Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun um rétt til að nota starfsheitið kennari

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. MMR21030093:

Kæra

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 9. mars 2021 stjórnsýslukæra, dags. 2. mars 2021, frá A (hér eftir nefndur „kærandi“). Kærð er ákvörðun Menntamálastofnunar, dags. 25. febrúar 2021, um að synja kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari samkvæmt 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Kæruheimild vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar um synjun er að finna í 4. mgr. 10. gr. laga, nr. 95/2019. Af kærunni verður ráðið að kærandi fari fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Menntamálastofnun verði gert skylt að gefa út leyfisbréf honum til handa.

Málsatvik

Kærandi lauk námi sem líffræðikennari við Háskólann B árið 1993 og hefur óskað eftir að fá útgefið leyfi til að nota starfsheitið kennari hér á landi samkvæmt lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Málsmeðferð

Kæran barst ráðuneytinu 9. mars 2021, en þar sem upplýsingar um hina kærðu ákvörðun lágu ekki fyrir var kallað eftir ákvörðuninni með bréfi ráðuneytisins til Menntamálastofnunar, dags. 8. apríl 2021. Endurrit hinnar kærðu ákvörðunar barst frá Menntamálastofnun 19. apríl 2021. Leitað var álits ENIC/NARIC skrifstofunnar á Íslandi um kæruna með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. apríl 2021. Umsagnir Menntamálastofnunar ENIC/NARIC bárust ráðuneytinu 3. maí 2021. Ráðuneytið sendi kæranda báðar umsagnir til athugasemda með bréfi, dags. 6. maí 2021, jafnframt því sem kæranda var veitt tækifæri til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Ráðuneytinu bárust ekki athugasemdir eða viðbótargögn frá kæranda og var málið því tekið til úrskurðar 29. júní 2021.

Málsástæður

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, verður fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls og verða öll framkomin sjónarmið og málsástæður höfð til hliðsjónar við úrlausn þess svo og umsagnir sem liggja fyrir.

Málsástæður kæranda

Í stjórnsýslukæru vísar kærandi til 11. gr. laga nr. 95/2019 sem fjallar um réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA. Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi með upprunalegu prófskírteini frá Háskólanum í B og löggilta þýðingu þess. Kærandi telur sig uppfylla skilyrði 11. gr. laganna því að B sé aðildarríki EFTA og að kennsluréttindi sem gefin eru út í B gildi einnig á Íslandi í samræmi við ákvæðið. Að auki heldur kærandi því fram að Menntamálastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi mat á kennsluréttindin.

Málsástæður Menntamálastofnunar

Í umsögn Menntamálastofnunar kemur fram að stofnunin hafi aflað upplýsinga frá ENIC/NARIC skrifstofunni á Íslandi sem sérhæfir sig í því að meta með áreiðanlegum hætti nám og prófgráður. Fram kemur í umsögninni að á þeim tíma sem kærandi lauk námi hafi próf hans C verið skilgreint á þrepi VII-1 í menntakerfi B, en nú sé litið á próf kæranda sem jafngildi Magistar-prófgráðu í heimaríkinu. Af þeim 34 námskeiðum sem kærandi lauk í náminu séu þrjú námskeið sem samsvari 21 ECTS einingu í kennslu- og uppeldisfræðum. Til viðbótar liggi fyrir námsyfirlit frá Háskóla Íslands, dags. 18. janúar 2021, um að kærandi hafi lokið til viðbótar við nám sitt 15 ECTS einingum í kennslu náttúrugreina við Háskóla Íslands. Í gögnunum komi fram að kærandi hafi á þeim tíma sem hann var í námi í B getað bætt við sig tveggja ára námi til Magistar-prófs á þrepi VII-2 í B, sem kærandi hafi ekki gert. Menntamálastofnun hafi leiðbeint kæranda að leita til viðkomandi menntastofnunar um hvernig hann gæti öðlast þá almennu hæfni sem krafist er í 4. gr. laga nr. 95/2019.

Umsögn ENIC/NARIC skrifstofunnar á Íslandi

Það er mat ENIC/NARIC skrifstofunnar að kærandi hafi alls lokið 36 einingum í kennslu- og uppeldisfræði að meðtöldum 15 ECTS einingum frá Háskóla Íslands. Í umsögninni kemur jafnframt fram að menntamálayfirvöld í B hafi áður skilgreint nám kæranda á þrepi VII-1 í þarlendu menntakerfi þrátt fyrir að nú sé litið á próf kæranda sem sambærilegt námi til Magistar-prófs á þrepi VII-2. Það er því mat ENIC/NARIC skrifstofunnar að nám kæranda sé sambærilegt þriggja til fjögurra ára bakkalárprófum frá íslenskum háskólum á þrepi 5.2. í hæfniramma um íslenska menntun (ISQF).

Rökstuðningur niðurstöðu

Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019 tóku gildi 1. janúar 2020. Nýmæli er í lögunum að eitt leyfisbréf er gefið út fyrir starfsheitið kennari sem gildir fyrir skólastigin þrjú, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og hefur sá einn rétt til að nota starfsheitið kennari sem hefur til þess leyfisbréf, sbr. 9. gr. laganna. Að auki er nýmæli í lögunum að fjallað er um hæfni kennara, sbr. 3.- 5. gr. laganna. Til að öðlast leyfisbréf þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni samkvæmt 4. gr. laganna sem felur í sér að umsækjandi skuli hafa lokið að lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræði og hins vegar sérhæfðri hæfni samkvæmt 5. gr. laganna.

Óumdeilt er að háskólinn B þar sem kærandi lauk námi sínu er viðurkenndur háskóli af þar til bærum menntayfirvöldum. Samkvæmt lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010 geta þeir einstaklingar sem hafa hug á að starfa hér á Íslandi og eru ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og uppfylla skilyrði í þeirri starfsgrein sem til þarf og hafa fengið leyfi getað stundað það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir þegnar. Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi sem leggur mat á þá faglegu menntun sem viðkomandi hefur hlotið. Lög nr. 26/2010 veita þó ekki sjálfkrafa rétt til að starfa við það starf sem einstaklingur hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfi til. Menntamálastofnun staðfestir leyfi til að nota starfsheitið kennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum ef viðkomandi leggur fram viðurkennd vottorð um kennsluréttindi í samræmi við skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, sbr. 11. gr. laga nr. 95/2019. B er hvorki aðildarríki EFTA né Evrópusambandsins. Í gildi er fríverslunarsamningur milli EFTA ríkjanna og B sem var gerður Y. B sótti um aðild að Evrópusambandinu Q og er ráðgert að aðildarviðræðum ljúki P. B er samkvæmt þessu ekki aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu og fellur kærandi því ekki undir lög nr. 26/2010 eða uppfyllir skilyrði 11. gr. laga nr. 95/2019.

Skilyrði fyrir því að geta fengið útgefið leyfisbréf til að kalla sig kennari samkvæmt lögum nr. 95/2019 er að viðkomandi hafi lokið meistaraprófi eða öðru námi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir. Umsækjandi um leyfisbréf verður ávallt að uppfylla lágmarksskilyrði um almenna hæfni samkvæmt 4. gr. laganna, þ.e. hafa lokið 60 ECTS einingum á meistarastigi í uppeldis- og kennslufræðigreinum. Kærandi uppfyllir ekki þær lágmarkskröfur en nám kæranda samsvarar bakkalársprófi hér á landi samkvæmt þrepi 5.2 í hæfniramma um íslenska menntun (ISQF) 5.2 sem byggður er á evrópska hæfnirammanum (EQF).

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 9. gr. laga nr. 95/2019 fyrir útgáfu leyfisbréfs kennara, sbr. 4. gr. laganna sem kveður á um að kennarar skuli hafa öðlast almenna lágmarkshæfni á meistarastigi í uppeldis- og kennslufræðigreinum. Hin kærða ákvörðun er staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Menntamálastofnunar um að synja umsókn kæranda um útgáfu leyfisbréfs er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta