Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu á námsstyrk

Ár 2013, föstudagurinn 22. nóvember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Kröfur aðila.

Með bréfi sem barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þann 18. september sl. kærði A f.h. barns síns B (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir kærði), dags. 3. júlí sl., um að synja umsókn kæranda um greiðslu jöfnunarstyrks fyrir vorið 2013 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

Kærandi fer fram á að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður jöfnunarstyrkur fyrir vorönnina 2013.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

II.

Málsatvik.

Kærandinn, sem stundar nám við [framhaldsskólann] X, sótti um akstursstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir vorönnina 2013. Með bréfi kærða, dags. 3. júlí sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að kærandi uppfylli ekki skilyrði 6. gr. reglugerðar um námsstyrki um að nemandi stundi nám fjarri lögheimili og fjölskyldu þar sem hann eigi foreldri í nágrenni við skóla.

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 18. september sl. Með bréfi, dags. 23. september sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 9. október sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. október sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi móttekið þann 29. október sl.

Samkvæmt 3-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er gerður með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um Stjórnarráðið nr. 115/2011 kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með námsaðstoð, þar á meðal: námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi telur að þar sem hann búi hjá móður sinni og systkinum í Y, sé með lögheimili sitt skráð þar og keyri daglega til og frá skóla þá eigi hann rétt á aksturstyrk skv. 6. gr. reglugerðar um námsstyrki. Það eitt að faðir kæranda búi í Z getur ekki talist réttmæt ástæða til að hafa þennan styrk af honum, sérstaklega þar sem hann búi ekki hjá föður sínum.

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 1. október sl., segir að skv. 6. gr. reglugerðar um námsstyrki sé það skilyrði fyrir akstursstyrk að lögheimili nemenda sé ekki í nágrenni við skóla, sbr. yfirlit á fylgiskjali með reglugerðinni og að nemendur stundi nám fjarri lögheimili og fjölskyldu. Við innra eftirlit hjá nefndinni kom í ljós að kærandi eigi foreldri í nágrenni við skóla og því var það niðurstaða nefndarinnar að hann væri ekki styrkhæfur.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki nr. 79/2003 er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta m.a. þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og geta ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu eða öðrum jafngildum dvalarstað. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003.

Mennta- og menningamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um það skilyrði fyrir úthlutun akstursstyrk að nemandi verði að sækja skóla frá lögheimili og fjölskyldu. Í c-lið 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið fjölskylda skilgreint þannig að með því sé átt við foreldra nemanda, sé þeim til að dreifa – nánar tiltekið kynforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra eða kjörforeldra, en ella ömmur og afa nemanda; maka samkvæmt hjúskap aðila, maka samkvæmt staðfestri samvist eða maka samkvæmt skráðri sambúð í þjóðskrá, svo og börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, stjúpbörn, fósturbörn eða kjörbörn. Í b-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er tekið fram skilyrðið að lögheimili nemanda megi ekki vera í nágrenni við skóla, sbr. yfirlit á fylgiskjali yfir staði sem teljast í nágrenni skóla í þessu samhengi.

Niðurstaða.

Niðurstaða þessa máls ræðst af því hvort að kærandi, sem stundar nám við [framhaldsskólann] X og á lögheimili hjá móður sinni í Y, uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um námsstyrki um að hann teljist þurfa að sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu.

Markmið laga um námsstyrki er að finna í 1. gr. laganna en þar er tekið fram að ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum og háskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrgðum. Nemendur þeir sem sækja um umrædda styrki þurfa svo að uppfylla skilyrði laganna og reglugerðar til að hljóta styrki. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni.

Í máli þessu er um að ræða túlkun á reglugerðarákvæði um hvort að kærandi uppfylli skilyrðið að sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu. Samkvæmt orðanna hljóðan uppfyllir hann skilyrðið að sækja skóla frá lögheimili sínu þar sem hann býr í Y hjá móður sinni en skv. túlkun námsstyrkjanefndar uppfyllir hann ekki skilyrðið að sækja skóla frá fjölskyldu sinni þar sem að faðir kæranda býr í nágrenni við skólann.

Ekki verður séð af gögnum málsins að kærandi búi hjá föður sínum né að námsstyrkjanefndin hafi veitt kæranda andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga telji hún að svo sé en fram kemur í 13. gr. stjórnsýslulaga að aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Frumkvæðisskylda hvílir á stjórnvöldum að veita aðila andmælarétt þegar honum er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans og að telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins. Námsstyrkjanefnd byggði ákvörðun sína á upplýsingum sem hún fékk við innra eftirlit hjá nefndinni sjálfri og ekki er að sjá á gögnum málsins að kærandi hafi fengið möguleika á að koma að andmælum. Slík málsmeðferð telst haldin verulegum annmarka og er ákvörðunin á þeim grundvelli ógildanleg.

Þegar kemur að túlkun ákvæða reglugerðar um námsstyrki verður að skoða hvert sé markmið og tilgangur laganna um námsstyrki. Markmiðið kemur skýrt fram í 1. gr. laganna eins og fyrr er greint frá og líta verður svo á að þegar fjallað er um skilyrðið að sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu er átt við þá fjölskyldu sem að aðili er með lögheimili hjá. Ekki er fallist á það sjónarmið kærða að lögheimili annars foreldris kæranda í nágrenni við skóla staðfesti búsetu kæranda hjá því. Verður því í úrskurði þessum byggt á lögheimilisskráningu og staðhæfingum kæranda að hann sé búsettur í Y hjá móður sinni og því sótt skóla fjarri lögheimili og fjölskyldu.

Í þessu máli er kærandi með lögheimili hjá móður sinni í Y. Hann stundaði nám við X og því er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi, eins og á stóð, uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um námstyrki og eigi því rétt á akstursstyrk vegna náms á vorönn 2013. Því ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 3. júlí 2013, er felld úr gildi. Kærandi, B, skal njóta réttar til akstursstyrks vegna náms við X á vorönn 2013.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta