Brottvikning úr skóla
Í menntamálaráðuneytinu hefur hinn 21. mars 1997 verið kveðinn upp svofelldur
úrskurður.
Kröfur aðila.
Fjölskyldudeild félagsmálastofnunar X kærði með bréfi dags. 14. mars sl., þá ákvörðun skólastjóra Y að vísa nemandanum A úr skóla og þess krafist að ákvörðunin verði ógilt þannig að nemandinn fái að stunda nám áfram í skólanum.
Málsatvik.
Nemandinn A er á skólaskyldualdri. Félagsmálaráð X samþykkti hinn 29. apríl 1996 að vista A að Z. Samningar tókust milli Félagsmálastofnunar X og viðkomandi sveitarstjórna sem standa að rekstri Y, um skólavist A í Y frá 1. janúar 1997 til 31. maí 1997, sbr. ódagsett fylgiskjöl 1 og 2 með bréfi yðar. Ágreiningur virðist milli Félagsmálastofnunar X annars vegar og viðkomandi sveitarstjórna hins vegar um hvernig túlka beri ákvæði samningsins um greiðslur Félagsmálastofnunar X vegna skólavistar nemandans. Skólastjóri Y hefur ritað bæjarstjóra X bréf dags. 21. febrúar 1997, þar sem ágreiningsmálið er rakið og tekið fram að berist skólanum ekki fullnaðargreiðsla fyrir 5. mars n.k. sjái hann sér ekki annað fært en að vísa nemandanum úr skóla. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort og þá með hvaða hætti X hefur brugðist við þessu erindi.
Í bréfi deildarstjóra fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar X kemur fram að samkvæmt upplýsingum A hafi henni verið tilkynnt af skólastjóra Y að henni verði vikið úr skóla eftir páska þar sem Félagsmálastofnun X hafi ekki greitt kröfu skólans um greiðslur vegna skólagöngunnar.
Rökstuðningur.
Í 2. mgr. 12. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 með áorðnum breytingum er kveðið á um að skólanefnd skuli sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu og að skólaskyldu sé fullnægt. Skólanefnd er kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum og fer skólanefndin með málefni grunnskóla í umboði sveitarstjórna.
Vegna vistunar A í öðru sveitarfélagi af félagslegum ástæðum leitaðist Félagsmálastofnun X við með samningi við þau sveitarfélög sem standa að rekstri Y, að réttur A til skólagöngu væri tryggður með skólavist í þeim skóla. Umsókn Félagsmálastofnunar X um námsvist A utan lögheimilissveitarfélags er undirrituð af starfsmanni félagsmálaráðs X, en ekki af fulltrúa skólanefndar. Gögn málsins bera ekki með sér að skólanefnd X hafi komið að því að tryggja A skólagöngu í Y.
Ef tryggja á skólaskyldum nemanda skólavist í í öðru sveitarfélagi en því þar sem hann á lögheimili, er rétt að skipa slíkri tilhögun með samningum milli sveitarstjórna eða þeirra stjórnsýsluaðila sem fara með málefni grunnskólans í umboði sveitarstjórnanna að lögum, þ.e. skólanefnda. Enda þótt fullgildur samningur kunni að vera fyrir hendi í máli þessu milli sveitarfélaga, sem annars vegar kveður á um skólavist nemanda í öðru sveitarfélagi og hins vegar á um greiðslur vegna skólavistarinnar, þá breytast í engu frumskyldur skólanefndar í því sveitarfélagi þar sem nemandi á lögheimili, til þess að sjá um að nemandinn njóti lögboðinnar fræðslu, verði samningum sagt upp eða rift. Ber viðkomandi sveitarfélagi, þar sem nemandi á lögheimili að sjá til þess að skólaskyldu nemandans sé fullnægt í samræmi við ákvæði grunnskólalaga.
Í 4. mgr. 41. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að óheimilt sé að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði. Í greinargerð með þessu ákvæði laganna segir að ástæða þyki að taka fram að þegar talað sé um heimild til að víkja nemanda úr skóla um stundasakir sé ekki gert ráð fyrir að meira en ein kennsluvika líði áður en nemandi hlýtur annað kennsluúrræði hafi sættir ekki náðst í málinu. Vísast einnig um þetta efni til 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 385/1996 um skólareglur og aga í grunnskólum. Hinn 21. febrúar sl. ritaði skólastjóri Y bæjarstjóra X bréf, þar sem hann greindi honum frá stöðu mála og að nemandanum yrði vikið úr skóla eftir páska, ef tilskilin greiðsla bærist ekki 5. mars sl. Verður að telja að sá frestur sem skólastjóri Y hafi gefið X hæfilegan frest til þess að bregðast við með því að leitast við að sætta þann ágreining sem orðinn er á túlkun á ákvæðum samningsins eða beina því til skólanefndar X að tryggja henni nýja skólavist.
Ágreiningsmálum um túlkun á ákvæðum samnings um greiðslur vegna vistunar nemanda í öðru sveitarfélagi verður ekki skotið með stórnsýslukæru til menntamálaráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslulaga sbr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á það skal bent að takist sveitarfélögum ekki að leiða ágreiningsmál af þessu tagi til lykta er þeim heimilt að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga um lausn þeirra málefna grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða samkomulagi aðila, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um grunnskóla með áorðnum breytingum.
Mál þetta hefur ekki verið lagt fyrir skólanefnd X, sem fer með málefni grunnskóla í umboði sveitarstjórnar. Þá hefur mál þetta ennfremur ekki verið lagt fyrir skólanefnd Y með hliðsjón af 3. mgr. 41. gr. sbr. 12. gr. grunnskólalaga. Ekki er fullreynt á stjórnsýslustigi sveitarfélaga að A verði tryggð skólavist til þess að fullnægja skólaskyldu og ber því að framsenda kæruna til skólanefndar X á grundvelli heimildar í 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð.
Máli þessu er vísað til umfjöllunar skólanefndar X.