Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Vísun nemanda ótímabundið úr framhaldsskóla

Ár 2019, 14. febrúar, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MMR18030193

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 19. mars 2018 erindi Ólafs Garðarssonar hrl., fyrir hönd A, [], og B, [], (hér eftir „kærendur“) forráðamanna C, [], (hér eftir „nemandinn“) sem vísað var úr [framhaldsskólanum] X (hér eftir „X“ eða „skólinn“) með bréfi 22. desember 2017. Erindi lögmannsins er stjórnsýslukæra þar sem krafist er að ákvörðun X frá 22. desember 2017 um brottvísun nemandans verði ógild og að ráðherra hlutist til um að nemandanum verði leyft að snúa aftur til náms í X. Til vara er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að valið verði vægara úrræði en brottvísun. Kæruheimild vegna ákvörðunar X í fyrirliggjandi máli er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. gr. og 5. mgr. 33. gr. a. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

II.

Málsatvik

Í kæru er sett fram stutt lýsing á forsögu málsins en þar kemur fram að nemandinn, sem er [] ára gamall, hafi borið á sér hníf þegar hann sótti tíma í X. Þá kemur fram í skýrslu lögreglu frá 21. nóvember 2017 að aðstoðarskólameistari X hafi hringt í lögreglu 14. nóvember 2017 vegna þess að nemandinn hafi tekið upp fjaðurhníf í skólatíma. Kennarinn hafi beðið hann um að afhenda sér hnífinn en nemandinn hafi þá látið annan nemanda hafa hann. Kennarinn hafi síðan fengið hnífinn hjá þeim nemanda, en hnífurinn hafi verið stunguhnífur með níu sentimetra löngu blaði.

Í kæru kemur fram að 14. nóvember 2017 hafi skólasystir nemandans óskað eftir að fá að skoða hnífinn og hafi hann leyft henni það. Stúlkan hafi opnað hnífinn án þess að ætla sér það og vakið þannig athygli annarra. Hafi kennarinn þá orðið var við hnífinn og tekið í sínar vörslur. Hafi skólayfirvöld í kjölfarið tekið hnífinn og tilkynnt atvikið til lögreglu og krafist atbeina hennar. Lögregla hafi tekið hnífinn í sína vörslu og rætt við nemandann.

Með bréfi 21. nóvember 2017 tilkynntu skólayfirvöld kærendum þá fyrirætlun sína að vísa nemandanum úr skólanum. Í kjölfar þessa funduðu kærendur í tvígang með stjórnendum. Kærendum var gefinn frestur til að skila andmælum til 8. desember 2017 og barst kærendum niðurstaða í málinu 28. desember 2017.

III.

Málsmeðferð

Kæra barst ráðuneytinu 19. mars 2018. Lögmaður kærenda sendi viðbótargögn með tölvupósti þann 4. ágúst 2018. Með tölvupósti 25. ágúst 2018 til skólameistara X var óskað eftir afstöðu skólans til þess sem fram kom í kæru og sérstaklega var óskað upplýsinga um hvaða úrræði skólinn hafði gripið til áður en til brottvísunar hafi komið. Þá var óskað eftir frekari gögnum um málið, t.d. skráningum um fundi eða samskipti sem hafi átt sér stað. Var X veittur frestur til 9. maí 2018 til að svara.

Afstaða X til kærunnar ásamt viðbótargögnum, þ.e. viðvörun vegna brota nemandans á reglum X og útprentun úr INNU, námsumsjónarkerfi framhaldsskóla, á athugasemdum vegna nemandans, barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 8. maí 2018. Með tölvupósti sama dag var lögmanni kæranda send afstaða X og óskað var eftir frekari afstöðu kærenda til þeirra fullyrðinga sem þar komu fram og að frekari gögn yrðu lögð fram sem gætu varpað ljósi á málsatvik. Viðbrögð kærenda bárust með bréfi 16. ágúst 2018.

Með bréfi 18. október 2018 var kærendum tilkynnt að vegna anna í ráðuneytinu yrðu tafir á meðferð og afgreiðslu málsins en leitast yrði við að ljúka afgreiðslu þess innan þriggja mánaða.

Þann 3. janúar 2019 barst ráðuneytinu önnur stjórnsýslukæra frá kærendum vegna synjunar X um innritun nemandans á vormisseri 2019.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis 9. janúar 2019 til ráðuneytisins kom fram að kærendur hafi leitað til embættisins og kvartað yfir því að ráðuneytið hafi ekki úrskurðað í málum þeirra. Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvað líði meðferð og afgreiðslu á erindum kærenda hjá ráðuneytinu.

Með tölvupósti 23. janúar 2019 frá skólameistara X var ráðuneytinu tilkynnt að gengið hafi verið frá samningi við nemandann um innritun hans á vorönn 2019.

IV.

Málsástæður

Málsástæður kæranda

Kærendur krefjast aðallega ógildingar á ákvörðun skólayfirvalda X og að ráðherra hlutist til um að nemandanum verði leyft að snúa aftur til náms í skólanum. Til vara krefjast þau að ákvörðun skólayfirvalda verði breytt þannig að valið verði vægara úrræði en brottvísun.

Kærendur telja hina kærðu ákvörðun ógilda og ógildanlega. Almennar meginreglur stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga hafi verið brotnar, einkum andmælareglan, jafnræðisreglan, rannsóknarreglan og meðalhófsreglan. Þá hafi ekki verið gætt að lögmætum sjónarmiðum, réttur nemanda til náms ekki nægjanlega virtur, ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við lög um framhaldsskóla eða skólareglur X. Loks hafi rökstuðningur fyrir beitingu undantekningarreglu um brottvísun án undanfarandi áminningar verið ófullnægjandi. Einnig telja kærendur að aðstoðarskólastjóri hafi verið vanhæfur til töku hinnar kærðu ákvörðunar og ákvörðunin af þeim sökum ógild eða ógildanleg.

Kærendur vísa til þess að rannsókn skólayfirvalda hafi verið ófullnægjandi, málið ekki fyllilega upplýst og að byggt hafi verið á ósönnuðum fullyrðingum sem ekki hafi verið bornar undir málsaðila við töku ákvörðunar. Ekkert renni stoðum undir þær fullyrðingar skólayfirvalda að hætta hafi skapast af háttsemi nemandans, raskað hafi verið ró samnemenda og öryggistilfinning þeirra hafi beðið tjón.

Byggt er á því að andmælaréttur kærenda hafi ekki verið virtur þegar ákvörðun var tekin. Ekki verði annað séð en að ákvörðun hafi þegar legið fyrir þegar þeim var sent bréf þann 27. nóvember 2017. Hafi það aðeins verið að frumkvæði og kröfu kærenda að þau hafi yfirhöfuð fengið að hitta fulltrúa skólayfirvalda áður en ákvörðun var birt þeim. Þrátt fyrir ákvæði skólareglna um sátt, samráð og að leitast skuli við að koma til móts við þarfir nemenda verði ekki séð að skólayfirvöld hafi leitað eftir slíku eða haft áhuga á andmælum kærenda. Umleitunum kærenda um að ná sátt um vægari úrræði sem ekki myndi skaða sjálfsmynd nemandans og námsframvindu ásamt því að ná markmiðum um öruggari skóla hafi ekki verið sinnt af hálfu skólayfirvalda. Þá hefðu gögn sem virðast hafa haft áhrif á ákvörðun skólayfirvalda ekki hafa verið borin undir kærendur en aðstoðaskólastjóri beri nemandann þungum sökum sem fram komi í lögregluskýrslu. Ekkert hafi fengist uppgefið hvaða gögn liggi að baki þeim ásökunum og þannig engin tækifæri til að svara þeim. Feli þetta í sér brot bæði á rannsóknarreglu og andmælareglu.

Kærendur telja ósannað að hnífurinn hafi verið „vopn“ í skilningi vopnalaga. Þar sem lögreglan hafi ekki talið þörf á frekari afskiptum yrði ekki talið að háttsemin hafi verið refsiverð.

Í kærunni er því lýst að í tilkynningu skólayfirvalda til lögreglu hafi verið byggt á slúðursögum um [] sem hafi á sínum tíma verið leiðréttar. Þá feli ummæli um [] hegðun nemandans og hatur hans á minnihlutahópum og innflytjendum í sér ærumeiðandi ummæli af hálfu aðstoðarskólastjóra. Því megi draga í efa hlutlægni hans við ákvörðun í málinu.

Kærendur telja að jafnræðisreglan hafi verið brotin þar sem nemandanum hafi verið vísað úr skóla vegna brots sem ekki verði séð að varði brottvísun í sambærilegum tilvikum. Eftir því sem kærendur komist næst eru viðbrögð í öðrum skólum þau að „tiltekin tæki“ sem nemendur mæti með séu gerð upptæk meðan á dvöl þeirra á skólalóð standi, eftir atvikum samhliða viðvörun. Áminningum sé sjaldan beitt.

Kærendur telja brot á meðalhófsreglunni vera alvarlegasta annmarkann á meðferð málsins af hálfu skólayfirvalda. Hún feli í sér þrjá þætti. Ákvörðun skuli vera markhæf, velja beri vægasta úrræðið sem ná megi lögmæltu markmiði með og gæta beri hófs við beitingu þess úrræðis sem valið er. Þá vísar kærandi til þess að því þungbærari sem skerðing á réttindum er, því strangari kröfur verði að gera til sönnunar um nauðsyn skerðingar. Þar sem brottvísun án undanfarandi viðvörunar eða áminningar er undantekningarregla sem víki frá mikilvægum réttindum nemandans og vegi að réttindum hans til náms samkvæmt mannréttindasáttmálum, þá beri að gera sérstaklega ríkar kröfur til rökstuðnings og sönnunar þegar slíku úrræði er beitt. Skólayfirvöld hafi í ákvörðun sinni ekki rökstutt að aðeins megi ná því lögmæta markmiði „að tryggja öryggi í skólanum“ með því að vísa nemandanum úr skólanum. Engin rök hafi verið færð fyrir því hvers vegna vægari úrræði myndu ekki duga, t.d. viðvörun, tiltal, áminning eða tímabundin brottvísun. Þá hafi ekkert komið fram um að nemandinn hafi haldið áfram hegðun sem skólayfirvöld töldu vera gegn skólareglum, hafi skapað hættu eða hegðað sér óæskilega á annan máta eftir að honum var gert ljóst að varsla hnífsins væri óheimil að mati skólayfirvalda. Þá telja kærendur það ekki samrýmast málsflutningi skólans um nauðsyn brottvísunar að nemandinn hafi getað sótt skólann án áhættu eða kvartana frá 11. nóvember 2017 til loka haustannar. Ekkert hafi komið fram um að nemandinn hafi raskað ró annarra nemenda eða brotið skólareglur á þeim tíma.

Í kærunni er vísað til þágildandi skólareglna frá [] 2016. Þar sé ekki að finna neinar reglur um meðferð vasahnífa á skólalóð eða í skólatíma. Ekki sé dreginn í efa réttur skólayfirvalda til að setja slíkar reglur og það hafi verið gert í umgengnisreglum sem samþykktar hafi verið [] 2018, þ.e. eftir það atvik sem varð tilefni brottvísunar. Hinar nýju reglur geti hins vegar ekki gilt afturvirkt. Kærendur byggja eigi að síður á því að jafnvel í hinum nýju reglum sem leggi bann við að nemendur beri á sér vopn í skilningi vopnalaga komi ekki fram að varsla meðferð og eignarhald á hnífi hafi sjálfkrafa í för með sér brottvísun úr skóla. Nemandinn hafi ekki getað vitað eða mátt vita að háttsemi hans væri svo alvarleg að hún varðaði tafarlausa brottvísun. Ómögulegt hafi verið fyrir nemandann, [] ára ungling án lögfræðimenntunar, að gera sér grein fyrir hvaða reglur giltu um vasahníf hans.

Fram kemur af hálfu kærenda að hin kærða ákvörðun virðist vera fyrst og fremst byggð á því mati skólayfirvalda að undantekningarákvæði [] skólareglna skólans eigi við. Þar komi fram að jafnaði skuli veita nemendum skriflega áminningu við fyrsta brot. Heimilt sé að falla frá áminningu [ef brotið er þess eðlis eða svo alvarlegt, s.s. ef einnig er um að ræða brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, að það réttlæti beitingu viðurlaga undir eins m.a. til að tryggja vinnufrið eða öryggi í skólanum]. Að mati kærenda er meint brot nemandans ekki þess eðlis að heimilt hafi verið að beita brottvísun án þess að veita fyrst skriflega áminningu. Ekki verði annað séð en að skólayfirvöld telji meint brot á vopnalögum jafngilda broti á almennum hegningarlögum en því mótmæli kærendur þar sem vopnalög séu sérrefsilög og eigi allt aðrar reglur við um túlkun þeirra en almennra hegningarlaga. Þá skorti skólayfirvöld sérþekkingu og valdsvið til að túlka ákvæði vopnalaga, slíkt falli undir viðeigandi yfirvöld, eftir atvikum dómstóla, dómsmálaráðuneyti eða lögreglustjóra. Fullyrðingar skólayfirvalda um brot á vopnalögum séu ósannaðar og eigi sé ekki stoð í gögnum málsins. 

Að mati kærenda hefur formleg áminning skilgreinda merkingu í íslenskum stjórnsýslurétti og skólareglum skólans. Komi það skýrt fram í umgengnisreglunum að viðvörun fái nemandi ef hann brjóti reglur skólans og að ítrekuð brot geti leitt til áminningar eða brottvísunar. Þá er áréttað í athugasemdum kærenda að orðalagið „skrifleg viðvörun“ í grein 14.7.1 um skólasóknarreglur í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 hafi ekki þau réttaráhrif að leggja megi „viðvörun“ og „áminningu“ að jöfnu við formlega áminningu sem veitt sé í samræmi við stjórnsýslulög. Í umgengnisreglum skólans sé tekið skýrt fram að brjóti nemandi reglur fái hann viðvörun. Ítrekuð brot geti svo leitt til „áminningar“ eða brottvísunar. Vandlega sé skilið á milli „viðvörunar“ sem sé undanfari viðurlaga, sem séu síðan refsikenndar aðgerðir á borð við „áminningu“ eða brottvísun. Óumdeilt sé að skólayfirvöld hafi ekki farið að eigin skólareglum eða stjórnsýslureglum við brottvísun nemandans. Verði slíkt ekki afsakað með nýjum skólareglum sem settar voru eftir að nemandanum var vísað úr skóla eða með rangri lagatúlkun á Aðalnámskrá framhaldsskóla.

Kærendur mótmæla því að hegðun nemandans hafi verið frábrugðin hegðun annarra nemenda. Framlögð gögn í málinu styðji ekki þá fullyrðingu. Engin athugasemd hafi verið gerð við hegðun nemandans fyrr en í nóvember 2017, þ.e. í þeim mánuði sem hið umdeilda atvik hafi átt sér stað. Foreldrarnir ekki fengið neinar upplýsingar frá skólanum um þau atvik sem lýst sé í INNU og þau gögn sem skólinn hafi lagt fram hafi þau aldrei séð. Þau gögn beri með sér að athugasemdir kennara hafi verið almenns eðlis um mas í tímum, tal við samnemendur og að nemandinn eigi erfitt með að halda sér að verki. Nemandanum sé einnig gefið að sök að hafa heilsað að nasistasið og hafa teiknað hakakross. Ekki sé tekið fram hvaða skólareglur umrætt athæfi brjóti í bága við, en hvorki íslensk lög eða skólareglur skólans hafi að geyma viðlíka takmörkun á tjáningarfrelsi og lög í nokkrum evrópskum ríkjum sem geri tjáningu sem inniheldur tiltekin teikn og orðasambönd tengd sögu þeirra ríkja óheimila, óháð í hvaða tilgangi það sé gert. Þar sem Ísland búi enn yfir nokkru málsfrelsi sé ekki unnt að staðhæfa án frekari gagna að það að nota tiltekin tákn sé í sjálfu sér merki um virðingarskort, fordóma eða hatursorðræðu. Hafi nemandinn aðeins verið að heilsa vini sínum með því að reisa hönd en vegna þess sem hann rissaði meðan hann var að bíða eftir kennara hafi túlkun kennara verið á þennan veg. Það felist ekki samþykki við hugsjónir nasismans eða birtingarmynd fordóma að teikna gamalt indó-evrópskt tákn sem NZDAP hafi notfært sér sem eitt af merkjum sínum eða lyfta hægri hönd til kveðju. Um þá viðvörun sem nemandinn hafi fengið 10. nóvember 2017 verði ekki sagt að um sé að ræða atriði sem eigi skylt við það að hafa haft á sér hníf þann 14. nóvember 2017 og verði slíkt aldrei talið geta orðið grundvöllur formlegrar áminningar um slíka háttsemi.

Kærendur bera því við að sem foreldrar hafi þau ekki verið upplýst um það sem kennarar eru sagðir hafa skráð í athugasemdakerfi INNU um þau atvik sem skólayfirvöld hafi síðar vísað í málinu. Hverju sem það væri um að kenna hafi þau þannig ekki fengið tækifæri til að andmæla eða heyra málavexti frá þeim sem hafi verið viðstaddir. Það fari ekki á milli mála að skólayfirvöld hafi ekki gert neina tilraun til að ganga úr skugga um að foreldrarnir hafi verið upplýstir eða til að fá afstöðu þeirra til þeirra atvika sem um ræðir áður en gripið var til aðgerða.

Kærendur hafa bent á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8749/2015 máli sínu til stuðnings. Einnig hafa þeir bent á stjórnarskrárvarinn rétt ólögráða ungmennis til náms, sbr. 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/1923. Þá telja kærendur að brottvísunin brjóti í bága við lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla, einkum 3. og 4. mgr. 33. gr. a þar sem ekki hafi verið fyrst gripið til þeirra ráðstafana sem þar eru nefndar áður en nemandanum var vísað úr skóla.

Málsástæður stjórnvalds

Í athugasemdum skólans segir að nemandinn hafi hafið skólagöngu sína í ágúst 2017. Hegðun hans hafi strax verið með öðrum hætti en annarra nemenda og hafi kennarar og umsjónarkennari reynt ítrekað á fyrstu mánuðum skólaársins að leiðbeina, hvetja og styðja nemandann til að láta af [] hegðun, vinna í kennslustundum og trufla ekki aðra nemendur. Hann hafi tekið þátt í [] í lok október þar sem hann hafi sýnt [] gesti sínum sem dvaldist hjá honum hnífasafn og []. Þá hafi hann hvatt gestinn til að []. Annar verkefnisstjórinn hafi átt samtal við móður nemandans vegna þessa atviks en það hafi skapað töluverðan ótta og ugg innan hópsins og einnig meðal foreldra og kennara.

Þá lýsir skólinn frekari atvikum sem skráð séu í INNU og allar skráningar í INNU berist samstundis og þær séu skráðar til foreldra/forráðamanna. Kennarar í lestraráfanga hittist vikulega og fari yfir stöðuna í áfanganum. Þeir hafi talið ástæðu til að setja athugasemd í INNU þann 3. nóvember 2017 um áhyggjur af hegðun hans þar sem hann trufli kennslu með fordómafullum athugasemdum sem beinist til samnemenda. Íslenskukennari setji svo inn athugasemd 8. nóvember 2017 um að nemandinn eigi oft erfitt með að halda sér að verki og sé mjög svo masgjarn í tímum. Degi síðar, 9. nóvember 2017, skráir síðan stærðfræðikennari að nemandinn hafi kvatt vin sinn í upphafi kennslustundar með nasistakveðju. Hann hafi tekið nemanda fyrir vegna háralitar og teiknað stóran hakakross í GeoGebru í stað þess að nýta tímann til að leysa dæmi. Hafi hann gætt þess að aðrir sæju krossinn og þrætt við kennara.

Degi síðar, 10. nóvember, sé nemandanum veitt formleg viðvörun vegna „ítrekaðs dónaskapar og vanvirðingu við kennara og samnemendur. Hann virði ekki mörk annarra. Eigi erfitt með að taka tilmælum um bætta hegðun og fara eftir reglum skólans.“ Í viðvöruninni komi fram að ítrekuð brot á reglum skólans geti valdið brottrekstri. Fram kemur í athugasemdum skólans að viðvörunin hafi verið send nemandanum og foreldrum hans með rafrænum hætti. Í framhaldinu hafi aðstoðarskólameistari síðan rætt við nemandann um hegðun hans í kennslustundum og mikilvægi þess að sýna kennurum og samnemendum virðingu.

Þann 14. nóvember 2017 hafi nemandinn verið tekinn með hníf í kennslustund og atvikið hafi verið tilkynnt lögreglu. Skólaráð hafi tekið málið fyrir 20. nóvember 2017 og lagt til að nemandanum yrði vikið úr skóla sökum þess að öryggi nemenda og starfsmanna stafi hætta af hnífaburði og háttsemi hans. Hafi nemandanum og forráðamönnum hans verið tilkynnt um að til skoðunar væri að víkja nemandanum úr skóla með bréfi dagsettu 21. nóvember 2017 og veittur frestur til 1. desember 2017 til að senda andmæli. Í ljósi þess að andmælafrestur var til 1. desember og önnin við það að ljúka hafi sú leið verið farin til að gæta meðalhófs að leyfa honum að ljúka lokanámsmati annarinnar.

X gerir athugasemdir við þær fullyrðingar sem fram koma í kærunni um að nemandinn hafi aldrei sætt áminningu á námsferli sínu. Hið rétta sé að hann hafi sætt formlegri viðvörun/áminningu auk fjölda óformlegra viðvarana. Allar þessar viðvaranir hafi verið sendar á foreldra/forráðamenn. Tilkynningar úr INNU séu sendar sjálfkrafa til forráðamanns á það netfang sem gefið hafi verið upp við innritun nemandans í skólann. Sama gildi um viðvarandi/áminningar. Lítið sé um að athugasemdir séu skráðar í INNU og það ekki gert nema nemanda hafi ítrekað verið leiðbeint.

Skólinn mótmælir því að brotinn hafi verið andmælaréttur á nemandanum og foreldrum hans. Andmælafrestur hafi verið gefinn og viðbótarfrestur veittur til 8. desember auk þess sem tveir fundir hafi verið haldnir með foreldrum nemandans. Skólinn mótmælir einnig að aðstoðarskólameistari hafi borið nemandann þungum sökum. Þessi atvik hafi verið skráð í INNU. Hafi foreldrar aldrei óskað eftir fundi vegna þessa. Þá hafni skólinn því að frásögn aðstoðarskólameistara byggi á slúðursögum eins og kærendur haldi fram. Skráðar athugasemdir frá kennurum geti vart talist til slíks. Þá er því ennfremur mótmælt að hnífurinn teljist vasahnífur. Um sé að ræða fjaðrahníf með níu sentimetra löngu blaði. Ekki sé um að ræða hníf til tálgunar eða svissneskan margnota vasahníf. Af atviki tengdu heimsókn [] nemendanna megi vera ljóst að nemandinn viti til hvers þessi stunguhnífur sé framleiddur. Engar aðstæður í námi eða dvöl nemandans í skólanum kalli á hnífaburð.

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Um réttindi og skyldur nemenda framhaldsskóla og skólareglur er fjallað um í lögum um framhaldsskóla, aðalnámskrá framhaldsskóla sbr. auglýsingu nr. 674/2011 um gildistöku aðalnámskrár framhaldsskóla, reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum  og í skólareglum viðkomandi skóla. Í V. kafla laga um framhaldsskóla er kveðið á um námskrá og námsbrautir og fjallar 21. gr. um aðalnámskrá. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. eru í almennum hluta útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla og skal almennur hluti m.a. innihalda almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála, sbr. j. lið 2. mgr. 21. gr. laganna. Þá er mælt fyrir um það í 22. gr. að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá, sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. er mælt fyrir um að í skólanámskrá skuli m.a. gerð grein fyrir réttindum og skyldum nemenda.

Í VI. kafla laga um framhaldsskóla er fjallað um nemendur. Í 33. gr. kemur fram að framhaldsskóli er vinnustaður nemenda og að framhaldsskóli skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Þess skuli jafnframt gætt við skipulag skólastarfs að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið. Þá skuli tekið tillit til sjónarmiða nemenda eins og unnt sé. Í 33. gr. a. laganna er fjallað um ábyrgð nemenda og málsmeðferð ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt. Þar segir í 1. og 2. mgr. að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Þeim beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.

Í 33. gr. b. er fjallað um skólabrag. Í 3. mgr. er mælt fyrir um það að hver skóli skuli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skuli m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Samkvæmt 33. gr. b. ber öllum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. b. skal hver skóli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Samkvæmt 4. mgr. skulu framhaldsskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi.

Í 14. kafla almenna hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2011, sbr. auglýsingu nr. 674/2011 um gildistöku aðalnámskár framhaldsskóla, er fjallað um réttindi og skyldur. Í kafla 14.7 í aðalnámskrá er fjallað um skólareglur, sem birtar skulu í skólanámskrá og geyma ákvæði um skólasókn, hegðun og umgengni, námsmat, námsframvindu og prófareglur, viðurlög vegna brota á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Þá segir í 8. gr. reglugerðar nr. 326/2016 að skólareglur skuli vera skýrar og afdráttarlausar, í samræmi við framhaldsskólalög og aðalnámskrá framhaldsskóla og í samræmi við réttindi ungmenna að 18 ára aldri samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Í skólareglum X kemur [] m.a. fram í umgengnisreglum [að nemendur og starfsfólk skulu virða markmið og gildi skólans, stefnu hans og reglur; að gagnkvæm virðing og kurteisi skuli ríkja í skólanum og það ber að sýna háttvísi og prúðmennsku alls staðar þar sem komið er fram í nafni skólans og að nemendum beri að hlýða fyrirmælum starfsfólks skólans].

Um beitingu viðurlaga við brotum á reglum framhaldskóla og málsmeðferð við beitingu viðurlaga er fjallað í lögum um framhaldsskóla, aðalnámskrá framhaldsskóla, reglugerð nr. 326/2015 og skólareglum viðkomandi skóla. Í 3. -4. gr. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla segir að ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt beri skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða bót á því, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára. Meðan slíkt mál er óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust um þá ákvörðun. Skal skólinn leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess. Samkvæmt 5. mgr. skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga um málsmeðferð við ákvörðun um brottvísun. 

Fjallað er um viðurlög við brotum á skólareglum í 10. gr.  reglugerðar nr. 326/2016. Þar segir eftirfarandi:

Sýni nemendur af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun skal leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf, með öllum tiltækum leiðum á vegum skólans og stoðþjónustu hans, þar sem taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að menntun, alhliða þroska og velferð hvers og eins.

Brjóti nemandi skólareglur skal ræða við hann um eðli brotsins, afleiðingar þess og ábyrgð hans í málinu. Foreldrum nemenda að 18 ára aldri skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum ungmenna þeirra á skólareglum og viðbrögðum skólans við þeim. Hafa skal samráð við þá í samræmi við eðli máls.

Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu vera í samræmi við brotið og ávallt skal velja vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná fram settu markmiði. Gæta skal jafnræðis og samræmis í viðbrögðum og taka tillit til aðstæðna hvers og eins. Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.

Viðbrögð skulu vera markviss og til þess fallin að stuðla að jákvæðum skólabrag, bættri hegðun nemenda, bættri námsframvindu, aukinni ábyrgð á eigin námi og miða að því að styrkja sjálfsmynd nemenda, bæði þeirra sem brjóta af sér og þeirra sem brotið er á.

Skólastjórnendur og/eða stoðþjónusta vísa málum til barnaverndaryfirvalda vegna nemenda að 18 ára aldri ef ástæða þykir til.

Í 1.-5. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um málsmeðferð vegna brota nemenda á skólareglum á eftirfarandi hátt:

Væg úrræði sem skólar beita til að halda uppi aga og umgengnisvenjum teljast almennt ekki til stjórnvaldsákvarðana og falla því ekki undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Haldi nemandi uppteknum hætti þrátt fyrir undangengna aðvörun og/eða skriflega áminningu og brot hans eru alvarleg má vísa honum tímabundið úr einstöku námsáföngum eða úr skóla, á meðan reynt er að finna lausn á máli hans, að hámarki eina kennsluviku. Ef allar tiltækar leiðir hafa verið reyndar og ekki tekst að finna lausn á máli nemanda er skólameistara heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla.

Við ákvörðun um brottvísun úr einstaka áfanga eða úr skóla skal gæta meginreglna stjórn­sýslu­réttar, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upp­lýsinga­skyldu. Í opinberum framhaldsskólum teljast slíkar ákvarðanir til stjórnvaldsákvarðana og fer því um þær samkvæmt stjórnsýslulögum.

Ávallt skal leita samstarfs við foreldra nemanda yngri en 18 ára um úrlausn máls þegar um brot á skólareglum er að ræða. Nemendum og foreldrum nemenda yngri en 18 ára skal gefinn kostur á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Skólameistari skal sjá til þess að atvik sem skipta máli vegna úrlausnar mála séu skráð og varðveitt í skólanum sem og ferli máls og ákvarðanir sem teknar eru vegna brota á skólareglum. Atvika­skráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og þar sem það á við, mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi. Skráningin skal fara fram í samræmi við lög um per­sónu­vernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000 og reglugerð um upplýsingaskyldu fram­halds­skóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nem­endur, nr. 235/2012.

Í umgengnisreglum í skólareglum skólans kemur fram að brjóti nemandi reglur skólans fái hann viðvörun og að ítrekuð brot á skólareglum geti leitt til áminningar eða brottvísunar. Jafnframt skal forráðamönnum ólögráða nemanda gert viðvart svo þeir geti nýtt andmælarétt sinn. Þá segir um meðferð ágreiningsmála í skólareglunum að áður en komi til beitingu viðurlaga skuli að jafnaði veita nemendum skriflega áminningu við fyrsta brot. Heimilt er að víkja frá því ef brotið er þess eðlis eða svo alvarlegt [s.s. ef einnig er um að ræða brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, að það réttlæti beitingu viðurlaga undir eins m.a. til að tryggja vinnufrið eða öryggi í skólanum]. Þá segir í m.a. í skólareglunum að áður en til beitingar áminningar eða annarra viðurlaga kemur skuli skólameistari tilkynna nemanda eða forráðamanni, sé nemandi yngri en 18 ára, skriflega að til greina komi að áminna nemanda eða beita öðrum viðurlögum. Að fengnum andmælum eða [] liðnum andmælafresti skal [tilkynna ákvörðun skólameistara með skriflegum hætti] [fyrir] nemanda og forráðamönnum sé [nemandi] yngri en 18 ára, og [gera] grein fyrir rétti þeirra til að kæra ákvörðunina til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Það er ágreiningslaust í málinu að nemandinn hafði í fórum sínum hníf þegar hann sótti tíma í X. Jafnframt liggur fyrir að önnur hegðun nemandans hafði gefið skólanum tilefni til að viðvara hann nokkrum dögum áður auk þess sem athugasemdir vegna hegðunar hans höfðu verið skráðar í INNU þennan sama mánuð. Kærendur hafa borið því við að ósannað sé að um hafi verið að ræða brot á vopnalögum og að skólayfirvöld hafi ekki valdsvið til að túlka ákvæði vopnalaga. Þá segja kærendur að umrætt áhald hafi verið vasahnífur, engin ákvæði skólareglna hafi að geyma bann við að nemendur beri á sér vasahnífa eða vopn í skilningi vopnalaga og að ómögulegt hafi verið fyrir nemandann [] ára ungling að gera sér grein fyrir hvaða reglur giltu um vasahníf hans.

Ekki verður fallist á þau sjónarmið kærenda að um hafi verið að ræða áhald sem rétt eða eðlilegt hafi verið fyrir [] ára ungling að hafa með sér í skóla eða annars staðar. Hnífnum er lýst í lögregluskýrslu sem „stunguhníf með 9 cm löngu blaði“ og að „blaðið skýst fram úr skeftinu.“ Ekkert er komið fram um niðurstöðu lögreglunnar í málinu eða að foreldrar hafi haft samband við lögreglu vegna málsins. Samkvæmt b. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 er bannað að hafa í vörslum sínum „fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf, fallrýting, stunguvopn eða önnur slík vopn.“ Þrátt fyrir að ekkert verði fullyrt um brot á ákvæðum vopnalaga má ráða af fyrrgreindri lýsingu í lögregluskýrslu að um mjög hættulegt áhald var að ræða. Verður því að byggja á því að um hafi verið að ræða alvarlega háttsemi nemandans sem einnig kann að hafa verið refsiverð. Bar skólinn því mikla ábyrgð og var réttmætt vegna þessa eina atviks að grípa tafarlaust til ráðstafana með tilliti til öryggis og velferðar annarra nemenda skólans.

Áður hafði nemandinn fengið viðvörun þar sem skólayfirvöld töldu hann hafa sýnt ítrekaðan dónaskap og vanvirðingu við kennara og samnemendur, að hann virti ekki mörk annarra og ætti erfitt með að taka tilmælum um bætta hegðun og fara eftir reglum skólans. Eins og þessari háttsemi er nánar lýst í INNU er fallist á með skólanum að um hafi verið að ræða brot á umgengnisreglum. Vegna ummæla kærenda um meinleysi nasistakveðju og hakakross og að hvorki lög né skólareglur takmarki slíkt tjáningarfrelsi er rétt að fram komi um er að ræða merki sem almennt eru í samfélaginu talin táknmynd kynþátta- og útlendingahaturs. Er ekki hægt að ætlast til að skóli þar sem nemendur eiga lögum samkvæmt rétt á að finna til öryggis og njóta hæfileika sinna sýni slíkri tjáningu umburðarlyndi. Þá ætti slík tjáning samhliða því að nemandi mætir með hættuleg áhöld eins og að framan er lýst í skólann að vera skólanum aukin ástæða til að sýna árverkni. Forráðamenn nemandans hafa lýst því að þeim hafi verið ókunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við hegðun hans. Þeim hafi því ekki borist sjálfvirkar athugasemdir frá INNU. Engin gögn liggja frammi um hvernig háttað var skráningu póstfanga þeirra í INNU. Gegn andmælum þeirra verður því ekki byggt á að umræddar tilkynningar hafi í raun borist þeim.

Verður samkvæmt framansögðu að telja að lögmæt markmið og málefnaleg sjónarmið hafi verið fyrir hendi þegar skólinn tók ákvörðun um setja málið í þann farveg að senda kærendum bréf þar sem þeim var tilkynnt um að til skoðunar væri hjá skólanum að taka ákvörðun um að vísa nemandanum úr skóla. Í ljósi þessa er ekki tilefni til þess að draga í efa hæfi aðstoðarskólameistara X til meðferðar málsins né eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Í fyrrgreindri tilkynningu og eftirfarandi meðferð málsins bar skólanum hins vegar að byggja á 3. og 4. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla eins og ákvæðin eru nánar útfærð í 12. gr. reglugerðar nr. 326/2016. Þar segir að vísa megi nemanda úr skóla þegar nemandi haldi uppteknum hætti þrátt fyrir tímabundna aðvörun og/eða skriflega áminningu og brot eru alvarleg megi vísa honum úr skóla að hámarki í eina viku meðan reynt sé að finna lausn á máli hans. Þá kemur einnig fram í nefndu ákvæði að nemanda verði ekki vísað úr skóla ótímabundið fyrr en allar tiltækar leiðir hafa verið reyndar og ekki hefur tekist að finna lausn á máli nemandans. Ávallt skal leita samstarfs við foreldra nemenda yngri en 18 ára við úrlausn slíks máls, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar. Vegna þessa bar skólayfirvöldum í tilkynningu sinni til foreldra að vísa til ekki eingöngu til þess atviks sem varð þeim tilefni til að taka til skoðunar brottvísun nemandans heldur einnig önnur þau atvik sem höfðu verið skráð í INNU og máli skiptu að þeirra mati á stöðu nemandans. Vegna þessa liggur ekki fyrir að foreldrar hafi notið andmælaréttar hvað varðar þennan þátt málsins. Að sama skapi hefði í hinni kærðu ákvörðun verið rétt að vísa til viðvörunar þeirra sem nemandinn fékk og eftir atvikum annarra atvika sem skráð höfðu verið í INNU.

Í andmælum forráðamanna nemandans vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar í málinu kemur fram að nemandinn hafi gengist við háttsemi sinni, hann hafi beðist afsökunar og viðurkenni að háttsemin hafi verið röng sem skrifa megi á þekkingarskort og kjánaskap. Hafi alvarleiki málsins sýnt honum að orð og athafnir geti haft aðrar afleiðingar en gert hafi verið ráð fyrir og hann hafi öðlast meiri ábyrgðarkennd fyrir vikið. Kærendur lýsa því að ákvörðun um brottvísun geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir skólagöngu og velferð nemandans. Óskuðu forráðamenn þess að vægari úrræðum verði beitt. Í kærunni er því lýst að forráðamenn nemandans hafi óskað eftir fundi með skólayfirvöldum til að ná sátt um vægari úrræði sem ekki myndu skaða sjálfsmynd nemandans og námsframvindu en einnig ná markmiðum um öruggari skóla. Samkvæmt kærendum voru tveir fundir haldnir, þann 24. nóvember 2017 með aðstoðarskólameistara og áfangastjóra og 31. nóvember 2017 með skólameistara. Ekki liggja fyrir í málinu neinar fundargerðir skólayfirvalda.

Í hinni kærðu ákvörðun er í engu vikið að því hvað hafi verið rætt á fundum með forráðamönnum nemandans, hvort leitað hafi verið lausna á máli nemandans svo sem bar að gera samkvæmt lögum um framhaldsskóla og reglugerð nr. 326/2016 eða rökstutt hvers vegna vægari úrræði voru ekki talin koma til greina. Þá er þar í engu vikið að fyrra hátterni nemandans sem skólayfirvöld hafa þó vísað til í athugasemdum sínum í máli þessu og byggt á að forráðamönnum hafi verið kunnugt um. Var meðferð málsins að þessu leyti ekki í samræmi við 3. og 4. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla, sbr. 3. og 4. mgr. 10. gr. og 2.-4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 326/2016 um að gæta meðalhófs, leita sátta, reyna allar tiltækar leiðir og leitast við að finna lausn á máli nemandans, m.a. að leita orsaka vanda hans og reyna að ráða bót á honum í samráði við hann og forráðamenn. Var meðferð skólans að þessu leyti ekki heldur í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Mikilvægt er að vandað sé til undirbúnings og skráningar mála þegar fyrir liggur að til þess geti komið að víkja nemanda úr skóla. Skv. 5. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 326/2016 skal gæta þess að skrá feril máls og ákvarðanir sem teknar eru vegna brota á skólareglum. Á þetta ekki eingöngu við um skráningu á því atviki sem getur verið tilefni brottvísunar heldur einnig skrásetningu á allri meðferð málsins hjá skólayfirvöldum. Ekki liggja fyrir í málinu skráningar skólans á samskiptum og efni funda með foreldrum í aðdraganda þess að hin kærða ákvörðun var tekin. Var meðferð málsins að þessu leyti ábótavant hjá skólanum.

Þar sem skólinn vísaði nemandanum ótímabundið úr skóla bar skólanum samkvæmt 4. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla að leiðbeina nemandanum um mögulega endurkomu í nám ef hann óskaði þess. Þessa var ekki gætt hjá skólanum.

Í ljósi þeirra verulegu annmarka raktir eru hér að framan á hinni kærðu ákvörðun er hún felld úr gildi.

Með hliðsjón af því sem fram kemur í gögnum málsins er kröfu kæranda þess efnis að nemandanum verði leyft að snúa aftur til náms í X vísað frá, þar sem fyrir liggur að nemandanum hefur verið veitt skólavist í X á vorönn 2019 og hóf hann nám [í janúar 2019].

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun X frá 22. desember 2017 um að vísa C [], úr námi við X á vorönn 2018 er felld úr gildi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta