Vísun nemanda úr framhaldsskóla vegna hegðunar
Ár 2015, miðvikudaginn 16. desember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR
Kæruefnið
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 4. febrúar 2015 stjórnsýslukæra A [lögmaður kæranda], f.h. foreldra B, ólögráða nemanda við skóla D (hér eftir nefndur kærandi). Kærð er sú ákvörðun skólameistara D að vísa kæranda fyrirvaralaust úr skólanum vegna hnífaburðar í skólanum og óviðeigandi myndbirtingar á netinu af skólasystur kæranda. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt með bréfi sem skólameistari afhenti foreldrum kæranda á fundi vegna málsins, þann 29. janúar 2015.
Í kæru er aðallega gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi svo kærandi geti hafið nám við skólann að nýju. Til vara er þess krafist að fyrrgreind ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda útveguð skólavist í öðrum framhaldsskóla.
Þann 2. febrúar 2015 barst ráðuneytinu rafbréf frá C [lögmanni], fyrir hönd D. Þar var vísað til þess að skólinn hefði afturkallað ákvörðun sína um varanlega brottvísun kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar s.á., og kæranda ásamt foreldrum hans veitt tækifæri til að tjá sig um málið áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í því. Þá kom fram í bréfinu að kæranda væri vikið úr skólanum á meðan málið væri til skoðunar vegna alvarleika brota kæranda og af tillitssemi við samnemanda hans.
Þann 13. febrúar 2015 barst viðbót við kæruna, ásamt fylgigögnum, frá lögmanni kæranda. Á meðal fylgigagna voru bréf til D, dags. 4. febrúar sl., sem innihélt andsvör vegna brottvikningar kæranda úr skólanum, og bréf skólans, dags. 10. s.m., þar sem ákvörðun í máli kæranda var tilkynnt. Var það niðurstaða skólans að kæranda skyldi vísað úr skóla á yfirstandandi önn og að háttsemi hans hefði verið svo alvarleg að ekki væri tilefni til að áminna hann áður en ákvörðun um brottvísunina væri tekin. Í viðbót við kæru er þess aðallega krafist að upphafleg ákvörðun forsvarsmanna D, dags. 30. janúar 2015, verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ákvarðanir um afturköllun hinnar upphaflegu ákvörðunar, dags. 2. febrúar 2015 og svo endanleg ákvörðun um brottvikningu, dags. 10. febrúar 2015, verði felldar úr gildi.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. febrúar 2015, var óskað umsagnar D um kæruna og var veittur tveggja vikna umsagnarfrestur í því skyni. Skólinn óskaði eftir framlengdum fresti til 20. mars sl. og féllst ráðuneytið á þá beiðni.
Umsögn D barst þann 24. mars 2015. Í umsögn sinni krefst skólinn þess að kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að ákvörðun D, dags. 10. febrúar 2015, þess efnis að vísa kæranda úr skólanum, verði staðfest. Umsögnin var send til lögmanns kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. sama mánaðar, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, mótt. 10. apríl sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. júní sl., var málsaðilum tilkynnt um að fyrirsjáanlegar tafir yrðu á afgreiðslu málsins og greint frá ástæðum tafanna.
Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málavöxtum er lýst á þann veg í kæru að kærandi, sem sé yngri en 18 ára og teljist af þeim ástæðum barn að lögum, hafi hafið nám við D um síðustu áramót. Hann hafi nýlega verið orðinn meðlimur í lokuðum hópi karlkyns nemenda skólans á fésbók og verið sá eini í þeim hópi sem var yngri en átján ára. Innan hóps þessa hafi verið dreift óviðurkvæmilegu efni, þ.m.t. af nöktum stúlkum, og hafi kærandi sett þar inn mynd af stúlku og tekið svo myndina aftur út klukkutíma síðar. Segir í kæru að aðeins hafi verið um þessa einu mynd að ræða og stúlkan ekki verið nakin og ekki sést í andlit hennar. Var kærandi í kjölfarið kallaður á fund forsvarsmanna skólans og spurður hvort hann væri meðlimur umrædds hóps, sem og hvort hann væri með hníf með sér. Játaði hann hvoru tveggja og sýndi svokallaðan ávaxtahníf, eftir því sem segir í kæru. Þá hafi verið kallað á lögreglu sem tekið hafi skýrslu af kæranda og tekið hnífinn í sína vörslu. Hafi kæranda svo verið leyft að fara og umræddum fésbókarhópi verið lokað. Þann 29. janúar 2015 hafi foreldrar kæranda verið kallaðir á fund skólameistara og þeim afhent bréf þess efnis að syni þeirra hefði verið vikið fyrirvaralaust úr skólanum eftir þriggja vikna skólavist.
Telur kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum skólareglna D, laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, með síðari breytingum, og ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Fram kemur í kæru að kærandi telji hafa verið brotið gróflega gegn lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla, einkum 3. og 4. mgr. 33. gr. a, með fyrirvaralausri brottvísun úr skóla. Þá telur kærandi að ákvæði stjórnsýslulaga hafi verið þverbrotin, sérstaklega ákvæði um rannsókn máls, andmælarétt, rökstuðning, jafnræði og meðalhóf. Kærandi getur þess að í skólareglum D séu engin ákvæði sem snúa að þátttöku í hópum á vefsvæðum eða mögulegum vopnaburði og telur kærandi ljóst að reglur skólans sjálfs hafi ekki verið virtar við brottvikningu kæranda.
Þá vísar kærandi til 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og segir í kæru að á það skuli bent að brottvikning barns sé brot á 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, með áorðnum breytingum, þar sem segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Þá telur kærandi að um sé að ræða freklegt brot á réttindum kæranda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 13/2009.
Í kæru kemur einnig fram að þann 2. febrúar 2015 hafi kæranda borist bréf frá D þar sem áður kærð fyrirvaralaus og endanleg brottvikning kæranda hafi verið afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga og tilkynnt að brottvikningin væri nú tímabundin á meðan málið væri til rannsóknar. Kærandi hafi fært fram andsvör með bréfi, dags. 4. febrúar. Endanleg ákvörðun D hafi svo borist 10. febrúar þar sem fyrri ákvörðun er staðfest, þ.e. að kæranda sé endanlega vikið úr skólanum þá önn. Í fyrrnefndri viðbót við kæruna var fyrri kæra ítrekuð og taldi kærandi að D hefði brotið gegn áður tilvitnuðum réttarheimildum með nýrri ákvörðun. Gerir kærandi athugasemdir við meðferð málsins í heild hjá D og telur að skólameistari og aðstoðarskólameistari hafi verið vanhæf til umfjöllunar um málið eftir að ákvörðun þeirra var afturkölluð. Vísar kærandi til þess að málið hafi að sögn skólayfirvalda hafist á þann veg að móðir nemanda hafi hringt og tilkynnt að kærandi væri með hníf í skólanum og hefði verið ógnandi við aðra nemendur. Hefði barn hennar verið skelfingu lostið af þessum sökum. Jafnframt hefði stúlka sagt hann hafa birt mynd af sér fáklæddri á vefsíðu án leyfis. Hafi verið kallað á lögreglu, kærandi færður til skýrslutöku og umræddur hnífur tekinn af honum. Mótmælir kærandi því að hafa verið ógnandi við aðra nemendur eða otað að þeim hnífi. Endanleg ákvörðun D í máli kæranda, dags. 10. febrúar 2015, sé kærð bæði vegna forms og efnis. Hvað formið varðar, telur kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og engu skipti þó leitað hafi verið umsagnar skólaráðs áður en stjórnendur tóku ákvörðun.
Hvað varðar efni ákvörðunar er m.a. tekið fram í kæru að kærandi telji sig ekki hafa brotið gegn 33. gr. og 33. gr. a í lögum nr. 92/2008. Kærandi hafi sýnt starfsfólki og nemendum skólans virðingu og hvorki sé ákvæði um hnífaeign eða myndbirtingar í reglum skólans. Kærandi telji skólayfirvöld ekki hafa reynt að ráða bót á hegðun kæranda, telji þau hegðun hans hafa verið verulega áfátt, en kærandi hafi þvert í móti verið kurteis og sýnt af sér prúðmennsku í hvívetna, eins og segir í kæru. Hann hafi ekki brotið neinar af skrifuðum reglum skólans og verði talið að hann hafi brotið einhverjar óskrifaðar reglur verði ekki séð að þau brot hans hafi verið alvarleg. Kærandi hafi sýnt af sér dómgreindarskort þegar hann setti umrædda mynd á netið og sérstaklega sé bent á að hann sé barn, óþroskaður einstaklingur, og þá hafi fyrrnefndur fésbókarhópur ekki verið á hans vegum og hann ekki sett annað myndefni þar inn. Þá bendir kærandi á málsmeðferðarreglur D, þar sem mælt sé fyrir um að veita skuli nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar komi, nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum. Telur kærandi furðu sæta að D hafi ekki farið eftir sínum eigin málsmeðferðarreglum við meðferð máls kæranda. Þá heldur kærandi því fram að það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun að vera með umræddan hníf á sér, hann hafi verið með hnífinn á sér frá því um sumarið, en ekki af því hann hafi ákveðið að taka með sér hníf. Munurinn liggi í ásetningi til vopnaburðar, sem hafi ekki verið fyrir hendi. Þá ítreki kærandi að hann hafi aldrei ógnað með hnífnum eða veifað honum að nemendum eða starfsfólki skólans og mótmæli því jafnframt sem röngu að hann hafi með alvarlegum hætti brotið gegn friðhelgi og æru samnemanda og mögulega brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot, ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs. Því er jafnframt mótmælt að kærandi hafi brotið gegn […] lið skólareglna með þátttöku í áðurnefndum fésbókarhópi. Kærandi hafi ekki stofnað hópinn og enga ábyrgð borið á honum, heldur verið boðin þátttaka og verið þar um skamma hríð. Þá er í kæru vikið að því að hin kærða ákvörðun hafi haft í för með sér fyrir kæranda að æra hans hafi verið verulega skert og hann sé án skólavistar og muni ekki geta hafið nám í öðrum skóla á skólaönninni þar sem svo langt sé liðið á önnina.
II.
Í umsögn skólameistara D eru málavextir raktir í stuttu máli auk þess sem gerðar eru athugasemdir við málavaxtalýsingu kæranda. Vísað er til upphafs málsins, eins og því er lýst af skólans hálfu, þar sem tilkynning hafi borist frá móður samnemanda um hnífaburð kæranda í skólanum og ógnandi tilburði hans. Næsta dag hafi námsráðgjafa borist tilkynning um nemanda við skólann, stúlku, í nokkru uppnámi. Hafi verið rætt við hana og þá komið í ljós að kærandi hafi birt nektarmynd af henni án hennar samþykkis. Í kæru sé haldið fram að ekki hafi verið um nektarmynd að ræða, en skólinn mótmæli þeim skilningi og telji um að ræða nektarmynd. Vegna alvarleika málsins hafi verið haft samband við lögreglu, sem rætt hafi við kæranda. Hafi kærandi þá játað að vera með umræddan hníf á sér í skólanum og afhent hann lögreglu. Í samtali við foreldra, á skrifstofu skólans, þann 29. janúar 2015, hafi komið fram að kærandi notaði umræddan hníf til þess að skera framan af sprautum fyrir munntóbak. Í samantekt hljóðritaðs framburðar frá lögreglu komi hins vegar fram að kærandi hafi verið með hnífinn á sér frá því hann var að veiða um sumarið. Þá hafi kærandi játað að hafa sett inn fyrrnefnda mynd af skólasystur sinni án hennar samþykkis. Lögreglumaðurinn hafi þá þegar hringt í foreldra kæranda og barnaverndaryfirvöld og kærandi farið með lögreglu á lögreglustöð til skýrslutöku. Þann 28. janúar hafi aðstoðarskólameistari rætt við móður kæranda í síma um málið og hann, ásamt skólameistara, svo fundað með þeim degi síðar. Þar hafi foreldrum verið afhent bréf um að kæranda væri vikið fyrirvaralaust úr skólanum af framangreindum ástæðum. Með bréfi D til lögmanns kæranda, dags. 2. febrúar 2015, var tilkynnt um að sú ákvörðun væri dregin til baka skv. 25. gr. stjórnsýslulaga en kæranda þó vikið tímabundið úr skólanum meðan málið væri til rannsóknar. Honum hafi verið veitt tækifæri á að tjá sig um mögulega brottvísun vegna atvikanna og um hina tímabundnu brottvísun sérstaklega.
Skólinn mótmælir því að hafa brotið gegn skólareglum sínum og þeim lagaákvæðum sem talin eru upp í kæru. Bendir skólinn á að sú ákvörðun sem tilkynnt var foreldrum kæranda þann 29. janúar 2015 hafi verið afturkölluð á grundvelli 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaganna. Sú ákvörðun sé þar með ekki bindandi lengur og af þeim sökum telji D ekki rétt að fjalla nánar um ákvörðun sem hafi verið afturkölluð og hafi því ekkert gildi lengur.
Hvað varðar athugasemdir kæranda um form hinnar endanlegu ákvörðunar D, dags. 10. febrúar 2015, dregur skólinn þá ályktun að þar eigi kærandi við 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Telur skólinn að ekkert gefi til kynna að framkoma skólastjórnenda hafi verið með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa og því sé engin ástæða til að ógilda ákvörðun skólans á þeim grundvelli.
Hvað varðar efni ákvörðunar, þá mótmælir skólinn því að kærandi hafi fylgt ákvæðum 33. gr. og 33. gr. a laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Þá sé því borið við af hálfu kæranda að skólayfirvöld hafi ekki leitast við að ráða bót á hegðun kæranda, hafi skólinn talið hana áfátt, m.a. með viðtölum við kæranda sjálfan og foreldra hans. Vísar skólinn til framangreindra samtala við foreldra kæranda í kjölfar þeirra atburða er leiddu til brottvísunarinnar, en vegna alvarleika atvikanna og m.t.t. öryggis nemenda og þeirrar stúlku sem fyrir myndbirtingunni varð, hafi ekki verið talin ástæða til frekari viðtala áður en gripið væri til aðgerða. Þá er vísað til 4. mgr. 33. gr. a laga um framhaldsskóla og bent á að skólinn hafi notfært sér heimild skv. því ákvæði til að vísa kæranda tímabundið og síðar ótímabundið úr skólanum, enda hafi honum verið tilkynnt um það tafarlaust, sbr. 4. mgr. 33. gr. a laganna, þegar ákvörðun lá fyrir, sbr. bréf dags. 10. febrúar 2015. Þá er vikið að 33. gr. sömu laga, þar sem fjallað er um rétt nemenda, og markmiðum með því ákvæði, sbr. 1. gr. laga nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla, en þau markmið lúti m.a. að því að styrkja réttindi nemenda ásamt því að leggja áherslu á ábyrgð nemenda á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum við aðra, sem og að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, félagslegu og andlegu ofbeldi. Þá er vísað til 33. gr. b laga um framhaldsskóla og umgengnisreglna skólans, sem fjallað er um í skólareglum sem skólinn hefur sett sér. Tekið er fram í umsögninni að um atvikið og háttsemi kæranda gildi m.a. lög um framhaldsskóla og skólareglur skólans sem settar séu á grundvelli þeirra laga. Telur skólinn að sér hafi verið skylt að bregðast við háttsemi kæranda á grundvelli 33. gr. laganna, taka tillit til sjónarmiða og hagsmuna þeirra nemenda sem og beggja þeirra nemenda sem komust í uppnám vegna háttsemi kæranda og beita sér í málinu svo nemendur sínir fyndu til öryggis í skólanum.
Hvað varðar hnífaburð kæranda í skólanum, þá mótmælir skólinn þeirri fullyrðingu kæranda að hnífaburðurinn hafi verið ómeðvitaður og telur það ekki fá staðist að hnífurinn hafi getað verið í yfirhöfn nemandans í um hálft ár án hans vitundar, sérstaklega ekki ef hann var notaður sem matarhnífur. Af því megi leiða að kærandi hafi verið með hnífinn í fórum sínum, vitandi vits. Vísar skólinn til þess að skv. 30. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, sé vopnaburður á almannafæri bannaður og telur því að kærandi hafi þar með brotið gegn ákvæðum vopnalaga með hnífaburði sínum í skólanum. D mótmælir því að kærandi hafi ekki brotið neinar af skrifuðum reglum skólans. Það sé ekki sérstaklega tilgreint í skólareglum skólans að hnífaburður sé bannaður, en um þetta atvik gildi ekki einungis skólareglur heldur einnig lög um framhaldsskóla. Í 3. mgr. 33. gr. b þeirra laga er mælt fyrir um skyldu framhaldsskóla til að setja sér skólareglur og taldir upp þættir sem m.a. skal mælt fyrir um í skólareglum. Því sé hvergi lögð sú skylda á framhaldsskóla að í skólareglum þeirra skuli vera tæmandi talið hvers konar háttsemi geti valdið beitingu viðurlaga eins og brottrekstri. Fyrir liggi að kærandi var með hnífinn á sér andstætt ákvæðum vopnalaga, sem geti skapað óviðunandi hættu á svæði þar sem fjöldi ungmenna er saman kominn og hnífaburðurinn hafi gengið gegn ákvæði 33. gr. framhaldsskólalaga. Þá hafi hegðun kæranda valdið ónæði gagnvart skólafélögum, sem sé brot á […] gr. skólareglna skólans og 2. mgr. 33. gr. a framhaldsskólalaga. Líti stjórnendur skólans því hnífaburð kæranda mjög alvarlegum augum sem einn og sér geti verið tilefni til brottrekstrar ásamt háttsemi kæranda með myndbirtingunni. Hvað myndbirtinguna varðar, þá byggi skólinn á því að kærandi hafi birt nektarmynd af samnemanda sínum og mátt gera sér grein fyrir því að birting nektarmyndar án samþykkis kæmi til með að hafa alvarlegar afleiðingar og særa viðkomandi aðila. Í þessu samhengi vísar skólinn til aukinnar áherslu á velferð, jákvæða andlega og félagslega líðan nemenda, sbr. framangreindar breytingar á lögum um framhaldsskóla, sbr. og 1. mgr. 33. gr. a sömu laga. Telur skólinn kæranda hafa brotið gegn 1. mgr. 33. gr. b laga um framhaldsskóla, sem og […] gr., […] gr. og […] gr. umgengnisreglna skólans. Skýrt sé kveðið á um það í 33. gr. að brot gegn skólareglum geti varðað brottvísun, þó svo slíkt sé ekki sérstaklega tiltekið í reglum um tölvunotkun. Skólinn líti alvarlegum augum á framangreinda háttsemi kæranda gegn samnemanda sínum og telur að líta verði á hana í því ljósi að slíkar myndir sem settar eru á netið geti verið mjög erfitt ef ekki ómögulegt að eyða af netinu. Þá geti hver sá sem einu sinni hefur haft aðgang að slíkri mynd vistað hana og mögulega dreift síðar. Um sé að ræða mjög alvarlega og vanhugsaða háttsemi sem haft geti alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem í lendir. Það sé mat forsvarsmanna skólans að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn friðhelgi og æru samnemanda og mögulega brotið gegn ákvæðum í XXII. (kynferðisbrot) eða XXV. (ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs) kafla almennra hegningarlaga.
Telur D sig hafa farið eftir málsmeðferðarreglum skólans, þar sem mælt er fyrir um að veita skuli nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar komi, nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum. Að mati skólans hafi brot kæranda hafi verið þess eðlis að það gaf ekki tilefni til að veita kæranda skriflega áminningu eða reyna mildari leiðir áður. Mótmælt er þeirri fullyrðingu kæranda að skólinn hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og litið svo á að allar nauðsynlegar upplýsingar um málsatvik málsins hafi legið fyrir er ákvörðun var tekin í málinu og málið þar með nægilega upplýst. Þá heldur kærandi því fram að skólinn hafi brotið gegn andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem honum hafi ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig, og 21. gr. sömu laga þar sem ákvörðun skólameistara hafi verið órökstudd. Skólinn telur ekki ástæðu til að svara þessum atriðum kæranda sérstaklega þar sem umrædd ákvörðun frá 29. janúar 2015 hafi verið afturkölluð, sbr. bréf skólans dags. 2. febrúar 2015 og kæranda veitt tækifæri til að andmæla með bréfi, dags. 2. febrúar 2015. Þá telur skólinn sig hafa fylgt meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna, stefnt að því að fylgja eftir markmiðum framhaldsskólalaga, brot kæranda hafi verið það alvarleg að ekki hafi verið tilefni til að áminna hann, og að skólinn hafi gætt hófs í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna þegar horft er til vægis þeirra hagsmuna sem hér um ræðir. Þá telur skólinn sig hafa farið eftir ákvæðum stjórnarskrár og barnasáttmálans. Vísað er til þess að með lögum um framhaldsskóla sé slíkur réttur m.a. tryggður en þar séu einnig lögfest viðurlög við brotum gegn lögunum og/eða skólareglum viðkomandi skóla, sem takmarka þann rétt. Ákvörðun skólans sé byggð á lögum um framhaldsskóla og skólareglum sem byggjast á fyrrnefndum lögum og skólanum því heimilt að byggja ákvörðun sína á þeim.
III.
Í athugasemdum kæranda, mótt. 10. mars 2015, er umsögn skólans mótmælt í heild sinni, sem og málavaxtalýsingu að því marki er hún gangi gegn málavaxtalýsingu kæranda. Þá mótmælir kærandi því sem röngu að hafa nokkru sinni ógnað öðrum nemendum með hnífi og hann hafi, ásamt foreldrum sínum ítrekað óskað eftir að fá nánari útskýringar á þeim meintu hótunum en án árangurs. Þá mótmælir kærandi sem röngu að hafa birt nektarmynd af stúlku á nokkrum vettvangi, eins og það er orðað í athugasemdum kæranda. Að mati kæranda hafi skólinn aldrei leitast við að upplýsa hvað gerðist í raun, svo sem skylt hafi verið áður en ákvörðun var tekin í málinu, m.a. með því að inna kæranda eftir lýsingu hans á atburðarás eða afla upplýsinga frá lögreglu sem þó hafi tekið skýrslu vegna málsins. Eðli myndbirtingarinnar og hvað á myndinni hafi verið hafi legið skjalfest fyrir frá því skýrsla var tekin af kæranda hjá lögreglu þann 27. janúar 2015. Þá sé því mótmælt að nokkurt misræmi sé í framburði kæranda og foreldra hans um ástæðu fyrir því að hann hafi verið með umræddan hníf á sér. Þá sé það rangt að nokkur á vegum skólans hafi rætt við kæranda vegna þessa máls. Hann hafi aldrei verið spurður um neitt af skólayfirvöldum og hvorki námsráðgjafi, skólameistari né aðstoðarskólameistari rætt við hann. Hann hafi verið kallaður á kennarastofu þar sem lögreglumenn biðu hans, hann beðinn um að tæma vasana og hringt hafi verið í foreldra hans. Kærandi hafi verið handtekinn og farið með hann til skýrslutöku. Þá hafi foreldrar kæranda árangurslaust reynt að ræða málið við skólastjórnendur skólans.
Hvað varðar hina endanlegu ákvörðun, þá ítrekar kærandi vanhæfi forsvarsmanna skólans til að taka ákvörðun í máli sem þeir höfðu þegar brotið harkalega af sér með því að taka órökstudda ákvörðun án viðeigandi undirbúnings í málinu tveimur vikum áður, eins og það er orðað í athugasemdum kæranda. Forsvarsmenn skólans hafi ekki viljað skoða neitt það sem gæti verið kæranda í hag og því megi með sanni segja að óhlutdrægni þeirra sé dregin í efa. Þá telur kærandi að ekki verði séð að á neinum tímapunkti hafi kærandi verið slík ógn við öryggi nemenda að það veitti heimild til að sniðganga ákvæði tilvitnaðra greina og telur að ekki hafi á nokkurn hátt hafi verið tekið tillit til sjónarmiða hans eða gætt að rétti hans sem nemanda í framhaldsskóla. Þá telur kærandi sig hafa virt reglur skólans, sýnt starfsfólki og nemendum fyllstu kurteisi og virðingu og ekki sýnt af sér ósæmilega hegðun, ónæði eða ókurteisi gagnvart starfsfólki skólans eða skólafélögum sem leitt geti til áminningar eða jafnvel brottvísunar. Mótmælir kærandi því að hafa brotið gegn lögum um framhaldsskóla og skólareglum skólans. Kærandi hafi aldrei mótmælt því að hafa verið með hníf en telur sig hins vegar ekki hafa verið með vopn og kannast hann ekki við að hafa hrætt nokkurn mann með hnífi.
Að mati kæranda hafi ekki verið reynt að leysa mál kæranda með vægari hætti áður en honum var vísað úr skóla. Það hafi verið búið að vísa kæranda úr skóla þegar máli hans var vísað til skólaráðs og kærandi hafi ekki verið kærður fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga. Það liggi því ljóst fyrir að skólinn hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum sínum. Kæranda hafi verið vikið úr skóla á grundvelli símtals sem ekki hafi verið rökstutt frekar og kærandi ekki fengið tækifæri til að verjast. Það sé rangt að skólaráð hafi fjallað um mál kæranda áður en stjórnendur skólans tóku afstöðu til málsins. Þegar skólaráð fjallaði um málið hafi verið búið að víkja kæranda úr skóla ótímabundið og svo breyta því í tímabundna brottvikningu. Þá sé það einfaldlega rangt að ekki hafi gefist tækifæri til að beita mildari úrræðum áður en kæranda var vikið úr skóla. Þá segir í athugasemdum kæranda að hann sé barn sem borið sé sökum sem ekki hafa á nokkurn hátt verið staðfestar.
Rökstuðningur niðurstöðu.
I.
Hvað varðar kæruheimild í máli þessu vísast til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. gr. og 5. mgr. 33. gr. a. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.
Í V. kafla laga um framhaldsskóla er kveðið á um námskrá og námsbrautir og fjallar 21. gr. um aðalnámskrá. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. eru í almennum hluta útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla og skal almennur hluti m.a. innihalda almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála, sbr. j. lið. Í 22. gr. er mælt fyrir um það að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá, sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. er mælt fyrir um að í skólanámskrá skuli m.a. gerð grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Í 33. gr. a. laganna er fjallað um ábyrgð nemenda og málsmeðferð er hegðun nemanda reynist verulega áfátt. Í 33. gr. b. er fjallað um skólabrag. Í 3. mgr. er mælt fyrir um það að hver skóli skuli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skuli m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Í 14. kafla almenna hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 er fjallað um réttindi og skyldur. Í kafla 14.7 í aðalnámskrá er fjallað um skólareglur, sem birtar skulu í skólanámskrá og geyma ákvæði um skólasókn, hegðun og umgengni, námsmat, námsframvindu og prófareglur, viðurlög vegna brota á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Er þar einnig tekið fram að við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skuli fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Í kafla 14.7.2 er fjallað um meðferð ágreiningsmála og kemur þar fram að við vinnslu slíkra mála skuli gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.
Í 33. gr. laga um framhaldsskóla er mælt fyrir um að framhaldsskóli er vinnustaður nemenda og að framhaldsskóli skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Þess skuli jafnframt gætt við skipulag skólastarfs að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið. Þá skuli tekið tillit til sjónarmiða nemenda eins og unnt sé. Í 33. gr. a. er mælt fyrir um að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum samkvæmt 3. mgr. 33. gr. a. að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára. Meðan mál samkvæmt 3. mgr. 33. gr. a. eru óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. b. skal hver skóli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Samkvæmt 4. mgr. skulu framhaldsskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi gekk um með hníf á sér þar sem hann stundaði nám við D. Þá liggur fyrir að kærandi birti mynd af skólasystur sinni á nærbuxum einum fata á fésbókarsíðunni sem mun hafa verið kölluð „E“ og meðlimir síðunnar […] talsins. Er deilt um það af hálfu málsaðila hvort um hafi verið að ræða nektarmynd […]. Að mati ráðuneytisins hefur það atriði þó ekki úrslitaþýðingu í þessu samhengi þar sem ekki verður um það deilt að kærandi deildi með hópi manna á netinu óviðurkvæmilegri mynd af skólasystur sinni, sem honum mátti vera ljóst að væri særandi fyrir stúlkuna. Kærandi mun hafa verið meðlimur í fyrrnefndum lokuðum hópi karlkyns nemenda skólans á fésbókarsíðu þessari […]. Liggur fyrir að myndbirting þessi var án samþykkis umræddrar stúlku og kveðst kærandi hafa tekið myndina út aftur stuttu síðar. Skólastjórnendum barst vitneskja um þessa háttsemi kæranda daginn eftir að þeim varð kunnugt um hnífaburð hans í skólanum, sem og að stúlkan væri í nokkru uppnámi af þessum sökum. Vegna alvarleika málsins var haft samband við lögreglu og þann 27. janúar 2015 hafi aðstoðarskólameistari náð í kæranda í tíma og lögregla rætt við hann. Þann 28. janúar hafi aðstoðarskólameistari rætt við móður kæranda í síma um málið í um stundarfjórðung og skólastjóri fundað í kjölfarið með foreldrum hans degi síðar, þann 29. janúar, og þeim þar afhent bréf um að kæranda væri vikið fyrirvaralaust úr skólanum vegna framangreindra atvika. Sú ákvörðun hafi svo verið dregin til baka á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaganna en kæranda þó vikið tímabundið úr skólanum á meðan málið væri til rannsóknar. Um leið hafi kæranda verið veitt tækifæri til að tjá sig um mögulega brottvísun vegna atvikanna og um hina tímabundnu brottvísun sérstaklega. […].
Í 25. gr. stjórnsýslulaganna er fjallað um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar. Þar er mælt fyrir um það, í 1. tölul., að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Stjórnvaldsákvörðun D frá 29. janúar 2015 var afturkölluð á þessum lagagrundvelli og er því ekki til frekari umfjöllunar hér.
Með bréfi D, dags. 10. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að honum skyldi vísað úr skólanum á yfirstandandi önn. Kemur þar fram að áður en skólastjórnendur tóku afstöðu til máls kæranda hafi því verið vísað til umsagnar skólaráðs og hafi niðurstaða ráðsins verið að víkja bæri kæranda úr skólanum á yfirstandandi önn. Í viðbót við kæru kemur fram að sömu aðilar og viku kæranda úr skóla án fyrirvara hafi tekið endanlega ákvörðun í máli hans og verði að telja að með því hafi verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá þegar verði að telja að ákvörðunin sé ógild og engu skipti þó að leitað hafi verið umsagnar skólaráðs áður en stjórnendur tóku ákvörðun. Má ráða að hér eigi kærandi við 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Að mati ráðuneytisins hefur ekki verið sýnt fram á það að framkoma skólastjórnenda skólans í máli þessu hafi verið með þeim hætti að ógilda beri hina kærðu ákvörðun á þessum lagagrundvelli. Telur kærandi að D hafi, með endanlegri ákvörðun sinni í máli hans, brotið gegn ákvæðum skólareglna skólans, lögum um framhaldsskóla, ákvæðum stjórnsýslulaga, ákvæðum stjórnarskrár og ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Telur kærandi að forsvarsmönnum skólans hafi borið að gæta meðalhófs og beita vægara úrræði en tímabundinni brottvikningu í tilviki kæranda. Segir svo í viðbót við kæru: „Skal einnig bent á að brottvikning barns úr skóla er brot á 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrár…“ Þá er það mat kæranda að meðalhófsregla stjórnsýslulaganna hafi verið brotin þegar tekin var ákvörðun um að vísa honum ótímabundið úr skólanum, og vísar kærandi jafnframt til 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar í því sambandi.
Í tilefni af framangreindum fullyrðingum kæranda skal á það bent að í framhaldsskólalögum nr. 92/2008, með síðari breytingum, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum, er nánar kveðið á um rétt nemenda til skólavistar og lögmætar takmarkanir á þeim rétti, m.a. með tilliti til hegðunar nemenda og hagsmuna samnemenda. Þegar D tók endanlega ákvörðun í máli kæranda hafði lögreglan verið kölluð til vegna framangreindra mála hans í skólanum. Kærandi hafði verið færður til skýrslutöku og játað bæði hnífaburð í skólanum og áðurnefnda myndbirtingu af skólasystur sinni. Þá höfðu skólastjórnendur rætt við foreldra kæranda af þessu tilefni. Verður því ekki fallist á þær fullyrðingar kæranda að rannsóknarregla stjórnsýslulaganna og andmælaréttur kæranda hafi verið virt að vettugi við meðferð máls hans af hálfu skólastjórnenda skólans.
Eins og mælt er fyrir um í áður tilvitnuðum ákvæðum laga um framhaldsskóla eiga nemendur rétt á að finna til öryggis á vinnustað sínum, að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið og að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. Þá bera nemendur ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum, þeim ber að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Þannig ber jafnframt öllum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt 33. gr. b. laga um framhaldsskóla skal hver skóli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá og eru í ákvæðinu taldir upp í dæmaskyni þeir þættir sem kveða skal á um í reglunum. Þá er í 4. mgr. 33. gr. b. tekin skýr afstaða gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólum. Í skólareglum skólans er kveðið á um umgengnisreglur og segir í […] lið þeirra að gagnkvæm virðing og kurteisi skuli ríkja milli starfsfólks og nemenda í skólanum og sýna beri háttvísi og prúðmennsku allsstaðar þar sem komið er fram í nafni skólans. Í […] lið kemur fram að ósæmileg hegðun, ónæði og ókurteisi gagnvart starfsfólki skólans og skólafélögum geti leitt til áminningar og jafnvel brottvísunar. Þá er jafnframt tekið fram að brot á reglum skólans geti leitt til brottvísunar og forráðamönnum ólögráða nemenda sé gert viðvart svo þeir geti nýtt andmælarétt sinn. Einnig segir um tölvunotkun nemenda að þeim sé stranglega bannað að senda óviðeigandi póst og símskilaboð úr tölvum sínum eða tölvum skólans. Þá segir í skólanámskrá skólans að veita skuli nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum.
Kærandi hefur mótmælt lýsingu skólastjórnenda á því hvernig þeim barst vitneskja um hnífaburð hans í skólanum. Að mati ráðuneytisins hefur sá ágreiningur ekki þýðingu í máli þessu þar sem hnífaburður kæranda í skólanum telst alvarleg háttsemi ein og sér og til þess fallin að raska ró og öryggistilfinningu samnemenda hans. Gat umrædd háttsemi þannig ekki talist í samræmi við almennar umgengnisreglur né heldur til þess fallin að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Þá verður ekki fallist á þá skýringu kæranda að hann hafi ekki verið meðvitaður um að hnífurinn var í vasa hans í ljósi þess að fyrir liggur að kærandi notaði umræddan hníf með meðvituðum hætti í skólanum. Hvað varðar myndbirtingu kæranda af skólasystur hans á fésbókarsíðunni og þátttöku hans í þeim hópi, þá verður ekki fallist á það sjónarmið kæranda að hann hafi enga ábyrgð borið á umræddum hópi og lítur ráðuneytið svo á að kærandi hafi, eins og aðrir meðlimir hópsins, borið ábyrgð á honum með þátttöku sinni þar. Þrátt fyrir það að kærandi hafi að eigin sögn tekið fyrrnefnda mynd af skólasystur sinni út af netinu skömmu síðar verður ekki horft fram hjá því að hann mátti gera sér grein fyrir því að myndbirtingin var særandi fyrir þá stúlku sem fyrir henni varð og með henni hafi kærandi ekki fylgt almennum umgengnisreglum. Þá hafi þessi háttsemi kæranda verið ósæmileg og til þess fallin að raska andlegu og félagslegu öryggi stúlkunnar. Þá hafi kærandi með þessu ekki sýnt samnemanda sínum þá virðingu og kurteisi sem honum bar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um framhaldsskóla og skólareglum skólans. Telst myndbirting þessi því ekki í samræmi við áður tilvitnuð ákvæði laganna og skólareglur skólans og er tekið undir það með skólanum að heiti hópsins gefi vísbendingu um að þar sé átt við […]. Með myndbirtingunni á netinu gafst öðrum jafnframt kostur á að hlaða myndinni niður og birta síðar og verður því tekið undir það með skólanum að afleiðingarnar af þessari háttsemi kæranda kunna að vera ófyrirsjáanlegar fyrir umrædda stúlku. Að mati ráðuneytisins var framangreind háttsemi kæranda, bæði hvað hnífaburðinn og myndbirtinguna varðar, alvarlegs eðlis og andstæð framangreindum lagaákvæðum og þeim áherslum sem liggja þeim til grundvallar, sem og ákvæðum skólareglna skólans. Telst því ekki ástæða til að gera athugasemd við þá afstöðu skólastjórnenda skólans að háttsemi kæranda hafi verið svo alvarleg að ekki væri tilefni til að áminna hann áður en ákvörðun um brottvísunina væri tekin. Var skólanum jafnframt skylt að taka réttmætt tillit til hagsmuna samnemenda að þessu leyti, eins og mælt er fyrir um í framangreindum ákvæðum framhaldsskólalaga og skólareglum skólans. Verður því ekki litið svo á að meðalhófsregla stjórnsýslulaganna hafi verið brotin við töku hinnar kærðu ákvörðunar.
Hvað varðar þá kröfu kæranda að honum verði útveguð skólavist í öðrum framhaldsskóla, þá þykir rétt að taka það fram að það mun þegar hafa verið gert með aðkomu til þess bærs stjórnvalds, en sú krafa fellur ekki undir lögsögu ráðuneytisins og ber því að vísa henni frá í úrskurði þessum.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og því ber að staðfesta hana eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun skólameistara D um brottvísun kæranda, B, úr D á vorönn 2015, sem tilkynnt var um í bréfi, dags. 10. febrúar 2015, er staðfest. Kröfu kæranda um að honum verði útveguð skólavist í öðrum framhaldsskóla er vísað frá ráðuneytinu.