafa lokið að lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræði og hins vegar sérhæfðri hæfni samkvæmt 5. gr. laganna.
Kærandi hefur lokið B.Ed. prófi í grunnskólakennarafræði frá Háskóla Íslands árið 2018, viðbótardiplóma í vefmiðlun frá Háskóla Íslands í febrúar 2020 og MA í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands í október 2020, þar sem hluti af námi kæranda í vefmiðlun var metin inn í meistaranámið.
Skilyrði fyrir því að geta fengið útgefið leyfisbréf til að kalla sig kennari samkvæmt lögum, nr. 95/2019, er að viðkomandi hafi lokið meistaraprófi eða öðru námi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir. Umsækjandi um leyfisbréf skal hafa lokið 120 námseininga meistaraprófi samkvæmt 9. gr. laganna. Kærandi uppfyllir ekki þær lágmarkskröfur og þar með þau lögbundnu skilyrði til útgáfu leyfisbréf sem lögin gera til kröfu um að kennarar skuli hafa lokið 120 námseiningum á meistarastigi.
Kærandi uppfyllir ekki skilyrði laga, nr. 95/2019, til að fá útgefið leyfisbréf.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Menntamálastofnunar, dags. 28. júní 2021, um að synja umsókn kæranda um útgáfu leyfisbréfs, er staðfest.