Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu námsstyrks

Ár 2013, miðvikudaginn 8. maí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Kröfur aðila.

Með tölvubréfi sem barst mennta- og menningarmálaráðuneyti, þann 14. desember 2012, kærði A f.h. […] B (hér eftir […] kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 6. desember 2012, um að synja umsókn [kæranda] um greiðslu námsstyrks fyrir skólaárið 2011-2012 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir skólaárið 2011-2012.

Af hálfu kærða má skilja sem svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

II.

Málsatvik.

Kærandinn, sem stundaði nám við [framhaldsskólann] M, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2011-2012. Með bréfi kærða, dags. 12.  mars sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að nám á […] M félli ekki undir ákvæði laga um framhaldsskóla en skv. a-lið 1. gr. reglugerðar um námstyrki nr. 692/2003 ætti nemandi rétt á jöfnunarstyrk stundaði hann reglubundið nám á framhaldsskólastigi sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, með áorðnum breytingum. Ákvörðun námsstyrkjanefndar um að synja kæranda um námsstyrk vegna náms við M skólaárið 2011-2012, dags. 12. mars 2012, var felld úr gildi með úrskurði ráðuneytisins dags. 17. ágúst 2012 og lagt fyrir nefndina að taka málið fyrir að nýju með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er fram komu í úrskurðinum.  Ný ákvörðun námsstyrkjanefndar vegna máls þessa var tekin 6. desember sl. á sama grundvelli.

 

Með tölvubréfi, dags. 14. desember sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til ráðuneytisins. Samkvæmt 5. gr. B-liðar forsetaúrskurðar nr. 100/2012 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er kveðinn upp með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um Stjórnarráðið nr. 115/2011 kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneyti fari með námsaðstoð, þar á meðal: námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin eins og fyrr greinir, 14. desember 2012. Með bréfi, dags. 2. janúar 2013, leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Eftir tvær ítrekanir ráðuneytisins til kærða barst umsögn hans þann 5. febrúar 2013. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2013, voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi dags. 13. febrúar 2013.

 

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi stundað nám við M. Hann hafi sótt um jöfnunarstyrk haustið 2011. Hann hafi fengið synjun frá námsstyrkjanefnd á þeim grundvelli að M félli ekki undir ákvæði laga um framhaldsskóla eins og krafa er gerð um í a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003. Sú ákvörðun var kærð og námsstyrkjanefnd gert að taka málið fyrir að nýju. Kærandi kærði nýja ákvörðun námsstyrkjanefndar þar sem honum er aftur synjað um styrkveitingu á grundvelli þess að M félli ekki undir ákvæði laga um framhaldsskóla eins og krafa er gerð um í a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003. Kærandi bendir á að skv. a-lið 1. gr. sömu reglugerðar er einnig að finna heimild til handa námsstyrkjanefnd að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi. Hann bendir á að námsstyrkjanefnd hafi ekki svarað sér hvort að M falli þar undir en kærandi bendir á að hann hafi fengið metnar allar einingar sínar inn í annan framhaldsskóla og telur þar með að skólinn hljóti að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um hliðstætt nám.

 

Aftur vísar kærandi í skýrslu sem menntamálanefnd Alþingis hefur gefið út en þar kemur fram að allt starf innan M væri í lagi en […].

 

Að lokum bendir kærandi á að með þessari ákvörðun námsstyrkjanefndar hafi verið brotið á jafnræði. Þar sem að tveir nemendur M fengu mismunandi afgreiðslu á styrkumsóknum sínum. Annar nemandinn var við nám á öðru ári en kærandi á fyrsta. Hinn nemandinn hafi fengið fullan styrk en kærandi synjun þrátt fyrir að báðir þessir nemendur sátu oft sömu tímana.

 

Með vísan til ofangreinds telur kærandi að nám við M skuli vera styrkhæft skv. a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003.

 

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 31. janúar sl. en móttekið 5. febrúar 2013, segir að í bréfi nefndarinnar, dags. 29. ágúst 2012 og aftur 12. október 2012, hafi nefndin leitað eftir mati ráðuneytisins á því hvort nám við M hefði haft viðurkenningu ráðuneytisins sem einkaskóli á framhaldsskólastigi á skólaárinu 2011-2012. Í bréfi ráðuneytisins dags. 19. september 2012 og aftur 26. nóvember 2012 kemur það fram að M hafði viðurkenningu ráðuneytisins skólaárið 2011-2012 en það skólaár var hún takmörkuð við nemendur sem stunduðu nám á lokaári í skólanum.

 

Nefndin hafi reynt að meta hvort að nám á […] árinu geti talist hliðstætt nám skv. a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki en ekki getað metið slíkt þar sem ekki hafi fengist úr því skorið hvort að aðrir skólar meti námið.

 

Telja má af gögnum málsins að kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fari fram á að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

 

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneyti setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

 

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. mgr. a-lið 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur sem stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla. Í 2. mgr. a-liðar 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að námsstyrkjanefnd er heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi.

Niðurstaða.

Umsókn kæranda um jöfnunarstyrk fyrir skólaárið 2011-2012 var aftur synjað þann 6. desember sl. Ekki var tekin afstaða til þess í málinu af hálfu námsstyrkjanefndarinnar hvort að M félli undir skilgreiningu 2. mgr. a-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 692/2003 um námsstyrki, um hliðstætt nám sem námsstyrkjanefnd er heimilt að styrkja, þrátt fyrir að úrskurður ráðuneytisins dags. 17. ágúst 2012 hafi farið fram á slíkt mat. Það var heldur ekki rannsakað hvort að nám það sem um hér ræðir hafi verið metið í aðra framhaldsskóla hér á landi.

Ekki verður séð að námsstyrkjanefnd hafi tekið afstöðu til þess hvort að M uppfylli skilyrði reglugerðarinnar á þann hátt að þeir nemendur sem uppfylla önnur skilyrði hennar teljist styrkhæfir skv. 2. mgr. a-liðar 1. gr. reglugerðarinnar eins og úrskurður ráðuneytisins dags. 17. ágúst 2012 gerir ráð fyrir og telst málið þannig aftur vanreifað af hálfu nefndarinnar. Einnig ber að taka fram að námsstyrkjanefndin rannsakaði heldur ekki hvort það nám sem hér um ræðir hafi verið metið í aðra framhaldsskóla. Með því að taka ekki afstöðu til þess ákvæðis telur ráðuneytið að námsstyrkjanefnd hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Því ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun námsstyrkjanefndar um að synja B um námsstyrk vegna náms við M skólaárið 2011-2012, dags. 6. desember 2012, er felld úr gildi.  Lagt er ítrekað fyrir námsstyrkjanefnd að taka málið fyrir að nýju með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er framkoma í úrskurði þessum.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta