Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsmannakjara á leikskólagjöldum

Ár 2010, miðvikudaginn 24. nóvember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneyti svofelldur

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

 

Kæruefnið

 

Með bréfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, mótt. 12. maí sl., var mennta- og menningarmálaráðuneytinu framsend kæra A (kæranda). Kærð er sú ákvörðun sveitarstjórnar X að hafna umsókn kæranda um námsmannakjör á leikskólagjöldum.  Telur kærandi að X beri að veita honum námsmannakjör á leikskólagjöldum og endurgreiða jafnframt ofgreidd leikskólagjöld.

 

Í umsögn X kemur fram að umsókn kæranda um námsmannaafslátt af leikskólagjöldum hafi verið hafnað með hliðsjón af gr. 11 í verklagsreglum fyrir starfsemi leikskóla X, en þar komi skýrt fram að báðir foreldrar skulu vera í námi til að njóta námsmannaafsláttar.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. maí sl., var óskað eftir umsögn X um kæruna og barst hún ráðuneytinu 23. júní s.l. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögnina með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. júlí sl.  Með símtali við ráðuneytið kom kærandi því á framfæri að hann hygðist ekki koma að frekari athugasemdum og vísaði til þeirra röksemda er fram komu í kæru hans. 

 

Málsatvik og málsástæður

 

Í rökstuðningi kæranda kemur fram að honum hafi verið synjað um námsmannaafslátt af leikskólagjöldum fyrir börn sín með vísan til 11. gr. verklagsreglna X, en þar er kveðið á um að báðir foreldrar skulu stunda viðurkennt og lánshæft nám og uppfylla kröfur um lágmarks námsframvindu til að eiga kost á að njóta námsmannaafsláttar af leikskólagjöldum.  Kærandi stundar sjálfur nám á Y en maki hans er heimavinnandi.  Fram kemur að kærandi fái aukin námslán á grundvelli þess að maki kjósi  að fylgja honum til náms og búi þau í námsmannaíbúð.  Börn þeirra séu vistuð í leikskóla Z en kærandi njóti ekki námsmannakjara þar sem X hafi synjað erindi hans á framangreindum forsendum.  Maki kæranda, sem sé heyrnarlaus og 75% öryrki, hafi flutt með honum til Y svo hann gæti stundað þar nám og ætti kærandi því rétt á svokölluðu makaláni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN), sbr. 12. gr. laga nr. 21/1992,  um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Tilgangurinn með því væri að hefta ekki möguleika námsmanna til náms ef þeir þyrftu að framfleyta maka sem t.d. sé öryrki, sbr. framfærsluskyldu maka í hjúskaparlögum.  Þar með sé framfærsla kæranda og maka hans lánshæf hjá LÍN þó svo makinn stundi ekki nám.  Kærandi sé þannig, sem námsmaður, skyldugur til að framfleyta bæði sér og maka sínum á námsmannakjörum.  Allar þær tekjur sem makinn afli skerði einnig rétt kæranda til námslána.  Því geti, að mati kæranda, ekki staðist að hafna því að hann eigi rétt á námsmannaafslætti vegna tekna maka, enda sé ekkert sem banni námsfólki að hafa tekjur samhliða námi sínu.  Bendir kærandi á að nám hans veiti honum rétt til að fá námslán bæði vegna framfærslu sinnar og maka síns, þrátt fyrir að makinn sé ekki í námi en kjósi að vera heimavinnandi.  Kærandi rökstyður þannig kröfu sína um að fá endurgreidd ofgreidd leikskólagjöld og að fá framvegis að njóta sömu kjara og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.  Telur kærandi að reglur X, sem kveða á um að ekki sé veittur námsmannaafsláttur ef aðeins annað foreldri er í námi, stangist á við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Telur kærandi að honum hafi verið synjað um að njóta námsmannakjara á leikskólagjöldum á órökstuddum heimildum og vísar til reglna X í því sambandi.

 

Með bréfi X til kæranda, dags. 12. apríl sl., kemur fram að erindi kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi byggðaráðs X 31. mars sl.  Á fundinum hafi verið bókað að ekki hafi verið unnt að verða við erindinu með vísan í reglur.  Í umsögn X um kæruna, sem barst ráðuneytinu 29. júní sl., er vísað til þess að ákvörðun um gjaldtöku vegna leikskóladvalar hvíli á sveitarfélögum samkvæmt 27. gr. laga um leikskóla.  Þar sé kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla.  Gjaldtaka fyrir hvert barn megi þó ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn X hafi samþykkt á fundi 21. janúar sl. gjaldskrá fyrir leikskóla í X, sem tók gildi 1. mars sama ár.  Þar komi fram að einstæðir foreldrar og námsmenn geti notið afsláttar af leikskólagjöldum og fer afslátturinn eftir fjölda barna á leikskóla og verklagsreglum.  Í verklagsreglum um starfsemi leikskóla í X, sem tóku gildi í nóvember 2006, sé nánar skilgreint hverjir eiga rétt á afslætti af leikskólagjöldum í X.  Í umsögninni er vísað til 11. gr. verklagsreglnanna, þar sem fram kemur að námsmenn greiði lægra gjald ef báðir foreldrar eru í viðurkenndu lánshæfu námi eða fullu námi í framhaldsskóla og uppfylli kröfur um lágmarks námsframvindu hjá viðurkenndri menntastofnun.  Telur X það skýrt samkvæmt tilvitnaðri grein í verklagsreglum að báðir foreldrar skuli vera í viðurkenndu lánshæfu námi til að eiga rétt á námsmannaafslætti af leikskólagjöldum.  Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði ekki heimfærðar yfir á verklagsreglur fyrir starfsemi leikskóla í X, enda ólíku saman að jafna.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

 

1.

Samkvæmt VIII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, annast sveitarfélög uppbyggingu og rekstur leikskóla og taka ákvörðun um stjórn þeirra. Ákveði sveitarstjórn að koma á fót leikskóla fer um starfsemi hans samkvæmt lögum nr. 90/2008, um leikskóla.

 

Ákvæði tilvitnaðra laga veita einstökum sveitarfélögum svigrúm til þess að skipuleggja þjónustu, þ. á m. umfang þjónustunnar svo sem daglegan starfstíma. Um þessi atriði er ekki deilt í máli þessu auk þess sem ákvarðanir sveitarstjórnar í þessum efnum sæta ekki kæru til ráðherra, sbr. 30. gr. laga um leikskóla.  Í 1. mgr. 27. gr. laganna er kveðið á um heimild sveitarstjórna til að ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla.  Samkvæmt ákvæðinu má þó gjaldtaka fyrir hvert barn ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins.  Samkvæmt 30. gr. laganna eru ákvarðanir um gjaldtöku fyrir vist í leikskóla, sbr. 27. gr., kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðherra.  Gjaldtökuheimild 27. gr. laga um leikskóla hefur að geyma einfalda lagaheimild til töku þjónustugjalds. Löggjafinn hefur ekki tekið afstöðu til fjárhæðar gjaldsins í lögunum, að öðru leyti en því er að framan greinir. Felur ákvæði 1. mgr. 27. gr. þannig í sér valdframsal til sveitarstjórna til ákvörðunar á fjárhæð leikskólagjalda, að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem tilgreind eru í ákvæðinu sjálfu sem og þeirra réttarreglna og lagasjónarmiða sem gilda um þjónustugjöld. Þá verður almennt að ganga út frá því að þjónustugjöld verði eingöngu innheimt til að standa straum af kostnaði við það endurgjald sem lagaheimildin mælir fyrir um, að hluta til eða öllu leyti.  Samkvæmt 27. gr. laga um leikskóla má gjaldtaka ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélags.  Sveitarstjórnir geta útfært gjaldskrá sína nánar í verklagsreglum og er þeim ennfremur í sjálfsvald sett hvort þau bjóða tilteknum hópum, svo sem námsmönnum, ívilnandi kjör á leikskólagjöldum svo framarlega að slíkar reglur séu málefnalegar og reistar á jafnræðisgrundvelli.  Samkvæmt 11. gr. fyrrnefndra verklagsreglna X greiða námsmenn lægra leikskólagjald, að því tilskildu að báðir foreldrar séu í viðurkenndu lánshæfu námi, eða í fullu námi í framhaldsskóla, og uppfylli kröfur um lágmarks námsframvindu hjá viðurkenndri menntastofnun.  Þá er tekið fram að ákvæðið eigi ekki við um fólk sem stundar vinnu samhliða námi.  Samkvæmt framansögðu er það tilgangur ákvæðisins að bjóða ívilnandi kjör á leikskólagjöldum í þeim tilvikum er báðir foreldrar stunda viðurkennt lánshæft nám, fullnægja lágmarkskröfum um námsframvindu og stunda ekki vinnu samhliða náminu.  Þannig er leitast við að koma til móts við þann hóp foreldra, er 11. gr. verklagsreglnanna tekur til, með þeim hætti að bjóða þeim námsmannafslátt af leikskólagjöldum, séu skilyrði samkvæmt ákvæðinu uppfyllt.  Lítur ráðuneytið svo á að það fyrirkomulag sé reist á jafnræðisgrundvelli gagnvart þeim foreldrum sem eru í sambærilegri stöðu, og uppfylla skilyrði fyrir framangreindri ívilnun, og umsóknir þeirra hljóti þannig sambærilega meðferð.

 

2.

Samkvæmt þeim upplýsingum er liggja fyrir í málinu er staða kæranda sú að hann stundar viðurkennt lánshæft nám en maki hans ekki.  Maki kæranda er 75% öryrki og á því rétt til örorkulífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar.  Jafnframt á kærandi rétt á aukaláni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, samkvæmt 12. gr. laga nr. 21/1992.  Að mati ráðuneytisins verða þessar aðstæður kæranda ekki lagðar að jöfnu við aðstæður foreldra leikskólabarna sem báðir stunda viðurkennt lánshæft nám, enda sérstaklega tekið fram í 11. gr. verklagsreglnanna að þeir námsmenn sem afla sér tekna með vinnu samhliða námi njóti ekki ívilnunar samkvæmt 11. gr.  Með hliðsjón af framangreindu á kærandi ekki  rétt á námsmannaafslætti af leikskólagjöldum og hefur því ekki ofgreitt leikskólagjöld.  Að mati ráðuneytisins rúmast framangreind verklagsregla X innan þess svigrúms sem sveitarstjórnir hafa til ákvörðunar leikskólagjalda, sbr. 27. gr. laga nr. 90/2008, og telst bæði lögmæt og málefnaleg, enda miðar hún að því að veita þeim foreldrum ívilnun  sem eru í sambærilegri stöðu, þ.e. stunda báðir viðurkennt lánshæft nám og hafa eingöngu námslán sér til framfærslu. 

 

3.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Hin kærða ákvörðun X um að synja A um námsmannaafslátt af leikskólagjöldum er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta