Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Brottvísun úr skóla

Ár 2009, föstudaginn 13. febrúar, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið

Menntamálaráðuneytinu barst með tölvupósti, þann 27. desember sl., kæra A og B f.h. sonar þeirra, C, 11 ára nemanda við X á Y. Kærð er sú ákvörðun skólastjóra X að vísa C úr skóla og telja kærendur að við málsmeðferð og töku þeirrar ákvörðunar hafi ákvæða stjórnsýslulaga ekki verið gætt. Í umsögn skólastjóra er því hafnað að ákvæði stjórnsýslulaga hafi verið brotin við málsmeðferð og ákvörðunartöku í málinu.

Málavextir

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum þegar skólastjóri X ákvað að vísa C tímabundið úr skólanum. Ágreiningur er hjá málsaðilum um málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

C hóf nám við X haustið 2006. Í umsögn skólastjóra, dags. 7. janúar sl., kemur fram að frá hausti 2007 hafi farið að bera á ýmsum árekstrum og útistöðum hans við samnemendur. X hafi þá tekið á málum hans eins og gert er við nemendur með sérþarfir, sérstakt tillit hafi verið tekið til hans í kennsluskipulagi og skipulagi í kennslustofu og gæsla í útiveru verið aukin. Í athugasemdum foreldra við umsögn skólans, dags. 22. s.m., er því andmælt að fljótt hafi farið að bera á samskiptaerfiðleikum C við aðra nemendur skólans, ekki séu margar færslur sem styðji það og tengist þær langflestar íþróttatímum og frímínútum, sem C eigi erfitt með vegna ADHD röskunar sinnar. Þá taka foreldrar hans ekki undir það að skólinn hafi tekið sérstakt tillit til C síðastliðin tvö skólaár en hann hafi hins vegar haft góðan og skilningsríkan kennara sem unnið hafi í mjög góðu samstarfi við heimilið. Þá hafi PMT ráðgjöf komið til sögunnar að ósk foreldra sem höfðu farið í slíka ráðgjöf að eigin frumkvæði. Í umsögn skólastjóra kemur fram að atvik hafi verið skráð í dagbók Mentor en eftir ábendingu móður sem vísaði til ADHD greiningar drengsins og sérstöðu hans hafi verið dregið úr skráningum í dagbók og meira orðið um óskráðar hringingar og tölvupósta þar sem tilkynnt hafi verið um einstaka tilvik. Ýmsar aðrar lausnir hafi verið ræddar, m.a. ráðgjöf frá Hlíðarskóla. Í umsögn foreldra kemur fram að þeir minnist þess ekki að ýmsar aðrar lausnir hafi verið ræddar en skólinn hafi lagt til að C fengi viðtöl hjá ráðgjafa Hlíðarskóla og þau strax orðið við því í nóvember 2007. Það sé því ekki rétt að ráðgjafinn hafi komið inn í vinnuna á vorönn 2008 heldur haustönn 2007. Þá taka foreldrar það fram að þau hafi verið beðin um að hafa drenginn heima síðustu vikuna fyrir jól og orðið við þeirri ósk skólans. Í umsögn skólastjóra kemur fram að við upphaf vorannar 2008 hafi foreldrum C verið boðið að hann yrði fluttur í annan bekk, sem úr varð. Hafi ástæða þess m.a. verið ofbeldi sem átti sér stað gagnvart þáverandi umsjónarkennara og fleira starfsfólki skólans. Deildarstjóri skólans, verkefnisstjóri PMT og íþróttakennari hafi verið fengin til að vinna með C í atferlismótunarvinnu í skólanum og hafi sú aðlögun gengið vel. Stuðningsfulltrúi hafi komið inn í vinnuna til að æfa reglur sem settar höfðu verið, í samráði við verkefnisstjóra PMT hjá skóladeild. Þá hafi komið inn í vinnuna fjölskylduráðgjafi Hlíðarskóla sem sé sérskóli fyrir börn með aðlögunarvanda í skóla, m.a. vegna hegðunar. Foreldrar andmæla því að skólinn hafi boðið þeim að drengurinn færi í annan bekk heldur hafi kennari hans neitað að kenna honum áfram, eins og sjá megi í skýrslu skólans. Hafi skólinn þá boðið honum að fara í bekk með ári eldri nemendum á þeim forsendum að honum gengi vel námslega. Foreldrar hafi hins vegar ekki viljað þiggja það þar sem drengnum gangi ekki vel félagslega frekar en flestum öðrum börnum með svipaða hegðunarröskun. Fram kemur að um vorið 2008 hafi verið unnið með framkvæmdaáætlun fyrir C vegna skólaársins 2008-2009. Hins vegar kannast foreldrar ekki við að framkvæmdaáætlun hafi verið unnin fyrir bekkinn.

Fram kemur í umsögn skólastjóra að C hafi fengið nýjan stuðningsfulltrúa í skólanum ásamt viðtölum við sálfræðing og reglulegu sambandi foreldra við barna- og unglingageðlækni drengsins. Hins vegar andmæla foreldrar því að hafa fengið ráðgjöf frá skólaþróunarsviði Háskólans á Y og að foreldrar samnemenda hafi fengið fræðslu um málið sem lið í samstarfi. Þá ríkir ágreiningur um það milli foreldra og skólastjóra hversu vel vinnan með C hafi gengið. Í umsögn skólastjóra kemur fram að þann 28. nóvember sl. hafi C veist að bekkjarfélaga sínum í fótbolta í frímínútum og í kjölfar þess borið á kvíða samnemenda. Þann 11. desember hafi skólastjórnendur haldið fund með móður C þar sem alvarleiki málsins hafi verið ræddur og settir upp tveir valkostir, annars vegar að drengurinn færi í annan skóla þar sem hann fengi nýtt upphaf og hins vegar að boðað yrði til foreldrafundar þar sem foreldrar C gætu upplýst foreldra bekkjarfélaganna um þá vinnu sem væri í gangi til að freista þess að ná þeim til samstarfs. Móðir hans hafi ekki treyst sér til að mæta á fundinn þar sem faðirinn væri á sjó en gefið leyfi sitt fyrir því að skólastjórnendur héldu slíkan fund. Samkvæmt athugasemdum foreldra C við umsögn skólastjóra er þessi málavaxtalýsing hins vegar ekki rétt, ekki hafi verið settir upp tveir valkostir heldur rætt um hugsanlegar leiðir og möguleika fyrir C eða boðaður foreldrafundur. Þá hafi móðir gefið leyfi sitt til að ræða mætti um son hennar á fundi með öðrum foreldrum með því skilyrði að gerð yrði fundargerð. Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi foreldrum einungis borist minnisblað skólastjóra. Fram kemur í umsögn skólastjóra að þann 16. desember sl. hafi átt sér stað alvarlegt atvik í íþróttatíma þar sem drengir voru að spila fótbolta. C hafi þar sparkað í einn nemanda, síðan ráðist á aðra tvo og svo náð að slá til þriggja annarra nemenda á leið sinni út, áður en íþróttakennarar sem þar voru náðu taki á honum. Í athugasemdum móður um þetta atvik kemur fram að ljóst sé að X hafi ekki fylgt þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt hafi verið að vinna eftir um haustið, um að streituvaldandi þættir í lífi og umhverfi drengsins verði skoðaðir og dregið úr þeim og að mikilvægt væri að allt starfsfólk sýndi þörfum hans fullan stuðning en tryggði um leið öryggi annarra barna gagnvart reiðiköstum hans. Þegar umrætt atvik varð hafi kennari C verið veikur og ekki hafi verið settur inn forfallakennari fyrir hann heldur hafi tveir kennarar tekið að sér alla þrjá bekkina og látið alla drengi fara í fótbolta sem vitað er að sé mjög erfiður leikur fyrir C vegna röskunar hans.

Þann 17. desember sl. sendi skólastjóri tölvupóst til kærenda þar sem tilkynnt er tímabundin brottvísun drengsins úr skólanum og boðað skriflegt bréf þess efnis daginn eftir. Í tölvupóstinum segir m.a.: „Ég sé mér því ekki annað fært en að vísa til greinar 14 í grunnskólalögum og vísa C tímabundið úr X á meðan unnið er að lausn hans máls.“ Ekki kemur skýrt fram í tölvupóstinum til hvaða tíma brottvísuninni er ætlað að taka en þó má af honum ráða að um sé að ræða dagana 18. og 19. desember 2008.

Bréf skólastjóra, dags. 18. s.m., er meðal gagna þessa máls og kemur þar fram að skólastjóri vísi drengnum tímabundið úr skólanum meðan unnið sé að lausn hans máls og að brottvísunin gildi til 16. janúar 2009. Þá er tekið fram að samkvæmt stjórnsýslulögum hafi foreldrar andmælarétt í 3 daga. Með bréfi til bæjarstjórnar Y, dags. 19. desember 2008, fór móðir C þess á leit að ákvörðun skólastjóra yrði felld úr gildi þar sem ekki hefði verið fylgt reglum stjórnsýslulaga. Með bréfi fræðslustjóra Y, dags. 22. desember 2008 var erindið áframsent til skólastjóra X, „sem andmæli við áðurnefndri ákvörðun“ með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi skólastjóra X, dags. 22. desember 2008, er móður C tilkynnt sú ákvörðun að vísa syni hennar tímabundið úr X til 16. janúar.

Með bréfi, dags. 29. desember 2008, fóru kærendur þess á leit við bæjarstjórn Y að ákvörðun um að vísa syni þeirra úr skóla yrði „endurupptekin samkvæmt sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum og felld úr gildi.“ Í beiðninni er vísað til þess að kærendur hafi ekki fengið að tjá sig um þann grundvöll sem ákvörðun byggðist á. Með tölvupósti 2. desember 2009 var kærendum tilkynnt að endurupptökubeiðni þeirra yrði tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 8. janúar 2009. Um leið var þeim bent á að unnt væri að kæra ákvörðun skólastjóra til menntamálaráðuneytisins, sbr. 47. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Í bréfi bæjarlögmanns Y til kærenda, dags. 8. janúar sl., er barst ráðuneytinu 15. janúar sl., var beiðni þeirra um endurupptöku málsins hafnað þar sem ekki væru uppfyllt skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku málsins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. janúar sl., var óskað eftir umsögn skólastjóra um kæruna og þau gögn sem brottvísun C væri byggð á. Sama dag voru rituð bréf til skólanefndar Y, þar sem óskað var upplýsinga um það hvort C hefði verið fundið viðeigandi kennsluúrræði þann tíma sem brottvísun hans væri ætlað að vara, og til bæjarstjóra þar sem óskað var svara við því hvort bærinn hefði afgreitt endurupptökubeiðni kærenda. Svar skólanefndar Y barst ráðuneytinu með bréfi fræðslustjóra bæjarins, dags. 7. janúar sl. og svarbréf Y barst ráðuneytinu með bréfi bæjarlögmanns bæjarins, dags. 6 janúar sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. janúar sl., var umsögn skólastjóra send kærendum og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir þeirra bárust ráðuneytinu 26. janúar sl.

Málsástæður

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Í fyrirliggjandi kæru og athugasemdum kærenda við umsögn skólastjóra er því haldið fram að með brottvísun sonar þeirra hafi ákvæði stjórnsýslulaga verið brotin. Rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófs hafi ekki verið gætt og þau ekki notið andmælaréttar þar sem ákvörðun í málinu hafi þegar verið tekin þegar þeim var veitt tækifæri til að nýta andmælarétt sinn. Þá gera þau athugasemdir við stjórnsýslu Y þar sem andmæli foreldra við stjórnsýslu skólastjóra, send bænum með bréfi dags. 19. desember sl., hafi verið send honum sem andmæli við inntak ákvörðunarinnar. Þau hafi hins vegar verið að andmæla brotum skólastjóra á stjórnsýslulögum en ekki inntaki ákvörðunarinnar og gert þá kröfu að ákvörðun um brottvísun yrði felld úr gildi vegna brota á ákvæðum stjórnsýslulaga. Loks telja þau 14. gr. laga um grunnskóla ekki eiga við um ákvörðun skólastjóra um brottreksturinn þar sem hegðunarvandamál sonar þeirra hafi í raun ekki legið til grundvallar ákvörðuninni heldur það sem fram hafi komið á foreldrafundi sem haldinn var vegna málsins. Í umsögn skólastjóra kemur fram að í kjölfar bréfs hans til foreldra, dags. 18. desember sl., hafi verið boðað til undirbúningsfundar í skólanefnd þann 22. s.m. þar sem móðir C hafi mætt og málsaðilar fengið að flytja mál sitt. Þann 23. s.m. hafi foreldrum verið boðið til fundar með fræðslustjóra og skólasálfræðingi í skólateymi fjölskyldudeildar. Þá hafi foreldrar einnig óskað eftir fundi með skólastjórnendum X og fulltrúum skólaþróunarsviðs Háskólans á Y til að ræða málið frekar. Hafi verið fallist á það og fundur haldinn með skólastjórnendum skólans, fræðslustjóra og foreldraráðgjafa Sjónarhóls þann 29. desember sl. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að skólastjórnendur X töldu sig hafa gert allt sem í þeirra valdi stóð fyrir C og gætu ekki lengur sinnt honum sem skyldi. Foreldrar hans töldu hann hins vegar eiga rétt á því að vera í X og hafi það verið eindreginn vilji þeirra. Í umsögn skólastjóra kemur fram að ljóst sé að foreldrar C hafi fengið a.m.k. þrívegis að tjá sig á fyrrgreindum fundum áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin um brottvísun á fundi þann 29. desember sl. Þá hafi þau sent bæjarstjórn Y stjórnsýslukæru 19. desember sl. þar sem fram kæmu skrifleg andmæli þeirra.

Í athugasemdum foreldra C er tekið fram að þau telji þá fundi sem skólastjóri vísar í ekki fela í sér andmæli við þeirri ákvörðun sem búið hafi verið að taka. Á þeim fundum hafi aldrei verið rætt um hvort vísa ætti honum úr skóla heldur hafi það ætíð komið fram í máli allra að búið væri að vísa honum burt. Sú fullyrðing skólastjóra að þau hafi a.m.k. þrívegis fengið að tjá sig um málið sé því ekki rétt. Í umsögn skólastjóra er því haldið fram að skólastjóri hafi rétt til brottvísunar um stundarsakir annars vegar og tímabundið hins vegar samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla. Er því haldið fram í umsögninni að þegar brottvísun um stundarsakir eigi sér stað sé ekki ráðrúm til að veita andmælarétt, „eins og við á um þennan eina dag fyrir jólafrí (19. desember)" en hins vegar beri að veita andmælarétt ef verið er að vísa nemanda tímabundið úr skóla, „sbr. hin tímabundna brottvísun sem boðuð var til 16. janúar 2009 (tímabilið 6. til 16. janúar 2009)." Í athugasemdum foreldra er þessum skilningi skólastjóra andmælt. Í umsögn skólastjóra er því hafnað að ákvæði stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð og ákvörðunartöku í málinu.

Rökstuðningur niðurstöðu

1.

Í 3. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að reynist hegðun nemanda verulega áfátt beri kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og kennara hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að skólastjóri geti vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Brottvísun úr skóla sem er ætlað að vara lengur en einn dag telst stjórnvaldsákvörðun og gilda því um hana ákvæði stjórnsýslulaga, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 24. febrúar 1994, máli nr. 761/1993. Um þá ákvörðun sem tilkynnt var kærendum með tölvupósti 17. desember sl., um brottvísun sonar þeirra úr skólanum, giltu því ákvæði stjórnsýslulaga. Í því sambandi skal það tekið fram að ekki hefur þýðingu í þessu sambandi hvort brottvísun er tilgreind sem tímabundin eða um stundarsakir því í báðum tilvikum er ákvörðuninni ætlað að ná til tiltekins og afmarkaðs tímaramma. Gilda því ákvæði stjórnsýslulaga í slíkum tilvikum, sé um að ræða brottvísun í fleiri en einn dag, þar sem slík ákvörðun telst þá ekki lengur falla undir hin vægari úrræði sem notuð eru til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum í skóla, sbr. fyrrnefnt álit umboðsmanns Alþingis. Slík ákvörðun varði mikilvæg réttindi og skyldur nemenda, sem eiga ótvíræðan rétt til að sækja grunnskóla og beri jafnframt skylda til þess, og sé því svo íþyngjandi að líta beri svo á að ákvæði stjórnsýslulaga gildi í slíkum tilvikum.

Kærendur hafa haldið því fram að 14. gr. laga um grunnskóla eigi í raun ekki við í máli þessu þar sem hegðun sonar þeirra virðist ekki hafa legið til grundvallar ákvörðun heldur athugasemdir foreldra samnemenda hans sem fram komu á foreldrafundi sem haldinn var í tengslum við mál C í skólanum. Það er mat ráðuneytisins, eftir að hafa yfirfarið gögn þessa máls og alla málavexti, að 14. gr. eigi við um mál þetta. Tilvísun skólastjóra í umræddan foreldrafund veldur því ekki að 14. gr. eigi ekki við um málið en kann hins vegar að hafa þýðingu varðandi mat á því hvort fylgt hafi verið ákvæðum stjórnsýslulaga.

2.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, er kveðið á um það að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í órjúfanlegum tengslum við greinina eru ákvæði 14. og 15. gr. sömu laga, þar sem annars vegar er mælt fyrir um skyldu stjórnvalds til þess að tilkynna aðila um að meðferð máls og um rétt aðila til þess að fá að kynna sér gögn máls. Í athugasemdum með frumvarpi til laga þeirra sem síðan urðu að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur fram að kjarni andmælareglunnar sé sá að ekki verði tekin ákvörðun um réttarstöðu aðila fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á því að kynna sér málsgögn og málsástæður sem ákvörðun byggist á og að tjá sig um málið. Í reglunni felist því að aðili máls skuli eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Loks segir að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila. Tilgangur hennar sé einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst. Tengist hún þannig rannsóknarreglunni, þ.e. að stjórnvöld eigi að stuðla að því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3295.)

Samkvæmt gögnum málsins sendi skólastjóri tölvupóst til kærenda, dags. 17. desember sl. þar sem tilkynnt var um brottvísun C úr X og má ráða af bréfinu að brottvísunin taki til dagana 18. og 19. desember. Jafnframt var tilkynnt um að undirritað bréf sama efnis yrði sent kærendum næsta dag, 18. desember. Af umsögn skólastjóra má hins vegar ráða að hann líti svo á að þarna hafi einungis verið um brottvísun í einn dag að ræða, 19. desember. Þá segir jafnframt: „Minnt skal á að skólastjórar hafa rétt til brottvísunar um stundarsakir annars vegar og tímabundið hins vegar skv. 4. mgr. 14. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Þegar brottvísun á sér stað um stundarsakir er ekki ráðrúm til að gefa andmælarétt eins og við á um þennan eina dag fyrir jólafrí (19. desember). Hins vegar ber að gefa andmælarétt ef verið er að vísa nemanda tímabundið úr skóla sbr. hin tímabundna brottvísun sem boðuð var til 16. janúar 2009 (tímabilið 6. til 16. janúar 2009).“ Menntamálaráðuneytið lítur svo á að gögn málsins beri með sér að sú brottvísun sem tilkynnt var með fyrrnefndum tölvupósti hafi átt að gilda í tvo daga, eða fram að jólafríi. Kærendur hafa haldið því fram að 14. gr. laga um grunnskóla eigi í raun ekki við í máli þessu þar sem hegðun sonar þeirra virðist ekki hafa legið til grundvallar ákvörðun heldur athugasemdir foreldra samnemenda hans sem fram komu á foreldrafundi sem haldinn var í tengslum við mál C í skólanum. Það er mat ráðuneytisins, eftir að hafa yfirfarið gögn þessa máls og alla málavexti, að 14. gr. eigi við um mál þetta. Tilvísun skólastjóra í umræddan foreldrafund veldur því ekki að 14. gr. eigi ekki við um málið en kann hins vegar að hafa þýðingu varðandi mat á því hvort fylgt hafi verið ákvæðum stjórnsýslulaga.

Samkvæmt því sem gögn málsins bera með sér höfðu kærendur þessa máls ekki átt kost á að koma á framfæri andmælum sínum og rökstuddum athugasemdum við fyrirhugaða ákvörðun sem þeim var tilkynnt þann 17. desember sl. Í bréfi því sem barst þeim næsta dag er tilkynnt um tímabundna brottvísun C úr skólanum til 16. janúar 2009. Þá er tekið fram að samkvæmt stjórnsýslulögum hafi kærendur andmælarétt í 3 daga. Af efni bréfsins og fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að ákvörðun um brottvísun hafi þegar verið tekin, þann 17. desember, og því hafi réttur kærenda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga til að kynna sér þau gögn og rök er lágu til grundvallar ákvörðuninni, koma á framfæri athugasemdum, upplýsingum og andmælum við fyrirhugaða ákvörðun skólastjóra og gæta þannig réttar síns og hagsmuna f.h. sonar þeirra því í reynd ekki verið virtur. Sá andmælaréttur sem boðaður var í umræddu bréfi var því með öllu þýðingarlaus þar sem stjórnvaldsákvörðun um brottreksturinn hafði þá þegar verið tekin. Verður ekki séð að þeir fundir sem skólastjóri vísar til, og hafi átt að tryggja andmælarétt kærenda, hafi þýðingu í þessu sambandi þar sem hin kærða stjórnvaldsákvörðun hafði þegar verið tekin. Af þessari ástæðu verður ekki heldur séð að bréf skólastjóra til kærenda 22. desember 2008, hafi þýðingu við mat á því hvort andmælaréttar kærenda hafi verið gætt. Efni þess bréfs er tilgreint sem „Ákvörðun í kjölfar andmæla vegna tímabundinnar brottvísunar C úr X.“ Andmælaréttar kærenda hafði hins vegar ekki verið gætt frá því hin kærða ákvörðun um brottvísun var upphaflega tilkynnt þann 17. desember sl. Bætir því bréf þetta ekki úr þeim annmörkum, heldur var með því aðeins verið að ítreka þá ákvörðun sem tilkynnt var með bréfi þann 18. desember. Brot á andmælarétti aðila máls telst verulegur annmarki á stjórnvaldsákvörðun og verður því ekki hjá því komist að ógilda hina kærðu ákvörðun skólastjóra um brottreksturinn, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

Kærendur þessa máls hafa gert athugasemdir við meðferð Y á máli þeirra. Fram kemur í gögnum málsins að kærendur sendu bréf til bæjarstjórnar Y, dags. 19. desember sl., þar sem þess er farið á leit að ákvörðun skólastjóra um brottvísun C verði þegar felld úr gildi vegna ólögmætis hennar. Í svarbréfi Y, dags. 22. s.m., kemur fram að erindi kærenda hafi verið „framsent til skólastjóra X sem andmæli við áður nefndri ákvörðun, samanber. 2. málsgrein 7. gr. Stjórnsýslulaga.“ Menntamálaráðuneytið telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við þessa meðferð bæjarins á erindi kærenda. Í stað þess að áframsenda erindið skólastjóra sem andmæli við ákvörðun, sem þegar hafði verið tekin bar bæjarstjórn að leiðbeina kærendum um kæruleið til ráðuneytisins skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggur að kæruleið innan sveitarstjórnar var ekki fyrir hendi, sbr. bréf bæjarlögmanns til ráðuneytisins, dags. 6. janúar sl. Í tölvupósti Y til kærenda, dags. 2. janúar sl., var bætt úr þessum annmörkum og kærendum leiðbeint um kæruleið til ráðuneytisins jafnframt því sem þeim var tilkynnt um að beiðni þeirra um endurupptöku málsins biði afgreiðslu bæjarstjórnar Y.

3.

Kærendur halda því einnig fram að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt við meðferð málsins. Í 12. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að stjórnvöld skulu því aðeins taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í meðalhófsreglunni felast þrír meginþættir. Í fyrsta lagi er gerð sú krafa að efni ákvörðunarinnar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt, í öðru lagi skal velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ er þjónað geta því markmiði sem að er stefnt og í þriðja lagi er gerð sú krafa að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið. Því er óheimilt að beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsyn ber til. Eins og áður hefur verið rakið varðar ákvörðun um brottrekstur, ekki síst í lengri tíma eins og hér um ræðir, mikilsverða hagsmuni nemenda, réttindi þeirra og skyldur, og er íþyngjandi fyrir þann sem í hlut á. Af gögnum þessa máls verður ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi komið til umræðu hjá skólastjóra eða yfirvöldum skólamála í sveitarfélaginu áður en til hennar var gripið. Að sama skapi verður ekki séð að könnuð hafi verið önnur og vægari úrræði sem kynnu að hafa komið í veg fyrir að grípa þyrfti til brottvísunar, svo sem sérstök fylgd aðstoðarmanns eða móður drengsins sem hefðu mögulega þjónað því markmiði sem að var stefnt með umræddri brottvísun.

Þá halda kærendur því fram að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins. Í 10. gr. laganna er mælt fyrir um að stjórnvöld skulu sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og er markmið reglunnar að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Einkum þegar um er að tefla mikilsverða hagsmuni málsaðila eru reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt og skyldu stjórnvalda til að rannsaka mál með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun í því er tekin í reynd nátengdar. Fái málsaðilar ekki tækifæri til að nýta sér andmælarétt sinn aukast líkur á því að þar með hafi viðkomandi mál ekki verið nægilega rannsakað þar sem andmælarétti er meðal annars ætlað að stuðla að því að fá fram nauðsynlegar upplýsingar frá málsaðila um leið og honum er veitt sérstakt tækifæri til að tjá sig um hina fyrirhuguðu ákvörðun. Á sama hátt er það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að kærendur hafi ekki verið upplýstir sérstaklega um það sem fram kom á fyrrnefndum foreldrafundi og veitt tækifæri til að koma að skýringum sínum og athugasemdum svo mál þetta yrði betur upplýst áður en ákvörðun um brottrekstur var tekin. Einkum var það þýðingarmikið þegar til þess er litið að þær athugasemdir sem þar komu fram höfðu verulegt vægi í málinu, eins og fram kom í tilkynningu skólastjóra til foreldra um brottrekstur sonar þeirra.

Jafnframt halda kærendur í máli þessu því fram að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins. Í 11. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að stjórnvöld skulu gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála og að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Ráðuneytið telur engar vísbendingar um það, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu, að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð og töku hinnar kærðu ákvörðunar. Verður ekki séð að ómálefnaleg mismunun liggi til grundvallar hinni kærðu ákvörðun.

4.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að ekki sé tilefni til að taka afstöðu til þess hvort framangreindir annmarkar á málsmeðferðinni, að því er lýtur að rannsóknarreglu og meðalhófsreglu, séu svo verulegir að þeir eigi að leiða til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Að mati ráðuneytisins hefur það úrlausnarefni ekki sjálfstæða þýðingu hér þar sem hin tímabundna ákvörðun að vísa syni kærenda úr X er haldin verulegum annmarka vegna brota á andmælarétti kærenda eins og áður hefur verið rakið og því ógildanleg þegar af þeirri ástæðu eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra X á Y um tímabundna brottvikningu C úr X, sem tilkynnt var um í bréfum til forelda hans, dags. 17., 18. og 22. desember 2008, er felld úr gildi.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta